28.04.1970
Sameinað þing: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

Almennar stjórnmálaumræður

Björn Jónsson:

Herra forseti. Heiðruðu tilheyrendur. Hin síðari árin hefur stöðugt magnazt óánægja og andúð á því flokkakerfi, sem ríkt hefur nærri að segja óbreytanlegt í landinu í 30 ár. Sterk og sívaxandi gagnrýni flestra þeirra, sem standa utan innsta hrings valdahópanna í flokkunum eða þeirra hópa, sem sækja persónulega hagsmuni til þjónustu við þá, hefur brotizt út með margvíslegum hætti. Kröfurnar um breytta starfsháttu flokkanna, fráhvarf frá alvöldu klíkuvaldi flokksforingja, aukið lýðræði innan þeirra, opnari starfsemi, opnun möguleika fyrir áhrifum óbreyttra liðsmanna á stefnumótun og val forystumanna, hafa risið æ hærra. Fleirum og fleirum er að verða ljóst, að samfara einræði fámennra valdahópa innan flokkanna hefur skapazt í milli þeirra óskráð, en augljóst samkomulag um varanlegt jafnvægi á öllum mikilvægum sviðum stjórnmálalegra valda, samábyrgð á stjórn og skipulagi peningamála og fjármála á fjölmörgum öðrum sviðum. Þjóðfélaginu hefur verið skipt í nær fastmótuð áhrifasvið flokkanna, sem hver fyrir sig unir í reynd eftir atvikum vel og hefur uppi sýndarmennsku eina til að breyta. Helmingaskiptastefnan illræmda frá samstjórnarárum Sjálfstfl. og Framsfl., sem enn er að vísu í fullu gildi, þegar svo ber undir og ný og gömul dæmi sanna, hefur verið útvíkkuð og Alþfl. og Alþb. hefur verið úthlutað sínum valdaskikum, Alþfl. að vísu sýnu stærri hlut vegna stjórnarsamvinnunnar, en Alþb. þeim mun smærri sem það, miðað við sitt sívaxandi fylgi, en vonlausar framtíðarhorfur, sættir sig eftir atvikum við. En sá, sem valdið hefur, skammtar og situr yfir ljónshlutnum, er Sjálfstfl. eða öllu heldur sá örfámenni valdahópur, sem þar ræður lögum og lofum. Með þeirri gömlu og nýju stjórnlist að deila og drottna og skammta hefur honum tekizt þrátt fyrir algert minnihlutafylgi meðal þjóðarinnar að halda hinum raunverulegu völdum á Íslandi nær óslitið frá stofnun lýðveldisins og nú alfarið í röskan tug ára.

Þegar til þessa er litið, getur það ekki verið neitt undrunarefni, heldur rakin afleiðing þjóðfélagslegra forsendna, að allir þeir, sem ekki vilja una slíku flokkakerfi, sem hér hefur ríkt, og því úrslitavaldi íhaldsaflanna, sem því hefur stýrt, freisti þess að ráðast að því sameiginlega vígi flokksræðisins, sem þetta kerfi hefur skapað, og það því fremur sem það hefur leitt til þess, að sá skoðanahópur, sem í raun er e. t. v. sá stærsti meðal þjóðarinnar, róttækir lýðræðisjafnaðarmenn á norræna vísu, hefur ekki um langa hríð átt sér neitt sameiginlegt stjórnmálalegt athvarf, heldur hefur neyðzt til að sundra atkv. sínum kosningar eftir kosningar á alla hina svokölluðu vinstri flokka og þannig orðið harla lítils megandi sem stjórnmálalegt áhrifavald. Rúm raunverulegs jafnaðarmannaflokks hefur staðið hér autt, og það er sú staðreynd öllu öðru fremur, sem skilið hefur þjóðfélagsþróunina hér á landi frá þeirri, sem orðið hefur öðrum Norðurlöndum svo happadrjúg, að til þeirra er jafnan vitnað, þegar rætt er um velferðarþjóðfélög, sem flestum eða öllum séu til fyrirmyndar og eftirbreytni.

