10.04.1970
Sameinað þing: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (2080)

Utanríkismál

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. lét sér sæma getsakir frá tíð kalda stríðsins um það, að það væri keppikefli fyrir mig að hafa Ísland varnarlaust, svo að einhver gæti hremmt landið. Ég hélt, að menn ættu að bera það mikla virðingu fyrir sjálfum sér að vera ekki með getsakir af þessu tagi. Það ætti að vera verkefni Íslendinga að tryggja það, að þeir byggju einir og frjálsir í landi sínu, og stefna, sem nær ekki þessu markmiði, er röng. Hún þýðir það, að við getum ekki framkvæmt þetta undirstöðuatriði í íslenzkum utanríkismálum. Hæstv. ráðh. hefur framkvæmt slíka stefnu, og hann ber blak af henni. Þessi hæstv. ráðh. ber raunar blak af fleiru. Hann vildi vefengja það, að Bandaríkin væru komin í nýlendudrottnunarstöðu í veröldinni. Í skýrslu sinni hér um daginn lét hæstv. ráðh. sér sæma það einnig að fara örfáum setningum um styrjöldina í Víetnam, og talaði þar um, að Bandaríkin hefðu áhuga á því að draga úr styrjöldinni, en kommúnistar væru að magna stríðið. Þarna er um að ræða árás stórveldis á smáþjóð, sem er að verja hendur sínar, og hæstv. ráðh. telur það vera ofbeldisverk, að þegnarnir verja sig fyrir árásinni. Ég hugsa, að enginn utanrrh. í Vestur-Evrópu mundi tala á þennan hátt, eins og þessi hæstv. ráðh. gerir. Og ég efast meira að segja um, að nokkur ráðh. í Bandaríkjunum mundi tala á slíkan hátt.

Það er alkunna, að Bandaríkin hafa komið sér upp herstöðvum um heim allan og hafa þar feiknalega mikið lið. Þau gera þetta til þess að hafa vald á auðlindum og hráefnum í veröldinni. Það er alkunna, að bandarískir auðhringar ráða heimsmarkaðsverði á ýmsum helztu hráefnum, sem nú eru í heiminum. Þetta er m. a. ein ástæða til þess, að bilið milli fátækra þjóða og ríkra fer vaxandi, en ekki minnkandi, vegna þess að ríku þjóðirnar undir forustu Bandaríkjanna hafa aðstöðu til þess að skammta verð fyrir hráefnin, sem fátæku þjóðirnar selja einkanlega, og ákveða einnig verðið á fullunnum iðnaðarvarningi, sem fátæku þjóðirnar verða að kaupa. Þetta er hin nýja nýlendustefna, og hún er framkvæmd af Bandaríkjunum, og ég veit ekki betur en að þessi stefna sé gagnrýnd mjög af sósíaldemókrötum í Vestur-Evrópu. Þessi hæstv. ráðh. vill stundum láta telja sig sósíaldemókrata. En þegar til þess kemur að meta mál, þá heyrist aldrei hjá honum neitt slíkt viðhorf. Á meðan íslenzk utanríkismál eru undir stjórn manna, sem hafa hvorki þrek né djörfung til þess að meta þau af íslenzkum sjónarhól, út frá íslenzkum hagsmunum, þá verða orð þeirra og gerðir aldrei annað en bergmál annarra og stærri aðila.