29.04.1970
Neðri deild: 89. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (1343)

50. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hygg, að í þessu frv. um Skipamálastofnun ríkisins og öðrum frv., sem liggja fyrir hv. d. í sambandi við það, séu ýmis nýmæli, sem nokkra nauðsyn beri til að samþykkja á þessu þingi. Hins vegar virðist mér nú nokkuð í óefni komið um samþykkt málsins, þar sem komnar eru fram till. um að breyta frv. í annað sinn eftir afgreiðslu í Ed., og sýnist mér, að ef breyt. yrði samþ., mundi frv. verða að fara í Sþ. En nú er komið að þinglokum, og virðist mér þá, að í hættu sé stefnt þeim ákvæðum frv., sem brýna nauðsyn ber til að lögfesta á þessu þingi. Þess vegna vil ég beina því til hv. n., sem fjallað hefur um þetta mál, hvort hún telji þessar breyt. svo nauðsynlegar, sem hún leggur til að gerðar verði nú og munu vera svipaðar og hún lagði til áður við meðferð málsins hér í d. og voru samþ. án mótatkv., að þeirra vegna megi hætta á það að setja í hættu þau ákvæði frv., sem nauðsyn ber til að samþykkja. En það hefur áður verið gerð grein fyrir því, hver þau ákvæði eru, og það eru ekki þessi ákvæði, sem hér er um að ræða.

Mér sýnist það ekki geta skipt mjög miklu máli, hvort stofnun sú, sem hér er um að ræða, heiti Skipamálastofnun eða Siglingamálastofnun, að öðru leyti en því, að Skipamálastofnun mun vera nýyrði, en þetta er stutt orð og fer vel í munni, og sé ég ekki, að það sé ógerlegt að setja það í lög. Orðin eru ekki ósvipaðrar merkingar. Þetta er eiginlega málfræðilegur ágreiningur, sem hér er um að ræða, en málfræðilegur ágreiningur mætti ekki verða til þess að fella efnislega nauðsynlega lagasetningu.

Ég verð að segja það hins vegar, að ég teldi það betur farið, eins og n. leggur til, að 6. liðurinn, um sjóslysin, yrði orðaður um, en má vera, að hægt væri að hafa nokkur áhrif á framkvæmd þessa liðar í reynd, úr því að hann er nú á annað borð kominn inn í frv., hvernig sem hann er orðaður.

Ég tel það miður farið, að brtt. n. skuli ekki liggja fyrir prentaðar, því að það er dálítið erfitt að átta sig á þeim við að heyra þær lesnar upp. En frsm. n. minntist m. a. á 6. gr. og að ágreiningur væri um það á milli n., hvers konar störf skipamálastjóri og starfsmenn hans mættu hafa á hendi. Þegar ég ber þessa gr. saman við gr. um tilsvarandi efni í gildandi lögum, sem er 8. gr., tekur hún að vísu ekki til starfsmanna almennt hjá stofnuninni, heldur aðeins til skipaskoðunarstjóra. Hún fjallar um störf, sem hann megi ekki hafa á hendi, og segir þar í gildandi lögum:

„Eigi má hann hafa þau störf á hendi, er telja má ósamrýmanleg stöðu hans, svo sem eftirlit með skipum eða vélum fyrir einstaklinga, félög eða opinberar stofnanir.“

Þetta er því í gildandi lögum, og þessi lög eru frá 1959. Þau eru búin að vera í gildi í 11 ár, og ég vil þess vegna láta í ljós nokkrar efasemdir um, að það sé nauðsynlegt að breyta enn frv. og setja það í hættu til þess að losna við þetta ákvæði, sem er búið að vera svona lengi í lögum, þetta ágreiningsákvæði. Það má vera, að það sé eitthvað annað í gr., sem ég hef ekki veitt athygli, en mér fannst hv. frsm. segja, að það væri einmitt þetta ákvæði, sem ágreiningur væri um á milli d., en þetta er nú búið að vera í lögum í 11 ár a. m. k. eða e. t. v. lengur.

Ég hef ekki tekið neinn þátt í meðferð þessa máls áður hér í d. og áður tekið til greina till. hv. sjútvn. í þessum málum. En mér sýnist nú, þegar komið er svo að segja að síðustu dögum þingsins, að þá verðum við að hugsa okkur um, áður en við látum ágreining milli sjútvn. í d. verða til þess, að efni, sem e. t. v. er ekki sérlega mikilvægt, verði til þess að setja frv. í hættu og þar með ákvæði, sem mjög mikilvægt er, að samþ. verði einmitt nú, eftir því sem fram hefur komið, og miklu skipta.

Það kom ekki fram í ræðu hv. frsm., að sjútvn. d. hefðu rætt saman um þetta mál. Má vera, að það hafi verið, en ef það er ekki, þá verð ég að telja það mjög miður farið, að þær skuli ekki hafa gert það, heldur senda mál þannig á milli d. með mismunandi brtt., sem segja má, að ekki skipti meginmáli.