05.03.1970
Neðri deild: 55. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég lít svo á, að hér sé á ferðinni mál, sem Alþ. verður að láta sig varða, og miklu máli skiptir, að um það sé fjallað með því að leggja í það vinnu og gera sér grein fyrir því. Ég álít, að hér sé líka á ferðinni mál, sem er hafið yfir flokkapólitík, og ég geri ekki ráð fyrir því, að hv. þm. muni skiptast í þessu máli eftir því hvar í flokki þeir eru, enda hefur það komið fram í umr., sem hér hafa farið fram um málið, að svo er ekki.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að hér er verið að fjalla um eitt af grundvallaratriðum í stjórnskipan landsins, skipulag, sem hefur reynzt þjóðinni vel og hefur verið henni ómetanlegt í sjálfstæðisbaráttu hennar. Ég tek undir það með síðasta ræðumanni, hv. 1. þm. Norðurl. e., að sá félagsmálaskóli, sem sveitarstjórnirnar hafa verið, hefur reynzt íslenzku þjóðinni farsæll og skilað mörgum mikilhæfum manni inn á önnur svið þjóðmála. Ég vil líka, að hv. þm. geri sér grein fyrir því í fullri alvöru, að hjá sveitarfélögum landsins hefur farið fram mikið og merkilegt samstarf um þau verkefni, sem þau hafa ekki treyst sér til að fást við ein sér og ekki hefur verið talið hyggilegt, að þau byggðu upp ein sér, eins og t. d. skólamálin. Þau hafa með frjálsu samkomulagi leyst þetta á stórum svæðum, kannske í heilum sýslum, eins og t. d. í Mýrasýslu, þar sem allir hreppar utan Borgarness sameinuðust um einn skóla fyrir meira en hálfum öðrum áratug. Þessi þróun hefur svo færzt áfram út um landsbyggðina, og t. d. í þeim byggðum, sem ég er kunnugastur, eins og á Vesturlandi, hafa skólamálin verið leyst með félagslegu samstarfi sveitarfélaganna á farsælan hátt. Hið sama er að segja um fleiri verkefni, eins og t. d. félagsheimilin. Í því sambandi vil ég nefna samstarf hreppanna á Fljótsdalshéraði. Það er að minni hyggju mjög til fyrirmyndar það samstarf, sem þeir höfðu þar með sér á frjálsan hátt um félagsheimilið á Egilsstöðum. Ég álít, að slíku eigi að halda á lofti, því að það er hagkvæmt og það hefur styrkt þau og það hefur leyst mál á farsælan hátt með þessum hætti. Hið sama hefur átt sér stað í sambandi við tæknamálin, þó að það hafi ekki orðið með eins félagslegum hætti og þeir tveir málaflokkar, sem ég hef hér nefnt. Ég tel hins vegar brýna nauðsyn bera til, að í sambandi við þau mál, heilbrigðismálin, taki sveitarfélögin upp meira samstarf en orðið er og komi þessum málum fyrir á betri hátt en tekizt hefur, einmitt með félagslegri samstöðu. Einnig á þetta að nokkru við um löggæzlumálin, sem hafa verið tekin þannig upp með félagslegum hætti, þó að ég hins vegar hafi þá skoðun sjálfur, að löggæzlumálin ættu ekki að vera málefni sveitarfélaganna. Þar sem framkvæmd löggæzlumála tilheyrir embættismönnum ríkisins og sveitarstjórnir hafa sem sagt þar ekkert um að segja, þá ættu þau mál að tilheyra ríkisvaldinu að öllu leyti og kostnaðurinn eingöngu að vera ríkisins. Í framhaldi af þessu tel ég, að brýna nauðsyn beri til að halda áfram á þessu félagslega sviði, og það hefur verið gert á hinum síðari árum með samtökum sveitarfélaganna, t. d. eins og á Reykjanesi, á Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi. Þar hafa sveitarfélögin tekið upp félagslegt samstarf og myndað með sér samtök til þess að vinna að þeim verkefnum, sem þau hafa talið að væru stærri en svo, að hvert og eitt réði við það, en slíkt gæti orðið til þess, að byggðarlagið í heild, landsfjórðungurinn eða kjördæmið, næði betri stöðu en ella. Þessi samtök hafa verið að ryðja sér til rúms og hafa nýhafið starfsemi sína. Ég álít, að það væri ekki heppilegt að fara nú að hafa áhrif á það að breyta þessu skipulagi, sem er að verða, með áhrifum frá ríkisvaldinu. Ég vil því undirstrika það, að þessi félagslegu samtök, sem hafa þarna átt sér stað, eru mikils virði, og þau hafa leyst mörg stór verkefni á farsælan hátt, og ég er sannfærður um, að svo muni verða, ef þau halda áfram.

