11.12.1969
Neðri deild: 23. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

123. mál, tollskrá o.fl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Eins og kom greinilega fram í þeirri ræðu, sem hæstv. fjmrh. var að ljúka við að flytja, þá er hér um mjög flókið og yfirgripsmikið mál að ræða. Það gefur mér tilefni til þess, áður en ég vík að málinu sjálfu, að minnast nokkrum orðum á fyrirhuguð vinnubrögð hér á Alþ. Það er nú orðið stuttur tími, ekki nema fáir dagar, þangað til jólafríið á að hefjast, en bersýnilegt, að á þeim tíma er ætlazt til, að Alþ. afgreiði mjög mörg stór og veigamikil mál. Þar er í fyrsta lagi um fjárl. að ræða, en eftir er 3. umr. fjárl. og sá undirbúningur, sem þarf að fara fram í fjvn. í sambandi við hana. Mér skilst, að enn sé eftir að athuga og fara yfir annan aðalþátt fjárl., tekjuáætlunina og það er að sjálfsögðu ekki lítið verk.

Í öðru lagi á eftir að fara fram athugun á ýmsum veigamiklum útgjaldaliðum, sem bersýnilega þarf að hækka frá því, sem fjárlagafrv. gerir nú ráð fyrir og nefni ég sérstaklega í því sambandi almannatryggingarnar. Það er alveg augljóst mál, enda var það játað í ræðu hæstv. ráðh. hér áðan, að nú er svo komið með bætur almannatrygginga, að þær eru orðnar óhæfilega lágar og eru orðnar miklu rýrari að kaupmætti heldur en þær voru fyrir tveimur til þremur árum síðan. Það var nýlega upplýst í blaði þess ráðh., sem fer með tryggingamálin, að kaupmáttur ellilífeyris og barnalífeyris hefði lækkað um 11% síðan árið 1967 og raunverulega hefði orðið enn meiri lækkun á fjölskyldubótum, þegar miðað væri við lengri tíma. Af þessu sést, að þennan málaflokk, almannatryggingarnar, þarf að athuga alveg sérstaklega fyrir 3. umr. fjárl. og gera þær leiðréttingar á honum, að þar fáist eðlilegar bætur á. Þegar fjárl. sleppir, er ætlazt til þess, að einnig á þessum fáu dögum, sem eftir eru til jóla, afgreiði þingið EFTA–málið, svo sérlega stórt mál. Ég held, að margir geri það að stærra máli heldur en það raunverulega er. En það er eigi að síður mjög margbrotið mál og þarfnast víðtækrar athugunar og Alþ. hefur raunverulega ekki haft það til meðferðar nema í 4–5 daga, því að það var fyrst í síðustu viku, sem þau gögn voru lögð fram hér á Alþ., sem veittu þm. aðstöðu til þess að átta sig á þessu máli. Og það er ljóst af þeim umr., sem hafa farið fram og líka þeim skýrslum, sem hafa verið lagðar fram, að það er enn þá ótal mörgum spurningum ósvarað í sambandi við það mál, áður en eðlilegt er, að Alþ. taki endanlega afstöðu til þess og þess vegna vildi ég segja, að þetta mál eitt væri ærið verkefni fyrir Alþ. fram að jólum, ásamt því að afgreiða fjárlögin. Og ég vildi raunar segja, að tíminn fram að jólum væri of stuttur til þess að afgreiða EFTA–málið ásamt fjárl.

Við þetta bætist svo, að hér í gær voru til meðferðar tvö frv., sem eru tengd EFTA–málinu og fela í sér mjög veigamikla breytingu á l. um iðjuleyfi og verzlunarleyfi. Þar er m.ö.o. gert ráð fyrir þeirri veigamiklu breytingu, að í sambandi við þær leyfisveitingar verði nú tekið upp eins konar fjárfestingareftirlit. Það er, að annað hvort lögreglustjóri í viðkomandi umdæmi eða ráðh., sem með þessi mál fer, láti fara fram athugun á því, áður en slík leyfi eru veitt, hvort það séu eðlileg starfsskilyrði fyrir nýtt fyrirtæki í viðkomandi atvinnugrein. Hér mun vera höfð til fyrirmyndar löggjöf, sem stjórn Alþfl. í Noregi setti á sínum tíma, til þess að koma í veg fyrir, að óeðlilega mikil fjárfesting ætti sér stað við stofnun nýrra fyrirtækja. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég lýsti hér í umr. í gær, að ég er því sammála, að slík fjárfestingarhöft séu tekin upp í einhverju formi og það sé rétt að hafa hömlur á því, að ekki sé stofnað til nýrra fyrirtækja í atvinnugreinum, þar sem þegar eru nóg fyrirtæki fyrir. En þetta mál er eigi að síður þannig vaxið, að það er eðlilegt, að Alþ. gefi sér nokkurn tíma til að íhuga það. Og ef það á nú að bæta athugun og afgreiðslu þessara mála við störf Alþ. fram að jólum, til viðbótar EFTA–málinu og fjárlagafrv., þá verð ég að segja, að það sé nú komið meira en nóg verkefni fyrir Alþ. á þessum tíma.

