28.04.1970
Sameinað þing: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

Almennar stjórnmálaumræður

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Því hefur oft verið haldið fram af forsvarsmönnum núverandi stjórnarandstöðu, að þeir efnahagslegu örðugleikar, sem þjóðin átti við að glíma á árunum 1967 og 1968, ættu rætur sínar að rekja fyrst og fremst til rangrar stjórnarstefnu. Naumast er hægt að segja, að þeir, sem láta sér slíkar fullyrðingar um munn fara, beri mikla virðingu fyrir dómgreind fólksins í landinu. Eða halda þessir menn í raun og sannleika, að hægt sé að telja nokkrum manni trú um, að það hafi óveruleg áhrif á efnahagslega afkomu einstaklinga og þjóðarheildar, þegar verðmæti útflutningsframleiðslunnar lækkar um rúman helming, eins og það gerði á þessum árum? Halda þeir að slík áföll og tekjumissir hljóti ekki að leiða til kjaraskerðingar og versnandi afkomu hvers og eins? Segja má, að það geti verið réttmætt ásökunarefni á hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar, að kúfurinn af ágóða hinna góðu ára var ekki tekinn í ríkara mæli en gert var og geymdur til hinna lakari og ekki látinn renna út í þjóðlífið jafnóðum og hann myndaðist. Lítið hefur þó farið fyrir tillögum af hálfu stjórnarandstöðunnar í þessa átt. Það er öðru nær. Hverskonar kröfugerð á hendur ríki og atvinnuvegum hefur allajafna verið uppistaðan í öllum málatilbúnaði stjórnarandstöðunnar á undanförnum árum. Lítið var gert úr því, að þjóðin safnaði gildum gjaldeyrisvarasjóði, og ákvörðunin um bindingu hluta sparifjárins í Seðlabankanum hefur legið undir stöðugri gagnrýni. En þetta hvort tveggja ásamt hinum stórfelldu framkvæmdum og uppbyggingu og hvers konar tækjakaupum, sem áttu sér stað á velgengnisárunum, leiddi til þess, að þjóðin var miklu betur undir það búin að mæta áföllum áranna 1967 og 1968 en ella og axla þær byrðar, sem óhjákvæmileg kjaraskerðing hafði í för með sér.

Stjórnarandstaðan hefur stundum undan því kvartað, að henni væri óhægt um tillögugerð til úrbóta að steðjandi vandamálum, vegna þess að hún hefði ekki aðgang að þeim gögnum og upplýsingum, sem nauðsynlegt er að kynna sér, ef brjóta á málin til mergjar. Árið 1968 var stjórnarandstöðunni gefinn kostur á að fylgjast með öllum undirbúningsviðræðum um lausn örðugleikanna í efnahagslífinu og ekkert fyrir henni dulið í þeim efnum. Engin samstaða náðist milli ríkisstj. og stjórnarandstöðunnar um lausn vandamálanna, enda var þess vart að vænta, þar sem stjórnarandstaðan hafði lítið annað til málanna að leggja en kröfuna um það, að ríkisstj. segði af sér. Að þeirri kröfu var ekki gengið, enda að mínum dómi mjög misráðið, ef orðið hefði verið við þeirri kröfu. Íslenzka þjóðin þurfti annars við á haustdögum 1968 en að henni yrði att út í harðvítuga kosningabaráttu og afsögn ríkisstj. Það hefði að minni hyggju verið hrein brigðmæli við meiri hl. kjósenda í landinu. Í kosningunum 1967 héldu stjórnarflokkarnir meiri hl. sínum og fengu þar með skýlaust umboð til þess að fara með stjórn í landinu þetta kjörtímabil. Með kosningaúrslitunum 1967 lýsti meiri hl. þjóðarinnar yfir því, að hún treysti núv. ríkisstj. og stjórnarflokkum til þess að ganga til fangs við aðsteðjandi vandamál og leysa þau. Því trausti var ekki brugðizt. Gengisfellingin 1968 var vissulega harkaleg aðgerð, en þegar að grandskoðuðu máli var sýnt, að ekki var um aðrar haldbetri leiðir að velja, þá ákvað ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar að fara þessa leið, taka á sig ábyrgðina af henni og þá óánægju, sem gengisbreytingin hlaut að valda meðal alls þorra þjóðarinnar. Það, sem síðar hefur gerzt, sýnir, svo ekki verður um deilt, að gengisbreytingin hefur haft hagstæð áhrif á þjóðarbúskapinn. Hún efldi framkvæmda- og framfaravilja, stuðlaði að aukinni framleiðslu, hún bætti viðskiptajöfnuðinn og hún stöðvaði rýrnun gjaldeyrisforðans. Þessi hagstæðu áhrif efnahagsaðgerðanna og nú að auki mikil og aukin aflabrögð og hagstætt verð á útflutningsframleiðslunni stuðla að því, að við getum litið bjartari augum til komandi tíma. Nú standa til þess ríkar vonir, að kjör fólksins fari á ný batnandi, ekki sízt ef öll þjóðin fæst til að sameinast um það að láta ekki ávinninginn brenna upp í vaxandi dýrtíð og verðbólgu, eins og svo oft hefur gerzt á mörgum undanförnum árum og áratugum.

