20.01.1970
Neðri deild: 39. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2277)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Þessi hv. d. hefur tvívegis samþ. fyrir sitt leyti nýtt frv. um skipan menntaskólanáms á Íslandi. Í 4. gr. þess frv. er skráð meginregla, sem höfundar frv. hafa talið grundvallaratriði að því er varðar menntaskólanám, og meginreglan er ósköp einföld. Hún er svohljóðandi: „Skólarnir eru jafnt fyrir pilta og stúlkur.“ En þegar frv. til l. um menntaskóla kom til umr. í menntmn. á síðasta þingi, þá kom það fram þegar á fyrsta fundi, að ætlunin myndi vera að brjóta þessa meginreglu þegar í stað. Það var um það talað, að hæstv. menntmrh. mundi telja ákvæði 5. gr. menntaskólafrv. fullnægjandi til þess, að hann gæti veitt Kvennaskólanum heimild til þess að brautskrá stúdenta, þó að þar sé ekki um að ræða jafnan rétt fyrir pilta og stúlkur. Þessi undanþágugrein í menntaskólafrv. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Setja má á stofn í tilraunaskyni menntaskóla, er séu óháðir tilteknum ákvæðum þessara l., enda fullnægi þeir þeim skilyrðum sem l. setja um stúdentspróf og rétt til inngöngu í háskóla.“

Menntmn. taldi í fyrra, að það væri öldungis óeðlilegt að veita Kvennaskólanum réttindi samkvæmt þessari gr., og n. sneri sér til hæstv. menntmrh. og vakti athygli hans á þessu. Taldi n., að ef til ætti að koma, að Kvennaskólinn fengi þessi réttindi, þyrfti að flytja um það sérstakt frv., þannig að Alþ. tæki um það ákvörðun sem sérstakt mál. Þetta leiddi til þess, að hæstv. menntmrh. bað menntmn. að flytja sérstakt frv. um þessi réttindi til handa Kvennaskólanum. Þetta frv. var samið á vegum hæstv. ráðh., en þegar n. barst það, brá svo undarlega við, að því fylgdi engin efnisleg grg. Þar var enginn rökstuðningur fyrir því, að þetta væri skynsamleg ákvörðun. Engin grein var gerð fyrir því, hvernig þetta mál væri hugsað í Kvennaskólanum, eða hverjar aðrar afleiðingar væru af þessari ákvörðun. Það var rekið mikið eftir þessu frv. í fyrra í þessari hv. d., og gafst ákaflega naumur tími til þess að athuga það, en það kom raunar í ljós, að þessi eftirrekstur hafði þann einn tilgang, að hægt væri að svæfa málið á sama stigi og sjálft menntaskólafrv. í Ed.

Í haust, þegar þing kom saman, endurtók það sig, að hæstv. ráðh. bað menntmn. Nd. að flytja þetta frv. á nýjan leik. Ég lýsti þá yfir því á fundi hjá n., að ég sæi ekki ástæðu til þess að standa að flutningi slíks frv., þar sem ég hefði þegar lýst yfir því, að ég væri andvígur þessu frv. Ég spurði þar um það, hvernig á því stæði, að n. væri ár eftir ár beðin að flytja þetta frv., hvers vegna væri þetta ekki flutt sem venjulegt stjórnarfrv., eins og eðlilegt hefði verið, stjórnarfrv., sem fylgt hefði ýtarleg grg. sérfróðra manna um nauðsyn þessara framkvæmda. Ég fékk engin svör við þessu. Ég spurði að því í n., hvort ástæðan væri e. t. v. sú, að um þetta mál væri ágreiningur innan hæstv. ríkisstj. og þess vegna væri ekki unnt að flytja málið sem stjórnarfrv. Ég fékk ekki svör við því heldur. En mér þætti fróðlegt, ef einhver hæstv. ráðh. vildi gefa vitneskju um þessi atriði hér, því að mér finnast þetta vera mjög undarleg vinnubrögð af hálfu hæstv. ríkisstj. að láta n. flytja þetta mál þannig aftur og aftur og gera ekki málefnalega grein fyrir nauðsyn þess. Síðan urðu málalokin þau, að meiri hl. n. hefur flutt þetta frv., og á sama hátt og í fyrra fylgir því engin grg., eða aðeins fimm línur og í þeim stendur ekkert efnislegt.

