09.04.1970
Neðri deild: 70. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

198. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að þessu frv. verði vísað til n., sem ég á sæti í, og get ég af þeim sökum verið fáorðari en ella um þetta frv. við 1. umr., enda hafa nú þegar farið fram allítarlegar umr. um málið strax við 1. umr.

Það er vissulega rétt, sem hæstv. félmrh. sagði í upphafi máls síns, að húsnæðismálin hafa löngum verið vandamál, einkum vegna fjárhagshliðarinnar, og hann játaði í raun og veru, að alltaf hefðu húsbyggingamálin verið í fjárhagslegu svelti. Og það er vissulega rétt. Þannig hefur það verið, og því miður er ég hræddur um, þrátt fyrir mjög yfirlætisfull ummæli í Alþýðublaðinu um gjörbreytingu þessara mála með þessu stjórnarfrv., að það verði því miður niðurstaðan, eftir að frv. hefur orðið að lögum, að húsbyggingamál okkar verði áfram í fjárhagslegu svelti, af því að það er rétt, sem hér hefur verið bent á, að það er þrátt fyrir yfirskin þess á mörgum stöðum í frv., að um stórkostlegar umbætur sé að ræða í húsnæðismálunum, þá er, þegar betur er að gáð, um frekar lítið nýtt að ræða í frv. Sérstaklega á þetta við um nýjar fjárútveganir. Þær eru því miður miklu minni en ætla mætti við fljótan yfirlestur frv.

Það er ekkert umtalsvert, sem aflað er af nýju fé til lausnar húsnæðismálunum, þegar undan er tekinn pósturinn um lífeyrissjóðina. Það er hin eina umtalsverða nýja fjáröflun til húsnæðismálanna, og þó er það rétt, sem sagt hefur verið, að meginhluti þess fjármagns, sem lífeyrissjóðirnir hafa haft til umráða, hafi farið, að vísu fram hjá húsnæðismálakerfinu, til lausnar húsnæðismála, og er þannig ekki um nýtt fé að ræða nema að litlu leyti, þó að húsnæðismálakerfinu sé nú ætlað að láta peningana ganga til húsnæðismálanna í stað þess að lífeyrissjóðirnir gerðu það beint áður. Við þetta eykst notagildi peningsins ekki nokkurn skapaðan hlut, en nú er seilzt ofan í þá lífeyrissjóði verkalýðshreyfingarinnar, sem verið er að mynda og ekki komnir á laggirnar, og þykir mér furðu fljótt gripið til þess úrræðis. Að því kem ég síðar.

Það eru 35 millj. kr., sem ríkið ætlar að útvega á ári meira en það hefur gert, 75 millj. á ári í staðinn fyrir 40, og það er smápóstur, það sjá allir. 25 millj. kr. eru ætlaðar til nýs hlutverks, en það hlutverk álít ég að sé bráðnauðsynlegt og tel einn af ljósu punktunum við þetta frv., ákvæðið í 8. gr. um, að það megi verja fé, allt að 25 millj. kr. árlega, til lánveitinga til kaupa eldri íbúðarhúsa. Það eru mörg ár síðan ég flutti það mál hér á Alþ., sem fékk þá allgóðar undirtektir, og mér var sagt í veðdeild Landsbankans, að það mál væri komið svo langt, að það lægi á borði ráðh. Síðan eru liðin ein sex ár, og því máli hefur ekki verið hreyft. En það er augsýnilegt þó, að það er þjóðarhagur að hjálpa mönnum til að kaupa eldri nothæf hús og endurbæta þau svo, að þau geti orðið góðar íbúðir, og búa þannig að því, sem þjóðin á, nýta betur. Það hefði getað forðað mörgum manni frá því að ráðast í það átak og reisa sér hurðarás um öxl með því að byggja nýja íbúð, ef lánsmöguleikar hefðu verið fyrir hendi til þess að kaupa eldri hús fyrr en nú. Þetta álít ég vera einn stærsta kost þessa frv., að þessu máli er þó hreyft og ætlaðar til þess 25 millj. kr., sem að mínu áliti er þó margfaldlega of lág upphæð. En þarna er loksins sinnt þörfu máli, og ég vil þakka hæstv. ríkisstj. fyrir að láta þetta þó fljóta með þessu frv.

