17.03.1970
Efri deild: 57. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

78. mál, skipan opinberra framkvæmda

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta frv. til meðferðar á milli umr. að gefnu tilefni við 2. umr. málsins, og vil ég leyfa mér í sem allra stytztu máli að skýra frá niðurstöðum nefndarinnar.

Það var aðallega tvennt, sem rætt var í n. Í fyrsta lagi var það sú ábending, sem ég gerði við 2. umr. málsins, að fyrirsögn frv. væri óheppileg, þar sem orðin opinberar framkvæmdir væru notuð í annarri merkingu en tíðkast. Það er auðsætt, að ýmsar framkvæmdir, sem ekki mundu falla undir þessi lög eins og hugtakið opinberar framkvæmdir er skilgreint þar, mundu almennt teljast til opinberra framkvæmda, og þar má nefna sem dæmi framkvæmdir á vegum sveitarfélaga, sem ekki eru styrktar af ríkinu, enn fremur framkvæmdir á vegum banka. Sama máli mundi gegna um framkvæmdir á vegum Ríkisútvarpsins, þannig að ef það frv., sem nú hefur verið lagt fyrir hið háa Alþ., yrði samþ., þá mundu framkvæmdir á vegum þess, sem ríkissjóður legði ekki til, vera opinberar framkvæmdir í venjulegum skilningi, en ekki í skilningi þessara laga. Hins vegar taka lögin til framkvæmda, sem ekki mundu teljast til opinberra framkvæmda samkv. málvenju, eins og t. d. ef einstaklingar eða aðrir einkaaðilar standa fyrir slíkum framkvæmdum, en fá til þess styrk úr ríkissjóði, en það mundu varla kallast opinberar framkvæmdir. Um þetta var n. í sjálfu sér sammála, en hitt er annað mál, að ef fyrirsögninni væri breytt, yrði að umskrifa margar gr. frv. í samræmi við það, svo að n. taldi það of viðamikið og hefur því ekki gert brtt. um þetta, enda eru opinberar framkvæmdir skilgreindar í 1. gr. frv., svo að út af fyrir sig ætti það ekki að valda misskilningi.

Í öðru lagi hafði n. til meðferðar brtt., sem hér höfðu verið lagðar fram og ræddar voru við 2. umr. málsins, frá hv. 3. landsk. þm. Afstaða n. til brtt. hans er sú, að n. mælir með síðari brtt. og varð sammála um, að hún væri eðlileg. Um fyrri brtt. við 17. gr. frv. hafa nm. hins vegar óbundnar hendur, en ég tel þó rétt og skylt að gefnu tilefni við 2. umr. málsins um þessar brtt. að segja frá því, að ég bar þetta undir formann Sambands ísl. sveitarfélaga, Pál Líndal borgarlögmann, en hann tjáði mér, að þó að þessi brtt. yrði samþ., þá teldi hann rétt sveitarfélaganna nægilega tryggðan, svo að á þeim grundvelli er ekki ástæða til þess að vera á móti þessari brtt., en að öðru leyti, eins og ég sagði, hafa nm. um þetta óbundnar hendur.

Þriðja atriðið, sem ég vildi aðeins gera hér að umtalsefni, er brtt., sem fjhn. flytur sameiginlega á þskj. 428, en sú ábending kom fram við 2. umr. málsins, þegar samþ. var þá samkv. till. n. að fella niður úr 23. gr. ákvæði um það, að sérstakur forstjóri skyldi vera fyrir framkvæmdadeild Innkaupastofnunarinnar, þá ætti að breyta því líka í 22. gr. Bráða nauðsyn tel ég út af fyrir sig ekki bera til þess, því að eftir að forstjórinn hefur verið felldur niður úr 23. gr., þá væri eðlilegt að leggja þá merkingu í 22. gr., að þar væri aðeins átt við forstöðumann deildarinnar, hvort sem hann héti forstjóri eða annað. En til þess að taka af allan vafa og tvímæli í þessu efni, þá flytur n. þá brtt. á þskj. 428, að fyrir orðin „forstjóri framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins“ komi: forstöðumaður framkvæmdadeildar, o. s. frv.