18.03.1970
Sameinað þing: 39. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

Framkvæmd vegáætlunar 1969

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það væri mjög leitt, ef einhverjir væru afskiptir með snjómokstur og það væri vegna hlutdrægni í framkvæmdum. Ég held, að það sé alveg óhætt að fullyrða, að að er ekki viljandi og ekki hlutdrægni í framkvæmdum, sem veldur því, að sumum kann að sýnast þetta vera svo. En það er vitanlega ákaflega erfitt að annast snjómoksturinn þannig, að allir geti orðið ánægðir, og snjórinn fellur náttúrlega misjafnlega niður. T. d. í vetur hefur hann fallið meira hérna á Suðurlandi en um Norðurland, en oftast er snjóþyngra á Norðurlandi, eins og við vitum, og þetta er alltaf mjög erfitt í framkvæmd. En ég hygg, að það sé oftast lagt meginkapp á að moka þær leiðir, sem fjölfarnastar eru, og held ég, að það verði að finna afsökun fyrir því. Hitt er svo skiljanlegt, að mönnum leiðist að vera kannske innilokaðir langtímum saman og óski eftir því, að það verði mokað og gert fært. Þetta finnst mér allt saman eðlilegt, en hv. síðasti ræðumaður vildi alls ekki halda því fram, að menn væru afskiptir af annarlegum ástæðum, heldur að ýmsum fyndist þetta. Og þetta getur allt saman verið eðlilegt. Mönnum finnst það, að þeir séu afskiptir, þeir halda, að þeir séu kannske rangindum beittir, þegar þeir eru lengi innilokaðir, jafnvel þó það sé allt af eðlilegum ástæðum. Þegar snjóbyljir geisa kannske dag eftir dag, þá er eðlilegt, að það sé hikað við að moka. Það er búizt við kannske, að vegurinn lokist um leið og búið er að komast í gegn með ærnum kostnaði. En það má segja, að þessar tölur, sem ég las áðan upp um vetrarviðhaldið, sem er að meginhluta snjómokstur, þær segja náttúrlega ekki neitt um það, hvort einstakir landshlutar hafi verið afskiptir eða ekki, þetta eru misjafnlega háar tölur. Þar segir t. d., að á Norðurl. e. 1968 er vetrarviðhaldið þar, sem er, að ég hygg, u. þ. b. 100% snjómokstur, það voru ekki nein vatnsflóð, 6 millj. 62 þús. kr. En jafnvel þótt þessi upphæð hafi verið notuð 1968 til snjómoksturs í Norðurl. e., þá er ég alveg samþykkur því, að það hafi ekki verið fullnægjandi, og auðvitað hafa ýmsir bæir verið innilokaðir kannske vikum saman þrátt fyrir þetta. En á vegáætlun er ákveðið fjármagn ætlað fyrir þetta og vandi Vegagerðarinnar eða vegamálastjóra er að skipta því. Ég er sannfærður um, að þeir vilja vera réttlátir í þeirri skiptingu. Og það skiptir náttúrlega mjög miklu máli.

Hv. þm. kom hér með fsp. til mín, þar sem hann segir í sambandi við hraðbrautir, að ríkisstj. hafi ákveðið að hraða lagningu hraðbrauta, hvort ríkisstj. hafi þá ekki einnig ákveðið að hraða lagningu þjóðbrauta. Í rauninni er ákvörðun ríkisstj. ekki önnur en sú að reyna að halda sig við vegáætlunina. Ríkisstj. hefur ekki hugsað sér að fara út fyrir ramma vegáætlunarinnar með hraðbrautir, heldur stefna að því að halda áætlunina með hraðbrautir eins og aðra vegi. En það vil ég fullyrða, að ríkisstj. hefur áhuga á því að hraða endurlagningu á þjóðbrautum einnig og ekki síður. En ríkisstj. er bundin af vegáætluninni, og eins og ég sagði áðan, þá hefur á s. l. ári og á þessu áætlunartímabili verið haldið framkvæmdum í samræmi við það. Hv. þm. veit það, að ríkisstj. hefur haft áhuga á þjóðbrautunum. Hann veit um Vestfjarðaáætlunina, sem nú er senn lokið. Hann veit, að það er verið að semja Austfjarðaáætlun í vegagerð. Og hann veit, að það er verið að athuga slíkar áætlanir í öðrum landshlutum, þar sem þörfin er brýn, eins og er í öllum kjördæmum þessa lands. Þar þarf ekki að vera um neinn meting að ræða. En í haust verður vegáætlunin endurskoðuð, og þá má vel vera, að það verði hægt að ýta eitthvað á eftir meira en nú er heimild til að gera samkvæmt áætluninni eins og hún liggur fyrir nú.