Ég vil í framhaldi af þessu segja það, þegar þetta er athugað, að ég álít það með öllu óverjandi af hæstv. ríkisstj. að fara fram á það við Alþ., að til viðbótar áður nefndum málum afgreiði það fyrir jól það stóra og yfirgripsmikla frv., sem hér liggur fyrir, frv. að nýrri tollskrá. Þetta frv. er upp á rúmlega 200 síður og það grípur ákaflega víða inn í, bæði í atvinnurekstur og verzlun og það felur í sér mjög veigamiklar breytingar á tollskránni frá því, sem nú er. Það er að sjálfsögðu ekki hægt fyrir Alþ. að afgreiða mál, svo að nokkurt vit sé í, nema það fái mjög rúman tíma til þess að fjalla um það. Það er ekki nóg í þessu sambandi, að Alþ. geti kvatt á sinn fund eina dagstund þá sérfræðinga, sem að þessu máli hafa unnið, eins og hæstv. ráðh. var að bjóða upp á, heldur þurfa þær nefndir, sem um þetta mál fjalla, að hafa aðstöðu til þess að kveðja á sinn fund ýmsa fulltrúa atvinnuveganna og verzlunarinnar, til að gera sér fulla grein fyrir því, hvort þær breytingar séu réttmætar og eðlilegar, sem hér er verið að gera, og hvort hér sé ekki einhverra lagfæringa þörf frá því, sem frv. gerir ráð fyrir. Mér sýnist líka, að það mæli með því, að Alþ. hafi ekki neitt sérstaklega hraðan á í þessu máli, að ekki er ætlazt til þess, að þessi lög taki gildi fyrr en 1. marz n.k. hvort eð er og þess vegna sé alveg ráðrúm til þess fyrir Alþ. að hafa málið til meðferðar nokkra daga eða vikur eftir að það kemur saman aftur eftir jólafríið og það gæti þá komið saman þeim mun fyrr til þess að ljúka þessari afgreiðslu.

Ég vil vænta þess, að við nánari athugun geri hæstv. ríkisstj. sér grein fyrir því, að hún fer fram á allt of mikið við þingið, ef hún ætlast til þess, að hér verði eðlileg vinnubrögð, vinnubrögð sem Alþ. eru samboðin, að það sé of mikið að ætlast til þess, að nú fyrir jólin afgreiði þingið þetta frv. til viðbótar öðrum stórmálum, sem ég hef minnzt á og gert er ráð fyrir að nái fram að ganga, áður en jólafríið byrjar. Ég tel líka líklegt, að um afgreiðslu þeirra mála, sem ég minntist á áðan, þó að þau séu stór og veigamikil, mundi nást alveg samkomulag um það við stjórnarandstöðuna, að þau næðu fram að ganga fyrir jólafríið, þrátt fyrir það, að það sé kannske ekki eðlilegt í sambandi við þá vinnu, sem Alþ. ætti að leysa af höndum í sambandi við slík mál, þó með því að taka tillit til allra aðstæðna, eins og þær eru nú fyrir hendi. En ég held, að það geti aldrei orðið í góðu samkomulagi við stjórnarandstöðuna og mundi mjög breyta vinnubrögðum hér á þingi þá daga, sem eftir eru fram að jólafríinu, ef stjórnin legði kapp á það og reyndi að knýja það fram, að þetta stóra mál yrði einnig afgreitt fyrir jólin, ásamt þeim málum, sem ég hef hér áður nefnt.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að á seinustu þingum hafa skapazt alveg ný vinnubrögð af hálfu hæstv. ríkisstj. í sambandi við störf Alþ. Ef við lítum til dæmis fram til þeirra ára, sem hin ágæta bók hæstv. forsrh., Deildir Alþingis, fjallar um eða nær til, þá sér maður, að það var yfirleitt háttur ríkisstj. að leggja öll hin veigameiri stjórnarfrv. fram í þingbyrjun, til þess að Alþ. gæfist kostur á að hafa sem rýmstan tíma til þess að íhuga slík mál. Nú er, því miður, sá háttur á hafður í allt of mörgum tilfellum, — þó að það sé ekki alltaf, ég skal taka það fram – að veigamestu stjórnarfrv. koma ekki fram fyrr en eftir dúk og disk og oftast í þann mund, sem verið er að fresta störfum Alþ. fyrir jólin ellegar þegar því er að ljúka á vorin. Þetta þýðir það, að Alþ. getur mjög sjaldan íhugað þessi mál svo sem vera skyldi og því ber, samkv. því, sem stjórnarskráin ætlast til. Ég veit, að hæstv. forsrh. er þetta alveg sérstaklega vel kunnugt, vegna þeirrar miklu athugunar, sem hann gerði á þingsögunni fram að þeim tíma, þegar hans ágæta rit, Deildir Alþingis, kom út.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta öllu sterkari orðum að þessu sinni eða ræða meira um þetta atriði, vegna þess að ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. taki þessi tilmæli til greina. En það yrði líka tækifæri til þess síðar, ef ekki verður á þessi tilmæli fallizt, að ræða þetta atriði nánar.