Hins vegar kemur það fram í sjálfu menntaskólafrv., að n., sem það frv. samdi, fékk í hendur nokkra grg. um þetta mál. Hún ræddi þetta mál mjög ýtarlega, og hún komst að ákveðinni niðurstöðu um það. Meiri hl. n., þ. e. a s. skólastjórar allra menntaskóla á Íslandi, skólastjóri Kennaraskólans og þáverandi rektor Háskóla Íslands lögðust allir gegn því, að Kvennaskólinn fengi þessi réttindi. Ég hef prentað álit þessara höfunda menntaskólafrv., sem fylgiskjal með nál. mínu og vænti þess, að allir hv. þm. hafi lesið það. Meginrök þeirra eru þau, að þeir telja að þessi ákvörðun brjóti í bága við þær meginreglur, að menntaskólar séu samskólar, og að þeir verði aðskildir frá gagnfræðastiginu.

Í annan stað benda þeir á, að sérstakur bekkur fyrir stúdentsnám í Kvennaskólanum myndi ekki gera kleift að framkvæma meginhugmynd menntaskólafrv. um valfrelsi. Þeir benda einnig á, að skólastærðin mundi gera það mjög erfitt að koma upp föstum og samstæðum kennarahópi — þarna yrði að mestu um að ræða stundakennara, og það gæti ekki orðið eins mikil festa í slíku skólastarfi og æskilegt væri.

Ég tel, að okkur beri að gefa þessum röksemdum skólamannanna sérstakan gaum, einmitt vegna þess að við erum að vinna að því — og ég vænti þess, að það verði gert á þessu þingi — að gerbreyta öllu skólakerfinu á menntaskólastiginu. Og þegar við framkvæmum slíka breytingu, verðum við að vita, hvað við erum að gera. Einstakar ákvarðanir okkar í skólamálum verða þá að vera í samræmi við sjálfa heildarstefnuna.

Ég tel, að einmitt þetta atriði — að marka heildarstefnuna og fylgja henni eftir — ætti að vera mönnum sérstaklega ríkt í huga í sambandi við skólamálin um þessar mundir. Einmitt á síðasta ári keyrði stjórnleysið í skólamálum algerlega um þverbak. Vandamálin hrönnuðust upp, án þess að hæstv. menntmrh. og félagar hans hefðu gert sér nokkra raunhæfa grein fyrir þeim fyrirfram, og stjórnarvöldin hröktust hreinlega undan vandamálunum. Ég vil minna á nokkra atburði, sem gerðust á þessu sviði. T. d. skipaði hæstv. menntmrh. allt í einu sérstaka n. til þess að leggja á ráðin um nýjar námsleiðir að loknu landsprófi eða gagnfræðaprófi, og n., sem í þetta var sett, var falið að ljúka verki sínu á rúmum mánuði. Nú eru slík vinnubrögð að sjálfsögðu alger fásinna, og ástæðan til þess, að n. lauk þessu verkefni engu að síður, var auðvitað sú, að menn höfðu lengi verið að hugsa um þessi mál og höfðu myndað sér skoðanir um þau. Engu að síður hafi hlotizt vandræði nú þegar af þessum skjótu ákvörðunum. Nú er uppi deila, eins og kunnugt er, milli ríkissjóðs annars vegar og sveitarstjórna hins vegar um kostnað af þessum nýju námsleiðum. Þá deilu hefði auðvitað verið hægt að leysa, ef að þessu hefði verið unnið með einhverri fyrirhyggju, en þegar hlutirnir eru gerðir í slíku bráðræði, hljótast ævinlega vandkvæði af.