Um þetta frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr. á þskj. 7, vil ég segja það, að frá mínum bæjardyrum séð er það tvíþætt. Í fyrsta lagi er um að ræða sameiningu sveitarfélaga, hinna minnstu sveitarfélaga, sem talið er, að geti ekki valdið þeim verkefnum, sem þau eiga að annast. Um þessi litlu sveitarfélög vil ég segja það, að frá mínum bæjardyrum séð er ljóst, að það verða að vera takmörk fyrir fólksfæð í sveitarfélagi. Ég þykist hafa fyrir þann kunnugleika, að það, að mörgum smæstu sveitarfélögunum hefur vegnað vel, byggist fyrst og fremst á því, að þau hafa átt farsæla og sterka forustumenn, sem hafa getað borið þau uppi. Þó að sveitarfélagið væri lítið, hefur þeim samt tekizt að hafa þar farsæla forustu og halda byggð sinni með eðlilegum hætti. Ég þekki nokkur dæmi um lítil sveitarfélög, sem hafa þó átt örðuga afkomu. Hins vegar lít ég það allt öðrum augum, þó að þessi sveitarfélög væru sameinuð nágrönnum sínum með frjálsu samkomulagi, sem ég vil leggja áherzlu á og kem að síðar, en ef brýna nauðsyn ber til að gera breytingu, á hún að vera gerð með vilja fólksins og með ákvörðun þess. Þetta er að minni hyggju allt annar þáttur í málinu, og þetta er sá þáttur, sem við verðum að gera okkur grein fyrir, og svo að taka skynsamlegustu afstöðuna til, hvað á að ganga langt í þessu, og ég veit, að þessi sveitarfélög geta ekki valdið ýmsum verkefnum. Þeim hefur þó tekizt það, eins og ég segi, með farsælum forustumönnum, m. a. með skynsamlegu samstarfi um stærri verkefni við nágranna sína. En í þessu er að minni hyggju ekki fólgin nein bylting, þó að nágrannahreppar sameinist, sem hafa svipuð sjónarmið og svipaða aðstöðu til mála yfirleitt, en ég tel brýna nauðsyn, að það sé gert með frjálsu samkomulagi.

Hitt atriðið, sem hér er um að ræða, er það, sem ég kalla byltingu í sveitarstjórnarmálum eða skipan sveitarfélaga, því að þetta fyrra atriði er það ekki, en ef á að fara að fækka sveitarfélögunum niður í 66, er verið að gera algera byltingu í skipan þeirra. Í því sambandi vil ég í fyrsta lagi leggja áherzlu á það, að í litlu þjóðfélagi eins og okkar verða að vera takmörk fyrir því, hvað einingarnar mega vera stórar, sem byggja upp þetta litla þjóðfélag. Okkur mundi finnast það fátæklegt, ef við værum komin með 3–4 sveitarfélög hér á Íslandi, þó að þau væru á stærð við Reykjavík. Okkur mundi finnast það fátæklegt, eins og verkefnaskipting er í okkar þjóðfélagi, og þess vegna finnst mér, eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. lagði ríka áherzlu á hér áðan, að fámenn þjóð verði að gæta sín í því að fara ekki allt of langt inn á þær brautir, sem stærri þjóðirnar fara, því að þá kemur að því, að henni finnst hún sjálf vera of lítil til þess að vera sjálfstæð þjóð. Þessi tilfinning slær mig, og ég vil á engan hátt ræða þetta mál af neinu kappi, heldur á þann veg, sem ég finn til í því og það liggur fyrir mér, og hef ég þar nokkurn kunnugleika á, og ég vil vara við því að ganga fram hjá þessu atriði. Ég vil líka í framhaldi af þessu segja það, að ef við förum út í þá byltingu, sem hér er átt við eða var um rædd á ábendingarsvæðunum, verðum við að gera okkur grein fyrir því, hvað það er, sem við ætlum að ná til handa sveitarfélögunum umfram það, sem við náum í frjálsu samstarfi, hvað það er, sem við erum að sækjast eftir með þessari byltingu, og hvort það er svo mikið, að við getum farið út í byltinguna, þ. e. að ávinningurinn sé það mikill.