Það hefur ekkert vit verið í því í okkar lánakerfi, hvorki að því er varðar gömul nothæf skip, að hafa engan pening til þess að geta greitt fyrir kaupum og sölum á þeim og fá þannig betri nýtingu þeirra, né heldur að því er snertir íbúðarhúsnæði. Þarna er byrjað að ráða bót á þessu, en ég er alveg viss um, að a. m. k. fyrst í stað þarf miklu meira fé en 25 millj. kr. til þess að greiða fyrir þessu. En þetta mundi jafnframt við betri nýtingu þess húsnæðis, sem til er, draga nokkuð úr fjölda þeirra nýju íbúða, sem þörf er á að ráðast í, og spara þannig nokkuð útgjöld í nýbyggingum á næstu árum, ef þessu hlutverki er sinnt eins og þjóðarþörf og hagur krefst.

Ég sé ekki betur en þetta frv. um Húsnæðismálastofnun ríkisins byggi að mestu leyti á gömlum stofnum. Fjáröflunin er að meginstofni sú, sem við búum við í núv. löggjöf. Þar vegur þyngst það, sem verkalýðshreyfingin hefur í samningum við ríkisvaldið knúið fram á ýmsum tímum. Við vitum, hvað launaskatturinn þýðir fyrir húsnæðismálin, launaskatturinn, 1% af öllum greiddum launum. Það er einn af gildustu tekjuþáttunum hjá Húsnæðismálastofnuninni. Á þessum stofni er auðvitað byggt áfram.

Þá er það frá atvinnuleysistryggingunum, sjóði, sem verkalýðshreyfingin á ótvírætt. Þar var ríkissjóði ætlað að leggja fram til atvinnuleysistrygginganna tugi millj. á ári hverju. En hvernig fór um það fé? Það er tekið. Ríkið greiðir þetta til atvinnuleysistrygginganna að nafni til, en borgar það með bréfum og tekur það til húsnæðismálanna. Á þessum stofni er auðvitað líka byggt hér. Það er annar gildasti stofninn, sem húsnæðismálin hafa yfir að ráða.

Svo er það skyldusparnaðurinn. Á honum er byggt áfram eins og verið hefur, 15% tekið af unga fólkinu til þess að leggja fram til húsnæðismálanna. Það þótti nú ekki góð latína, þegar ég tók það nýmæli upp í löggjöf í fyrsta sinn árið 1957, að mig minnir, að leggja 6% skyldusparnað á unga fólkið. En þessu var breytt í 15% nokkru síðar, og hefur þó verið gerð meinleg breyting að því er þetta varðar. Ég álít, að þetta hafi verið sjálfsögð ráðstöfun frá upphafi og sé enn í fullu gildi og eigi að halda áfram við skyldusparnaðinn.

En að einu leyti hefur þessu máli verið spillt, og úr því finnst mér ekki bætt í þessu frv. Unga fólkið, sem nauðugt viljugt, því að þetta er skylda, verður að festa sitt fé á þennan hátt og þjóna þjóðfélaginu með því að leggja til hliðar 15% af tekjum sínum, á ekki að fá nema 4% vexti af þessu fé. Það finnst mér óhæfa. Það má ekki minna vera, þegar unga fólkið er svipt þessu fjármagni, en það fái það óskert aftur og með vöxtum. Það er á því vísitölutrygging að sjálfsögðu, en vextirnir eru ekki nema helmingur af því, sem unga fólkið gæti haft á bundinni bók, sem það hæglega gæti gert, og þá vexti á það að hafa. Ekki meira um skyldusparnaðinn. Hann er einn af þeim gömlu stofnum, sem hér er nú byggt á áfram.

