30.04.1970
Neðri deild: 95. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

168. mál, Stofnlánaadeild landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það kom fram í kvöld, að hæstv. landbrh. hrökk illa við, þegar hann sá sína eigin stefnu í landbúnaðarmálum á blaði, og skyldi engan undra. En hann vitnaði í 29. bls. í frv., sem hæstv. dómsmrh. lagði fram hér á þinginu áður, um olíuhreinsunarstöð á Íslandi, en hæstv. landbrh. hefur sennilega ekki kynnt sér frv. nógu vel. Á bls. 21 stendur m. a., með leyfi forseta. Fyrirsögnin er A-spá:

„Tveir helztu þættir þróunarinnar á þessu sviði eru íbúafjöldinn og jarðhitamálin. Samkvæmt spám Efnahagsstofnunarinnar mun íbúum landsins fjölga um 50 þús. á árunum 1968–1980 og verða um 250 þús. árið 1980. Fjöldi bænda mun lækka í 3700 á sama tímabili (sjá línurit 4), þ. e. a. s. um 20 þús. manns munu búa á bændabýlum árið 1980, en 30 þús. árið 1968.“

Það er auðséð, að þetta er ekki ný spá. Þetta er spá frá árinu 1968 og hv. 11. landsk. þm. upplýsti áðan, að talan væri nú komin niður fyrir 5 þús., þannig að þeir eru á undan spánni. Ég gæti auðvitað vitnað hér víðar í þessa skýrslu, til þess að sýna, að þetta er alls ekki nein prentvilla. Þetta er spá, sem kannske hefur átt að geymast í skúffunni, en hefur einhvern veginn farið óvart inn í þetta frv. Það er hægt fyrir hæstv. landbrh. að laga þetta svolítið, ef hann vill.

Við hv. 5. þm. Austf. erum búnir að flytja hér þrjár brtt. Ef samþ. yrðu, þá mundi það stuðla að því, að þessi spá mundi kannske ekki alveg rætast. En ef hæstv. ráðh. verður til þess að fella þessar till., þá er hætt við því, að kannske verði tala bænda á árinu 1980 komin niður fyrir þessa spá, eins og er nú á árinu 1970, miðað við þær upplýsingar, sem hv. 11. landsk. þm. gaf fyrr í dag.

Mér fannst sjálfsagt, að þetta kæmi fram, vegna þess að það er alveg þýðingarlaust fyrir hæstv. ráðh. að halda því fram, að þetta sé prentvilla. Ég gæti lesið þetta víðar, og eins og ég sagði áðan, þá kemur það greinilega fram, hvenær spáin er gerð. Hún er gerð 1968. Og eins og ég sagði hér fyrr í umr., þá er þetta frv. lagt hér fram í nafni ríkisstj. allrar, og þar með getur hæstv. landbrh. ekki skotið sér undan því, að hann er einn af þeim, sem lögðu þetta frv. fram hér á hv. Alþingi.