30.01.1970
Neðri deild: 49. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

123. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. um tollskrá er komið aftur til þessarar hv. d., vegna tveggja breytinga, sem á því voru gerðar í Ed. og sem hafði láðst að taka til athugunar, meðan málið var til meðferðar hér í þessari hv. d.

Fyrri brtt. er þess eðlis að gera eðlilega tollalækkun á fernum um mjólk, sem er nú nokkuð umtalað mál, en ég skal ekki fara hér út í, að öðru leyti en því, að hér er eingöngu um samræmingaratriði að ræða. Þær hafa verið fluttar inn tilbúnar með 20% tolli, samkv. sérstakri ákvörðun fjmrn., en nú er lagt til, að á þær komi sérstakur EFTA–tollur, sem verði 11%, en aftur á móti mundi efni í fernur, ef þær kæmu til framleiðslu hér, gljápappír og vaxborinn pappír, vera tollfrjáls samkv. tollskránni eins og hún nú er. Þetta atriði er til samræmingar og ég geri naumast ráð fyrir, að nokkur ágreiningur verði um það hér í hv. d. fremur en var í Ed.

2. brtt. er um það, að þar sem heimilað er í tollskránni að endurgreiða toll af umbúðum og efni í umbúðir um innlendar framleiðsluvörur, sem fluttar eru til útlanda, þá er gerð nokkur orðalagsbreyting, sem ekki er kannske von að menn átti sig á, hvað þýðir, en ég vil láta koma hér skýrt fram, hvað merkir. Grundvallarhugsunin verður áfram óbreytt, að þetta gildi eingöngu um umbúðir utan um vörur, sem fluttar verða til útlanda til sölu þar, en síðan hefur verið skotið inn sérstakri breytingu, sem gildi ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Nú vil ég taka skýrt fram, hvaða sérstakar ástæður þetta eru, þannig að það liggi hér bókað, að ekki sé ætlunin að nota þessa heimild nema í einu tilfelli og það er í sambandi við umbúðir til Áburðarverksmiðjunnar. Þær umbúðir hafa verið tollfrjálsar til þessa og samkv. l. um Áburðarverksmiðjuna er hún undanþegin öllum gjöldum. Það kann að vera, að það mundi gilda einnig í þessu tilfelli, en er þó vafaatriði. Og ekki þykir ástæða til þess að fara með þessu tollskrárfrv. að leggja nýjar kvaðir á Áburðarverksmiðjuna, umfram það, sem þegar hefur gilt, og þess vegna er þetta orðalag viðhaft, en ætlunin er, að það verði skilið með þessum hætti einum. Rn. mun nota þetta varðandi innlendar söluvörur eingöngu í þessu tilfelli, en ákvæðið mun áfram gilda svo sem það almennt hljóðaði varðandi allar útflutningsvörur.

Ég vonast til þess, að hv. þd. geti fallizt á að afgreiða frv. með þessum smávægilegu breytingum, án þess að það þurfi sérstaklega að fara til n. hér.