Ég skal þá víkja nokkrum orðum að því frv., sem hér liggur fyrir, en að sjálfsögðu verður það mjög ófullkomið, sem ég segi um þetta efni, sökum þess, að þetta mál var fyrst lagt fram hér í d. í gær og það er vitanlega enginn tími til þess að íhuga frv., sem er upp á 200 bls. og jafn yfirgripsmikið og þetta er og kemur jafn víða við, svo að vel sé á svo stuttum tíma, svo að það, sem ég minnist á, mun aðeins ná til meginatriða. Aðalefni þessa frv. fjallar um lækkun tolla og það mjög verulega. Ég skal ekki ræða um það á þessu stigi, hve réttmætar eða eðlilegar þessar tollalækkanir eru, en þær eru hins vegar óhjákvæmilegar, vegna þeirrar stefnu ríkisstj., að gera Ísland að aðila í EFTA. En það verður, finnst mér, fyrst og fremst að íhuga í sambandi við þessa tollabreytingu, hvernig tollarnir hafa lagzt á skattþegnana eða þá, sem greiða þá, og með hvaða hætti og hvernig þeim álögum, sem eiga að koma í staðinn, verður háttað. Þeir tollar, sem þetta frv. fjallar um og gert er ráð fyrir að lækki, eru yfirleitt lagðir á dálítið mismunandi, eftir því, um hvaða vörur er að ræða. Tollarnir eru háir á þeim vörum, sem eru taldar miður nauðsynlegar, en aftur lágir á þeim vörum, sem eru taldar nauðsynlegri, þannig að þeim hefur verið hagað með það fyrir augum, að þeir kæmu sem réttilegast við hina almennu neyzlu eða við almenning, ef svo mætti segja, en væru þyngri á þeim, sem hafa efni á því að kaupa sér varning, sem ekki er almennt talinn nauðsynlegur. Þó að enn hafi ekki verið formlega lagt fram frv. um það, hvernig ríkisstj. hyggst afla tekna í staðinn, þá skilst mér á því, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, — eða það mun vera komið fram, þó að það hafi ekki verið komið á borðið áðan, þegar ég kvaddi mér hljóðs, — að í þeirri tekjuöflun, sem ríkisstj. gerir ráð fyrir að komi í staðinn fyrir tollalækkunina, muni gert ráð fyrir hækkun söluskatts, sem leggst nokkurn veginn jafnt á allar vörur. Þessi breyting hefur það í för með sér í reynd, að álögur munu lækka á ýmsum vörum, sem eru taldar miður nauðsynlegar, en hins vegar hækka á vörum, sem hafa verið og eru taldar nauðsynlegar.