Ég vil minna á það, hvernig hæstv. menntmrh. stofnaði hér í Reykjavík nýjan menntaskóla í algeru fumi vegna þess, að honum vitraðist allt í einu sú staðreynd, að það yrði ekki rúm fyrir alla þá, sem ættu rétt á menntaskólanámi í Reykjavík. Og þá lá svo mikið á, að það gafst ekki einu sinni tími til að ráða sérstakan skólastjóra og sérstaka kennara handa þessum nýja menntaskóla. Síðan gerðist það, að hæstv. ráðh. var tekinn sérstaklega til bæna á Vestfjörðum og hreinlega knúinn til að gefa þar loforð, sem hann var búinn að draga við sig í mörg ár þar á undan.

Ég þarf ekki að rifja upp atburði þá, sem gerzt hafa í Háskóla Íslands. Stöðug átök út af því, að þar er ekki aðstaða til þess að veita þá kennslu, sem á að veita; hringlandaháttinn í sambandi við læknadeildina, fram og til baka, vegna þess að hæstv. ráðh. gerði sér ekki ljóst nógu snemma, hvert þróunin stefndi. Þar er ástandið þannig, eins og rektor Háskólans hefur nýlega skýrt frá, að hann telur ástandið í húsnæðismálum slíkt, að þar sé hreinlega um að ræða heilsuspillandi húsnæði fyrir suma af þeim, sem þar stunda nám.

Ég held, að það sé algerlega ljóst, að stjórnleysi af þessu tagi verður að linna. Við verðum að marka heildarstefnu í skólamálum og fylgja henni eftir og haga einstökum ákvörðunum í samræmi við hana. Og þetta á auðvitað við um nýja menntaskólakerfið. Nýja menntaskólakerfið er annað og miklu meira en lagasetning. L. eru einvörðungu rammi, sem síðan þarf að fylla út í. Þar verður samning reglugerðar ákaflega mikilvæg, en við skulum einnig gera okkur það ljóst, að þessu nýja kerfi fylgir mikill tilkostnaður, ef það á að ná tilgangi sínum. Nýja kerfið gerir ráð fyrir stórbættri starfsaðstöðu í skólunum og mjög auknum tækjabúnaði. Og ef á að framkvæma þessi lög í verki á næstu árum, þá verður að gera áætlanir um þessar framkvæmdir.

Mér er því spurn: Hverjar eru heildaráætlanir hæstv. ríkisstj. um framkvæmdir í skólamálum, bæði með tilliti til þess, sem gera þarf í menntaskólamálum, á lægri skólastigum og á háskólastiginu, að ógleymdri þeirri stóraukningu í iðn- og tæknimenntun, sem hlýtur að vera fram undan, ef mönnum er nokkur alvara með að iðnþróa Ísland?

Við þurfum að hafa vitneskju um þessi atriði, og gera okkur síðan grein fyrir því, hvernig áformin um stúdentsdeild við Kvennaskólann falla við þessar áætlanir, því þetta frv. um heimild handa Kvennaskólanum til þess að brautskrá stúdenta er einnig annað og meira en að veita formleg réttindi á blaði. Einnig það dregur dilk á eftir sér. Hvernig er t. d. háttað þeim húsakosti, sem nú er talað um að sé nægilegur til þess að bæta við slíkri deild a. m. k. í nokkur ár. Ástandið í þessum skóla hefur verið þannig, að á haustin hefur verið hægt að hleypa inn í hann um 60 nemendum. Það hafa verið valdir úr þeir, sem hæstu einkunn hafa. Það hafa verið einn þriðji og allt niður í einn fjórði af þeim, sem sótt hafa. Þarna hefur sem sagt verið um að ræða mikil húsnæðisvandræði. En auk þrengslanna er sjálft skólahúsið óhæft með öllu. Skólastjóri Kvennaskólans og formaður skólanefndar lýstu ástandinu svo í bréfi til hæstv. menntmrh. haustið 1967, þegar farið var fram á fjárveitingu til nýs húsnæðis handa Kvennaskólanum, með leyfi hæstv. forseta:

