30.04.1970
Efri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

13. mál, hægri handar umferð

Frsm. meiri hl. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frsm. 1. minni hl. allshn., 6. þm. Sunnl., Karl Guðjónsson, ber fram brtt. um, að gjald vegna hægri breytingar verði fast gjald á bifreiðaeigendur. Ég undra mig stórlega á þessari brtt. Það liggur fyrir frá umr., þegar þessu gjaldi var komið á, að því var aðeins ætlað að standa undir kostnaði við breytingu í hægri akstur. Það var ekki svo létt fyrir margan bifreiðareiganda að sætta sig við þetta nýja gjald á sínum tíma. Það reið þó baggamuninn, að hér var um tímabundið gjald að ræða. Nú vill þessi hv. þm. samkv. brtt. hans gera þetta að föstum skattstofni. Ég lýsi mig algerlega mótfallinn frekari framlengingu á þessu gjaldi en meiri hl. allshn. leggur til, þ. e. út árið 1971, enda á þá að vera að fullu greiddur kostnaður við hægri handar breytinguna.

Vitað er, að skyldutryggingar bifreiða hækka verulega nú þegar á þessu ári. Iðgjald hækkar líklega um 35%, og ætti það að vera meira en nóg fyrir bifreiðaeigendur að bera að sinni. Ég mundi halda, að þeir, sem verst mundu sætta sig við þá till., sem þessi hv. alþm. ber fram, séu einmitt atvinnumenn við bifreiðaakstur. Það undrar mig því hvað mest, að einmitt þessi hv. þm. skuli bera fram slíka till. um ósanngjarna skattlagningu einmitt á þessa aðila, atvinnubílstjórana. Ég vænti þess, að hv. þm. taki til greina þessa aths. mína og felli þessa brtt. nú þegar við þessa umr.