Að ýmsum mikilsverðum atriðum, sem þetta varða, munum við talsmenn hins nýja stjórnmálaflokks, Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, víkja nánar síðar í þessum umr. og gera þeim frekari skil, en nú við upphaf þeirra skal það þegar vera ljóst, hver okkar meginmarkmið eru.

1) Að fella núverandi ríkisstj. og fá endi bundinn á þá óstjórn, vanstjórn og spillingu, sem ríkt hefur undir hennar forystu síðustu 11 árin, og verða það úrslitaafl, sem vonir gefur um að hér verði mynduð umbótasinnuð róttæk ríkisstj., er reynist fær um að tryggja þjóðinni nýja framfarasókn, batnandi lífskjör, félagslegt öryggi og blómlegt menningarlíf, sem öll efni standa til að hér sé unnt að skapa, ef atorku þjóðarinnar er ekki haldið niðri af fargi úrelts flokkakerfis og samábyrgðar þess.

2) Að neyta alls þess valds og áhrifa, sem þjóðin vill veita okkur, til þess að sá draumur rætist, að hér myndist sem fyrst sameiginlegur flokkur jafnaðar- og samvinnumanna, sem á skömmum tíma gæti orðið voldugasta stjórnmálaaflið með þjóðinni og veitt henni forystu með svipuðum hætti og heilladrýgst hefur reynzt annars staðar á Norðurlöndum. Til þess að ná því marki munum við einskis láta ófreistað og enga persónulega eða flokkslega fordóma láta standa þar í vegi.

Þessi tvö meginmarkmið eru og verða leiðarljós flokks okkar og við þau er öll stefna okkar, eins og hún hefur verið mótuð með víðtækri þátttöku flokksmanna og síðar einróma samþykktum og ályktunum á stofnþingi; miðuð. En þá kunna menn að spyrja: Eru nokkur líkindi til þess, að nýjum flokki takist að valda þessu verkefni? Sýnist það ekki með öllu vonlaust verk að ráðast til atlögu við flokkakerfið, sem hefur hreiðrað svo um sig í fjármálakerfinu, í stjórn fjölmiðlunartækja þjóðarinnar, í atvinnulífinu, í flestum valdastofnunum þjóðfélagsins, að þeir telja sig nánast eiga, hver fyrir sig, sinn ákveðna hlut í kjósendafylginu og geti gengið að honum vísum í hverjum kosningum? Auðvitað treysta þeir svo vel á hina alkunnu flokkstryggð, sem því miður hefur oft reynzt raunverulegri sannfæringu yfirsterkari, þegar komið er að kjörborðinu.

Það skal játað, að það er ekki á mínu færi að fullsvara þessum eðlilegu spurningum. Það er á engra annarra færi en þeirra röskra hundrað þúsunda Íslendinga, sem ganga að kjörborðinu í borgar- og bæjarstjórnarkosningum í vor eða í síðasta lagi til alþingiskosninga að ári liðnu. Á hinn bóginn er það ljóst og hefur sannazt við allan undirbúning og framkvæmd flokksstofnunar okkar, að greinilegar blikur eru á lofti, sem boða uppgjör ótrúlega margra við hvort tveggja í senn, stjórnarfar og stjórnarstefnu síðasta áratugs og jafnframt við það flokkakerfi, sem hefur reynzt ófært um að breyta þar nokkru, sem sköpum skiptir, til betri vegar. Hitt er líka ljóst, að allir gömlu flokkarnir skjálfa af hræðslu við að þetta uppgjör, sem nú fer fram í hugum manna, leiti þeirrar einu útrásar, sem því er nú mögulegt, í ótvíræðu og miklu fylgi frjálslyndra og vinstri manna. Þrátt fyrir alla flokkstryggðina hefur það líka sannazt með eftirminnilegum hætti síðustu árin, að kjósendur geta tekið til sinna ráða ef þeim býður svo við að horfa. Flokksræðið er að vísu sterkt, en almáttugt er það ekki.

