10.04.1970
Sameinað þing: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

Utanríkismál

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi fyrst leyfa mér að þakka ýmsum þeim ræðumönnum, sem hér hafa tekið til máls, fyrir vinsamleg ummæli um mína skýrslu og þá viðurkenningu, sem þeir hafa sýnt í orði, á henni. Ég er alveg sammála þeim hv. þm., sem hér hóf umr. í dag, Tómasi Árnasyni, þar sem hann lagði ríka áherzlu á, að í utanríkismálum yrðu menn að standa saman, hvað sem liði ágreiningi um innanlandsmál. Þessari hugsun er ég mjög sammála. Sama hugsun kom raunar fram hjá hv. 4. þm. Austf., sem hér var að ljúka máli sínu. Hann lagði áherzlu á það, að í landhelgismálunum, — svo að maður orði það nú þannig, — sé sem ýtarlegust og mest samstaða um afgreiðslu mála, hvernig svo sem pólitískar skoðanir manna séu að öðru leyti. Þessu er ég innilega sammála og vildi óska, að það yrði niðurstaðan af okkar bollaleggingum um utanríkismál, að fyrsta boðorðið í þeim væri samstaða allra landsmanna, eða a. m. k. sem mest samstaða allra landsmanna um þessi mál, þó að menn greini á um ýmisleg mál önnur, sem teljast fremur til innanlandsmála.

Úr því að ég var farinn að minnast hér á hv. þm. Tómas Árnason, 1. þm. Austf., þá vildi ég minnast á eitt atriði, sem hann drap á í sinni ræðu, og það var það, að hann taldi, — eða mér skildist svo, — að það væri æskilegt, að fulltrúarnir á þingi Sameinuðu þjóðanna gætu skipzt á, þannig að fulltrúarnir væru ekki allt þingið, heldur aðeins hluta af því, og svo kæmu aðrir frá sama flokki í staðinn. Þessu hef ég verið ósammála og er raunar enn. Ég hefði haldið, að beztur árangur næðist, ef fulltrúarnir frá okkur, eins og frá öðrum þjóðum mörgum eða kannske flestum, yrðu þeir sömu allt þingið út í gegn. Það er nú einu sinni svo, að ef nýr maður kemur til þingsins, þá er hann allnokkurn tíma, kannske mánuð eða svo, að komast inn í gang mála og hlutina yfirleitt, en ef sami maðurinn er allan tímann, þá verður honum miklu meira úr verki en ef skipt er á tímabilinu. Þetta hefur fastafulltrúi okkar hjá Sameinuðu þjóðunum ítrekað oft við mig og talið, að vinnubrögð manna á þinginu yrðu ekki eins góð og notadrjúg, ef skipt væri um menn. Ég hefði þess vegna mjög kosið, ef flokkarnir og hv. þm., sem þangað kynnu að fara, gætu komið því svo fyrir, að þeir væru mestallan tímann eða helzt allan tímann við störf á þinginu, því það mundi verða drýgra og heillavænlegra. Þetta var reynt á síðasta allsherjarþingi, en tókst ekki, því allir eða allflestir fulltrúar flokkanna töldu sig ekki geta verið allan tímann, og var þá orðið við þeirri beiðni að skipta um, þó ég teldi það ekki sem heppilegast og alls ekki heppilegt.

Þetta er náttúrlega að sumu leyti erfitt fyrir þá þm., sem eru kosnir til þingsetu hjá Sameinuðu þjóðunum, ef þeir telja sig ekki geta verið fjarverandi frá störfum Alþ. nema tiltölulega stuttan tíma. Bezt væri að finna stöðugra form fyrir setu þm., ef þeir koma til með að vera sendir til þings Sameinuðu þjóðanna, heldur en verið hefur að undanförnu.

Annars held ég, að ég þurfi ekki að svara ýkjamörgu, sem komið hefur fram í umr. Hv. 5. þm. Reykn. hóf hér umr. með allýtarlegri og langri ræðu um heimspólitíkina yfirleitt. Grunntónninn í öllu hans tali var sá, að eiginlega allt illt eða a. m. k. flest væri Bandaríkjunum að kenna og að Íslendingar væru aftaníossar þeirra. Þetta var eitt af aðalatriðunum í þeirri löngu ræðu, sem hann flutti. Ég skal nú ekki fara að deila við hann um þetta. Það má sjálfsagt finna ýmislegt í fari Bandaríkjamanna, sem við mundum ekki telja æskilegt, en sjálfsagt má nú líka finna það í fari fleiri manna og fleiri þjóða, þannig að það að einskorða allt, sem miður fer, við Bandaríkjamenn og kenna þeim, það tel ég ekki rétt, og að Íslendingar séu bundnir aftan í þá, tel ég enn fráleitara, því það hefur komið fyrir nokkrum sinnum, — ekki oft, en nokkrum sinnum, — að Bandaríkjamenn hafa snúið sér til okkar á þingi Sameinuðu þjóðanna og óskað eftir stuðningi við till. Þetta gera allar þjóðir meira og minna. En þessar óskir Bandaríkjanna hafa verið metnar af okkur og það hefur stundum verið orðið við þeim og þeim stundum líka algjörlega andmælt. Við erum ekkert bundnir þeim, ekkert háðir þeim, og við erum algjörlega frjálsir gerða okkar í þeim málum eins og öðrum.

