20.01.1970
Efri deild: 36. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (2264)

18. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. minni hl. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér er á dagskrá, fjallar um breytingu á sveitarstjórnarlögunum og er þess efnis í grundvallaratriðum, að fjölga sýslunefndarmönnum í hinum fjölmennari hreppsfélögum úr 1 í 2, og er miðað við í frv. markið 400 íbúa, þ. e. a. s., að í sveitafélögum með 400 íbúa og færri skuli kjósa 1 sýslunefndarmann, en í sveitarfélögum með yfir 400 íbúa skuli kjósa tvo sýslunefndarmenn. Þessu frv. var vísað til heilbr.- og félmn. N. sendi frv. til umsagnar til stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga og einnig til allra sýslumanna landsins. Umsagnir bárust frá flestum sýslumönnum, þó ekki öllum, og enn fremur frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég skal nú leyfa mér að rekja hér örlítið þessar umsagnir, því að ég tel, að hv. frsm. meiri hl. heilbr: og félmn., sem hér talaði áðan, hafi ekki alls kostar túlkað rétt þau úrslit, sem komu fram í umsögnum sýslumanna.

Þá tek ég hér fyrst umsögn sýslumannsins í Barðastrandarsýslu. Ég vil leyfa mér með leyfi forseta að lesa hér það, sem ég tel máli skipta úr þessum umsögnum og það, sem er meginniðurstaðan. En í umsögn sýslumanns Barðastrandarsýslu segir svo:

„Sú regla, sem nú gildir, að í hverjum hreppi skuli kosinn einn sýslunefndarmaður án tillits til íbúafjölda, á tvímælalaust ekki við lengur nema e. t. v. í einstaka sýslufélögum, enda þótt þessi skipan mála hafi yfirleitt átt vel við, áður en þéttbýlismyndun í kauptúnahreppum varð jafnmikil og raun hefur orðið á hin síðari árin. Ég tel því nauðsynlegt að breyta þessari skipan í þá átt, sem frv. gerir ráð fyrir.“

Þannig fer það ekki á milli mála, að þessi sýslumaður er frv. fylgjandi.

Þá er hér umsögn sýslumannsins í Þingeyjarsýslu:

„Ég tel nauðsynlegt, að tekið sé verulegt tillit til landssvæða í sambandi við ákvörðun fulltrúatölu og nauðsynlegt að fámennir landshlutar haldi sem lengst áhrifum sínum á umræðugrundvelli þjóðmálanna. Engu að síður tel ég viðeigandi, að mjög fjölmennir hreppar fái fleiri en einn fulltrúa í sýslunefnd, og mætti gjarnan miða við það, að hreppar fengju þar einn fulltrúa fyrir hvert byrjað þúsund í mannfjölda.“

Um þessa umsögn má segja, að hún sé fremur jákvæð og viðurkenni, að það sé eðlilegt, að hinir fjölmennari hreppar hafi fleiri sýslunefndarmenn, þó að sýslumaður vilji draga mörkin þarna ofar og miða við 1000 íbúa.

Þá kem ég að umsögn sýslumannsins í Árnessýslu, en hann segir:

„Hvorki oddvitar né aðrir hreppsstjórnarmenn né heldur sýslunefndarmenn hinna stærri hreppa með yfir 400 íbúa hafa nokkru sinni mér vitanlega látið í ljós óánægju yfir núverandi reglum um kosningu sýslunefndarmanna né talið áhrif hinna smærri hreppa skaðlega mikil um úrlausn mála sýslunnar. Þvert á móti gætir viðurkenningar á því, að hin smærri og jafnframt afskekktari sveitarfélög eru mjög afskipt um áhrif á skiptingu félagslegra gæða. Ég held, að þetta frv. geti ekki verið flutt fyrir óskir fyrirsvarsmanna sveitarfélaga, og vona, að það verði ekki samþykkt án þess, að fyrir liggi upplýsingar um afstöðu hreppsnefnda og sýslunefnda yfirleitt. Ég efast ekki um, að sýslunefnd Árnessýslu verði frv. mótfallin, ef hún fær tækifæri til að fjalla um það. Ég hef leitt tal að frv. við ýmsa hreppstjórnarmenn úr héraðinu, en engan fundið, sem því væri meðmæltur.“

Þessi umsögn er tvímælalaust andstæð frv.