Ef ég lít hér á þau atriði, sem talin eru hér upp í sambandi við álit n., sem er í Sveitarstjórnarmálum, 6. hefti, þau atriði, sem þar er bent á og eru atriði til hagsbóta fyrir málið, þá finnst mér þau ekki vera nógu sterk til þess að réttlæta þá breytingu, sem ég kalla byltingu, því að ég tel, að það væri um byltingu að ræða, ef við færum inn á ábendingarsvæðin, eins og þau eru skilgreind. Talað er um í fyrsta lagi, að stærri sveitarfélög yrðu sterkari heildir gagnvart ríkisvaldinu. Nú má færa rök að þessu, en þá kemur aftur þetta, sem ég drap á hér áðan og fram hefur verið tekið í þessum umr., að með frjálsu samstarfi hafa sveitarfélögin náð þessu. Og ef hinar nýju félagssamstæður, eins og sambönd sveitarfélaganna á Reykjanesi, Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi, — ég man ekki, hvort þau eru orðin fleiri, — fengju aukin verkefni og staða þeirra væri styrkt, væri hægt að ná þessu atriði, sem hér er um að ræða.

Ég tel líka, að kostnaður við stærri sveitarfélögin í heild yrði meiri. Á því getur enginn vafi leikið. Ég legg ekki mikið upp úr því, að hin stærri sveitarfélög skili reikningum sínum fyrr en hin minni. Ég skal til gamans geta þess, að að minni hyggju hefur verið einn oddviti í Mýrasýslu, sem hefur skilað hreppsreikningi innan þess tíma, sem lög ákveða, og það hefur verið Andrés í Síðumúla, oddviti Hvítársíðuhrepps. Hann hefur haft þessa reglu. Hann er í einum minnsta hreppnum, og það hefur verið reynsla okkar hinna, sem höfum verið í stærri hreppunum, að það væri raunverulega afar erfitt að vera búinn að skila reikningum fyrir þann tíma, sem lögin ákveða, vegna ýmissa viðskipta, sem sveitarfélög eiga við aðra aðila. Og þess vegna held ég, að það mundi ekki breytast.

Ég held líka, eins og ég tók fram áðan, að margir sveitarstjórnarmenn hafi verið mjög hæfir menn til starfa sinna, og mættum við vel við una, ef við hefðum framvegis jafnsnjalla menn og þá, sem hafa verið hingað til. Þess vegna finnst mér, þegar ég skoða þetta mál niður í kjölinn, að við þurfum að gæta okkar, af því að við náum ekki lengra en við gætum náð með félagslegu samstarfi sveitarfélaganna, þó að við sameinuðum þau. Og ég skal koma að því síðar, að að sumu leyti drögum við þá úr því samstarfi, sem orðið er.

Ég vil líka í þessu sambandi minna á það, að það er ekki langt, síðan við gerðum hér breytingu á kjördæmaskipun landsins. Um það urðu nokkuð skiptar skoðanir, en það eru ekkert síður skiptar skoðanir um það mál nú. Og ég held, að margir af þeim, sem fylgdu því þá, mundu ekki fylgja því nú. Þessi breyting orkar enn tvímælis.