Þá er það verkamannabústaðakerfið. Það er nú, eins og hæstv. ráðh. sagði, yfir 40 ára gamalt. Það er tekið inn í þennan lagabálk og fátt nýtt við það. Ég verð að segja það, að það verður að vera talsverður sparnaður við þessa samsteypu, ef ég á að fagna henni yfirleitt. Það má vera, að það sé hagkvæmara að hafa almenna lánakerfið, verkamannabústaðakerfið og útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis allt undir sömu stjórn og í sama lagabálki, ef það sparar fé. En að öðru leyti, ef það gerir það ekki að verulegu leyti, þá fagna ég ekki og tel ekki til kosta þessa frv., að verkamannabústaðakerfið sé lagt niður í því formi, sem það hefur verið. Þar með verður maður að sjá á bak byggingarfélögum verkamanna úti um allt landið, sem hafa haldið þeim málum þó að verulegu leyti í höndum verkalýðsstéttarinnar sjálfrar. Byggingarfélögum verkamanna er ekki ætlaður lengri aldur en svo samkv. þessu frv., að þau á að leggja niður, þegar lokið er byggingu þeirra verkamannabústaða, sem nú er verið að byggja, þá taka sveitarfélögin við. Og eins og einn ræðumaður sagði hér í dag, þá er það til í dæminu, að sumar sveitarstjórnir geri vel í þessum málum og leggi ljúflega fram það fé, sem frv. ætlast til af þeim, og þannig dragi ekki þar úr byggingum verkamannabústaða, en ég er afar hræddur um það, að mörg sveitarstjórnin sé ekki víðsýnni en það, að það sé nokkur áhætta bundin við að leggja þessi mál alveg í hendur sveitarstjórnanna með svo víðtæku valdi, sem sveitarstjórnirnar eiga að hafa yfir framkvæmd þeirra og geta þannig ráðið ferðinni um byggingu verkamannabústaða úti um landið. Ég efa því, að sá ókostur, sem þessu fylgir, vegi upp á móti þeim fjárhagslega sparnaði, sem kann að leiða af því að steypa þessu saman undir eina stjórn, sem ég tel þó út af fyrir sig vera skynsamlega ráðstöfun, en það má ekki gerast á kostnað þess, að verkalýðsstéttin sjálf hafi nokkra hönd í bagga um byggingu verkamannabústaða, eins og var eitt grundvallaratriðið, þegar lög um verkamannabústaði voru sett, og hefur að mínu áliti ekki gefizt illa.

Undir bálkinn er svo að síðustu felld hin sérstaka löggjöf um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, og sé ég fátt af nýmælum í þeim kafla varðandi útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis. Þetta er fellt undir hið almenna kerfi og verður þannig undir stjórn Húsnæðismálastofnunar ríkisins. Ég held, að það sé alveg rétt, að þó að manni sýnist svo við fljótan yfirlestur, að lánin hækki allverulega út á íbúð hverja, þar sem talað er um 600 þús. kr. lán, þá sé það svo, að miðað við, að lánin ná núna 540 þús. kr. með byggingarvísitölu í upphafi þessa árs, þá er ég afar hræddur um það, að strax á árinu 1970 verði svo komið, að byggingarvísitalan segi til, að lánið ætti að öllu óbreyttu að vera komið upp undir 600 þús., og það sé þannig ekki um hækkun að ræða, sem sýnist vera á pappírnum. Hitt er annað mál, að lánstíminn er svo skammur og vaxtakjör ekki hagkvæmari en svo, að það rís enginn verkamaður með venjulegum verkamannstekjum undir því að standa undir hærri lánum en 600 þús. kr., og þar er veggur, sem við rekum okkur á, sem þýðir það, að til þess að einstaklingarnir geti risið undir nauðsynlega háum lánum í sambandi við lausn húsnæðismála sinna, þá þarf að lengja lánstímann og það þarf að gera vaxtakjörin aðgengilegri.

Þegar ég kem að þeirri kvöð, sem lögð er á lífeyrissjóðina í þessu frv., þá kemst ég ekki hjá að láta í ljós þá skoðun mína, að ég held, að það hefði verið miklu einfaldara og í raun og veru miklu sjálfsagðara að leggja þá kvöð hreinlega á Seðlabanka Íslands að standa undir fjármagnsútveguninni til húsnæðismálakerfisins, hafa vextina lága, það væri ekki sízt gert í þágu atvinnulífsins, og taka afleiðingum af því á þann veg að tvöfalda launaskattinn, eingöngu til að standa undir vaxtaniðurgreiðslunni. Það væri atvinnulífinu eðlilegast að taka þá byrði á sig, því að það er gert fyrir atvinnulífið að halda húsnæðiskostnaði og þar með framkvæmdakostnaði í landinu niðri. Þessu varpa ég nú hér fram, þó að það fari langt úr leið, að því er snertir þetta frv., en ég hygg, að það væri þó athugunarvert, hvort þetta væru ekki greiðari götur og eðlilegri að fara en þær leiðir, sem hér eru farnar. Og þá á ég sérstaklega við kvaðirnar um lífeyrissjóðina.