Þá kem ég næst að umsögn sýslumannsins í Suður-Múlasýslu. Hann segir svo:

„Ég leyfi mér að mæla með þeim anda, sem fram kemur í frv. og eins og málum er háttað, að markið 400 íbúar sé allt of lágt. Ég hef verið samþykkur því, að markið væri sett í 700 íbúa, þ. e. að í sveitarfélögum með fleiri en 700 íbúa skuli kjósa 2 sýslunefndarmenn. Enn fremur vil ég nota tækifærið og koma því á framfæri við hina hv. n., að ég hef verið því fylgjandi, að sveitarstjórnarl. verði breytt á þá leið, að oddvitar og sveitarstjórar væru sjálfkjörnir sýslunefndarmenn.“

Þessi umsögn er jákvæð frv.

Þá kemur umsögn sýslumanns Ísafjarðarsýslu. Hún er stutt og laggóð og segir svo:

„Mér virðist breytingin sanngjörn og eðlileg og er henni samþykkur.“

Þá kem ég næst að umsögn sýslumannsins í Húnavatnssýslu. Hann segir svo:

„Það væri e. t. v. athugandi, hvort ekki væri rétt að hætta að kjósa sérstaka sýslunefndarmenn, en láta oddvita viðkomandi hreppa vera sjálfkjörna í sýslunefnd og þá aðeins viðbótarfulltrúa, ef fleiri eru í hreppi en 500 manns.“

Þá segir hann enn fremur:

„Ég vil að lokum geta þess, að ég sendi öllum sýslunefndarmönnum bréf út af þessu frv. og spurðist fyrir um álit þeirra. Jafnframt tjáði ég þeim mína skoðun á málinu, sem sett var fram hér að framan og benti þeim á, að ég mundi líta svo á, að þeir samþykktu mína skoðun, ef mér hefði ekki borizt svar fyrir mánaðamót. Flestir þeirra létu hjá líða að svara nokkrum svörum. Sumir voru jákvæðir, aðrir töldu sig ekki hafa kannað þetta mál nægilega og vildu hafa frjálsar hendur og til voru þeir, sem voru algerlega á móti.“

Sem sagt, nokkuð skiptar skoðanir eru um þetta mál innan sýslunefndarinnar.

En í upphafi þessarar umsagnar segir sýslumaðurinn :

„Ég vil taka fram í upphafi, að efnislega er ég samþykkur frv., en hefði þó kosið, að ákvæðin væru lítið eitt öðru vísi orðuð, eitthvað í þá átt, að hreppur með 500 manns skuli kjósa 2 menn í sýslunefnd, hreppur með 1500 manns 3, hreppur með 3000 menn 4.“

Þannig er sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu frv. meðmæltur.

Þá kemur umsögn sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu:

„Hér í sýslu,“ segir hann, „er fjölmennasti hreppurinn, Dalvíkurhreppur, með 1026 íbúa, og nokkrir hreppar eru með 300–400 íbúa. Fámennustu hrepparnir eru Öxnadalshreppur og Grímseyjarhreppur með 87 íbúa hvor. Ég tel mjög óeðlilegt, að áhrif sýslubúa á úrlausn þeirra mála, sem lögð eru fyrir sýslunefndir, séu misjöfn eftir því, hvar þeir eru búsettir, og tel, að þetta þurfi að leiðrétta. Hins vegar er ég frekar andvígur því að fjölga í sýslunefnd og tel, að sameining hreppa, jafnvel með lagaboði, enda ósennilegt, að um nokkra sameiningu sveitarfélaga verði að ræða með öðrum hætti, sé eðlilegri leið til leiðréttingar á þessu misræmi. Sé sú leið talin ófær, er sjálfsagt ekki um annað að ræða en fjölga í sýslunefndum, eins og frv. gerir ráð fyrir.“

Sem sagt, niðurstaða sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu er sú, að ef menn telja ekki fært að sameina sveitarfélög með lagaboði, þá sé eðlilegt að samþykkja þetta frv.

