28.04.1970
Sameinað þing: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

Almennar stjórnmálaumræður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Áformað er, að Alþingi ljúki störfum eftir nokkra daga. Nú hafa því allar meiri háttar till. ríkisstj. komið fram á þessu þingi og afstaða hennar til þeirra vandamála, sem við er að fást, liggur fyrir. Það er ekki ófróðlegt að virða fyrir sér starfshætti ríkisstj., eins og þeir birtast hér á Alþ., í ýmsum málum og bera þá saman við það, hvað gert er í þeim stórmálum, sem þjóðina varða mestu. Hver man ekki allan þann bægslagang, sem gekk á í vetur út af Kvennaskólamálinu svonefnda? Það var eins og öll velferð í skólamálum væri við það bundin að veita Kvennaskólanum í Reykjavík réttindi til að útskrifa stúdenta. Allir þm. Sjálfstfl. í Nd. Alþ. urðu að fylgja frv., sumir þó greinilega nauðugir. Flestir þm. Framsóknar dönsuðu einnig með og héldu, að þeir gætu unnið einhver atkv. með stuðningi við málið. Og auðvitað var Hannibal harðastur allra og krafðist þriðja menntaskólans í Reykjavík, við Tjörnina, auk annarra þriggja skóla í Reykjavík, sem réttindi hafa til að útskrifa stúdenta. Þannig áttu stúdentaskólarnir í Reykjavík að vera sex. Ríkisstj. og stuðningsmenn hennar í þessu máli tóku ekkert tillit til afstöðu þekktustu skólamanna í landinu, sem lögðust gegn samþykki frv. Málið var rekið í gegnum Nd. Alþ. af miklum ákafa. Síðan hefur málið legið í Ed., þar til nú fyrir fáum dögum. En þá bregður svo við, að einn ráðh., Magnús Jónsson fjmrh., snýst gegn frv. og eina konan á Alþ., Auður Auðuns, snýst einnig gegn því og reyndar fleiri sjálfstæðismenn, og í gær var frv. fellt í Ed. Alþ. og er nú úr sögunni.

Eftir gauraganginn, sem fylgdi Kvennaskólamálinu kom svo hið fræga verðgæzlufrv. ríkisstj. Samkv. því átti í rauninni að leggja niður allt verðlagseftirlit í landinu og afnema allar hömlur á álagningu. En í staðinn átti að hafa eftirlit með auðhringamyndun í landinu. Fyrir málinu talaði Gylfi Þ. Gíslason viðskmrh. og taldi, að hér væri á ferðinni eitt merkilegasta framfaramál, sem lagt hefði verið fyrir Alþ. Ljóst var, að þetta mál var mál Sjálfstfl. og kaupmannasamtakanna í landinu. En svo gerist það, að einn af ráðh., sem staðið hafði að flutningi frv., snýst á sveif með stjórnarandstöðunni og fellir frv. Þó að hér hafi verið um stórmál að ræða, mál, sem Sjálfstfl. hafði opinberlega lofað kaupmannasamtökunum í landinu að gera allt sitt til að koma fram, þá sögðu ráðh. flokksins, strax og málið hafði verið fellt, að það gerði ekkert til, þó að svona hefði farið. Samstarfið í ríkisstj. væri jafngott eftir sem áður og mundi halda áfram. Viðskmrh. Gylfi Þ. Gíslason sagði, að í þessu máli hefði afturhaldið sigrað, og átti þar sérstaklega við Eggert G. Þorsteinsson, sem ásamt öðrum felldi þetta frv. Slíku tali formanns Alþfl. svaraði síðan Benedikt Gröndal daginn eftir í Alþýðublaðinu og sagði, að frv. hefði verið ómengað heildsalafrv., sem stefnt hefði að því að láta almenning borga hærra vöruverð.