Það hefur verið á það bent, að sumir lífeyrissjóðir, sem starfað hafa um lengri tíma, hafi þegar með samkomulagi tekið á sig þá kvöð að leggja fram 20% af ráðstöfunarfé sínu til húsnæðismála, og ef nú á að bæta 25% þar ofan á, sem ég er ekki alveg viss um og trúi varla, þá er anzi mikið búið að skerða möguleika þeirra lífeyrissjóða til þess að geta með frjálsum hætti lagt nokkuð verulegt af mörkum til húsnæðismálanna. En fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar verð ég að segja það, að ég harma, að það skuli flutt fram í frv.-formi á Alþ., rétt í þann mund sem lífeyrissjóðir verkalýðsfélaganna eru að verða til, að taka skuli fjórðu hverja krónu af ráðstöfunarfé þeirra frá og með 1. jan. 1970, án þess að þeir mannasiðir séu viðhafðir að ræða með einu orði við verkalýðshreyfinguna um þetta. En 19. maí 1969 var um það samið, að stofnaðir skyldu lífeyrissjóðir á frjálsum félagsgrundvelli og álögur lagðar á atvinnurekendur og verkafólkið sjálft í stað beinna launahækkana. Þetta var samþ., og ríkissjóður lagði ekki annað fé til þessa en að gera mögulegt, að öldruðu fólki yrði greiddur lífeyrir frá ársbyrjun 1970 með fjármagni, sem að 3/4 hlutum var tekið úr eigin sjóðum verkalýðsfélaganna, atvinnuleysistryggingunum, og að 1/4 hluta úr ríkissjóði næstu 15 ár. Að öðru leyti var þarna um að ræða að leggja kvaðir á atvinnurekendur og verkafólk eftir frjálsu samkomulagi þeirra í stað þess að inna þetta af hendi sem launagreiðslur. En svo, áður en árið er liðið, er án samkomulags við verkalýðshreyfinguna ákveðið að taka fjórðu hverja krónu af þessu ráðstöfunarfé, sem lífeyrissjóðirnir koma til með að hafa, og verja því til húsnæðismálanna. Nú er ég alveg sannfærður um það, að verkalýðsfélögin sjálf hefðu varið allverulegum hluta af þessu fé til þess að leysa húsnæðismál félaga sinna, en nú á það að fara almennt til lausnar húsnæðismálanna, langt út yfir það, sem um var samið, og þess vegna kemur okkur það mál við og hefði verið umræðuvert við okkur.

Ég er alveg viss um, að það var skakkt að farið, þegar þetta frv. var í undirbúningi, að ekki skyldi vera svo mikið sem við verkalýðshreyfinguna talað, því að það er verið að taka hennar fé og binda það, og það sem verra er, það er verið að rýra ávöxtunarmöguleika þessa fjár stórkostlega. En ávöxtunin átti þó að vera umsamin á þann veg, að verkalýðshreyfingin stjórnaði sjálf sjóðunum og sæi um ávöxtun þeirra auðvitað á þann hátt, sem bezt væri hægt að ráðstafa þeim hlutum. Á þessari stundu situr miðstjórn Alþýðusambandsins á fundi eingöngu til þess að ræða um þetta frv., og ég er alveg viss um það, þó að ég verði að vera þar fjarverandi, að það verður ekki ánægja með það í miðstjórn Alþýðusambandsins, og munu menn þar ekki skiptast í flokka um það, að hér skuli vera gripið til þessara sjóða án nokkurs samráðs við verkalýðshreyfinguna að svo nýafstöðnum samningum um stofnun lífeyrissjóðanna sem raun ber vitni um.

En það er betur munað eftir verkalýðshreyfingunni en þetta, því að þær umsömdu 15–20 millj., sem verja átti til viðbótarlána fyrir tekjulitla meðlimi verkalýðsfélaganna og skyldu vera í einstökum lánum 75 þús. kr., eru nú niður felldar í þessu frv. Auðvitað finnst mér það til lýta á þessu frv., ekki til bóta, og það er í raun og veru hart, að svo skuli vera gert. En þó að svona djarflega sé tekið til fjár þeirra lífeyrissjóða, sem nú er verið að stofna, þá er þó ekki gert ráð fyrir því, að verkalýðshreyfingin fái svo mikið sem einn mann í stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar. Nei, það skal vera Landsbankinn, þó að hann leggi engan eyrinn til.

Þegar ég lít á 3. gr. þessa frv., þá verð ég að segja það, að ég tek undir það, að það er mjög dregið úr gildi 3. gr. gildandi laga, því að það eru vissulega þar mörg ákvæði um það, að Húsnæðismálastofnuninni skuli skylt að beita hvers konar aðgerðum, sem leiða megi til þess, að dregið verði úr byggingarkostnaði. Og það er ekkert síður hlutverk Húsnæðismálastofnunarinnar en sjálf lánastarfsemin. En hver var ástæðan til þess, að verið var að draga úr þessu í gildandi lögum? Til þess sá ég enga ástæðu, nema það sé ætlunin að leggja minni áherzlu á þann þátt í starfi stofnunarinnar en áður. Að öðrum kosti hefðu a. m. k. ákvæðin að meinalausu mátt vera áfram í lögum og ekki veitt af.