Hér verður fáu einu til skila haldið af því, sem máli skiptir við þau reikningsskil, sem nú er orðin þjóðarnauðsyn að fari fram við gömlu flokkana og valdhafana, sem formlegu ábyrgðina bera. Í huga okkar flokksmanna hlýtur þar að bera einna hæst öll viðskipti og viðskilnað flokkanna við launastéttirnar, fyrst og fremst við stéttir erfiðismanna á sjó og landi, allra hinna mörgu dugandi þegna, sem með hörðum höndum skapa þjóðinni tilverugrundvöll og lífsmöguleika, en einnig við aðrar launastéttir og þá alveg sérstaklega vísindamenn okkar, sem í stöðugt vaxandi mæli þurfa að vera beinir þátttakendur í atvinnu- og efnahagslífinu og standa í sem traustustum tengslum við framleiðslustéttirnar. Eftir eigin uppgjöri á kjaraþróun vinnustéttanna á viðreisnarárunum, frá 1960 og til þessa dags, standa leikar nú svo, að almennt neyzluvöruverðlag hefur rétt um það bil þrefaldazt, þ. e. a. s. verðbólguvöxtur orðið nálægt 20% á ári að meðaltali, sem mun vera nálægt heimsmeti, ef frá eru skilin ríki Suður-Ameríku. Á hinn bóginn hefur kaup verkamanna hækkað verulega minna á sama tímabili og hvergi nærri haldið í við óðaverðbólguna, einkanlega þegar þess er gætt, að þær neyzluvörur, sem hinir lægst launuðu kaupa og neyta hlutfallslega meira en aðrir, hafa jafnvel áttfaldazt meðan meðalhækkanir hafa þó haldizt innan þreföldunarmarkanna enn sem komið er. Töflur og tölur segja því hér ekki alla sögu, þótt til leiðbeiningar geti verið. Síðustu tvö árin hefur steininn tekið úr í þessum efnum, er kjör verkafólks hafa fyrir beinan tilverknað stjórnvalda verið rýrð um 20–25%, að mati verkalýðssamtakanna. Þessi þróun mála er afsökuð með því, að á árunum 1967 og 1968 hafi skollið yfir stórfelldur aflabrestur á síldveiðum og einnig verulegt verðfall útflutningsafurða, sem samanlagt hafi rýrt þjóðartekjur um nærfellt 16% á þessum tveimur árum. Samt verður sú staðreynd ekki umdeild, að þessi áfallaár, ef miðað er við hin einstæðu góðæri 1965 og 1966, skiluðu útflutningsverðmæti, sem árið 1967 nam 36.8% meira en árið 1961, þ. e. a. s. á öðru viðreisnarárinu, og árið 1968 21.8% meira en á því sama ári, og á kjaraskerðingarárinu mikla, 1969, varð útflutningsverðmætið 59.6 — nærri 60% meira en 1961, og hafði þá vaxið á einu ári um nær þriðjung eða um 31%. Við þetta má svo enn bæta, að fiskverð fer stórhækkandi á þessu ári, m. a. á Bandaríkjamarkaði, þar sem verðið er nú um 50% hærra miðað við fast gengi en það var árið 1966 eða 1967, þegar það komst einna lægst og því hátt í þrefalt að íslenzkri krónutölu vegna gengisfellingarinnar, sem þá var, — enda eru íslenzku söluhringarnir nú svo bjartsýnir á afkomu sína og gróða, að þeir hafa á prjónunum gífurlega fjárfestingu í fiskverksmiðjum í Bandaríkjunum. Á sama tíma búa íslenzkir launþegar við launakjör, sem versna með hverri viku, og eru alvarlega og sterklega aðvaraðir um að fara með gát í því reikningsuppgjöri sínu við atvinnurekendur, sem nú stendur fyrir dyrum.