Síðasta dæmið, sem ég skal nefna um þessi merkilegu viðreisnarvinnubrögð á Alþ., er svo frv. ríkisstj. um húsnæðismál. Aðalefni frv. er að skylda alla lífeyrissjóði í landinu til að leggja fram 1/4 af ráðstöfunarfé sínu til byggingarsjóðs ríkisins. Strax og frv. kom fram, snerust aðalblöð Sjálfstfl. gegn ákvæðum þessa stjfrv. og fljótlega mótmæltu svo að segja allir forsvarsmenn lífeyrissjóðanna í landinu frv. Frv. þetta hafði þó verið undirbúið í nokkur ár, fyrst af húsnæðismálastjórn, síðan af sérstakri undirnefnd og svo af flokkanefnd stjórnarflokkanna, en nú er allt í óvissu um afgreiðslu þessa stjfrv. Þingið bíður, enginn veit, hvað á að gera við gripinn, og allar líkur eru til þess, að frv. verði látið liggja. Þannig birtist ráðleysi ríkisstj. og hringlandaháttur í hverju málinu af öðru hér á Alþingi.

Hver er svo stefna ríkisstj. í þeim stórmálum, sem mestu varða? Eftir ½ mánuð renna út nær allir kjarasamningar verkafólks í landinu. Hvað gerist þá? Taka þá við verkföll og framleiðslustöðvanir eða verður samið um hækkun launa? Hver er afstaða ríkisstj. til þessara mála? Hvaða stefnu hefur hún markað til að greiða fyrir samningum? Eða hefur hún kannske enga stefnu, en lætur bara reka á reiðanum þangað til allt er komið í harðan hnút?

Eins og öllum er kunnugt, hefur orðið gífurleg breyting í kaupgjalds- og kjaramálum undanfarin 2–3 ár. Árin 1967 og 1968 minnkaði síldaraflinn verulega og um leið féll verð á ýmsum þýðingarmiklum útflutningsvörum landsmanna. Þeir erfiðleikar, sem þessu fylgdu, bitnuðu auðvitað strax á vinnandi fólki í landinu, eins og jafnan þegar slík áföll verða. Kaup sjómanna, sem miðað er við aflahlut, minnkaði að sjálfsögðu með minni fiskafla og lækkandi fiskverði. Atvinna verkafólks, sem vann við aflann í landi, minnkaði einnig og yfirvinna og aukagreiðslur hurfu að mestu úr sögunni. En til viðbótar við þessi áföll, sem dundu á sjómönnum og verkafólki, knúði ríkisstj. fram breytt hlutaskipti sjómönnum í óhag, lagði á nýjar, stórfelldar álögur og felldi gengi krónunnar tvívegis. Vísitölubætur á laun voru ýmist felldar niður eða takmarkaðar verulega. Afleiðingarnar af þessari stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum, frá haustinu 1967 til þessa dags, hafa orðið þær, að kaupmáttur launa hefur minnkað gífurlega. Staðreyndin, sem launafólk í landinu stendur frammi fyrir í dag, er sú, að kaupmáttur launa hefur minnkað gífurlega. Staðreyndin, sem launafólk í landinu stendur frammi fyrir í dag, er sú, að kaupmáttur umsamins kaups er nú 16–30% minni en hann var haustið 1967. Hin raunverulega kjaraskerðing er þó meiri hjá flestum launamönnum, vegna þess að vinna hefur minnkað, yfirvinna er minni og ýmsir hafa hreinlega orðið atvinnulausir.

Ríkisstj. hefur reynt að afsaka þetta mikla kauprán með því, að ytri erfiðleikar, sem skullu á þjóðarbúinu, hafi gert þessar ráðstafanir nauðsynlegar. Sú afsökun fær ekki staðizt. Byrðarnar voru allar lagðar á launafólk. Á sama tíma og launin voru lækkuð, hækkuðu útgjöld ríkisins, án þess að um auknar verklegar framkvæmdir væri að ræða. Ríkiseyðslan jókst, milliliðirnir í landinu voru ekki látnir leggja fram einn einasta eyri, til þess að mæta erfiðleikunum. Verzlunin lagði ekkert fram, bankar lögðu ekkert fram, vátryggingarfélög lögðu ekkert fram, kaupsýslumenn ekkert og eignamenn í landinu ekkert. Þessir aðilar héldu áfram að græða og sumir þeirra græddu meira en nokkru sinni.