Sama er að segja um breytingarnar á skattumdæmum. Það hefur ekki enn þá náðst sá árangur, sem menn eygðu í sambandi við þá breytingu. Því var m. a. haldið fram þá, að það mundi draga úr kostnaði. Nú dettur engum manni í hug að bera það á borð. En því miður hefur ekki heldur árangurinn af því starfi orðið sá, sem skyldi.

Þess vegna vil ég segja það, að það ber brýna nauðsyn til að skoða þetta mál hleypidómalaust, gera sér grein fyrir því, og rasa ekki um ráð fram, því að hér er um svo mikið stórmál að ræða, sem er grundvallaratriði í lífi þessarar þjóðar, að við skulum gæta okkar vel.

Ef hins vegar á að fara að gera þá byltingu, sem bent er á í sambandi við þetta frv., mundi ég segja, að það fyrsta, sem þyrfti að gera í því efni, væri að marka ákveðna stefnu um framkvæmdina. Það væri ekki hægt að hugsa sér, að það gæti verið gert með handahófi eða annarleg sjónarmið látin ráða í sambandi við það. Það verður að vera stefna, sem yrði að fylgja í því, svo að við vissum, í hvað við værum að sækja. Í öðru lagi tel ég, að fólkið sjálft verði að fá að taka ákvörðun í málinu með atkvgr. Mér finnst það afar óeðlilegt, að það ætti að gera svona róttæka breytingu, án þess að vilji fólksins kæmi þar fram. Ég verð að segja það í sambandi við þetta mál, að ég er mjög hissa á því, að n., sem var kjörin bæði hér á Alþ. og annars staðar, níu manna n., hefur ekki haldið nema fjóra fundi um þetta mál. Undirnefndin, sem í voru þrír menn, hefur haldið milli 30–40 fundi, en ég er undrandi, að aðalnefndin, sem í sátu m. a. fulltrúar Alþ., hefur aðeins haldið fjóra fundi um þetta stóra mál. Mér finnst það of mikið að ætlast til þess, að sveitarstjórnarmenn ákveði þetta hjá sér, að út í þessa sameiningu sé farið, án þess að fólkið fái nokkurn hlut um það að segja. Nú má auðvitað því til svara, að sveitarstjórnarmenn, sem verða að ganga undir atkv. fólksins á fjögurra ára fresti, muni gæta sín í því. En þegar Alþ. breytir grundvallaratriðum í stjórnskipunarlögum eða stjórnarskránni, er það þó tryggt, að það er ekki hægt að gera nema fram fari raunveruleg atkvgr. um það í nýjum kosningum. Og það er óeðlilegt, að svona veigamikil atriði eins og þetta séu ekki borin undir íbúa sveitarfélaganna. Nú t. d. gengur það yfir í þeim væntanlegu sveitarstjómarkosningum, sem fram eiga að fara í vor, að það er skotið til fólksins að velja frambjóðendur til að fara með mál sín í sambandi við undirbúning á framboðslistum, og það er því enn þá óeðlilegra, ef svona stórmáli yrði ekki skotið þangað. Ég legg því áherzlu á það, að í sambandi við þetta mál verði það að koma inn í löggjöf, sem um þetta fjallaði, að það yrði að vera almenn atkvgr. um málið, því að allt annað væri óeðlilegt.

Í þessu sambandi vil ég taka undir það, sem hér hefur komið fram áður, að ég vara mjög við valdboði í sambandi við þetta mál. Það mundi reynast illa. Ég hef t. d. þær sagnir í sambandi við breytingu, sem gerð hefur verið í Noregi, — ég hef að vísu ekki sannanir, — að kostnaður og annað fleira, sem fram hefur komið, síðan breytingin var gerð, hafi reynzt á annan veg og verði meiri en reiknað var með.