Þá kemur umsögn sýslumannsins í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Hún er svofelld:

„Eigi verður mótmælt þeim röksemdum, sem fram koma í grg. frv., að áhrif sýslubúa á úrlausn málefna, sem sýslunefnd fjallar um, hafi verið misjafnlega mikil eftir búsetu, enda er íbúafjöldi þeirra ærið misjafn. Má því segja, að réttmætt væri, að fjölmennustu hrepparnir fengju aukna hlutdeild í stjórn sýslumála. Hins vegar er á það að líta, að nú stendur yfir athugun á því að sameina hreppa í stærri heildir, og vinnur nefnd að því verkefni, sem mun hafa gefið hinu háa Alþingi skýrslu um störf sín, og virðist æskilegt að sjá, hvernig þeim málum reiðir af, áður en Alþ. samþykkir lagabreytingu í framangreinda átt.“

Sýslumaðurinn í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu er því þeim sjónarmiðum hlynntur, sem fram koma í frv., en telur réttara að bíða og sjá, hvernig sameiningarmálunum reiðir af.

Þá kem ég að umsögn sýslumannsins í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu:

„Ekki minnist ég þess að hafa nokkru sinni heyrt fundið að þeirri skipan, sem gilt hefur í þessum efnum, þrátt fyrir náin kynni af störfum sýslunefnda um margra ára skeið. Sýslufundir fjalla um margþætt mál. Þau eru yfirleitt afgreidd með bezta samkomulagi. Örsjaldan skerst verulega í odda. Fulltrúar hreppanna, sýslunefndarmenn, eru allir jafnir, hvort sem þeir hafa fleiri eða færri kjósendur að baki, og það vita þeir og finna. Ég hygg, að það sé einmitt slík lýðræðiskennd, sem gert hefur slíka skipan mála farsæla og langlífa. Auk þess viðurkenna flestir, að fámenn sveitarfélög eiga á margan hátt í vök að verjast fram yfir þau, sem fjölsetnari eru. Hitt er svo annað mál, að nú er unnið að athugun á sameiningu sveitarfélaga, svo sem kunnugt er. Mun slík sameining víða eiga rétt á sér, þar sem hún miðar að því að létta lífsbaráttu þeirra fáu og smáu og auka hagræði af jöfnun byggðanna. Með hliðsjón af þessum fáu orðum tel ég ekki ástæðu til að stuðla að þeirri breytingu, sem frv. þetta gerir ráð fyrir.“

Ég hef þá lesið hér og kynnt það helzta í umsögnum þeirra sýslumanna, sem spurðir voru um álit sitt á frv. og ég túlka þessar umsagnir þannig, að tvímælalaust meiri hl. sýslumanna styðji þau sjónarmið, sem í frv. koma fram. Hitt er eftirtektarvert, að það eru einkum tveir sýslumenn, sem eru frv. andvígir. Það eru sýslumaður Árnessýslu og sýslumaður í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, en það er einmitt í þessum tveimur sýslum, sem þetta misrétti, sem frv. er ætlað að bæta úr, er mest, því að í Snæfellsnessýslu er það þannig, að þar hafa 18% af íbúum sýslunnar meiri hl. í sýslunefnd, eða meiri hluti fulltrúa er kosinn þar af 18% íbúanna. Og í Árnessýslu er þetta 21% sýslubúa, sem eiga meiri hl. í sýslunefnd.

En það er út af fyrir sig rétt, sem fram hefur komið, bæði þarna í umsögnum sumra sýslumanna og einnig hjá hv. frsm. meiri hl., að það hefur lítið sem ekkert borið á því, að fjölmennari hreppsfélög kvörtuðu undan þessu misrétti og þau hefðu viljað fá úrlausn og réttarbót, ef svo má að orði komast. E. t. v. er það af þeim ástæðum, sem ég greindi hér í minni framsöguræðu. Menn hafa litið svo á, að þessar sýslunefndir væru ekki svo valdamiklar stofnanir, að það tæki því að vera að gera þar kröfur um meiri áhrif eða jafnari réttarstöðu sýslubúa. En mér finnst, að þetta séu ekki nein fullnægjandi rök til þess að hafna frv., því að vitanlega eiga menn að berjast gegn ranglætinu, þó að þeir, sem það verða að þola, kvarti ekki undan því. Og það, sem gerir þessa leiðréttingu brýnni en áður fyrr, er auðvitað sú byggðaþróun, sem hefur orðið í landinu á þá lund, að það fjölgar sífellt þeim hreppsfélögum, sem eru mjög fámenn, og hins vegar þeim, sem eru mjög fjölmenn. Ef maður lítur nokkra áratugi aftur í tímann, þá var miklu minna misræmi í íbúafjöldanum í hinum einstöku hreppsfélögum. Ég vil líka benda á í sambandi við það, sem hér hefur komið fram í þessum umsögnum og reyndar líka frá hv. frummælanda meiri hl., að með þessu sé á einhvern hátt verið að ganga á hlut hinna fámennustu hreppsfélaga innan sýslnanna, gera þeirra rétt minni og jafnvel hafa þau útundan, þá er sú hugsun auðvitað ekki á bak við þetta frv. Ég lít svo á, að í fjöldamörgum tilfellum, þegar sýslunefndir eru að afgreiða mál, þá eru þær ekki fyrst og fremst að afgreiða eitthvert mál, sem snertir sérstaklega hagsmuni eins hrepps kannske gegn hagsmunum annars innan sýslunnar, heldur er verið að afgreiða þar mál, sem snerta alla sýslubúa jafnt, og þá tel ég það auðvitað eðlilegt, að þeir menn, sem skipa sýslunefndirnar og taka afstöðu og ráða úrlausn þeirra mála, séu valdir þannig, að hver sýslubúi hafi sem jöfnust áhrif á val þessara fulltrúa sinna.