En nú hafa aftur orðið miklar breytingar í efnahagsmálum, allt vegna hagstæðra áhrifa erlendis frá. Árið 1969 jókst fiskaflinn um 11% að magni og verðmæti útflutningsins hækkaði um 24%. Gjaldeyrissjóður Seðlabankans jókst um 1800 millj. kr. og innistæðuaukning í bönkum varð yfir 2000 millj. kr. Verðlag á útflutningsvörum fór stórhækkandi og sala afurðanna gekk mjög vel. Og í ár hafa ytri skilyrði í efnahagskerfinu enn stórbatnað. Fiskaflinn hefur aukizt mikið frá því, sem áður var, og verð á öllum helztu útflutningsvörum þjóðarinnar er nú eins hátt og hærra en það hefur hæst orðið áður. Batinn í efnahagskerfinu, sem orðið hefur á s. l. ári og á þessu ári, stendur ekki í neinu sambandi við efnahagsstefnu ríkisstj. Hér er um að ræða afleiðingar af stórhækkuðu markaðsverði erlendis og af því, að fiskiskipaflotanum hefur nú verið snúið að öðrum veiðum en síldveiðum. Undirstaðan að þessari velgengni eru gjöful fiskimið, harðduglegir sjómenn og verkafólk, sem leggur nótt við dag til að koma aflanum í verð á meðan aflahrotan gengur yfir. Það er broslegt að heyra ráðh. og efnahagssérfræðinga þeirra hæla sér af batanum í efnahagskerfinu, því auðvitað vita allir, að ef minna hefði fiskazt og verðið erlendis hefði ekki hækkað, þá sæti hér allt fast í samdráttarpólitík ríkisstj. EFTA-stefnan hefur engu bjargað og kísilgúr og alúmín skipta sáralitlu í framleiðslu þjóðarinnar.

Hinar breyttu aðstæður í efnahagsmálum styðja að sjálfsögðu kröfur launafólks um hækkað kaup. Launin voru lækkuð vegna ytri erfiðleika, að sagt var, því hljóta þau nú að eiga að hækka og það mikið vegna sérstaklega hagstæðra ytri skilyrða.

En hver er þá afstaða ríkisstj. til málefna launafólks nú? Nokkur þýðingarmikil mál, sem varða hagsmuni launafólks, hafa legið fyrir þinginu. Eitt þeirra er um breytingar á skattalöggjöfinni. Sú staðreynd liggur fyrir, að á undanförnum 10 árum hefur tekju- og eignarskattur einstaklinga til ríkisins hækkað úr um 70 millj. kr. á ári í um 700 millj. kr. á ári. Þessir skattar hafa hækkað sérstaklega á síðustu árum, þó að verðgildi tekna hafi þá einkum farið lækkandi. Skattar fyrirtækja og atvinnurekenda hafa hins vegar verið nær óbreyttir að upphæð í 10 ár, og eru nú aðeins um 80 millj. kr. á öllu landinu. Ríkisstj. leggur nú til, að skattar fyrirtækja og atvinnurekenda verði lækkaðir, m. a. með auknum afskriftum, t. d. á verzlunar- og skrifstofuhúsnæði. Hún leggst hins vegar gegn því, að nokkur lækkun verði samþ. á sköttum almennings, og afskriftir mega ekki hækka af íbúðarhúsnæði, eins og t. d. af verzlunarhúsnæði. Nýlega felldi allt stjórnarliðið á Alþ. till. frá okkur Alþb.-mönnum um hækkun á persónufrádrætti til skatts. En sá frádráttur hefur ekki hækkað á undanförnum árum nema að litlu leyti, samanborið við hækkandi verðlag. Þessi afstaða ríkisstj. sýnir vel hug hennar til launafólks.

Fyrir þessu þingi var frv. frá ríkisstj. um að ellilaun og hliðstæðar tryggingabætur skyldu hækkuð um 5.2%.

Upplýsingar lágu fyrir, sem sýndu, að ellilaun þurftu að hækka um minnst 16% til þess að þau héldu sama kaupmætti og áður hafði verið, og þó enn meir, ef miðað er við kaup á matvörum einvörðungu. Stjórnarandstaðan flutti till. um, að ellilaunin yrðu hækkuð um 15%. Sú till. var felld af öllu ríkisstjórnarliðinu á Alþ. og þar með öllum þingmönnum Alþfl. Afstaðan í þessu máli sýnir greinilega viðhorf ríkisstj. til kjaramála láglaunafólks og þeirra, sem við knöppust kjör búa.