Ég kann ekki heldur við, að það sé í löggjöf verið að setja upp áróðursmeistara til þess að ferðast um landið og hann látinn hafa svo mikið vald, að hann getur tekið valdið af sveitarstjórnunum og átt frumkvæðið að því, að málið sé tekið upp. Ég fæ ekki séð, hvaða nauðsyn ber til þess að setja upp slíkt embætti. Við höfum nóg með okkar fjármuni að gera í önnur verkefni en þetta, og ég kann ekki við það, að það sé verið að setja í lög, að það skuli vera lögveradaður maður, sem á að ganga á milli sveitarstjórnanna og knýja á þær til að hefjast handa í þessu máli og meira að segja geta tekið það upp sjálfur. Og þessi áróðursmeistari, eins og ég kalla hann, hefur svo mikið vald, að hann getur, eins og segir hér í 3. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Hann getur kvatt samstarfsnefndirnar saman til funda og leitað umsagnar þeirra og álits um atriði, sem hann telur máli skipta um framgang sameiningar. Samstarfsnefndir geta falið erindreka stjórn funda og framkvæmd ályktana, sem þar hafa samþ.

Og svo segir hér í 4. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Erindreki getur af sjálfsdáðum gert till. um sameiningu tilgreindra sveitarfélaga“, og ef sveitarstjórnin er ekki sammála í málinu, þá er heimild til atkvgr. um málið.

Mér finnst í fyrsta lagi fráleitt að halda því fram, að málið sé svo brennandi spursmál, að það þurfi þess vegna að fara að setja upp embætti til þess að koma því áfram, og í öðru lagi, að það sé óviðfelldið, að það sé gert. Ég tel, að við munum hverfa að sameiningu í hinum smærri hreppum og einstaka tilfellum, en ef við ætlum að fara í þessa byltingu, þá endurtek ég það, að þá verðum við að marka okkur stefnu í því máli til þess að það verði leyst á sem hagkvæmastan hátt. Og þá verðum við í fyrsta lagi að gera okkur grein fyrir því, sem við ætlum að sameina, þ. e. hvaða atriði eru þess valdandi, að við leggjum til að sameina þetta frekar en annað. Í því sambandi hefur landfræðileg lega, viðskiptamál, menningarmál, atvinnumál, félagsmál og atvinnuréttindi sín áhrif.

Ég tel, að það málið, sem við þurfum hvað mest að hugsa um í framtíðinni, sé það, sem n. gengur alveg fram hjá, þ. e. samstarfið á milli kaupstaðanna, kauptúnanna og sveitanna. Ég er ekki á því, að stefna framtíðarinnar verði sú að aðskilja þessar tvær einingar. Ég held, að hún muni frekar fara inn á það að sameina þær. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, hvað það er í samstarfi sveitanna annars vegar og kauptúnanna og kaupstaðanna hins vegar, sem við þurfum að velta fyrir okkur. Það eru tvö meginatriði að minni hyggju, sem þar þarf að athuga. Það er annars vegar mál viðskiptalegs eðlis. Við skulum taka dæmi, þar sem ég þekki bezt til, eins og Borgarfjörð. Viðskiptin við Kaupfélag Borgfirðinga geta orðið til þess, að eðlilegra sé að tengja meir saman byggðirnar þarna en nú er. Og í öðru lagi er það atvinnuréttur. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að í sveitunum eru farnir að eiga heima menn, sem stunda aðra atvinnu en landbúnað. Þar vil ég nefna t. d. bifreiðastjóra og iðnaðarmenn, sem geta átt heima í sveitunum, en vilja njóta atvinnunnar í kaupstaðnum eða kauptúnunum. Þessi tvö atriði eru að minni hyggju stærstu málin í sambandi við sameiningu sveitarfélaga og einmitt þau málin, sem gætu knúið á sameininguna. Öll önnur mál er hægt að leysa félagslega. Þetta er mitt mat á því. Ég tel, að þetta sé atriði, sem við þurfum bara að gera okkur grein fyrir alveg hleypidómalaust. Við getum kannske með enn auknu samstarfi, ekki sízt með hinum stærri samböndum, náð þessu, en eins og nú horfir, er það ekki.