Þá kem ég að umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga um þetta frv., sem ég vil leyfa mér að lesa hér með leyfi forseta:

„Í sambandi við efni frv., er fjallar um kjör til sýslunefnda, vill stjórn sambandsins vekja athygli á því, að hún telur brýna nauðsyn bera til þess, að hafizt verði handa um endurskoðun á skiptingu landsins í stjórnarumdæmi. Um nokkurt skeið hefur slík athugun staðið yfir varðandi sveitarfélögin, en e. t. v. er ekki síður ástæða til þess að endurskoða skiptingu landsins í sýslur, en sú skipting er, eins og alkunna er, víða fráleit við nútíma aðstæður. Stjórn sambandsins telur, að ákvæði frv. skipti ekki neinu höfuðmáli, en ef sýslurnar haldist áfram sem sveitarfélagasambönd og umdæmi, væri á margan hátt eðlilegra, að a. m. k. oddvitar hinna einstöku hreppsnefnda yrðu sjálfkjörnir fulltrúar hreppa sinna í sýslunefnd og með því yrðu tryggð þau tengsl milli hreppsstjórna og sýslunefnda, sem stjórn Sambandsins telur, að vera þurfi, en því miður hefur víða skort vegna þess, að sýslunefndarmenn eru kosnir sérstaklega, og hefur því tilviljun ráðið, hvort þeir hafa átt sæti í hreppsnefnd eða ekki. Þetta tilkynnist hv. þdn. hér með.“

Það má segja, að niðurstaðan af þessari umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga sé sú, að hún taki ekki beina afstöðu til frv. Hún er hlutlaus og segir, að ákvæði frv. skipti ekki neinu höfuðmáli. En ég tel rétt að fara nokkrum orðum um þessa umsögn.

Það er alveg augljóst, að forráðamenn Sambands ísl. sveitarfélaga vilja gjörbreytingu á skipan sveitarstjórnarmála, ekki aðeins á skipan hreppsfélaga og sveitarfélaga, heldur líka á skipan sýsluumdæma. Þeir stefna að því, eins og reyndar kemur að nokkru leyti fram í frv. um sameiningu sveitarfélaga, að hér á landi verði eingöngu fá og stór hreppsfélög, hrepparnir helzt ekki minni en svona 800–1000 íbúa, og þegar sú skipan hreppanna sé komin á, sé kominn tími til að endurskoða sýsluskipunina þar á eftir. Það er þess vegna í sjálfu sér kannske ekkert óeðlilegt fyrir menn, sem hafa svona byltingarkenndar og róttækar hugmyndir, að þeir kæri sig ekkert um svona lagfæringu, telji það frekar verða til þess að tefja fyrir þeirri róttæku breytingu, sem þeir sjálfir stefna að. Hitt er svo annað mál, og það verða menn að meta, hvort það séu einhverjar raunhæfar forsendur fyrir þessum skoðunum og stefnumörkun ráðamanna Sambands ísl. sveitarfélaga um það, að þessi skipan mála, sem þeir stefna að, komist nokkurn tíma á í allra næstu framtíð.