Í vetur var söluskatturinn hækkaður um 3½% og er nú orðinn 11%. Hækkunin nemur um 900 millj. kr. á ári. Um leið var samþykkt nokkur lækkun á tollum í ýmsum greinum og var talið, að tollalækkunin gæti numið 400–500 millj. kr. á ári. Við Alþb.-menn fluttum till. um, að verðlagsyfirvöld skyldu hlutast til um að tollalækkunin kæmi örugglega fram í lækkuðu vöruverði, en lenti ekki í vösum milliliða. Till. okkar var felld, svo milliliðirnir gætu óáreittir ákveðið sjálfir, hvort þeir tækju tollalækkunina til sín eða lækkuðu vöruverðið. Öll sýna þessi dæmi einkar skýrt afstöðu ríkisstj. til málefna launafólks. Sá bati, sem nú hefur orðið í efnahagsmálum, hefur orðið þrátt fyrir stefnu ríkisstj., en ekki vegna hennar.

Hver hefði staðan verið í atvinnumálum þjóðarinnar hefði verið farið að ráðum okkar Alþb.-manna og okkar till. samþykktar? Þá væru nú komnir í togaraflota landsmanna 15 nýir skuttogarar, sem lagt hefðu í þjóðarbúið 1000 millj. kr., til viðbótar öðrum afla. Þá hefði verið byggður hér upp nýtízku fiskiðnaður, miðaður við að fullvinna sem mest af sjávaraflanum. Þá hefði verið komið á fót fyrir forgöngu ríkisins öflugri sölustofnun til þess að vinna nýja markaði fyrir fullvinnsluvörur úr innlendum hráefnum. Þá hefði verið unnið að framkvæmdum í landinu eftir áætlun og þannig sparaðar hundruð millj. kr., sem nú tapast í skipulagslausri fjárfestingu. Þá hefði verið unnið að uppbyggingu atvinnulífsins um allt land með hagsmuni þjóðarheildarinnar fyrir augum. Og í skjóli slíkrar stefnu hefði iðnaður landsmanna átt að eflast á eðlilegan hátt og vera áfram í höndum landsmanna sjálfra.

Nú eru almennar bæjar- og sveitarstjórnarkosningar framundan. Þær kosningar eru ekkert einangrað fyrirbæri. Þær eru í beinu og órjúfanlegu samhengi við þjóðmálabaráttuna í heild. Staða sveitarfélaganna til þróttmikilla framkvæmda fer eftir því, hvernig til tekst með stjórnina á þjóðarbúinu. Stefna ríkisstj. getur ráðið úrslitum um það, hvort samdráttur og kreppa er í atvinnumálum eða gróska og framfarir, hvort laun fara hækkandi eða lækkandi, hvort dýrtíð vex eða verðlagi sé haldið í skefjum. Í bæjarstjórnarkosningunum verður því ekki kosið um málefni bæjar- og sveitarfélaga í þrengri merkingu einvörðungu. Í þeim kosningum verður einnig valið á milli stjórnmálaflokka, á milli stefnu flokkanna. Það verður á óbeinan hátt tekin afstaða til þýðingarmestu mála, sem um er deilt í þjóðmálabaráttunni. Í kosningunum í maílok verður tekizt á um kjaramál launafólks.

Haldi stjórnarflokkarnir öllu sínu í kosningunum, telja þeir sér óhætt að halda áfram launalækkunarpólitík sinni. Þá verða umsamdar launabætur gerðar að engu á nokkrum mánuðum. Haldi þeir sama fylgi og áður, munu þeir áfram neita launafólki um alla leiðréttingu á skattalögunum, en halda áfram að lækka skattana á milliliðum og atvinnurekendum. Haldi þeir völdum sínum áfram, munu þeir neita sanngjörnum hækkunum á elli- og örorkulaunum.

