04.05.1970
Neðri deild: 97. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (2143)

Námslán

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt til þess að veita fáeinum nemendum Bændaskólans á Hvanneyri aðild að lánasjóði íslenzkra námsmanna, en fyrir liggur athugun á því, að þeir geti talizt eiga hliðstætt nám að baki og námsmenn úr öðrum skólum, sem nú eiga aðild að sjóðnum. Ríkisstj. mun leggja til, að þessir menn fái námslán við næstu úthlutun úr sjóðnum. Nú hafa hins vegar verið fluttar við frv. tvær brtt. Önnur fjallar um að veita nemendum tveggja annarra skóla aðild að sjóðnum. Athugun þarf að fara fram á því, hvort þeir nemendur verða taldir eiga hliðstætt nám að baki. Hin till. fjallar um áætlun um fjárveitingar til lánasjóðsins fram til námsársins 1974–1975. Stjórn lánasjóðs íslenzkra námsmanna hefur í bréfi, dags. 11. apríl s. l., tilkynnt menntmrn., að hún sé að vinna að áætlunargerð varðandi fjármál sjóðsins fram til ársins 1975 og muni byggja till. sínar til fjárl. fyrir næsta ár á þeirri áætlun. Rétt þykir að bíða niðurstöðu þessara athugana og till. stjórnar lánasjóðsins áður en afstaða er tekin, enda liggur nú engin vitneskja fyrir um það, hvað framkvæmd slíkrar áætlunar mundi kosta. Af þessum sökum tel ég ekki rétt, að þetta frv. verði afgreitt á þeim fáu dögum, sem Alþingi á eftir að starfa.

Ríkisstj. hefur haft lánamál námsmanna heima og erlendis til gaumgæfilegrar athugunar og er m. a., eins og áður hefur verið skýrt frá, að kanna, hvernig námsaðstoð er hagað í nálægum löndum. Með hliðsjón af niðurstöðum þeirra athugana mun hún taka till. stjórnar lánasjóðsins í fyrrnefndu bréfi til velviljaðrar athugunar við undirbúning næstu fjárlaga.