„Skólahúsið við Fríkirkjuveg er eign Kvennaskólans ásamt lóð. Skólahús þetta var byggt árið 1909. Það er eðlilega fyrir löngu orðið alls ófullnægjandi fyrir starfsemi skólans. Í húsinu er timburloft. Sumar kennslustofurnar eru undir súð. Langt er frá, að þessi húsakynni fullnægi einföldustu skilyrðum til nútíma skólastarfs og heilbrigðishátta.“

Sem sagt skólastjórinn og formaður skólan. lýsa yfir því, að það sé langt í frá að húsakynnin fullnægi einföldustu skilyrðum til nútíma skólastarfs og heilbrigðishátta. Þannig var ástandið, og inn í þetta hús er nú talað um að bæta við nýrri deild, sem brautskrái stúdenta. Ég held, að það sé algerlega augljóst mál, að þarna er ekki um að ræða réttar upplýsingar til Alþ. Þetta getur ekki staðizt. Afleiðing af þessu frv. verður auðvitað sú, að það verður að byggja nýtt skólahús, sem kosta mun tugi milljóna kr. Þegar sótt var haustið 1967, var rætt um, að nýtt skólahús mundi kosta 16 millj. Síðan hafa orðið tvær gengislækkanir og varla of mælt, að sams konar hús mundi nú kosta 30–40 millj. Eigi að bæta þarna við sérstakri stúdentsdeild, þ. e. a. s. að auka starfsemi skólans sem þessu nemur, þá verður vafalaust um að ræða mun stærra hús, og því spyr ég enn: Falla þessi áform um að byggja nýtt og stórt hús handa Kvennaskólanum í Reykjavík inn í framkvæmdaáætlun hæstv. ríkisstj. um það, sem gera þarf í menntamálum næstu árin? Ég vil í þessu sambandi minna á, að viðhorfin frá því í fyrra hafa einnig breytzt. Í fyrra var þetta frv. m. a. rökstutt með því, að við mundum á næstunni þurfa á fleiri menntaskólum í Reykjavík að halda, og að þessi kvennamenntaskóli mundi þá bæta úr almennri þörf, en síðan hefur bætzt við nýr menntaskóli í Reykjavík, þannig að ekki er fyrirsjáanlegur húsnæðisskortur fyrir menntaskólanám í Reykjavík á næstunni, þegar búið er að ljúka þeim verkefnum, sem verið er að vinna að í Hamrahlíðarskóla. En samt á að byggja nýtt skólahús handa Kvennaskólanum með þeirri röksemd, að þar eigi að koma upp sérstakri menntaskólanámsdeild. En þeir peningar, sem í þetta fara, verða að sjálfsögðu ekki notaðir í annað. Ég vil biðja menn að hugleiða það, hverju á þá að fresta á móti.