Þau vandamál, sem nú eru alvarlegust í íslenzkum efnahagsmálum, eru launa- og kjaramál vinnandi fólks. Sú staðreynd, að raunveruleg launakjör flestra launamanna í landinu skuli hafa lækkað um 20–30% á s. l. 3 árum, er óhugnanleg. En nú vill svo til, að einmitt í maímánuði, sama mánuði og á að kjósa, renna samningar verkalýðsfélaganna út. Í maímánuði á því launafólk leikinn. Nú er það það, sem getur ráðið úrslitum. Nú spyrja ráðh. hver annan óttaslegnir: Hvað gerir verkalýðurinn í maímánuði? Hvað gerir allt launafólk? Ráðh. vona, að hægt verði að láta launafólk kjósa sömu flokkana og áður, rétt eins og ekkert hafi í skorizt. Þeir munu eins og áður treysta á áróðursmaskínur sínar. Þeir ráða yfir stærstu blöðunum. Þeir munu smeygja sér inn í sjónvarp og útvarp með skýringar sínar og leiðréttingar í áróðursskyni. Þeir munu afsaka kaupránið með hjali um óviðráðanlegar aðstæður. Þeir munu lofa einhverri lítils háttar kauphækkun, kannske meira seinna. Þeir munu segja, eins og forsrh. sagði: „Nú er bezt að flýta sér hægt.“ Og auðvitað skammar ríkisstjórnarliðið vonda kommúnista, kennir þeim um allt illt og ber þeim á brýn ábyrgðarleysi í launakröfum. Þannig verður söngurinn, þannig hefur hann alltaf verið. En nú er spurningin mikla sú: Hvað gerir launafólkið, sem er 70% af þjóðinni? Áttar það sig á samhengi hlutanna? Getur launafólkið staðið saman og knúið fram rétt sinn? Eða tekst íhaldinu í Reykjavík t. d. að láta kosningarnar þar snúast um Geir borgarstjóra, rétt eins og Reykvíkingum sé óviðkomandi ástandið í atvinnumálum og kauplækkunarstefna ríkisstj.? Lætur launafólkið í Reykjavík blekkja sig til þess að kjósa Sjálfstfl., flokkinn, sem ber ábyrgðina á kauplækkunarstefnunni, dýrtíðarflóðinu, síminnkandi útgerð í Reykjavík og eyðingu togaraflotans? Eða stendur launafólkið saman og tryggir sinn rétt?

Á næstunni mun mjög reyna á stéttarlega samstöðu vinnandi fólks í landinu. Þá mun reyna á samstöðu verkamanna um allt land, á samstöðu sjómanna, á samstöðu iðnverkafólks og iðnaðarmanna, á samstöðu bænda, menntamanna, ungra námsmanna og allra launamanna. Eini stjórnmálaflokkurinn, sem þessar stéttir geta treyst á í harðri kjarabaráttu sinni, er Alþb. Það er langöflugasti verkalýðsflokkurinn, og í fremstu röðum þess eru aðalforystumenn stærstu og sterkustu verkalýðsfélaganna í landinu.

Andstæðingar okkar Alþb.-manna reyna að gera mikið úr klofningi í okkar röðum. Sannleikurinn er sá, að þeir tveir af fyrri félögum okkar, sem gengið hafa úr þingflokknum og reyna nú að byggja utan um sig flokk, hafa engar teljandi undirtektir fengið. Það er því blátt áfram broslegt að heyra Björn Jónsson í þessum umr. tala um nýja flokkinn þeirra Hannibals. Verkefni þeirra segir Björn vera, að þeir þurfi að stofna flokk til að vinna á móti flokkum, að þeir þurfi að sprengja samtök vinstri manna til þess að sameina vinstri menn. Og svo segja þeir félagar, að allir gömlu flokkarnir skjálfi af ótta við nýja flokkinn þeirra. Sannleikurinn er sá, að þessi nýi flokkur þeirra hefur aðeins megnað að bjóða fram á fjórum stöðum á landinu til komandi kosninga, en Alþb. býður fram á um 40 stöðum. Sá litli hópur, sem setzt hefur að í hinu gamla Sósíalistafélagi í Reykjavík, hefur ekki teljandi fylgi heldur. Og meiri hluti þess hóps mun aldrei hafa verið í Alþb.

Sá árangur, sem Alþb. nær í komandi kosningum, mun skera úr um það, hvað stjórnarflokkarnir gera í launa- og kjaramálum almennings á næstu mánuðum, og ósigur ríkisstjórnarflokkanna og sigur Alþb. mun þýða hækkað kaup, bætt lífskjör og breytta stjórnarstefnu. – Góða nótt.