Þá hlýt ég að minna á það, að lögfest var samkomulag verkalýðshreyfingarinnar við ríkisstj. um framkvæmdaáætlunina, Breiðholtsframkvæmdirnar, sem allt of seint og treglega hefur gengið að framkvæma. En í viðbót við það var búið að gefa gullin loforð og lögfesta á grundvelli þessa samkomulags byggingaráætlanir víðs vegar í kaupstöðunum úti um land. Það er rétt, það hefði orðið að sætta sig við minni áfanga og e. t. v. ekki á eins auðveldan hátt, og hér á Reykjavíkursvæðinu er hægt að koma við stórfelldum nýtízku vinnubrögðum, rétt er það, og inn á það kom hæstv. ráðh. En samt var búið að gefa þessi loforð og lögfesta þau, en nú er því kippt í burt í þessu frv. Landsbyggðin mun þykjast svikin að því er þetta snertir. Það er ég sannfærður um.

Þá tek ég undir það, sem sagt hefur verið, að þó að hér í frv. sé um nokkra hækkun að ræða á tekjum þeirra, sem njóta mega réttinda varðandi verkamannabústaði, þá er sú hækkun of lítil, tekjumarkið verður of lágt. Það að útiloka sérhvern þann verkamann, sem hefur yfir 200 þús. kr. tekjur nú og á næstu árum, útilokar allt of marga, og þetta tekjumark verður áreiðanlega að endurskoðast til hækkunar, og efast ég ekkert um það, að á það mun hæstv. ráðh. fallast, þegar málið hefur verið athugað. Þetta mark er nú sett of lágt, þ. e. a. s. það verður of þröngt, það útilokar of marga.

Bráðabirgðaákvæði eru nokkur með frv. Ég hef áður vikið að því, að byggingarfélög verkamanna verða tekin af, þegar lokið er byggingarframkvæmdum, sem nú standa yfir. Það er m. a. ákveðið í upphafi bráðabirgðaákvæðisins. Í öðru lagi segir, að haldast skuli óbreytt ákvæði laga og reglugerða um framkvæmd byggingaráætlunar í Reykjavík, en heimilt er ríkisstj., Reykjavíkurborg og fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík að semja svo um, að þær 735, — takið eftir, — 735 íbúðir í byggingaráætlun þessari, sem eigi er hafin bygging á, eða hluti þeirra, verði byggðar sem verkamannabústaðir samkv. IV. kafla þessara laga. Þessi tala sýnir, hversu óhemjumikið er eftir til þess að til fulls verði staðið við byggingaráætlunina, og var þess þó full þörf, að staðið væri við hana, þó að ýmiss konar gallar hafi orðið á í framkvæmdinni. En það eitt vil ég þó segja lofsamlegt um þetta atriði, að hér er ekki beitt valdboði. Hér er farin mjög eðlileg leið. Það er sagt, að ef samningar takast um að breyta framkvæmdinni að þessu leyti og hverfa til verkamannabústaðakerfisins, þá skal það vera heimilt, og ég tel, að þarna hafi hæstv. ríkisstj. farið alveg rétta leið, að það á að opna samningamöguleika um þetta, af því að þarna var byggt á samningsákvæðum, sem annar aðilinn mátti ekki taka sér vald til þess að breyta og mátti ekki heldur, að því er snertir lífeyrissjóðina, gera það að mínu áliti. Af 4. málsl. bráðabirgðaákvæðanna er alveg ljóst, að það er rétt, sem sagt var hér áðan, að þessar 35 millj. kr., sem ríkið ætlar að hækka sitt framlag um til húsnæðismálanna, koma ekki á árinu 1970. Það kemur fyrst til framkvæmda á árinu 1971. En aftur er gripið til lífeyrissjóðanna frá 1. jan. 1970.

Ég lofaði hæstv. forseta því, að ég skyldi ekki verða langorður um málið, bæði af því að málið fer til n., sem ég á sæti í, og sökum þess, að umr. hafa þegar orðið ítarlegar um það. En ég lýk máli mínu með því að segja, að þó að nokkur atriði séu til bóta í þessu frv., þá eru líka á því stórkostlegir gallar, og það er fjarri því, að hér sé um að ræða nokkra byltingu til hins betra í lausn húsnæðismálanna. Ég er alveg sannfærður um það, að hófsamur og sanngjarn félmrh. mundi að einu eða tveimur árum liðnum játa, eins og núv. hæstv. félmrh. hefur játað, að framkvæmdamöguleikar húsnæðismálanna séu enn þá í fjárhagslegu svelti.