Um önnur atriði, sem hann minntist á, vildi ég segja þetta: Hann minntist á þróunarlöndin og afstöðu Íslendinga til fjáröflunar til þeirra og taldi, að íslenzka ríkisstj. léti ekkert af mörkum í þessu skyni. Þetta er ekki rétt, því það hefur verið lagt allverulegt fé af mörkum í þessu skyni, þó það sé ekki neitt nálægt því, sem talað hefur verið um, bæði hér og annars staðar, að íslenzka þjóðin léti 1% af sínum þjóðartekjum í þessu skyni. Ég held, a. m. k. eins og sakir standa nú, að það verði erfitt fyrir okkur að láta í kringum 200 millj. kr. eða meira á ári, þó sennilega meira. Það mundi sennilega verða okkur erfitt, en ég hef síður en svo á móti því og tel það raunar sjálfsagt, að við reynum að leggja fram fé í þessu efni eftir getu.

Þá sagði hv. þm., að afstaða okkar í landhelgismálinu hefði verið loðin. Hv. 4. þm. Austf. vék allýtarlega að því máli hér áðan, og ég skal þess vegna fara um það nokkrum orðum.

Það er rétt, að auk fiskveiðilögsögunnar eða þess máls, sem við hana er tengt, hafa hafsbotnsmálin líka verið mjög ofarlega á baugi og við Íslendingar höfum á þingi Sameinuðu þjóðanna tekið verulegan þátt í umr. um þau og sömuleiðis í þeim umr., sem þar hafa farið fram um fiskstofna í kringum landið. Spurningin er sú, hvar mörkin verða sett á milli lögsögu strandríkis og hins alþjóðlega úthafssvæðis. Það er ekki gott að segja, hvað kemur upp á þeim teningi, en ég skal geta þess, að þessi till., sem hv. 4. þm. Austf. minntist á og var samþ. á síðasta allsherjarþingi, gerir ráð fyrir, að það verði kallaður saman fundur eða ráðstefna til að ræða þetta mál nú bráðlega. Málið var falið framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til fyrirgreiðslu, og hann hefur nú, að ég ætla, skrifað flestum eða öllum þjóðum, sem þetta mál snertir, og óskað eftir till. þeirra um það, hvernig þessu fundahaldi skuli hagað og hvenær þessi fundur verði haldinn. Okkur hefur líka borizt bréf frá aðalritaranum um þetta efni, og við eigum að svara því fyrir síðasta dag júnímánaðar n. k., og verðum væntanlega að gera það. En hvernig við gerum það, verður sjálfsagt borið undir utanrmn. Ég vænti þess, að við getum komizt að sameiginlegri niðurstöðu um það þar. Ég er þeirrar skoðunar, og skal gjarnan segja hana strax, að það eigi að halda þessa ráðstefnu á breiðum grundvelli, en ekki einskorða sig við 12 mílurnar, sem stórþjóðirnar, risaþjóðirnar, eins og þær hafa verið kallaðar hér, hafa óskað eftir, að gert yrði. Þeirra hugsun er eingöngu að reyna að fá það lögfest sem alþjóðalög, að lögsagan, bæði sú almenna lögsaga og fiskveiðilögsagan, verði miðuð við 12 mílur. Það er yfirlýst af þeim sjálfum og var strax yfirlýst í fyrsta skipti sem þessi ósk um stuðning við ráðstefnuna barst mér í hendur frá sendiherra Sovétríkjanna hér í Reykjavík fyrir tæpum 2 árum, í júlí að ég ætla, árið 1968. Síðan hafa Bandaríkjamenn komið í kjölfarið og óskað eftir því, að við styddum þá í þessu ráðstefnuhaldi, sem aðeins yrði um það, hvernig festa skuli mörkin um lögsöguna, bæði þá almennu lögsögu og fiskveiðilögsögu. Ég veit ekki, hver verður niðurstaðan af þessu fundarboði U Thants, en ég geri ráð fyrir því, að ráðstefnan verði haldin síðari hluta þessa árs eða í byrjun þess næsta. Við höfum talið í þeim aths., sem við höfum gert við þessar till., að það væri ekki æskilegt að halda þessa ráðstefnu of fljótt, til þess að hægt væri að undirbúa hana vel, og ég held, að það sé a. m. k. allveruleg stemmning fyrir því hjá þeim mönnum, sem um þetta hafa fjallað, að ráðstefnan verði ekki haldin fyrr en 1972. Þó skal ég ekkert um það segja, hvað ofan á verður, en ég vildi fyrir mitt leyti, að ráðstefnan yrði vel undirbúin, þegar að því kemur að halda hana, og að hún verði haldin á breiðum grundvelli.

