24.03.1970
Neðri deild: 66. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

78. mál, skipan opinberra framkvæmda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég hygg, að um það geti ekki verið deilt hér á hinu háa Alþ., að það skipti miklu máli fyrir okkar litla þjóðfélag, að það fjármagn, sem hverju sinni er til ráðstöfunar af opinberri hálfu til margháttaðra framkvæmda á vegum ríkisins, sé notað með sem hagkvæmustum hætti og verkefnum hagað þannig, að þetta fé nýtist sem allra bezt. Í þessa átt hafa beinzt ýmsar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum, og má þar t. d. nefna þær breytingar, sem orðið hafa á tilhögun fjárveitinga til hafnargerða. Síðustu árin hefur sá háttur verið á hafður, að fjárveiting hefur hverju sinni verið miðuð við tiltekinn áfanga verks og fé til þess tryggt, þannig að auðið væri að vinna verkið allt, eftir því sem auðið væri að koma við útboðum. Áður var þetta svo, að það var varið, eins og menn muna, í fjárl. nokkrum hundruðum þúsunda til tiltekinnar hafnargerðar, og var það síðan undir hælinn lagt, hvað hægt var að þoka verkinu langt áleiðis.

Í annan stað hefur það gerzt á síðustu árum smám saman, að þokað hefur verið í hina sömu átt byggingamálum skóla, þannig að nú er svo komið, að um það gilda mjög fastar reglur, hvernig þeim málum skuli hagað, bæði viðmiðunarreglur í sambandi við fjárveitingarnar sjálfar, þ. e. a. s. stöðlun skólahúsnæðis, og einnig er fjárveitingu hagað þannig, að hægt er að miða við ákveðna áfanga. Þetta hefur verið gert bæði varðandi uppbyggingu ýmissa ríkisskóla, svo sem menntaskólanna og einnig nú í skólakostnaðarlöggjöfinni sjálfri varðandi sambyggingar ríkis og sveitarfélaga. Engu að síður, þó að þetta hafi gerzt og á fleiri sviðum verið stefnt í svipaða átt, var brýn þörf á því að setja almennar reglur; sem gengju nokkuð í svipaða átt, eins og ég gat um á þessum tveimur sviðum, að hafði gerzt.

Þess vegna var það, að nokkru eftir að ég tók við embætti fjmrh., var skipuð 7 manna n. undir forustu Jóns Sigurðssonar, sem nú er ráðuneytisstjóri í fjmrn., til þess að gera, eins og það var orðað í erindisbréfi n., „heildarathugun á því, hversu hagnýta megi með jákvæðustum árangri það fé, sem ríkið ver til margvíslegra fjárfestingarframkvæmda.“ Þessi n. var þannig skipuð, að ákveðið var að tilnefna ekki í n. neina af forstöðumönnum núverandi framkvæmdastofnana ríkisins, ekki vegna vantrausts á þeim, heldur vegna þess að þeir væru málinu of tengdir, og þess vegna væri gott, að þar kæmu fram hlutlaus sjónarmið annarra manna. Þessi n. samdi frv., sem lagt var fyrir Alþ. en varð þá ekki að lögum, enda ekki við því búizt, þar sem hér var um mikla nýbreytni að ræða og ekki hægt að gera ráð fyrir því, að Alþ. mundi fallast á að afgreiða málið þá þegar, enda ljóst, að það þyrfti að fara fram á því frekari könnun og leita um það umsagnar frá ýmsum aðilum.

Frv. var aftur lagt fyrir Alþ. 1968, og þá hafði því verið breytt nokkuð með hliðsjón af athugunum, sem fram höfðu á því farið, og hafði m. a. verið haft þá samráð við sérfræðing Alþjóðabankans í fjárfestingarmálum, sem gaf mjög jákvæða umsögn um þá hugsun, sem frv. byggðist á. Þá var leitað mjög margra umsagna um málið frá margs konar samtökum, sem hafa með byggingarmál og skipulag framkvæmda að gera í þjóðfélaginu, og þó að þessi samtök hefðu sum ýmislegt við frv. að athuga, þá voru allir þessir aðilar í grundvallaratriðum sammála um það, að frv. stefndi í rétta átt.