Aðild okkar að Fríverzlunarsamtökum Evrópu, EFTA, sem samþykkt var á þessu þingi, og nú er komin til framkvæmda, hlýtur líka að krefjast þess, að allt verði gert sem unnt er til þess að halda verðbólgunni niðri. Ein meginundirstaðan undir því, að okkur farnist vel í þessu samstarfi og höfum af því þann hag, sem að er stefnt, er að minni hyggju sú, að verðlagsþróunin hér á landi sé í sem nánustu samræmi við þróun verðlagsmála í öðrum aðildarríkjum. Um það leyti sem þáltill. um aðild okkar að EFTA var til lokaafgreiðslu hér í þinginu, kom Stéttarsamband bænda saman til aukafundar hér í Rvík. Aðalverkefni þess fundar var að móta afstöðu bændasamtakanna til EFTA-aðildar. Fundurinn samþykkti með miklum meiri hl. atkv., að það væri íslenzkum landbúnaði síður en svo til hagsbóta, að Ísland gerðist aðili að Fríverzlunarsamtökunum. Nú tekur stofnsamningur Fríverzlunarsamtakanna ekki til landbúnaðarafurða og má því segja, að aðild okkar að EFTA hafi ekki jafnmikið gildi fyrir landbúnaðinn og hún hefur fyrir iðnaðinn. Þess ber þó að gæta í þessu sambandi, að hér á landi er vaknaður mikill áhugi á því að fullvinna vörur úr ull og gærum í landinu sjálfu, í stað þess að flytja þetta sérstæða og góða hráefni óunnið úr landi, svo sem gert hefur verið í stórum stíl. Stórar og mikilvirkar sútunarverksmiðjur eru nú í smíðum í landinu og munu taka til starfa innan skamms, og væntanlega verður þess ekki langt að bíða, að við vinnum allar okkar gærur innanlands. Þessi iðnaður byggist að sjálfsögðu, sem allur annar iðnaður, á því, að markaður sé fyrir hendi, og það hlýtur að vera okkur til hagsbóta, að við getum selt þessar vörur til EFTA-landanna tollfrjálsar. Í beinu sambandi við aðild okkar að EFTA tókst að ná samkomulagi við hin Norðurlandaríkin, að þau keyptu af okkur nokkurt magn af dilkakjöti, á þessu ári 1700 tonn. Sala á dilkakjöti til þessara landa er okkur hagkvæm, vegna þess að markaðsverð á kjöti í þessum löndum er miklum mun hærra og hagstæðara en t. d. á Bretlandseyjum. Svíar hafa þegar keypt af okkur 500 tonn og Norðmenn 600 tonn, hvort tveggja án þess að til innflutningsgjalda komi. Mjög gott verð fæst fyrir dilkakjöt í Svíþjóð, eða hærra verð en er á innanlandsmarkaði, og höfum við ekki áður átt að fagna slíkum viðskiptakjörum fyrir þessa framleiðslu okkar. Ætla má, að afnám innflutningsgjalda af þessari kjötsölu til Svíþjóðar og Noregs geti gefið okkur í aðra hönd á þessu ári milli 30 og 40 millj. kr. Það má finna minna grand í mat sínum. Mér er ekki grunlaust um, að það hafi verið framsóknarandi, sem sveif yfir vötnunum á áðurnefndum Stéttarsambandsfundi, enda ber ályktun fundarins þess ljós merki. Reynslan verður að sjálfsögðu að skera úr um það, hvern hagnað við höfum af aðild okkar að EFTA. Verði hún okkur til hagsbóta, svo sem allir góðir menn vona og vilja vinna að, þá nýtur landbúnaðurinn, svo sem atvinnuvegir okkar allir, góðs að þessari aðild.

Undanfarin ár hafa reynzt íslenzkum landbúnaði á margan hátt mjög örðug. Þar hefur mestu valdið erfitt árferði. Í kjölfar kólnandi veðráttu hefur fylgt grasbrestur og kal í ræktunarlöndum. Gífurlegir óþurrkar um mikinn hluta landsins í fyrrasumar hafa valdið bændastéttinni stórkostlegu tjóni. Svo sem skylt var, hefur hið opinbera beitt sér fyrir aðstoð við bændur vegna þessara áfalla. Frá því í fyrrahaust er búið að veita bændum svonefnd harðærislán að upphæð 77.5 millj. kr. til hey- og fóðurbætiskaupa. 5.3 millj. kr. hafa verið greiddar í óafturkræfum flutningastyrk á fóðri, og eru þó ekki öll kurl komin þar til grafar. Lánin eru greidd í gegnum Bjargráðasjóð Íslands, en að tilstuðlan ríkisstj. hefur sjóðnum verið gert fært að sinna þessu hlutverki með lánum úr bankakerfinu. Lánin úr Bjargráðasjóði eru til 7 ára, vaxtalaus, afborgunarlaus tvö fyrstu árin, en eiga svo að greiðast á næstu 5 árum með jöfnum afborgunum.