Ég verð því að segja það, að mér þykir sú hugmynd, sem fram kemur í 12. gr. frv., að útsvarsstigi í sveit ætti að vera annar en í kaupstað eða kauptúni, þótt sameinuð væru, alveg fráleit. Það er algerlega vonlaust að byggja upp sveitarfélag, sem ætti að búa við fleiri útsvarsstiga handa sínum þegnum. Það mundi valda slíkum erfiðleikum í sambúð, að það er óhugsandi.

Ég vil líka segja það, að það er önnur leið til, sem við verðum að beita, ef af slíkri sameiningu verður. Við vitum það vel, að í þéttbýlinu eru lagðar götur, þar eru lagðar vatnsveitur, þar eru lagðar skolpveitur og annað því um líkt. Þetta yrði hins vegar ekki gert í dreifbýlinu. Þessu á ekki að mæta með mismunandi útsvarsstiga. Þessu verður að mæta með mismunandi fasteignaskatti, enda er ég sannfærður um það, að inn á það verðum við að fara að nota fasteignaskattana meira sem tekjustofn í sveitarfélögunum en við nú gerum. Og ég er t. d. sannfærður um það, að ef við hverfum að því, sem ég hef talið, að við þyrftum að gera, að innheimta tekjur, útsvör og skatta jafnharðan og tekna er aflað, getum við ekki haft svona kerfi. Við verðum að gera það einfaldara í framkvæmd en það að fara að búa til nýtt kerfi í því. Og ég er mjög undrandi yfir því, að n. skuli hafa látið sér detta það í hug, að það væri hægt að hugsa sér fleiri en einn útsvarsstiga í sama sveitarfélagi eða ákveða í lögum, að þessir aðilar skyldu hafa lægri útsvör en aðrir. Ég held því, að það, sem er í raun og veru grundvallaratriði í þessu, séu þau atriði, sem ég hef ekki fundið, að bent væri á í áliti n. í sambandi við atvinnumál og viðskiptamál, eða atvinnu- og viðskiptasvæði.

Nú skulum við gera ráð fyrir því, að það gerist, að þessi lagabreyting nái fram að ganga og áróðursmeistaranum, eins og ég kalla hann, takist að koma þessu í framkvæmd á ábendingarsvæðunum, eins og þau eru í þessu áliti. Þá vildi ég nú fyrst benda á það, að þau eru óframkvæmanleg nema með því að leggja sýslufélögin niður líka eða breyta þeim. Hvernig haldið þið, að sýslufundur í Dalasýslu yrði með sýslumanninum og einum sýslunefndarmanni? Á sýslufundi í Austur-Húnavatnssýslu yrði líka einn nefndarmaður, því að það er bara eitt sveitarfélag. Í Mýrasýslu yrðu sýslunefndarmennirnir tveir og sýslumaður. Í Borgarfjarðarsýslu yrðu þeir tveir auk sýslumanns. Það er ekki hægt að gera svona hluti. Það er ekki hægt að slíta sundur stjórnkerfið með þessum hætti. Þess vegna, ef við ætlum að gera þessa breytingu, verðum við að gera okkur grein fyrir því, að við erum búnir að bylta þjóðfélaginu og verðum því að stilla því upp öllu á nýjan leik. Það er óframkvæmanlegt að gera svona till. og ætla henni að ná fram að ganga án þess að taka málið í heild.