Mér finnst, að með þessu sé stefnt í ranga átt og við öflun hinna nýju tekna hefði átt að reyna að fylgja sömu reglu og áður gilti um tollana, þannig að nýju álögurnar legðust tiltölulega þyngst á þær vörur, sem eru taldar miður nauðsynlegar, en léttar á hinar, sem eru nauðsynlegar. Þetta atriði er þannig vaxið að mínum dómi, að það leggur Alþ. alveg sérstaka skyldu á herðar að íhuga þessi mál nánar og hvort það er ekki hægt að finna leið, sem tryggi það, að hinar nýju álögur leggist á með nokkuð svipuðum hætti og tollarnir áður gerðu og hvort það séu ekki til leiðir til að ná samkomulagi milli ríkisstj. og stjórnarandstöðu um slíka tekjuöflun. Ég er ekki tilbúinn að fullyrða um það á þessu stígi, hvaða leiðir væru æskilegastar og beztar í þessu sambandi. Á því atriði þarf einmitt að fara fram ýtarleg athugun. Ég álít, að það væri heppilegast, að hún gæti farið fram með þeim hætti, að það væri um það samvinna á milli ríkisstj. og stjórnarandstöðu, það yrði leitað eftir því, hvort þessir aðilar gætu ekki fundið sameiginlegan grundvöll hvað þetta mál snertir. En að sjálfsögðu verður ekkert tækifæri til þess, ef á að hraða málinu svo mikið, að það nái afgreiðslu fyrir jólin. Og þetta er ein af ástæðunum til þess, að ég tel það eðlilegt, að afgreiðslu þessa máls verði frestað fram að framhaldsþingi og athugað um möguleika á samkomulagi og samstarfi milli ríkisstj. og stjórnarandstöðu um þetta atriði.

Það má vel vera, að það séu ýmsir erfiðleikar á því að hafa söluskatt mismunandi, en það getur verið hægt að hugsa sér þessa framkvæmd með þeim hætti, sem hæstv. ráðh. virðist gera ráð fyrir í sambandi við vissar landbúnaðarvörur, eins og smjör og kjöt, að fleiri neyzluvörur yrðu greiddar niður, þannig að þær þyrftu ekki að hækka, þó að til almennrar söluskattshækkunar kæmi. En ég álít, að þar sé farið inn á mjög athyglisverða braut, og ég vil í því sambandi segja það, að ég mundi telja eðlilegt, að þær niðurgreiðslur, sem eru fyrirhugaðar á smjöri og kjöti, yrðu enn víðtækari, t.d. gengið a.m.k. það langt, að allur söluskatturinn á þessum vörum yrði greiddur niður. Nú er það kunnugt og veldur bændum sérstökum áhyggjum, að mikill samdráttur hefur orðið í kjötsölunni innanlands seinustu misserin, sem er eðlilega vegna þess, að kaupgeta almennings hefur minnkað, en þessar vörur hafa hækkað mjög mikið í verði. Þess vegna gæti það orðið til þess að örva sölu þessara vara, ef niðurgreiðslur kjötvaranna yrðu auknar.

Mér virðist eftir því, sem segir í grg. frv., að þar sé gert ráð fyrir þeirri meginstefnu varðandi verndartollana, að þeir lækki um 30%. Aftur á móti lækki hinir svonefndu efnistollar um 50% og tollar á vélum til iðnaðarins lækki yfirleitt niður í 7%. Það kom fram hér í umr. áður fyrr, að ríkisstj. ætlaði sér ekki að ganga lengra í sambandi við efnistollana, en að lækka þá tiltölulega um sömu upphæð og verndartollana, eða um 30%. Ég sé, að hér hefur verið horfið frá þeirri stefnu og þeir lækkaðir nokkru meira og mér finnst rétt að láta það koma fram, að mér finnst rétt af hæstv. ríkisstj. að hafa gert það. En hins vegar hefði hún átt að mínum dómi að ganga lengra í þessum efnum. Ég hefði talið nauðsynlegt fyrir iðnaðinn, sem á nú að mæta aukinni samkeppni, að efnistollarnir hefðu verið felldir niður að mestu eða öllu. Og ég óttast það, að þegar ekki er lengra gengið í því að lækka efnistollana, heldur en hér er gert ráð fyrir, verði niðurstaðan sú, að með þessum tollabreytingum verði í reynd meiri verðlækkun á innfluttum vörum, en innlendum. Í sambandi við sumar iðngreinar, þá er erlenda efnið, sem þær kaupa eða þurfa til framleiðslunnar, ekki það mikið, að 50% af efnistolli nægi til þess að vega á móti 30% tolllækkun á innfluttri vöru. Ef það verður niðurstaðan, að efnistollarnir og vélatollarnir verði ekki lækkaðir meira heldur en hér er lagt til, þá tel ég, að það sé óhjákvæmilegt að iðnaðurinn fái einhverjar frekari bætur í staðinn, til þess að tryggja það, að hann standi hér nokkurn veginn á ekki lakari grundvelli gagnvart innfluttum vörum, en hann gerði áður. Og þetta væri m.a. hægt að gera og ætti að gera, með því að gera breytingar á skattalögum, sem bættu aðstöðu iðnaðarins frá því, sem nú er.