Kjaraþróun síðasta áratugs á sér, að því er ég bezt veit, enga hliðstæðu meðal nokkurra velferðarríkja Vestur-Evrópu og þó allra sízt meðal bræðraþjóða okkar á Norðurlöndum, þar sem sterkir sósíalistískir flokkar og öflug verkalýðshreyfing ýmist ráða ferðinni eða veita borgaraflokkum í stjórnarforystu það aðhald sem dugar. Þar eru árvissar kjarabætur taldar álíka sjálfsagðar og kjaraskerðingar hér og hefur svo raunar verið nú um aldarfjórðungs skeið, eða allt frá stríðslokum. En hjá okkur má líka vissulega rekja söguna aftur í þann tíma og er þar skemmst frá að segja, að hún er næsta keimlík þeirri, sem sögð verður á síðasta áratug. Engum umtalsverðum lífskjarabótum, a. m. k. sem laun varða, sem enzt hafa til langframa, hefur verið komið fram allan þennan langa valdaferil ríkjandi flokkakerfis, og hefur þar ekki ýkjamiklu skipt hver hlutverkaskipting flokkanna er hverju sinni. Flokkakerfi undir forystu Sjálfstfl. hefur alltaf ráðið ferðinni er til lengdar lét.

Sjálfir eru þeir greinilega ánægðir með árangurinn. Í höfuðmálgagni ríkisstj. gat m. a. að líta þau ummæli fyrir skömmu, að frábærlega vel hafi tekizt að ráða fram úr þeim gífurlegu vandamálum, sem að steðjuðu: annars vegar var vel stjórnað og réttar ákvarðanir teknar á hverjum tíma, og hins vegar sætti alþýða manna sig við skert kjör til þess að búa í haginn fyrir framtíðina. Og enn segir þar, að það sé því sannarlega ástæða til þess, að íslenzka þjóðin sé nú bjartsýn, þegar lífskjör fara batnandi á ný, þótt auðvitað verði að fara að öllu með gát til að fórna ekki því, sem áunnizt hefur. Þetta er dómur stjórnarflokkanna sjálfra um eigin verk og þarf naumast mörgum orðum um hann að fara.

Það er eitt atriði, sem ástæða er til að leiðrétta, — hitt er aðeins lýsing á því í hve óraunverulegum hugarheimi stjórnarherrarnir lifa, er þeir halda að nokkur maður taki mark á sjálfshælni þeirra, — og leiðréttingin er þessi: Hvorki alþýða manna né verkalýðshreyfingin sættir sig við kauplækkunarsamningana frá í fyrra. Þeir voru nauðungarsamningar, knúðir fram af atvinnurekendum og ríkisvaldi með svipu atvinnuleysisins, sem þá lamaði varnarmátt verkalýðsfélaganna og möguleika þeirra til að beita samtakamætti sínum. Áðan heyrðum við dóm stjórnarherranna. En hver er hinn dómurinn hlustandi góður? Ég veit ekki hvort þú ert verkamaður, sem verður að framfleyta fjölskyldu þinni á 3000 kr. vikukaupi eða á atvinnuleysisbótum, sjómaður, sem nú stendur í aðgerð á þilfari og minnist þess, að um þriðjungi verðmæta þinna var rænt af þér í kjölfar gengisfellingarinnar síðustu, eða hvort þú ert láglaunamaður í verzlunarstétt eða þjónustu ríkisins. Kannske ert þú húsmóðir og þarft að láta laun einhverra þessara manna endast fyrir matföngum, fatnaði á fjölskylduna, húsnæðiskostnaði, hitunarkostnaði og hvers konar sköttum og gjöldum, sem hverju heimili eru óhjákvæmileg, og stendur frammi fyrir því óleysanlega reikningsdæmi, hvernig takast megi að ná endum tekna og útgjalda saman. Fyrir þína hönd ætla ég nú að biðja hæstv. ráðh., Gylfa Þ. Gíslason, sem vafalaust talar hér á eftir, að tylla sér hjá þér í anda við eldhúsborðið, eins og hann var svo lítillátur að gera hér um árið, og reikna skilmerkilega fyrir þér dæmið, sem þú hefur enga möguleika á að láta ganga upp, þótt lífshamingja þín liggi við. En við ykkur öll vil ég segja: Eruð þið jafnánægð og ríkisstj. og jafnbjartsýn á áframhaldandi forsjá hennar? Og í annan stað: Hvað skuldið þið því flokkakerfi, sem mótað hefur öllu öðru fremur þau lífskjör, sem ykkur eru búin? Er sú þakkarskuld slík, að þið ætlið enn að henda atkv. ykkar á gömlu flokkana og tryggja áframhaldandi valdajafnvægi þeirra og hindra þar með, að nokkrar þær grundvallarbreytingar verði á meðferð íslenzkra efnahagsmála, sem gefa þér nokkra ástæðu til varanlegrar bjartsýni um afkomuöryggi og betri lífskjör? Viljið þið óbreytt ástand, óbreytt flokkakerfi, óbreytt launakjör?

