27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég var eins og hv. 1. þm. Vestf. einn þeirra, sem gerðu nokkrar aths. við þetta frv. við 1. umr. Nú liggur fyrir álit hv. heilbr.- og félmn. um frv., og er það á þá leið, að n. mælir með frv. að því áskildu, virðist mér, að samþ. verði brtt., sem hún flytur á þskj. 698. Þessum till. var útbýtt nú í upphafi þessa fundar, og þær eru átta talsins. Sumar þeirra skiptast í nokkra stafl. og mér hefur ekki unnizt tími til þess að bera þessar brtt. saman við frv. og átta mig á því til fulls, í hverju breytingarnar eru fólgnar.

Hins vegar virðist það auðsætt, að breyt. séu allmiklar, sem gerðar eru á frv., og hv. 1. þm. Vestf. segir, að þær séu mjög miklar. Það er dálítið erfitt í umdeildu máli að gera sér á örstuttri stund, á meðan verið er að flytja ræðu, grein fyrir brtt. af þessu tagi. Og því miður verð ég að segja það, að ég treysti mér ekki til að gera það. Ég sé það samt, að sumt, sem n. leggur til og kannske allt, ég vil ekki fullyrða um það, muni vera til bóta. T. d. er nú lagt til, að ekki megi leggja niður sveitarfélag með ráðuneytisákvörðun, þótt fámennt sé, nema áður komi til jákvæð umsögn viðkomandi sýslunefndar eða bæjarstjórnar. Ég átta mig ekki alveg á því svona í svip, hvernig stendur á því, að þetta þarf að bera undir bæjarstjórn, en líklega er það samt vegna þess, að gert er ráð fyrir, að í sumum tilfellum kunni að vera um að ræða sameiningu lítils sveitarfélags við bæjarfélag, og er þá spurning um það, hvort bæjarfélag vilji taka við sveitarfélaginu. Ég geri ráð fyrir, að jákvæð umsögn sýslunefndar þýði sama og samþykki. Ég geri ráð fyrir því, og þá verður minn skilningur á þessu ákvæði, ef ekki kemur fram annað frá n., að það, sem þarna er kallað jákvæð umsögn sýslunefndar, þýði samþykki. Þetta verði ekki gert nema með samþykki sýslunefndar.

Það er lagt til, að felld verði niður ákvæði um sérstakan erindreka, sem vinni að þessum sameiningarmálum, og get ég verið því samþykkur. En eftir stendur sá áróðursblær, sem frá öndverðu hefur verið á þessu frv. Hann stendur eftir sums staðar í frv., og má vera, að það sé víðar en ég hef veitt athygli. T. d. er ekki gert ráð fyrir að breyta fyrirsögn frv. Það heitir áfram „Frumvarp til laga um sameiningu sveitarfélaga“, og í þessu heiti laganna út af fyrir sig felst nú nokkur áróður, en meiri áróður felst þó í a-lið 1. brtt., þar sem tekið er fram, að sérstök áherzla sé á það lögð, að félmrn., ekki erindrekinn, heldur félmrn., eigi frumkvæði að því, að athuguð verði skilyrði fyrir sameiningu einstakra sveitarfélaga um allt land. Það stendur enn í frv., að hið opinbera, ríkisvaldið, skuli eiga frumkvæði að þessu. Það á ekki að bíða eftir því, að frumkvæði komi frá sveitarfélögunum. Ég tel þetta galla á brtt. n.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, hef ekki átt þess kost að kynna mér brtt. svo rækilega, að ég geti rætt þær lið fyrir lið, en ég mun ekki telja mér fært að greiða atkv. með a-lið 1. brtt. og ekki heldur með heiti frv., eins og það er í frv. og brtt.