16.04.1970
Efri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

127. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Samkv. þessu frv. skulu 13 þar til greindir einstaklingar öðlast ríkisborgararétt. Frv. þessu var að lokinni 1. umr. hér í hv. d. vísað til allshn., og þar var þetta frv. athugað með hefðbundnum hætti, þannig að starfað var með fulltrúum úr allshn. Nd. að því að athuga frv. Það var farið yfir allar umsóknir þessara 13 einstaklinga og þau gögn, sem þeim fylgdu, og þar var ekki út á neitt að setja. Þessir menn, sem greindir eru í frv., fullnægja öllum þeim reglum, sem farið hefur verið eftir um langa hríð um veitingu ríkisborgararéttar og sem öllum hv. dm. eru sjálfsagt vel kunnar frá fyrri árum.

En meðan þetta frv. hvíldi í n., komu fram margar nýjar umsóknir, og þær voru einnig athugaðar og af þeim nýju umsóknum voru af n. hálfu 12 teknar góðar og gildar, og flytur n. því í samræmi við það brtt. við þetta frv. um, að það komi þar 12 til viðbótar þeim 13, sem frv. greinir. Nokkrar umsóknanna voru ófullnægjandi, ýmist þannig að viðkomandi einstaklingar fullnægðu ekki þeim reglum, sem farið er eftir, ekki a.m.k. enn þá, eða þá að þeim fylgdu ekki nægjanleg gögn. En umsóknir þessara 12 voru metnar fullgildar, og eru þær teknar hér upp í þessa brtt. En eftir að þetta frv. var afgr. úr n., hafa nú borizt enn nokkrar umsóknir til viðbótar, og það getur verið einnig, að það þurfi að athuga betur fáeinar af þeim umsóknum, sem ekki voru teknar til greina, en ég hygg, að bezt verði staðið að því héðan af, þannig að það verði gert þegar frv. fer til Nd. En það var sem sagt shlj. álit allshn., eins og fram kemur í nál. á þskj. 562, að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. með þeirri brtt., sem n. flytur á þskj. 563.