04.12.1969
Efri deild: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

2. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Aðeins fáein orð. Það má vel vera, að það hafi skolazt lítillega til hjá mér því ég er ekki með handrit og ennfremur ekki með þá nákvæmu skýrslu, sem ég hafði um þessi mál, þegar ég ræddi um brtt., sem ég bar fram við 2. umr. málsins og var felld, en ég vildi með þeim tölum, sem ég nefndi þá, vekja athygli á því, hver dýrleiki væri á þessum íbúðum. Ég fór alls ekki út í það, hvernig húsnæðið lítur út, því ég hef ekki komið þarna upp eftir svo lengi. En það er sjálfsagt að hafa þær tölur, sem réttar eru og það skiptir ekki öllu máli, hvort munar þarna 5 eða 6 fermetrum. Heldur er kostnaðurinn allt of mikill og er okkur öllum kunnugt um það, bæði framsóknarmönnum og öðrum þdm., að hér þarf að ráðast á garðinn og lækka þennan kostnað. Í raun og veru er það höfuðkjarni, þessa máls. Við framsóknarmenn höfum borið fram margar till. í sambandi við lausn á húsnæðismálunum og það verður sannarlega fróðlegt að sjá það, sem kemur frá húsnæðismálastjórn um lausn á þessum mikla vanda, sem við er að glíma. Hitt er allt annað mál, að það dugir náttúrlega ekki að vera hér í hv. deild að stæla um það, hvort íbúðirnar eru nærfellt óíbúðarhæfar eða bara með sæmilegu móti. Ég skil heldur ekki í öðru en við getum fengi nægilega færa menn til að líta á þessar íbúðir og fara þá gagngert í þetta og skoða hvernig ástandið er. Það ættum við þm. einnig að gera. Fara upp í Breiðholtshverfi og ganga úr skugga um það, hvernig þessum málum er varið.