20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

Aðgerðir námsmanna í sendiráði Íslands í Stokkhólmi

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár vegna fréttar, sem var í hádegisfréttum í dag um sögulegan atburð, sem gerðist í Stokkhólmi í morgun. Það var greint frá því í fréttinni, að íslenzkir námsmenn í Stokkhólmi, Lundi og Uppsölum hefðu tekið íslenzka sendiráðið í Stokkhólmi og héldu því, hefðu vísað starfsfólkinu á dyr og réðu þar húsum sjálfir. Ég hugsa, að það sé ekkert vafamál, hver er ástæðan fyrir þessum atburði. Stúdentar erlendis hafa látið rigna yfir okkur að undanförnu ályktunum og áskorunum, þar sem þeir hafa vakið athygli á mjög erfiðum fjárhagsástæðum sínum og þeirri staðreynd, að við búum miklu verr að stúdentum en gert er í nágrannalöndum okkar. En ég tel þetta vera mjög stóran atburð og vildi því beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., sem einnig er utanrrh. um þessar mundir, hvort hann hafi einhverjar nánari fregnir af þessum atburðum, og í annan stað, hver muni verða viðbrögð hæstv. ríkisstj., bæði við þessum atburði, sem gerðist, og eins við kröfum stúdenta um aukinn fjárhagsstuðning af hálfu íslenzkra stjórnarvalda.