04.05.1970
Efri deild: 91. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

198. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. til laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem hér er til umr., er árangur af endurskoðun gildandi laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins, svo og laga um verkamannabústaði. Með þessu frv. er Byggingarsjóður verkamanna og verkamannabústaðirnir settir undir stjórn Húsnæðismálastofnunar ríkisins.

Miklar breytingar eru gerðar á verkamannabústaðakerfinu, þannig að sveitarfélögin hafa mun meira forræði í þeim efnum en áður, en sérstakar stjórnir verkamannabústaða í sveitarfélögum hafa með höndum byggingaframkvæmdir og úthlutun íbúða. Lán til verkamannabústaða verða samkv. frv. tvenns konar, í annan stað almenn húsnæðismálalán, en að hinu leytinu viðbótarlán úr Byggingarsjóði verkamanna, sem ásamt húsnæðismálaláninu skulu nema 80% af kostnaðarverði íbúða. Fjárframlög ríkis og sveitarfélaga til Byggingarsjóðs verkamanna eru mjög aukin.

Af öðrum ákvæðum frv. má nefna hækkun á árlegu framlagi til Byggingarsjóðs ríkisins frá ríkissjóði úr 40 millj. kr. í 75 millj. kr., heimild til lánveitinga til kaupa á eldri íbúðum og niðurfellingu lagaheimildar fyrir ríkisstj. til þess að byggja í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög hagkvæmar og ódýrar íbúðir í fjölbýlishúsum fyrir láglaunafólk í verkalýðsfélögunum. Þessi niðurfelling stendur í beinu sambandi við hið nýja verkamannabústaðakerfi, sem á að koma þar í staðinn og leysa vandkvæði láglaunafólks, enda eðlilegt að fella saman í eitt kerfi alla opinbera aðstoð við íbúðabyggingar handa hinum efnaminni. Undantekning er þó gerð varðandi Breiðholtsframkvæmdirnar í Reykjavík, sem grundvallast á sérstöku samkomulagi við verkalýðshreyfinguna, en heimilt er með samningum að fella þær undir hið nýja verkamannabústaðakerfi.

Mörg önnur mikilvæg nýmæli felast í frv., en ég læt mér nægja að vísa í þeim efnum til ítarlegrar grg., er frv. fylgir.

Við meðferð þessa frv. í hv. Nd. komu fram og voru samþ. margháttaðar brtt. við frv., og vil ég leyfa mér að geta hér þeirra helztu.

Við 1. gr. frv. var gerð breyting. Er hún aðallega fólgin í því, að fjölgað er í húsnæðismálastjórn hinum þingkjörnu fulltrúum úr 5 í 7.

Á 3. gr. voru einnig gerðar allmargar breytingar. Þær felast fyrst og fremst í því, að þar er kveðið allmiklu ítarlegar á um verkefni húsnæðismálastjórnar en gert var upphaflega í frv.

Þá var í Nd. felldur niður 3. tölul. 6. gr. frv., sem tók til ráðstöfunar á fé lífeyrissjóða og hljóðaði þannig: „Lífeyrissjóðir og eftirlaunasjóðir skulu kaupaskuldabréf, sem svarar 1/4 af árlegu ráðstöfunarfé sínu. Með ráðstöfunarfé samkv. þessum tölul. er átt við tekjur af iðgjöldum, framlögum og vöxtum, afborganir af lánum, að frádregnum bótagreiðslum og rekstrarkostnaði.“

Það er þetta ákvæði frv., sem mestri gagnrýni hefur sætt og mestum deilum valdið. Þetta ákvæði frv. var fellt niður í Nd., en í staðinn hafa tekizt samningar við lífeyrissjóðina um að veita allverulegt fjármagn til hins almenna íbúðalánakerfis á yfirstandandi ári, og má auðvitað vænta þess, að það sé undanfari meiri fjárframlaga af hálfu lífeyrissjóðanna til hins almenna húsnæðislánakerfis. Þannig hefur þetta ákvæði í frv., þó að það sé nú fallið brott, vissulega gert sitt gagn.

Þá var í Nd. hækkuð fjárhæðin, sem veita má árlega til kaupa á eldri íbúðum, úr 25 millj. kr. í 50 millj. kr.

Í Nd. var enn fremur gerð sú breyting, að stjórn verkamannabústaða skuli skipa 6 menn í staðinn fyrir 5, og fá sveitarstjórnirnar þennan fulltrúa, sem þarna bætist við.

Þá var einnig í Nd. gerð breyting á reglunum um stærð verkamannabústaða, þ. e. felld niður ákvæðin um herbergjafjöldann, tveggja til fjögurra herbergja, en haldið ákvæðunum um hámarksstærð, 100 fermetra. Enn fremur var tekjumarkinu breytt. Samkv. frv. gátu þeir einir fengið íbúðir í verkamannabústöðum, sem höfðu eigi yfir 200 þús. kr. árstekjur og að auki 20 þús. kr. fyrir hvert barn innan 16 ára á framfæri, en þessar 200 þús. voru hækkaðar í Nd. í 220 þús.

Þá voru einnig gerðar orðalagsbreytingar á 26. gr., fyrst og fremst í þeim tilgangi að undirstrika það, að þessi gr. á ekki einungis að gilda um þá verkamannabústaði, sem byggðir verða eftir hinu nýja kerfi, heldur gildir hún einnig um eldri verkamannabústaði, og þar var verið að samræma þessi sjónarmið með orðalagsbreytingum.

Þá hefur í ákvæðum til bráðabirgða verið sett nýtt ákvæði, sem heimilar byggingarfélögum verkamanna að fela hlutaðeigandi sveitarstjórn hlutverk sitt. Þegar þetta frv. er orðið að lögum og byggingarfélög verkamanna búin að ljúka byggingu þeirra íbúða, sem þau hafa nú í smíðum, þá verður hlutverk þeirra orðið mjög veigalítið og eðlilegt, ef þau vilja alveg losna við það, að þau geti falið það í hendur viðkomandi sveitarstjórnum.

Þá var síðasta lið bráðabirgðaákvæðisins bætt við í Nd., en hann heimilar, að húsnæðismálastjórn veiti viðbótarlán úr Byggingarsjóði ríkisins til efnalítilla meðlima verkalýðsfélaga, allt að 75 þús. kr. á íbúð, og þetta megi veita til ársloka 1970.

Ég tel mig þá hafa drepið á helztu breyt., sem gerðar voru á frv. í Nd.

Heilbr.- og félmn. Ed. hefur fjallað um þetta frv. Satt bezt að segja hefur verið allt of naumur tími til þess að athuga þetta nægjanlega vel. Það bætir þó örlítið úr skák, að n. hélt einn sameiginlegan fund með heilbr.- og félmn. Nd., þegar frv. var til meðferðar í Nd. Niðurstaða heilbr.- og félmn. var sú að mæla með því, að frv. verði samþ. með áorðnum breyt., en tveir nm., hv. 1. þm. Vesturl. og hv. 4. þm. Sunnl., hafa þó áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. við frv. og fylgja brtt., er fram kynnu að koma, og þeir hafa þegar notað sér þann rétt með því að flytja hér brtt. við þetta frv. Einn nm., hv. 4. þm. Norðurl. e., var ekki viðstaddur, þegar málið var afgreitt í nefndinni.