Menn hafa í sambandi við þetta mál skírskotað nokkuð til tilfinninga og sagt, að Kvennaskólinn sé merkur skóli, sem verðskuldi stuðning og viðurkenningu. Sízt skal ég hafa á móti því, að Kvennaskólinn á sér mjög merka sögu. Hann var stofnaður til þess að styðja sérstaklega jafnréttisbaráttu kvenna, á meðan konur höfðu ekki jafnrétti til náms á Íslandi. En það formlega jafnrétti hafa konur nú haft í rúma 6 áratugi. Og sá formlegi réttur hefur óðum verið að breytast í raunverulegan rétt á undanförnum áratugum. Nú fæ ég ekki séð, að það sé um að ræða neinar formlegar torfærur fyrir stúlkur umfram pilta í sjálfu skólakerfinu. Torfærurnar eru í þjóðfélaginu sjálfu, en ekki í skólakerfinu. Og einmitt þess vegna brýtur þessi hugmynd um Kvennaskólann — að honum verði breytt í menntaskóla að nokkru leyti — í rauninni í bága við upphaflegan tilgang með stofnun Kvennaskólans, því þessi hugmynd er fyrst og fremst rökstudd með því, að staða kvenna í þjóðfélaginu sé slík og verði slík, að þeim hæfi sérstök tegund af stúdentsmenntun. Þetta kemur mjög greinilega fram í þeirri einu grg., sem ég hef séð um stuðning við þessa málaleitan Kvennaskólans. Það er grg. Birgis Thorlacius, sem prentuð er sem fskj. með menntaskólafrv. Þar færir hann fram þessi rök fyrir því að styðja beiðni Kvennaskólans, með leyfi hæstv. forseta:

„Þótt því sé iðulega haldið fram, að stúlkum henti annað nám betur heldur en stúdentsmenntun, af því að svo fáar þeirra ljúki háskólaprófi, þá má ekki vanmeta þau áhrif, sem vel menntuð húsmóðir hefur á heimili sitt og umhverfi og því betri almenna menntun, sem menn fá, því betri skilyrði eiga menn að hafa til fyllra og ánægjulegra lífs. Ef Kvennaskólinn í Reykjavík fengi réttindi til þess að brautskrá stúdenta, myndi námsefni hans, þegar fram líða stundir, vafalaust verða þannig, að auk þess að veita þá menntun, sem krafizt er til inngöngu í háskóla hér og erlendis, yrði áherzla lögð á námsgreinar, sem sérstaklega væru við hæfi kvenna.“

Þarna er sem sé um að ræða aðalrökstuðninginn fyrir því, að Kvennaskólinn fái réttindi til þess að útskrifa stúdenta. Það á að hafa sérstakan skóla, þar sem námsefnið sé við hæfi kvenna og sé við það miðað, að velmenntuð húsmóðir geti haft góð áhrif á heimili sitt og umhverfi. Þessi hugmynd byggist sem sé á því, að áfram haldist það ástand, að konur skipi óæðri bekk í þjóðfélaginu en karlar, að þær taki ekki eins mikinn þátt í sameiginlegum verkefnum þjóðfélagsins, að þær láti sér að verulegu leyti nægja að starfa á heimilum sínum. Og þess vegna þurfi sérstakan skóla, sem miðaður sé við þessar þarfir. En þetta er hugmynd, sem gengur að sjálfsögðu í berhögg við alla jafnréttisbaráttu kvenna. Þetta frv. er ekki stuðningur við réttindabaráttu kvenna, heldur þvert á móti. Þetta er afturhaldssjónarmið.

Við vitum allir, að starfsvettvangur kvenna í þjóðfélaginu hefur verið að breytast mjög á undanförnum áratugum, og ég held, að það sé ekkert vafamál, að þróunin verður sú, að þessar breytingar munu halda áfram, að jafnrétti karla og kvenna til starfa haldi áfram að aukast. Til þess þarf vissulega margar þjóðfélagslegar breytingar enn þá, svo að konur eigi þess kost að nota sem bezt hæfileika sína og þekkingu. En þær breytingar verður að framkvæma, og þær verða alveg tvímælalaust framkvæmdar á næstu áratugum. Breyting á skólakerfinu, sem miðast við allt önnur sjónarmið, er algerlega röng og stríðir gegn þessari réttindabaráttu kvenna.