Frv. var þó ekki afgr. og er nú enn lagt fyrir Alþ. og þá með breyt., sem á því hafa verið gerðar, eftir þær umsagnir, sem ég gat um. Þær voru rækilega íhugaðar og samráð haft við Samband ísl. sveitarfélaga og Efnahagsstofnunina, og ég hygg, að hægt sé að segja, að málið hafi hlotið eins rækilegan undirbúning og mögulegt sé, enda varð niðurstaðan sú, að hv. Ed. féllst á að samþykkja frv. með sáralitlum breytingum og það ágreiningslaust.

Ég sé ekki ástæðu til þess að eyða mörgum orðum í það að rekja þetta frv. Það skýrir sig mjög vel sjálft, og með því fylgir ítarleg grg. Ætlunin er, að það taki til allra opinberra framkvæmda í þessu sambandi, einnig framkvæmda ríkis og sveitarfélaga, þ. e. a. s. þegar ríkissjóður leggur einhvern hluta til sameiginlegra framkvæmda þessara aðila. Það er gert ráð fyrir því, að ákveðnar reglur gildi um undirbúning framkvæmda, en því miður verður að segja það eins og er, að það hefur kannske verið hið gallaðasta í opinberum framkvæmdum, hversu oft hefur verið í þær ráðizt, án þess að vandlega væri athugað áður, hvernig hagkvæmast væri að þeim að vinna, og þeir valkostir væru teknir, sem skynsamlegastir væru. Á það hefur einnig mjög skort.

Hér er gert ráð fyrir því, að áður en hafizt verði handa um áætlunargerð, fari fram frumathugun á skynsamlegustu valkostum til að leysa tiltekin vandamál, þ. e. a. s. hvernig bezt sé að leysa tilteknar þarfir, með hvers kyns húsnæði og hvar því sé hentugast fyrir komið, og áætlun gerð, ekki aðeins um það, hversu dýrt það muni verða, þegar að framkvæmdastiginu kemur, heldur er einnig gert ráð fyrir, að rekstraráætlun fylgi, en það hefur því miður mjög skort á, að menn hafi gert sér til hlítar grein fyrir, hvaða afleiðingar það hefði um kostnað af hálfu ríkisins, þegar til rekstrar kæmu ýmiss konar byggingar og manavirki, sem ráðizt hefur verið í.

Eftir að þessi frumathugun á valkostum hefur farið fram, þá er gert ráð fyrir, að áætlunargerðin sjálf hefjist og hún fari fram á vegum hlutaðeigandi rn. og/eða sveitarfélags eða annars eignaraðila í samráði við fjárlaga- og hagsýslustofnun fjmrn., og eru þar settar mjög ákveðnar reglur um það, hvernig að áætlunargerðinni skuli unnið, og sé ég ekki ástæðu til þess að rekja það nánar. En það er gert ráð fyrir því, að áður en hafizt er handa um framkvæmd á grundvelli þessarar áætlunar, þá sé tryggt það fjármagn, sem þarf til þess að ljúka verkinu á eðlilegum tíma. Þetta gerir mögulegt í senn að koma við útboðum í þau verk í stærri stíl en áður hefur þekkzt og í annan stað að vinna með kerfisbundnari hætti og ódýrar og hagkvæmar að framkvæmd verkanna, þegar hægt er að halda sleitulaust áfram án þess að þurfa, eins og margoft kemur fyrir, að stöðva verkin í miðju kafi sökum fjárskorts.

Í þriðja lagi eru settar um það mjög nákvæmar reglur í þessu frv., hvernig að framkvæmd verks skuli staðið, og er það meginregla, að verk skuli boðið út, þegar þess er nokkur kostur, og settar reglur um það, hvaða aðili skuli annast útboð verkanna, en það er Innkaupastofnun ríkisins. Hún fær mjög veigamikið hlutverk í þessari löggjöf, þar sem henni er í senn ætlað að sjá um útboð verka, og jafnframt er ætlunin að setja þar upp sérstaka eftirlitsdeild, sem sér um, að verkið sé unnið á tilhlýðilegan hátt og samkv. þeim reglum, sem settar eru í samræmi við þær útboðslýsingar, sem tilboð í verk hafa grundvallazt á.

