27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Frsm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Það gleður mig, að frv. skuli hafa eignazt einn góðan stuðningsmann í viðbót, þar sem er hv. 1. þm. Vestf., en ég vil aðeins vekja athygli hans á því, að þó að þessar brtt., eins og þær koma fram á þskj. 698, séu allfyrirferðarmiklar, eru þær minni að efni til. Þær eru litlar að því er snertir efni. Hitt er annað mál, að þegar sama orðið, einmitt það orð, sem á að nema brott úr frv., kemur fram í svo mörgum gr., verða till. dálítið fyrirferðarmiklar á pappírnum.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. vék að því, að ekki væri svo auðvelt að átta sig á þessum breyt. í fljótu bragði. Af ræðu hans kom þó fram, að hann hafði þegar numið og skilið það, sem hann, mér liggur við að segja, vildi skilja í brtt., og áttað sig á þeim til fulls, að því er ráðið varð af hans máli.

Báðir þessir hv. þm. hafa talað um það, að lítið stæði eftir af frv. eins og það var í upphaflegri mynd, en hv. síðari ræðumaður lét þess þó getið, að áróðurinn væri eftir. Það er þó að sjálfsögðu stefnuyfirlýsing, sem eftir stendur af frv. Það er stefnuyfirlýsing um, að vinna beri áfram að þessum málum, eins og gert hefur verið hingað til, og ég held, að mér sé óhætt að segja, að allir nm. hafi verið sammála um þá stefnuyfirlýsingu. Með það í huga tel ég ekki ástæðu til þess að athuga smávægileg atriði eins og fyrirsögn frv. og annað slíkt, en vísa að öðru leyti til þess, sem ég hef þegar sagt um þetta mál.