Ég hygg, að þetta mál — jafnrétti karla og kvenna — sé mikið félagslegt stórmál, og að við þurfum að horfast í augu við það, að þótt verulegur árangur hafi náðst að undanförnu, þá hrekkur hann engan veginn til. Við þurfum ekki annað en líta í kringum okkur hér í þessum sal. Hér situr engin kona okkar á meðal, enda þótt konur séu helmingur þjóðfélagsins. Svipuðu máli gegnir um sveitarstjórnir, þátttaka kvenna í þeim er ákaflega lítil. Og þetta stafar ekki af mismunandi hæfileikum, heldur er þjóðfélagsleg aðstaða kvenna til að taka þátt í slíkum málum ekki nægilega góð. Þær hafa ekki haft raunverulegt jafnrétti. Og slíkt hið sama er að segja um atvinnulífið. Á flestum sviðum er að vísu sagt í orði kveðnu, að greidd séu sömu laun fyrir sömu vinnu. En fram hjá þessu er farið á blygðunarlausan hátt, með því t. d. að kalla störf kvenna öðrum nöfnum en störf karla, og greiða þeim síðan lægri laun. Þess vegna er mikið ógert í baráttunni fyrir því að breyta sjálfri gerð þjóðfélagsins þannig, að konur geti notið raunverulegs jafnréttis. En skólaskipan, sem felur það í sér að festa í sessi það ranglæti, sem nú tíðkast, stríðir gegn hagsmunum kvenna. Ég held, að það sé ástæða til þess að leggja á þetta nokkra áherzlu, vegna þess að ég hef orðið var við það, að sumir þm. virðast ímynda sér, að þeir séu að sýna konum einhvern sérstakan stuðning með því að fylgja þessu frv. Hið gagnstæða er raunin.

Það hefur raunar komið æ skýrar í ljós að undanförnu, að konur eru þess síður en svo fýsandi, að þetta frv. verði samþ., og ekki heldur þeir, sem mest hugsa nú um menntaskólanám, nemendur menntaskólanna, sem lýst hafa fullri andstöðu við þetta frv., og skólastjórar þeirra allra, eins og ég skýrði frá hér áðan. Á s. l. sumri kom út ársrit Kvenréttindafélags Íslands, 19. júní. Þar var sérstök grein um þetta frv. eftir Öddu Báru Sigfúsdóttur og var þar tekin mjög eindregin afstaða gegn frv. í þessu málgagni Kvenréttindafélagsins.

Ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa örstuttan kafla úr þessari grein Öddu Báru Sigfúsdóttur. Þar segir svo:

„Í yfirlýsingu annars minni hl. nefndarinnar er talið mikilvægt, að til sé menntaskóli í landinu, sem lokar ekki algerlega augunum fyrir þeirri staðreynd, að flestar stúlkur, sem stúdentsprófi ljúka, eiga fyrir sér að verða mæður og húsmæður. Einnig er minnzt á, að væntanlegur stúlknastúdentaskóli muni ráða bót á stórri vanrækslusynd menntaskólanna, sem fyrir eru, að því er varðar hinar sérstöku menntunarþarfir kvenna. Minni hl. mennirnir sjá konuna greinilega fyrst og fremst innan veggja heimilisins. En sé hún þar ekki, skín í hana við ritvélina í einhverri undirtyllustöðu. Og víst er það, að sérstakur menntaskóli fyrir konur mun fremur stuðla að óbreyttri stöðu kvenna í þjóðfélaginu, viðhalda þeirri stöðu, sem við kvenréttindakonur erum ekki ánægðar með og viljum breyta. Ég viðurkenni ekki, að til eigi að vera sérstakar námsgreinar við hæfi kvenna í menntaskólum og kannast ekki við neinar vanrækslusyndir þeirra skóla, sem bitna fremur á stúlkum en öðrum nemendum. Hér er ef til vill átt við vélritun, saumaskap og matseld. Sé svo, er því til að svara, að vélritun eiga menn að vera búnir að læra, þegar að menntaskólastiginu kemur. En hin hversdagslegu heimilisstörf má læra á námskeiðum eða í heimahúsum, og það kemur ekki menntaskólanámi við. Það er aftur á móti rétt, að menntaskólarnir taka ekki tillit til þess, að flestar stúlkur verða mæður. En þeir taka ekki heldur tillit til þess, að flestir piltar verða feður. Þetta mættu þeir þó hvort tveggja gera með því að kenna sálar- og uppeldisfræði og það einmitt í samskóla. Einnig mættu menntaskólarnir taka tillit til þess, að allir verða nemendur þeirra fólk, sem lifir í samfélagi við annað fólk, og það mætti gjarnan auka á skilning þeirra á því samfélagi með bættri kennslu í þjóðfélagsfræðum auk þeirrar siðfræði, sem samskipti manna ættu að grundvallast á.

