04.05.1970
Neðri deild: 97. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (2146)

Námslán

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Í ræðu minni áðan spurðist ég m. a. fyrir um það, hvaða ráðstafanir hæstv. ríkisstj. ætlaði að gera til þess að tryggja sumaratvinnu námsmanna. Hæstv. menntmrh. láðist algerlega að svara þessari spurningu, og hafi það verið gleymska af hans hálfu, þá vona ég, að hann bæti úr því hér á eftir, því að hér er vissulega einnig um mikið stórmál að ræða. Við ræddum þetta raunar í lok síðasta þings. Þá bar ég hér fram formlega fsp. um þetta atriði og henni var þá svarað af hæstv. ráðh., Eggert G. Þorsteinssyni. Ég geri ráð fyrir, að þm. muni eftir því svari. Í því fólst það, að hæstv. ríkisstj. hafði þá hreinlega ekkert gert. Hins vegar leiddu umr. hér á þingi og utan þings til þess, að ríkisstj. beitti sér fyrir því, að lagðar voru fram þá 10 millj. úr atvinnumálasjóði gegn því, að sveitarfélög legðu fram á móti hliðstæða upphæð. Einnig var þrýst á ýmsa atvinnurekendur að aðstoða námsmenn við að fá vinnu, þannig að úr þessu rættist ögn betur en horfur voru á í fyrra. En ég tel, að það sé mikil nauðsyn, að gerðar verði ráðstafanir nú til þess að tryggja fulla sumaratvinnu fyrir námsmenn. Það er mikið og erfitt vandamál, fjölþætt vegna þess að þetta er mjög stór hópur, en þetta er ákaflega brýn nauðsyn, eins og ástandið er nú með fjárhag námsmanna.

Um svör hæstv. ráðh. þarf ég ekki margt að segja. Hann vakti enn þá athygli á því, að ég hefði ekki haft uppi nein fordæmingarorð um lögbrot námsmanna. Það er alveg rétt. Það verða vissulega nægilega margir til þess þessa dagana að hella fordæmingum yfir námsmenn og taka upp í sig hin stærstu orð um það efni. Ég hef áður sagt það hér og ég get endurtekið það, að að sjálfsögðu er það afstaða okkar allra, að til slíkra atburða þurfi ekki að koma. En ástæðan til þess að til þeirra kemur er ekki nein vonzka einstakra námsmanna eða ofstæki í þeim, heldur það efnahagsástand, sem er gersamlega óþolandi. Og mér finnst það furðulegt, að jafngreindur maður og Gylfi Þ. Gíslason skuli ekki enn þá vera búinn að öðlast skilning á þessari staðreynd, en hann skuli standa hér aftur og aftur og tönnlast á því, að fjárhagsaðstoð til námsmanna hafi margfaldazt á undanförnum árum. Þetta veit ég ósköp vel og þetta vita allir þm. Engu að síður er það staðreynd, að ef við tökum kjör hvers námsmanns um sig, þá hafa þau versnað mjög stórlega þrátt fyrir þessa aukningu, vegna þess að þessi aukning hefur engan veginn vegið upp þá stórfelldu verðhækkun, sem stafar af tveimur gengislækkunum, auk þess sem námsmönnum hefur fjölgað og hlýtur að fjölga. Vandi námsmanna er slíkur, að nú þegar hafa margir orðið að hætta námi í miðjum klíðum. Og ég vil biðja menn að hugleiða það gaumgæfilega, hvað í því felst fyrir ungan mann að verða að hætta námi í miðjum klíðum og breyta öllum áformum sínum um framtíðina. Og það er mjög stór hópur námsmanna, sem óttast, að sömu örlög muni bíða hans á næstunni. Það er skylda okkar alþm. og skylda hæstv. ríkisstj. að hugleiða þetta mál af fullri alvöru og æsingalaust. Og ég vil enn einu sinni fordæma það gersamlega, að ráðh. eigi upptök að því að vekja hér sefasjúkar árásir á námsmenn, eins og gert hefur verið.