Ríkisstj. og talsmenn hennar guma nú, er kosningar nálgast, mjög af því að nú sé bjart framundan vegna þess að vel hafi verið stjórnað og réttar ákvarðanir teknar á hverjum tíma, eins og þeir orða það, og því er ekki að leyna, að á næstunni verður lögð áherzla á að framkvæma ýmislegt hrafl af því, sem vanrækt hefur verið, og reynt með því að endurvekja glatað traust, eins og t. d. með því að kaupa sex togara í stað þeirra 20 eða 30, sem ýmist eru farnir í brotajárn eða fara þangað næstu 2–3 árin. En engum dylst þó, að undir yfirborðinu gróa enn og þróast allar þær meinsemdir, sem hrjáð hafa þjóðina á viðreisnartímanum. Ríkisbáknið heimtir nú til sín á níunda milljarð í sköttum og hvers konar gjöldum. Sú upphæð hefur nær tífaldazt meðan laun hafa þrefaldazt í bezta falli. Á þessu ári hefur verið bætt við þessa summu á annan milljarð króna. Á sama tíma verða skattar allra gróðafélaga, sem nema þó aðeins 1½% af heildarskattheimtu ríkisins, lækkaðir stórlega með nær einróma samþykki allra flokka nema okkar flokks. En söluskattur verður hins vegar hækkaður um 1000 millj. kr. Skuldasöfnun við útlönd vex óðfluga og árvisst og afborganir af þeim skuldum gleypa nú 1/4 til 1/5 hluta af verðmæti vöruútflutningsins. Í æ ríkari mæli er gefizt upp við að fjármagna óarðbærar en óhjákvæmilegar framkvæmdir með samtímatekjum, en ekki látið sitja við að takmarka þær byrðar, sem skuldunum fylgja, við gjaldeyris- og framleiðsluaukandi framkvæmdir, svo sem vera bæri. Þannig eru þyngdar byrðarnar á vinnustéttirnar, ekki aðeins í nútíð, heldur og um langa framtíð. Algert stjórnleysi í allri meðferð fjárfestingar- og lánamála hefur verið slíkt, að helzt má flokka undir fjárhættuspil, sem geta gefið tímabundinn vinning, þegar heppnin hefur verið með, en alltaf ótryggan hagnað og hreint tap fyrir þjóðina í heild, þegar til lengdar lætur.

