09.03.1970
Neðri deild: 56. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá n., sem hæstv. félmrh. skipaði einhvern tíma á árinu 1966 til þess að rannsaka þau mál, sem hér um ræðir, þ. e. a. s. hvort ekki sé ástæða til þess að sameina sveitarfélög, tvö eða fleiri, einkum þau fámennari, stækka þau og jafnframt gera athugun á því, hvort ekki sé ástæða til þess að steypa fleiri en einni sýslu saman í eina heild, stækka þau umdæmi einnig.

Eins og tekið er fram í aths. við lagafrv. þetta, hefur þessi svonefnda níu manna n. einkum einbeitt sér að fyrra atriðinu, þ. e. a. s. að sameina hreppa, en látið hitt eiginlega lönd og leið að sinni, þar sem að sjálfsögðu er mikið undir því komið, hvernig fyrra atriðið leysist. Það hefur áhrif á hið síðara, en er eiginlega alveg ókannað enn.

Það er svo sem ekki verið hér að leitast við að breyta skipan, sem lítil reynsla er á eða þar sem tjaldað hefur verið til einnar nætur. Þetta er mjög forn og gamalgróin skipan, bæði hvað snertir mörk hreppsfélaga og einnig sýslufélaga, svo að það er ekki að undra, þó að þau mál þurfi nokkuð vandlega athugun og nákvæma. Það er sennilega aðallega hagræðingarsjónarmið, sem þetta frv. byggist á, og hagræðing á víða rétt á sér, þó að ég álíti, að henni sé gert að sumu leyti allt of hátt undir höfði nú á tímum. Við vitum, að það er fullkomlega útilokað að reita land okkar með stiku og kvarða niður í einhverja reiti eins og skákborð og ætlast til að hafa helzt nokkurn veginn jafnmörg peð í hverjum reit. Þetta er náttúrlega fullkomlega útilokað. Hins vegar tel ég, að þetta mál eða það sjónarmið, sem þetta mál byggist á, eigi rétt á sér: Það er sjálfsagt að kanna þetta. Þó er ekki hægt að verjast þeirri hugsun, hvaða ástæða sé til þess í sjálfu sér að hrófla við fámennu sveitarfélagi, sem hefur rækt allar skyldur sínar við guð og menn, eins og síðasti hv. ræðumaður tók fram. Og það er ekki hægt að neita því, að þokki hinna fámennu hreppsfélaga er víða mikill og áberandi. Þeir eiga góða fulltrúa og framámenn, sem hvarvetna standa fyrir sínu með heiðri og sóma.

Hitt ber svo einnig á að líta, að samvinna sveitarfélaga getur farið fram í mörgu öðru formi, eins og hér hefur verið tekið fram af mörgum ræðumönnum, bæði hvað snertir skólahald, heilbrigðismál og annað.

Mér skildist á hv. 1. þm. Vestf., — minnir, að hann léti þess getið í ræðu sinni, — að hér um bil allir sýslumenn á landinu væru fylgjandi þessu frv., og það væri svo sem auðvitað vegna þess, að það mundi létta þeirra störf. Ég hef ekki lesið umsagnir sýslumanna svo nákvæmlega, en sannarlega fer það ekki fram hjá augum þeirra manna, sem í starfi kynnast jafnnáið sínu umdæmi, að sameining getur víða átt rétt á sér. En hitt ætla ég, að flestir sýslumenn séu á þeirri skoðun, að slík sameining geti verið rétt og eðlileg, þar sem hún er reist á fullkomnum rökum, en áhugi þeirra á þessu máli sé ekki mjög mikill þar fram yfir.

Eitt atriði, sem má kalla nýmæli í þessu frv. og hv. 1. þm. Norðurl. e. gerði nokkuð að umræðuefni, er það, þegar þéttbýli myndast innan sveitarfélags. Ég gat ekki skilið hann öðruvísi en svo, að hann teldi þá eiginlega sjálfsagt, að þéttbýlið yrði sjálfstætt sveitarfélag eða klyfi sig út úr heildinni, vegna þess að það væru svo frábrugðin meginsjónarmið og markmið, sem vinna þyrfti að í þéttbýli og dreifbýli. Og sannleikurinn er sá, að við þekkjum mörg dæmi um það frá þessari öld, að þéttbýliskjarnar hafa klofið sig út úr sveitarfélögum og myndað sjálfstæð sveitarfélög. Ég verð að segja, að ég er mjög andvígur þessari þróun. Ég álít, að það sé síður en svo þörf á því að láta sér detta í hug að skipta sveitarfélagi, þó að nokkurt þéttbýli myndist innan þess. Þó er vitað, að það geta skapazt miklir hagsmunaárekstrar í slíku sveitarfélagi, en það er ekki meira en aðrir hagsmunaárekstrar hvarvetna, sem verður að greiða úr. Þess vegna tel ég alveg tvímælalaust, að sveitarfélög eigi að leggja kapp á að halda sinni einingu og varðveita sína heild, þó að innan takmarka þeirra séu bæði þéttbýli og strjálbýli. Hér segir í grg., en þar er einmitt vikið að þessu sjónarmiði:

„Sumir telja, að dreifbýli og þéttbýli eigi ekki saman í einu sveitarfélagi. En þetta er vafasamt. Það virðist þvert á móti vera eðlilegt, að þéttbýliskjarni, sem innir af hendi margvíslega þjónustu fyrir dreifbýlið, verði innan þess sveitarfélags, sem hann byggir afkomu sína á.

Ég er fyllilega sammála þessu atriði, að það beri að leggja kapp á að varðveita einingu og heild sveitarfélags, þó að innan vébanda þess séu hvort tveggja í senn þéttbýli og dreifbýli.

Eins og fram hefur verið tekið, þá eru í núgildandi lögum um sveitarstjórnarmál, nr. 58 1961, ákvæði, sem lúta bæði að sameiningu og skiptingu sveitarfélaga. Það verður ekki í raun og veru annað sagt en að fyrir slíkum ákvæðum sé vel séð. Um sameininguna ræðir m. a. í 4. gr., en þar er tekið fram, að rn. skuli sameina hreppa, ef þess er óskað af hreppsnefndum og samþ. af sýslunefnd. Og í 5. gr. segir, að ef íbúatala hrepps hefur verið innan við 100 íbúa samfellt í 5 ár, sé rn. heimilt, eftir till. sýslunefndar, að sameina hreppinn öðru sveitarfélagi. Það verður ekki annað sagt en að þarna séu allrúm ákvæði, sem hægt sé að beita, a. m. k. ef almannaheill eða almannaþörf krefðist.

Þrátt fyrir þetta, sem ég hef nú sagt, hef ég síður en svo á móti því, að þetta frv. sé athugað, eins og gert hefur verið af félmrn. og Sambandi ísl. sveitarfélaga. Það eru þeir aðilar, sem eðlilegt er, að fjalli um mál sem þetta, og tel ég einnig rétt, að frv. verði athugað í viðkomandi n., en ég álít tvímælalaust, að ekki megi hrapa að neinum ákvörðunum í þessu efni.