Á Alþingi í fyrra voru samþ. lög um heimild fyrir veðdeild Búnaðarbankans til útgáfu skuldabréfa til breytinga á lausaskuldum bænda í föst lán. Þessi löggjöf hefur verið gagnrýnd, einkum af framsóknarmönnum, og talin koma bændum að litlu haldi. Ég held samt, að í þessari gagnrýni þeirra fylgi ekki hugur máli, því þeir virðast hafa séð eftir þessari afstöðu sinni og hafa að undanförnu óskað eftir því, að umsóknarfrestur um þessi lán yrði framlengdur. Þessi lán eru til 20 ára, vextir eru að vísu nokkuð háir, en ég er sannfærður um, að það er hagstætt fyrir bændur að geta breytt víxla- og verzlunarskuldum sínum í föst lán með þessum hætti. Nú hefur veðdeild Búnaðarbankans afgreitt 550 lausaskuldalán, að upphæð 91.5 millj. kr. Þá hefur stjórn Búnaðarbankans ákveðið að hækka lán stofnlánadeildar til íbúðarhúsabygginga í sveitum þannig, að þau verði 450 þús. kr. til þeirra, sem hefja byggingu á þessu ári, 400 þús. kr. til þeirra, sem hófu byggingar á árinu 1969, en hafa ekki fengið lokalán. Ennfremur að þeir, sem fengu fullnaðarlán 1969, fái viðbótarlán að upphæð 50 þús. kr. Hér er um verulega hækkun að ræða á íbúðarhúsalánunum og þessi lán eru ekki vísitölutryggð. Hinn óafturkræfi styrkur til íbúðarhúsa í sveitum, sem veittur er á vegum nýbýlastjórnar, hefur verið undanfarin ár 60 þús. kr. Athugað mun verða, hvort ekki reynist unnt að hækka þennan styrk.

Því verður ekki neitað, að gengisfellingin kom illa við bændur. En það hefði einnig komið hart niður á landbúnaðinum sem öðrum atvinnuvegum hefðu efnahagsaðgerðirnar 1968 ekki verið gerðar. Mikilsverðast af öllu fyrir landbúnaðinn er næg og góð atvinna í landinu og að neytendurnir hafi næg peningaráð til þess að kaupa landbúnaðarframleiðsluna. Það bendir allt til þess, að bændur fái fullt grundvallarverð fyrir mjólkurframleiðsluna á s. l. ári. Þeir munu fá 156 millj. kr. meira útborgað fyrir mjólkina árið 1969 heldur en þeir fengu 1968, þrátt fyrir þann samdrátt, sem varð í mjólkurframleiðslunni á s. l. ári. Þá hækkun má rekja til gengisbreytingarinnar og kemur hún upp í þann kostnaðarauka, sem varð á rekstri búanna vegna gengisbreytingarinnar.

Nú er ákveðið, að þeir sveitabæir, þar sem vegalengd á milli bæja er ekki lengri en 1½ km, fái rafmagn á þessu ári og því næsta. Hér er um að ræða um 288 býli. Fjármagn til þessara framkvæmda er tryggt, 62 millj. kr. á þessu ári. Hefur aldrei áður verið veitt svo mikið fé á einu ári til dreifingar raforku um sveitirnar. Þessari ákvörðun ber að fagna, en jafnframt verður að vinna vel að því að ljúka rafvæðingunni á sem skemmstum tíma, svo allir fái notið þeirra þæginda og nytja, sem raforkan veitir.

Nú á þessu vori mun verða ráðizt í stækkun áburðarverksmiðjunnar, og er þess að vænta, að sú breyting á starfsháttum verksmiðjunnar verði til þess, að bændur fái þaðan betri áburð en þeir hafa fengið á undanförnum árum.

Ég sé, að sá stutti tími, sem mér var ætlaður í þessum umr., er þrotinn. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að allt sé fullkomið, sem hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkar hafa gert á undanförnum árum. Enginn er alvitur og margt orkar tvímælis þegar gert er. En það tel ég mestan styrk núverandi ríkisstj., að hún hefur ekki gefizt upp og lagt árar í bát, þegar á hefur gefið. Hún hefur ráðizt til atlögu við vandamálin og leyst þau. Og það er ætlan mín, að 7. áratugur þessarar aldar skilji eftir sig þau eftirmæli, að þá hafi orðið hin merkustu tímamót í sögu þessarar þjóðar á sviði atvinnulífs og uppbyggingar. Sá stórhugur, sem ríkt hefur með þjóðinni á þessum áratug, mun áreiðanlega ávaxtast í efnahagslegum vexti og aukinni hagsæld þjóðarinnar allrar.

Ég lýk máli mínu með því að óska landsmönnum öllum til sjávar og sveita góðs og gifturíks sumars. — Góða nótt.