27.04.1970
Efri deild: 80. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

220. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem hv. þdm. er kunnugt, þá var fyrir nokkru lagt fram í hv. Nd. frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem sérstaklega var fjallað um skattamál atvinnurekstrarins. Það er um viðamikinn bálk að ræða, sem ég sé ekki ástæðu til þess að rekja hér í einstökum atriðum. En í sambandi við það frv. var tekið fram, að þó að ég gerði ráð fyrir, að málið mundi reynast svo umfangsmikið, að það yrði ekki auðið að afgreiða það á þessu þingi, þá væru viss atriði í frv., sem þyrftu að koma til framkvæmda við skattlagningu nú á yfirstandandi ári.

Í samræmi við það var lagt fram stjfrv. í hv. Nd., þar sem tekið var út úr hinu stærra frv. þetta atriði, sem ég gat um. Hér er um mjög einfalt atriði að ræða, sem þetta frv. fjallar um, og hefur það þegar fengið shlj. afgreiðslu í hv. Nd. (Gripið fram í.) Jú, þetta atriði var afgr. shlj. í Nd., að heimilað yrði að hækka fyrningar við framtal nú 1970 miðað við tekjur ársins og eignir 1969, þ.e.a.s. að það mætti hækka um 20% og 40%, annars vegar fasteignir og hins vegar vélar, þ.e. fyrningarupphæð þeirra miðað við skattárið næst á undan, og er þetta gert með hliðsjón af þeim verðbreytingum, sem urðu við gengisbreytinguna 1968.

Um þetta urðu menn sammála í hv. Nd., og vonast ég til, að hv. Ed. geti einnig fallizt á þetta atriði, sem er mjög einfalt í sniðum. Þó að það sé nú lögfest, þá á það ekki að þurfa að seinka álagningu skatta fyrir yfirstandandi ár, vegna þess að skattar á fyrirtæki eru lagðir á seinna en á einstaklinga, og breytingin er svo einföld í sniðum, að það mun ekki þurfa að hafa nein áhrif í þá átt.

Hitt er annað mál, sem sá hv. þm. mun hafa átt við, sem skaut hér fram í ræðu mína, að það voru ýmis önnur atriði, sem komu til meðferðar í hv. Nd. Eitt þeirra atriða hefur verið tekið inn í þetta frv., en það er ákvæði um það, að sjómannafrádráttur, sem um eru sérstök ákvæði í skattal., skuli hér eftir breytast samkv. skattvísitölu, en með hliðsjón af því, sem ég gat um áðan, að allar breyt. í þessa átt, að undantekinni þeirri einföldu breyt., sem ég gat um að fælist í 2. gr., mundu leiða til verulegs dráttar á álagningu útsvara og skatta á þessu ári, þá varð samkomulag um það að miða þessa breyt. við það, að þetta ákvæði kæmi ekki til framkvæmda fyrr en á næsta skattári.

Í hv. Nd. hafa einnig verið til meðferðar ýmis skattafrv. önnur, og niðurstaðan í þeim málum varð sú, að ég hygg, að um það hafi náðst sæmilegt samkomulag, að þeim yrði vísað til ríkisstj. sumum hverjum til nánari meðferðar fyrir framhaldsathugun þess skattafrv., sem ég gat um, sem mun koma aftur fyrir hið háa Alþ. í haust, og mundu þá þau atriði verða athuguð á milli þinga.

Hins vegar komu fram í Nd., sem ég skal ekki hér orðlengja um, ýmsar aðrar brtt. við þetta frv., sem hv. Nd. féllst ekki á, og skal ég ekki ræða þau atriði hér sérstaklega, nema tilefni gefist til við meðferð málsins í þessari hv. d.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um þetta mál eða ræða skattamálin almennt. Það er mikið mál út af fyrir sig, en til slíks gefst ekki tilefni í sambandi við þetta frv., en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn., og vildi leyfa mér að beina því til hv. n. og vona, að hv. þd. geti á það fallizt, að frv. nái endanlegri afgreiðslu, áður en þingi lýkur.