Það er alveg greinilegt, ef við förum í gegnum það lesmál, sem hefur komið frá n., af hverju ekki er átt við sýslurnar. Það hefur verið leitað álits hjá sýslumönnunum yfirleitt. Það hefur enginn þeirra lagt til að leggja niður sína sýslunefnd eða sinn sýslufund. Það kemur hvergi fram. Við skulum svo líka líta á þessa uppstillingu. Ef við byrjum hér á Vesturlandi, ef við förum upp í Borgarfjörð, þá eru teknar saman sveitirnar sunnan Skarðsheiðar. Þær eru gerðar að einum hreppi. Það er ekki rætt um það að tengja þær við Akranes eða breyta í neinu afstöðu Akraness gagnvart sveitunum, heldur aðeins að gera þessar sveitir að einu sveitarfélagi. Nú má segja það, að þessar sveitir eigi margt sameiginlegt, og þær eru búnar að byggja sameiginlega skóla. Þær eru búnar að reisa félagsheimili, og það mundi ekki breytast neitt í þessu annað en það, að hægt væri að hagnýta betur þær tekjur, sem Hvalfjarðarstrandarhreppur hefur, sem eru nú mjög takmarkað hagnýttar, af því að hreppurinn þarf ekki á þeim að halda. En þarna er ekki verið að fjalla um það. Er það réttmætt að gefa þessum sveitum kost á atvinnuréttindum á Akranesi? Það er alveg gengið fram hjá því.

Þegar komið er svo innan Skarðsheiðar, þá eru teknir hrepparnir í Upp-Borgarfirði og settir í eitt sveitarfélag. Þetta eru ekki ólíkir hreppar, og við það er svo sem ekkert að athuga, en það er alveg gengið fram hjá því að tengja þá nýjum svæðum. Þeir sækja ekkert hvor til annars. Nú orðið er útsvarsálagning þeirra orðin mjög svipuð. Þeir fá ekki neina nýja tekjumöguleika með þessu.

Sama er að segja um hreppana í Mýrasýslu. Upphéraðið er þar haft í einum hreppi og vesturhrepparnir aftur í öðrum, og Borgarnes heldur svo alveg sínu og hvorki bætt við né af því tekið. En það verður engin breyting í sambandi við þetta, nema oddvitum hefur fækkað. Vesturhreppar Mýrasýslu hafa t. d. mjög svipaðar tekjur og afkomu, en enginn þeirra bætir hinn, svo að ég sé ekki ávinning af þessu.

Mér finnst, ef það ætti að fara að gera þetta mál upp í heild og menn vilja hér hugsa það raunhæft og fara að gera byltingu, þá verða menn að gera sér grein fyrir því.

Á svo að veita þessum hreppum aðgang og sameina þá Borgarnesi, svo að þeir fái aðgang að atvinnu, sem þar kynni að vera, nytu viðskiptanna um kaupfélagið, sem við njótum þar? Þetta er mál út af fyrir sig, og mér finnst ekki hægt að fara út í svona stórbreytingu án þess að taka þetta atriði með. Nú er það t. d. svo, að þessir hreppar, sem eru tveir í Mýrasýslu, eru saman um einn skóla, þannig að skólahéraðið samanstæði þá af tveimur hreppum eftir sem áður, ef það væri ekki eitt um það.

Sama er að segja, þegar við höldum áfram vestur á Snæfellsnes, þar er tiltölulega lítil breyting. Það eru settir saman suðurhrepparnir og Skógarströndin þar með. Nú finnst mér af þeim kunnugleika, sem ég hef þar um, að eðlilegra hefði verið, að hún hefði fylgt Dalasýslu, a. m. k. fyrir innan Álftafjörð, og mér hefði fundizt það miklu eðlilegra en hún væri við Suðurfjörð. Hins vegar halda öll þorpin á Snæfellsnesi sínu sveitarfélagi og engu þar breytt. Fróðárhreppi er bætt við Ólafsvík, og það er ekkert nema eðlilegt um það að segja, og Helgafellssveit við Stykkishólm. Að öðru leyti er þetta óbreytt.

Svo kemur aftur í Dalasýslu, og þar er Dalasýsla gerð að einu sveitarfélagi. Af þeim kunnugleika, sem ég hafði þar, þá hefði ég nú ekki hugsað mér það. Þó að ég hefði hugsað um breytingu, þá hefði ég talið, að vestursýslan yrði eitt sveitarfélagið og suðursýslan annað. Þarna suður frá er sem sagt ekki talið hyggilegt að leggja saman sveit og kauptún.