Þessar eru m. a. skýringarnar á því, hve hlutur launamanna er og hefur verið svívirðilega smár og hve barátta verkalýðshreyfingarinnar hefur skilað óhugnanlega litlum árangri, þegar til lengdar hefur látið. En til þess eru engar líkur, að hér verði nein umskipti, nema síður væri, nema til komi gerbreyting á stjórnarfari, stjórnarstefnu og stjórnsýslu, umbylting hagkerfisins í þá átt, sem flokkur okkar hefur skilgreint í heild og einstökum atriðum skilmerkilega í stefnuskrá sinni, sem ég vil skora á menn að gaumgæfa fordómalaust og dæma síðan.

Þeir, sem nú eru haldnir óttablöndnustum kvíða við það uppgjör við gamla flokkakerfið, sem nú fer fram í hugum manna, segja, að við séum klofningsflokkur, sundrungarafl, jafnvel leiguþý stjórnarflokkanna. Í þeim talkór hefur Alþb. látið hæst, foringjar Þjóðviljaklíkunnar, þeir hinir sömu sem sögðust ætla að sameina alla íslenzka vinstri menn í Sameiningarflokki alþýðu 1938 og aftur í kosningasamtökum Alþb. 1956. Reyndust þeir ekki í bæði skiptin frábærir sameiningarmenn? Eða finnst mönnum kannske að saga þeirra sem sameiningarmanna sé orðin nógu löng, eða hvern mundi nú fýsa að gera þriðju tilraunina til sameiningar undir þeirra forystu, þegar svo er komið, að þeir hafa barið saman leifarnar af gamla Sósíalistaflokknum og standa með þær einar uppi? Á hinu leitinu stendur svo Alþfl., sem hefur fyrirgert öllum siðferðilegum rétti til að bera sér í munn orðið jafnaðarstefna eftir ellefu ára þjónustu við Sjálfstfl., þar sem engu stefnumáli jafnaðarmannaflokks hefur verið fram komið. Það eru þessir flokkar, sem hvor fyrir sig og báðir sameiginlega bera alla ábyrgð á sundrungu íslenzkra jafnaðarmanna og íslenzkra vinstri manna, ásamt Framsfl., og halda þar hver sínu striki, þrátt fyrir það að allur meginþorri fyrrverandi fylgjenda þeirra eru heiðarlegir jafnaðar- og samvinnumenn, sem flest eiga sameiginlegt, en fátt ágreiningsefna annað en forystu, sem vitandi vits heldur við sundrunginni og heldur dauðahaldi í flokkakerfið, sem höfuðandstæðingurinn hefur skapað og stjórnað og þessir flokkar telja nú nánast heilagt og eilíft.

Liggur þá ekki spurningin um sameiningu jafnaðar- og samvinnumanna nokkuð ljós fyrir? Annars vegar hafa átzt við í þjóðfélaginu ríkisstjórnarflokkarnir, sem haldið hafa svo á flestum málum þjóðarinnar, að þeir menn eru vandfundnir, sem ráðslagi þeirra mæla bót. Hins vegar Alþb. og Framsfl., svo alls vesælir, að öllum er ljóst og líka þeim sjálfum, að þeir hafa enga möguleika á að fella þessa stjórnarsamvinnu, og þó stórum minni nú en í þremur eða fjórum misheppnuðum fyrri tilraunum í alþingiskosningum allt fram til 1959. Er ekki svo augljóst sem verða má, að öll von íslenzkrar alþýðustéttar, íslenzkra jafnaðarmanna, íslenzkra samvinnumanna er í því fólgin að veita Samtökum frjálslyndra og vinstri manna það brautargengi, sem til þarf, svo þau verði þess megnug að fella ríkisstj., rífa Alþfl. úr kyrkingarfaðmlögum Sjálfstfl., þrýsta Framsfl. til róttækrar vinstri stefnu, bjarga þeim lýðræðisjafnaðarmönnum, sem fylgt hafa hinu hrynjandi Alþb., og sameina öll þessi öfl í eina fylkingu undir merkjum jafnaðarstefnu, samvinnuhugsjónar og frjálshyggju?