Það var fróðlegt að heyra það, sem hæstv. ráðh. sagði um atburðina í Osló. Um þá vissi ég ekki annað en það, sem kom í hádegisútvarpinu, og mér þótti vænt um að heyra, að í hópi íslenzku stúdentanna, sem þar eru, er frú Guðrún Brunborg, sem hefur af mikilli fórnfýsi og dugnaði lagt fram starf til þess að styrkja íslenzka námsmenn, sem eru við nám í Osló. Ár eftir ár lagði hún á sig mikið erfiði við að safna fé bæði hér á landi og í Noregi og koma upp aðstöðu fyrir íslenzka námsmenn, svo að þeir gætu búið þar í stúdentagörðum og haft sæmilega aðbúð. Guðrún Brunborg veit manna bezt af eigin raun, við hver kjör námsmenn búa þarna erlendis, og ég geri ráð fyrir því, að hæstv. menntmrh. vilji ekki lýsa frú Guðrúnu Brunborg sem einhverri æsingakonu eða einhverjum lærisveini Marcuse, sem hann gerði hér að umræðuefni í útvarpsumr. fyrir nokkrum dögum. Guðrún Brunborg tekur þátt í þessu með stúdentum einvörðungu vegna þess, að hún veit, að það er um framtíð þeirra sjálfra að tefla. Og með þann skilning í huga ætti hæstv. menntmrh. að fjalla um þessi mál.

Hæstv. ráðh. kvartaði undan því, að samband ísl. námsmanna erlendis hefði ekki reiknað út í einstökum atriðum, hvernig ætti að framkvæma þá hugmynd, að lánasjóðurinn gæti rækt hlutverk sitt að fullu 1974. Mér þykir það nú næsta furðulegt, ef hæstv. ríkisstj. er farin að ætlast til þess, að menn, sem koma á framfæri við hana skynsamlegum hugmyndum, semji fyrir hana sjálf frv. Auðvitað er þetta flókið og margþætt reikningsdæmi. Það veit ég vel. Hins vegar hefur hæstv. ráðh. yfir að ráða herskara af embættismönnum, sem eiga mjög auðvelt með að reikna þetta út. Og það er algerlega rangt, sem hæstv. ráðh. segir, að hér sé um einhverja nýtilkomna hugmynd að ræða. Það birtist hér í blöðunum núna fyrir 1–2 dögum frásögn frá SÍNE, þar sem sagt var frá viðskiptum þess við hæstv. ráðh. um þetta mál og greint frá því, að búið væri að ræða þetta við hann aftur og aftur í mjög langan tíma. Og sjálf hugmyndin um, að sjóðurinn hafi þetta verkefni, er, eins og ég sagði áðan, komin úr þeim lögum, sem hæstv. ráðh. beitti sér fyrir að sett yrðu. Ég vil leyfa mér að lesa hér 2. gr. laganna um lánasjóð íslenzkra námsmanna, hún er svona:

„Stefnt skal að því, að opinber aðstoð við námsmenn samkv. lögum þessum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af árlegum námskostnaði, þegar eðlilegt tillit hefur verið tekið til aðstöðu hans til fjáröflunar.“

Þetta er sjálfur tilgangur laganna. Þegar Alþ. samþykkir þessi lög, þá ákveður það, að að þessu skuli stefnt. En því aðeins er verið að framkvæma lög, að þau séu framkvæmd á einhverju takmörkuðu árabili, hér sé ekki um að ræða endalaus framtíðaráform. Og þegar hæstv. ráðh. leggur fram frv. um þessi lög og lætur síðan samþykkja þau hér á Alþ., þá hlýtur hann að hafa vitað, hvað hann var að gera. Auðvitað hefur hann gert sér grein fyrir því, að þetta væri flókið viðfangsefni. En það er ekkert flóknara núna en það var þá. Og kröfur námsmanna um, að þetta verði framkvæmt fram að árinu 1974, eru, eins og ég hef sagt áður, fullkomlega framkvæmanlegar og raunsæjar og í þeim felst ekki nein óeðlileg kröfugerð.

Ég hef veitt því athygli að undanförnu, að afstaða almennings til námsmanna hefur mjög verið að breytast. Hæstv. menntmrh. og ýmsum öðrum tókst í nokkra daga að vekja upp sefasjúkar hvatir hjá ýmsum. En þetta hefur verið að breytast að undanförnu. Afstaðan er farin að snúast námsmönnum í vil og gegn þessum hæstv. ráðh. Það eru æ fleiri farnir að vekja athygli á því, að þessi hæstv. ráðh. muni ekki hafa þau tök á verkefnum sínum í menntamálum, sem hann ætti að hafa, og ég vil vara þennan hæstv. ráðh. mjög alvarlega við því að reyna að halda áfram að afgreiða námsmenn með innantómum loforðum og loðnu orðalagi einu saman. Þetta mál er á svo alvarlegu stigi, að aðgerðir verða að koma mjög fljótlega.