Þegar við komum vestur á Vestfirði, er ætlazt til, að eitt sveitarfélag verði Barðastrandarhreppur, Rauðasandshreppur, Patreksfjörður og Tálknafjörður. Þá er algerlega gengið gegn þessari meginreglu, sem gilti suður frá, um að sameina ekki sveitirnar og kauptúnin, og þá er ekkert verið að velta þessu fyrir sér. Mér finnst, að Barðastrandarhreppur og Rauðasandshreppur eigi ekki nema takmarkaða samleið með Patreksfirði og Tálknafirði. Þeir eiga náttúrlega nokkra samleið með Patreksfirði, en ekki með Tálknafirði, a. m. k. ekki frekar en almennt gerist.

Svo þegar við komum norður í Húnavatnssýslu, er Vestur-Húnavatnssýsla tekin í eitt sveitafélag, og þegar við komum norður í Austur-Húnavatnssýslu, þá er Austur-Húnavatnssýsla með öllum sveitunum, Blönduósi og Skagaströnd gerð að einu sveitarfélagi. Þetta, segi ég, er handahóf, og það er ekki nokkur stefna mörkuð í sambandi við þetta. Ég sé ýmsar ástæður fyrir því, að þetta er svona. En það er ekki hægt að fara út í byltingu á slíkum grundvallaratriðum eins og sveitarfélögin eru og uppbygging þeirra og skipan með þessum hætti.

Ef við komum svo t. d. austur á Austfirði, þá er tekið svæðið frá Breiðdalsvík, Stöðvarfjörður, Breiðdalur, Djúpivogur og allar sveitirnar þar í kring. Þetta er allt gert að einu sveitarfélagi. Halda nú hv. þm., að það séu rök fyrir því að gera þetta svona, ef ekki er hægt að gera Hellissand og Ólafsvík að einu sveitarfélagi?

Þess vegna segi ég það, að ef það gerðist, að okkur tækist að koma í framkvæmd þessu frv. með áróðrinum og sameinuðum svona, eins og þessi ábendingarsvæði eru, þá værum við búnir að koma í framkvæmd miklum vandræðum. Ég vara við því að vinna þannig að þessu máli. Ég vil enga hleypidóma hafa gagnvart því að sameina sveitarfélög og athuga það mál, en ég vil ekki gera það með svona handahófi, því að það er ekki farsælt. Og ég er hissa á því, að þeir ágætu menn, sem þarna hafa komið að verki og ég þekki alla vel og veit, að eru afbragðsmenn margir þeirra, skuli hafa látið sér detta þetta í hug. Það hlýtur að byggjast að einhverju leyti á ókunnugleika, og ég veit líka, að þeir eru fúsir til að athuga þetta betur.

Ég skal nú ekki þreyta hv. þm. með því að hafa þessi orð öllu fleiri. En ég vildi við þessa umr. benda á þær stóru veilur, sem ég tel vera í þeim ábendingum, sem hér eru gerðar. Ég vil því að lokum leggja áherzlu á það, að ég tel, að það eigi að sameina smærri sveitarfélögin með félagslegu samstarfi þeirra og ákvörðun fólksins, og það geti orðið að gera það, til þess að þau njóti þess, sem þau eiga að njóta, og geti staðið að sínum störfum. Ég tel í öðru lagi, að það eigi að efla félagslegt samstarf sveitarfélaganna yfirleitt um einstök verkefni og efla hin félagslegu samtök, sem sveitarfélögin hafa verið að mynda á stærri svæðum. Það á að láta þau hafa verkefni frá ríkisvaldinu og fjárráð frá ríkisvaldinu og þá muni það koma í ljós, hversu farsælt það getur verið að hafa þessar einingar stærri. Í framhaldi af því samstarfi er hægt að vinna að lausn þessa máls á heppilegan hátt.