Kvennaskólinn í Reykjavík er gömul og merk stofnun, og sjálfsagt er kominn tími til að breyta henni á einhvern hátt. Ég veit, að skólastjóri hans er mikilhæf kona og hefur ekki síður náð árangri sem kennari drengja en sem kennari stúlkna. Ég vildi mjög gjarnan sjá hana sem rektor menntaskóla. Og hví þá ekki að breyta Kvennaskólanum í Reykjavík í almennan menntaskóla, sem bæði piltar og stúlkur ættu jafnan aðgang að?“

Þannig komst Adda Bára Sigfúsdóttir að orði í ársriti Kvenréttindafélags Íslands í sumar. Nú fyrir nokkrum vikum barst okkur þm. í hendur tölublað af tímaritinu Garmi, sem út er gefið af félagi stúdenta í heimspekideild Háskóla Íslands. Í þessu tímariti var þetta mál tekið alveg sérstaklega fyrir og lýst mikilli andstöðu við þetta frv. í flestum greinum. Einna fróðlegast þótti mér, að þar eru birt viðtöl við stúlkur, sem sumar voru útskrifaðar úr Kvennaskólanum, en aðrar voru þar við nám, og þær spurðar um afstöðu sína til þessa frv. Og þar kom í ljós, að þessar Kvennaskólastúlkur voru allar ýmist andvígar frv. eða þær lýstu yfir því, að þær hefðu ekki viljað stunda stúdentsnám við slíka skóla. Ég vil taka hér eitt dæmi. Stúlka, sem heitir María Gunnlaugsdóttir og stundar nám við Háskóla Íslands núna, kemst svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég held, að það hafi hvergi komið fram hjá fylgismönnum kvennaskólafrv. svonefnda, hvort kannað hefur verið til nokkurrar hlítar, hvort stúlkur, sem hyggja á menntaskólanám, vilji sitja í kvennamenntaskóla eða ekki. Það er þó höfuðatriði að athuga fyrst, hvort grundvöllur sé fyrir slíkum skóla, áður en málið er borið fram á þingi. Mig grunar nefnilega, að þær stúlkur séu teljandi á fingrum annarrar handar, sem vilja stunda nám við kvennamenntaskóla, meðan völ er á öðru. Kvennamenntaskólar, sem þekkjast víðs vegar erlendis, eru úreltir og eru afturgöngur þess miðaldahugsunarháttar, að setja beri það vandræðakvenfólk, sem leita vill æðri menntunar, á einhverja sérbása, þar sem það getur dundað við greinar, sem hæfa því, og þar sem það truflar sem minnst gáfaða kynið.“

Fimm stúlkur úr skólanum sjálfum eru spurðar, þær eru ekki nafngreindar af eðlilegum ástæðum, en lýsa því allar yfir, að þær mundu ekki vilja stunda nám við slíka deild.

Ég tel þessi viðhorf kvenna vera ákaflega athyglisverð og ég get bætt því við, að mjög margar konur hafa komið að máli við mig í sambandi við þetta mál, einmitt til þess að lýsa því yfir, að þær séu algerlega andvígar þessu frv. og þær telji, að það gangi í berhögg við réttindabaráttu kvenna. Af þessum ástæðum er ég andvigur þessu frv. Ég tel, að sú breyt., sem í því felst, miði í öfuga átt, og ég legg til, að frv. verði fellt.