Það má að sjálfsögðu gera ráð fyrir því, að einhver aukakostnaður verði af framkvæmd laganna, en þó ætti það ekki að þurfa að vera neitt að ráði, vegna þess að hér er gert ráð fyrir að leggja niður tvær deildir, sem annast byggingaeftirlit, annars vegar byggingaeftirlit menntmrn. vegna skóla og hins vegar byggingaeftirlit húsameistara ríkisins, og þetta færist hvort tveggja yfir í þessa framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins.

Það er gert ráð fyrir því, að sérstök samstarfsnefnd verði sett á laggirnar til þess að tengja saman hagsmunaaðila í þessum efnum og þá, sem sérfræðilega vinna að þeim, og í þeirri n. eigi sæti þrír menn, einn af hálfu Alþ., sem talið er eðlilegt, að sé formaður fjvn. hverju sinni, hagsýslustjóri ríkisins, sem hefur það meginhlutverk að annast um, að með hagkvæmum hætti sé að öllum þessum opinberu framkvæmdum staðið, og í þriðja lagi forstöðumaður framkvæmdadeildar Innkaupastofnunarinnar, sem er gert , ráð fyrir, að sé tæknimenntaður maður, annaðhvort verkfræðingur, arkitekt eða maður með sambærilega menntun, þannig að tryggð sé hin verkfræðilega þekking á þessum málum. Þegar n. fjallar um sameiginleg málefni ríkis og sveitarfélaga, er svo gert ráð fyrir því, að fulltrúi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga sitji á fundum nefndarinnar.

Það er nýbreytni einnig í þessum lögum, að gert er ráð fyrir því, að birtar verði niðurstöður varðandi allan tilkostnað við hina opinberu framkvæmd og gerð grein fyrir því nákvæmlega, hvaða ástæður liggi því til grundvallar, ef mjög breytist frá því, sem áætlun hljóðaði um verkið, og það er gert ráð fyrir því, að úttekt fari fram, þegar verki er lokið, og ríkisendurskoðun setji fastar reglur um framkvæmd úttektarinnar eða svokallað skilamat, og þá sé það metið endanlega, hvort verktakar eða aðrir, sem nálægt verkinu hafa komið, hafi staðið við skuldbindingar sínar samkv. verksamningi.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, nema tilefni gefist til, að ræða þetta mál nánar, en ég fullyrði, að það hefur fengið, eins og ég sagði áðan, eins rækilegan undirbúning og kostur var á. Það hefur komið í ljós, að það er ekki mikið við að styðjast í þessum efnum í öðrum löndum, vegna þess að jafnvíðtækar heildarreglur hafa ekki verið settar, svo að kunnugt sé, um skipulag opinberra framkvæmda, þannig að við höfum ekki við reynslu annarra að styðjast í þessu máli. Það er hins vegar skoðun allra, sem látið hafa í ljós álit á þessu, hvort sem er innanlands eða utan, að ef okkur tækist að koma þessum málum í það horf, sem í grundvallaratriðum er stefnt að í þessu frv., þá hlyti það að verða til mjög mikilla bóta og tryggja það, eins og ég sagði í upphafi, sem hlyti að vera tilgangur og sameiginlegt áhugamál allra í okkar litla þjóðfélagi, að það fjármagn, sem hverju sinni er varið til opinberra framkvæmda, sem mönnum nú jafnan finnst vera heldur of lítið en of mikið, hagnýtist með þeim hætti, að það skili sem allra beztum árangri fyrir þjóðarheildina.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn., og vildi ég um leið beina því til hv. n., að hún kynnti sér þau margvíslegu gögn, sem fyrir liggja í málinu eftir ítarlega meðferð þess hér á Alþ., og vonast ég til, að n. sjái sér fært að hraða svo störfum, að málið geti fengið endanlega meðferð á þessu þingi, þar sem það er nú, eins og ég gat um, þriðja þingið, sem málið liggur til athugunar hjá.