04.05.1970
Efri deild: 92. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (2031)

215. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Vegna þess að þetta frv. er flutt af menntmn. þessarar hv. þd., þá þykir mér hlýða að gera með örfáum orðum grein fyrir þeim breytingum, sem frv. hefur tekið í meðförum Nd.

Í fyrsta lagi hefur það tekið þeirri breytingu, að í 2. mgr. 1. gr., eins og hún var eftir 3. umr. í Ed., á þskj. 732, hefur orðið sú breyting, að þar eru teknar með skemmtanir eftir 3. fl. 2. gr., en í þeim flokki eru dansleikir og aðrar tilgreindar skemmtanir. Sýnist með þessu vera búið að undanþiggja allt skemmtanahald í byggðarlögum með minna en 1500 íbúa skemmtanaskatti.

Þá hefur sú breyting orðið á 3. gr., e-lið, að þar er gerð nánari grein fyrir því, hvað er talin sýning á íslenzkri kvikmynd, þ. e. a. s. ef hún tekur a. m. k. helming venjulegs sýningartíma, þó að með henni kunni svo að vera sýnd erlend mynd.

Á 6. gr. hefur orðið sú breyting í meðförum þessarar hv. þd., að 2. mgr. hefur verið felld niður. Nú hefur sú mgr. verið tekin upp á ný í meðförum Nd. Ég er ekki alveg viss um, að það hafi legið alveg ljóst fyrir mönnum, hvað tilkoma þessarar mgr. hefur að þýða. Það hefði sjálfsagt þurft að athuga það mál nokkru betur, en á því eru að sjálfsögðu engin tök nú, því að öll frestun eða ítarlegri athugun á frv. mundi að öllum líkindum þýða það, að það fengi ekki afgreiðslu á þessu þingi.

Ég sé, að það hefur verið prentuð upp á þskj. 848 8. gr. frv. Ég sé satt að segja ekki hvers vegna. Mér sýnist hún vera alveg shlj. því, sem hún var fyrir þessa umr. í Nd. Þskj. 848, þ. e. a. s. frv., eins og það lá fyrir eftir umr. í Nd., var útbýtt nú rétt áðan, nýr fundur settur að loknum þeim fundi og því hefur þetta frv. ekki hlotið neina athugun menntmn. Komi hins vegar fram sérstök ósk um það, er sjálfsagt að biðja um smáfundarhlé til þess að n. geti þá athugað þessar breytingar. Ég hef ekki borið mig neitt saman við aðra nm., vegna þess að þskj. voru rétt að berast mér í hendur áðan.