Ég vil þess vegna beina þeirri fsp. til hæstv. fjmrh., ég get beðið á meðan hæstv. ráðh. þarf að ræða við sína starfsbræður, – ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðh. að því, í framhaldi af því, sem ég sagði um verndartollana og efnistollana, hvort ekki megi vænta breytinga á skattalögum, sem bættu aðstöðu iðnaðarins frá því, sem nú er. Ég hefði talið eðlilegt, að slíkt frv. væri einmitt látið fylgja till. um EFTA–aðild, því mér skilst hálft í hvoru, að iðnaðinum hafi verið gefið fyrirheit um þetta. (Gripið fram í.) Ja, það má vel vera. En þá er gott að fá upplýsingar um það. En það hlýtur mönnum að vera ljóst , að í sambandi við EFTA–aðild og þá lækkun svokallaðra verndartolla, sem verður í sambandi við hana, þarfnast iðnaðurinn margs konar bættrar aðstöðu frá því, sem nú er, ef hann á að standast þá samkeppni, sem af lækkun verndartollanna hlýzt. Og mér finnst nú satt að segja, að fram að þessu hafi komið allt of takmarkaðar upplýsingar um það, hvað ríkisstj. hyggst gera í þeim efnum.

Ég kem þá að þeirri áætlun um tekjurýrnun, sem talið er, að hljótist af breyt. á tollskránni. Það kemur nú ekki í ljós í grg., á hvaða grundvelli þeir útreikningar eru byggðir, fullkomlega, en þó sýnist mér að innflutningsáætlunin, sem fjárl. fyrir 1970 eru byggð á, sé lögð hér til grundvallar. En mér sýnist, að það sé ekkert tillit tekið til þess, að lækkun verndartollanna hlýtur að leiða af sér aukinn innflutning á þeim vörum, sem þessi lækkun nær til. En það held ég að öllum hljóti að vera ljóst, að a.m.k. til að byrja með hlýtur lækkun verndartollanna að hafa þau áhrif að innflutningur eykst á þessum vörum. Og það leiðir að sjálfsögðu til þess, að tolltekjur af þeim aukast og verða jafnvel meiri heldur en nemur þeirri tekjurýrnun, sem hlýzt af tollalækkuninni. Ég held því, að tekjurýrnun ríkisins vegna þeirra tollalækkana, sem felast í þessu frv., verði ekki eins mikil og áætlað er í grg. þessa frv. Og þess vegna þurfi ekki eins mikla hækkun söluskattsins hennar vegna og hæstv. fjmrh. gerir ráð fyrir. Hitt má vel vera og kom reyndar fram í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan, að hann telji sig þurfa á hækkun söluskattsins að halda af öðrum ástæðum, en þessari tollalækkun. Og mér er þess vegna nær að halda, að hin mikla ráðgerða hækkun á söluskattinum, sem mun felast í því frv., sem hefur verið lagt fram í deildinni meðan ég er að halda mína ræðu, sé fyrst og fremst sprottin af öðrum ástæðum heldur en því frv., sem ég er hér að ræða um. En ég er ekki viss um heldur, hvort þar er um eðlilegar forsendur að ræða. Ég held að sú tekjuáætlun, sem er nú í fjárl.–frv., sé lægri heldur en eðlilegt er. Eins og nú horfir með íslenzkt atvinnulíf, þar sem verðlag á útflutningsvörum fer mjög hækkandi og þar sem óhjákvæmilegt verður að telja, að verulegar kauphækkanir verði á næsta ári, þá held ég að veltan í landinu, ef svo mætti segja, hljóti að verða meiri á næsta ári heldur en gert er ráð fyrir í tekjuáætlun fjárl. og þar af leiðandi verði tekjur ríkisins mun meiri heldur en fjárl. gera nú ráð fyrir. Ég sagði það áðan, þegar ég byrjaði að ræða um þetta frv., að það hefði verið takmarkaður tími til þess að undirbúa ræðu um það, svo að fullnægjandi mætti telja, vegna þess hve málið er yfirgripsmikið og stutt síðan málið kom fram og ég mun þess vegna láta þetta nægja nú að sinni. Ég treysti á það, að hæstv. ríkisstj. komi þannig til móts við Alþ. og móts við stjórnarandstöðuna, að hún knýji það ekki fram, að þetta stóra mál verði afgr. fyrir jólafríið ásamt öðrum stórmálum, sem þegar er ákveðið að nái fram að ganga á þeim tíma. En ef hæstv., ríkisstj. ætlar hins vegar að gera alvöru úr þeim, ég vil segja óþinglegu vinnubrögðum, að knýja þetta stórmál fram, eiginlega athugunarlaust af Alþ. hálfu, fyrir jólafríið, þá má hún vænta þess, að það verði einhver önnur vinnubrögð upp tekin í sambandi við málið.