Hv. 4. þm. Austf. lagði á það áherzlu, að það yrði haft samstarf við þingflokkana um afgreiðslu málsins. Það væri ekki nóg, taldi hann, að það væru vísindamenn eða sérfræðingar í alþjóðarétti, heldur væri nauðsynlegt, að samband væri haft við þingflokkana. Nú eiga allir þingflokkar sæti í utanrmn., og hún var á sínum tíma á því, að það væri æskilegt að hafa undirnefnd, sem fjallaði um þetta sérstaka mál. En tillögumenn um þessa undirnefnd hættu við þá till. sína eða drógu hana til baka, þannig að það er gert ráð fyrir því, að utanrmn. fjalli um málið. Þá verða vitanlega fulltrúar allra flokkanna þar til kvaddir og geta þeir þá sagt sína skoðun á málinu. Ég held, að það væri ekki æskilegt, að þessari ráðstefnu yrði flýtt, heldur væri það þvert á móti heppilegra, að hún væri mjög vel undirbúin, til þess að árangurinn af henni gæti orðið sá, sem við helzt óskum eftir. Það væri þá hægt að hafa samband við þjóðir, sem eru líkrar skoðunar og við, og við gætum þess vegna haft tíma til þess að undirbúa málið með vinsamlegum þjóðum.

Það voru nokkur atriði í ræðu hv. 5. þm. Reykn., sem mætti minnast á, en ég held, að ég leiði það hjá mér. Ég skal aðeins minnast á eitt mál, sem hann drap á í sinni ræðu, en það var um viðurkenningu á austur-þýzka lýðveldinu, sem hann taldi, að við ættum að viðurkenna nú þegar, og það væri ekki vansalaust, að við hefðum ekki diplómatískt samband við eitt af okkar stærstu viðskiptalöndum. Það er alveg rétt, Austur-Þýzkaland er mikið viðskiptaland okkar. En það eru mörg fleiri stór viðskiptalönd, sem við höfum ekki samband við, svo að það er ekki einsdæmi, að við höfum ekki diplómatískt samband við viðskiptaland. Og á meðan milliríkjamál Austur- og Vestur-Þýzkalands eru á því stigi, sem þau eru a. m. k. enn, og engin Vestur-Evrópuþjóð hefur stofnað til diplómatísks sambands við Austur-Þýzkaland, þá held ég, að það sé hæpið fyrir okkur að flýta okkur að því, heldur sjá til hvað gerist í sambandinu milli Þýzkalandanna tveggja, því það eru tvö ríki, — ég viðurkenni það, — en sambandið á milli þeirra getur náttúrlega verið meira og minna gott. Ég held, að það sé yfirleitt talið, að það sé möguleiki til þess, að þróun mála þar geti orðið með öðrum hætti nú heldur en hún hefur verið áður. Þá væri kannske hægara fyrir okkur að taka þetta mál til athugunar, þegar það lægi betur fyrir.

Ég skal svo ekki fara mikið út í stórpólitíkina hjá hv. þm. Það má endalaust deila um hana, og þó að maður lesi eitthvað á bók um þau mál, þá er maður nú ekki alveg viss um, að í öllum bókum sé allt rétt með farið, sérstaklega ekki allt sagt, sem þarf að segja, til þess að allur sannleikur komi í ljós.

Afstaðan til Kína var líka nefnd. Hún hefur verið sú hjá okkur, upp á síðkastið a. m. k., að við höfum ekki greitt atkv. í málinu hjá Sameinuðu þjóðunum. Áður höfum við greitt atkv. á móti till., sem Albanía hefur flutt nú á nokkrum allsherjarþingum. Sannleikurinn er sá, að Kína hefur ekki sótt um aðild, en Albanía hefur borið fram till., ekki einasta um að taka Alþýðu-Kína inn í samtök Sameinuðu þjóðanna, heldur líka að útiloka þann hluta Kína, sem ekki er í tengslum við þetta ríki. Og þá er náttúrlega skoðunin önnur en kemur fram í afstöðunni til Þýzkalands. Í Þýzkalandi má viðurkenna þann hluta, sem er utan Vestur-Þýzkalands, utan sambandsríkisins. En Kína, Formósu-Kína, má hiklaust reka, vegna þess að það er hluti af Alþýðulýðveldinu. Þetta er ekki samræmi í skoðunum, en sýnir bezt, að málið er metið eftir því, hver á í hlut. Út af Kínamálinu skal ég segja það, að það var borin fram á sínum tíma till. af Ítölum um það, að nefnd yrði látin rannsaka málið og athuga, á hvern hátt væri hugsanlegt að taka Peking-Kína inn í samtökin. Ísland gerðist meðflutningsaðili að þessari till., því að auðvitað viljum við ekkert frekar en að Peking-Kína verði tekið í Sameinuðu þjóðirnar, en bara ekki á þann hátt, að annað ríki verði rekið úr þeim. Þessi till. Ítalíu var felld. Hún var borin fram tvisvar, en hefur síðan ekki komið fram og þar af leiðandi ekki komið til atkvæða.

Ég held, að það væri eðlilegt og rökrétt að fara einhverja þá leið að reyna að ná samkomulagi um þátttökuna, en fara ekki fram á það, sem gert hefur verið, að taka einn, en berja annan niður.