Í nál. hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. segir svo, að það sýni bezt, hversu snöggsoðið frv. sé, að sveitarfélög með 401 íbúa eða fleiri skuli hafa 2 fulltrúa í sýslunefnd, en hin, sem færri íbúa hafa, 1 fulltrúa. „Viðmiðunin 400 íbúar án frekari rökstuðnings og fjölgun um 1 fulltrúa í fjölmennari sveitarfélögum er kjörregla, sem að okkar áliti er engan veginn knýjandi réttarbót, eins og háttar.“

Nú er það auðvitað svo, að þegar einhver mörk eru sett, hvort sem þau eru sett við töluna 400 eða einhvers staðar annars staðar, þá getur alltaf talan 1 ráðið úrslitum, þ. e. a. s. hvort það eru 400 eða 401, hvort það eru 700 eða 701, hjá því er aldrei hægt að komast, þegar mörk eru sett. Þegar ég ákvað að setja töluna 400 í frv., hafði ég fyrst og fremst í huga íbúafjöldann í hreppsfélögum í landinu. Ég var með fyrir framan mig skrá yfir öll hreppsfélög í landinu og íbúafjölda þeirra, og þar kom fram, þegar ég athugaði þá skrá, að það voru 41 hreppsfélög, sem hafa yfir 400 íbúa, af eitthvað rúmum 200 hreppsfélögum, þannig að það er um fimmti hluti. Ég hafði það m. a. til hliðsjónar. Hitt tók ég fram í minni framsöguræðu, að vitanlega er alltaf álitamál, hvar á að setja svona mörk. En það álitamál má ekki valda því, að þarna verði engin breyting, engin mörk sett, heldur standi gamla reglan áfram. Það getur auðvitað verið matsatriði. Í mínum augum er 400–500 nálægt lagi. Hitt er annað mál, að þetta er matsatriði, og það komu ekki fram neinar till. frá þeim, sem skipuðu meiri hl. n. og standa að nál. um að breyta þessari tölu. Ég geri ráð fyrir, að við höfum jafnan verið til viðtals um það, ef það strandaði fyrst og fremst á því. Þá virðist þarna, eins og kom fram hjá hv. frsm. meiri hl., líka vera gagnrýnt, að þarna er bara miðað við 400. Síðan er þeim ekki fjölgað í 3, þó að íbúarnir verði 1000 eða 1500. Vissulega er það athugunarefni, hvort á að hafa þetta svona einfalt, enda taldi ég þessa leiðréttingu hér við 1. umr. málsins vera lágmark. En ég tel þó miklu betur að farið að stíga stutt skref en láta það ógert að stíga nokkurt skref í réttlætisátt.

Hér er líka sagt í þessu nál., að þeir, sem höfðu tjáð sig, telji frv. engan vanda leysa. — Það má auðvitað kalla þetta vanda frekar en að leiðrétta ranglæti, þó að það verði kannske ekki leiðrétt að fullu. En sumir af þeim, sem tjáðu sig um frv. og voru því frekar andvígir eða höfðu eitthvað út á það að setja — þeir höfðu aftur önnur vandamál að hugsa um. Það var annað, sem lá þeim meir á hjarta, og þeir sögðu: „Það er eitthvað annað, sem við þurfum að breyta í þessum lögum:

Nú tel ég, að þó að þetta frv. yrði samþ., mundi það alls ekki trufla á nokkurn hátt endurskoðun á sveitarstjórnarskipan eða sýsluskipan í landinu, og meira að segja, hvað varðar sameiningu sveitarfélaga, mundi samþykkt þessa frv. í einstökum tilfellum frekar greiða fyrir henni en hið gagnstæða. En ég tel ekki eðlilegt eða sanngjarnt að vísa þessu frv. frá á þeim forsendum, að öll þessi mál þurfi heildarathugunar við. Þetta mál er ákaflega einfalt. Það er hægt að leysa þetta sérstaka spursmál alveg óháð öllu því, sem hugsanlega kemur á eftir, enda er það trú mín, að þær hugmyndir, sem nú eru uppi um sameiningu sveitarfélaga og breytta umdæmaskipan landsins, eigi allar mjög langt í land, og þess vegna veit enginn, hvenær slíkar breytingar munu taka gildi. Það verður ekki fyrr en eftir fjölda ára. En það er full ástæða til þess að leiðrétta þetta, sem hér er ætlað að bæta úr strax, og í raun og veru er mjög auðvelt að framkvæma þessa leiðréttingu án þess að bíða eftir nokkru öðru, sem sé óskyldara. Niðurstaða okkar, sem þennan minni hl. skipum í heilbr.- og félmn., er, eins og fram kemur í nál. okkar á þskj. 179, sú að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt.