20.04.1970
Efri deild: 74. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (2361)

152. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Í frv. því, sem hér er til umr., felst það að fella skuli úr gildi lög nr. 33 frá 1915, um verkfall opinberra starfsmanna. Þessi lög banna opinberum starfsmönnum sem kunnugt er, að gera verkföll að viðlögðum refsingum. Þessi lög eru orðin meira en hálfrar aldar gömul, og þess vegna er vitanlega ekki úr vegi, að athuga, hvort ekki þurfi að breyta þeim og endurskoða þau eða hugsanlega að fella þau alveg úr gildi. Samkvæmt þessum l. eru allströng viðurlög við því, ef opinberir starfsmenn gera verkföll, það er hægt að dæma þá í sektir og jafnvel fangelsi, og það er hægt að dæma fleiri en þá, sem gera slík verkföll. Það er einnig hægt að dæma þá, sem hafa stuðlað að því eða hvatt til þess, að slík verkföll væru gerð, þó að þeir séu ekki beinir aðilar að verkfallinu.

Ef þetta er nú borið saman við ákvæði l. um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938, þá eru viðurlög þar önnur. Þarna er auðvitað sá grundvallarmunur á í fyrsta lagi, að verkföll hjá opinberum starfsmönnum eru bönnuð, en hjá verkalýðsfélögum og samtökum atvinnurekenda eru vinnustöðvanir og verkföll heimiluð samkv. l. um stéttarfélög og vinnudeilur. En þó geta samkvæmt þeim l. átt sér stað ólögmæt verkföll, þ. e. a. s. verkföll, sem er staðið þannig að, að ekki er farið eftir reglum l. En samkv. l. um stéttarfélög og vinnudeilur eru viðurlögin við ólögmætu verkfalli allt önnur og miklu vægari heldur en samkv. l. frá 1915, og þau eru fyrst og fremst skaðabætur. Það er að vísu hægt að dæma í sektir, en þær sektir eru ekki aðfararhæfar. Verkfallsmál eða mál út af ólögmætu verkfalli samkv. l. um stéttarfélög og vinnudeilur yrði rekið fyrir félagsdómi, en mál út af ólögmætu verkfalli opinberra starfsmanna samkv. l. frá 1915 yrði rekið sem sakamál. Það er rétt, að menn geri sér grein fyrir þessu, ef þeir líta þannig á, að opinberir starfsmenn eigi ekki að gera verkföll eða a. m. k. í vissum tilvikum séu þau bönnuð, þá séu viðurlögin of ströng og maður getur sagt of gamaldags samkv. þessum l. frá 1915. En það, sem hv. flm. þessa frv. meina nú, er ekki fyrst og fremst það að athuga það að breyta þessum viðurlögum, heldur vilja þeir, að opinberir starfsmenn fái verkfallsrétt eins og aðrir launþegar í þjóðfélaginu. Og það má telja þetta fyrsta sporið í þá átt að afnema þessi lög og jafnvel stórt spor í þá átt.

Þegar afstaða er tekin til þessa frv., verða menn því fyrst og fremst að gera sér grein fyrir því, og það er aðalspurningin, hvort á að heimila opinberum starfsmönnum að gera verkföll eða ekki. Flm. þessa frv. vilja það eindregið. Aftur á móti teljum við, sem skipum meiri hl. í þeirri n., sem fékk þetta frv. til meðferðar, þ. e. a. s. allshn., ekki tímabært að taka afstöðu til þessarar mikilvægu spurningar að svo stöddu. Við teljum, að það þurfi að athuga ýmsa hluti gaumgæfilega og komast að niðurstöðu um þá, áður en svo mikilvæg ákvörðun er tekin sem sú, hvort veita beri opinberum starfsmönnum verkfallsrétt eða ekki. Og þau atriði, sem við viljum sérstaklega láta kanna, koma fram og eru talin upp í nál. okkar á þskj. 587.

Fyrsta atriðið er það, hvort ríkir þjóðfélagshagsmunir séu í húfi, ef verkfallsréttur verði veittur. Það er nú augljóst mál, að margvíslegir, mikilvægir þjóðfélagshagsmunir verða skertir, ef verkfallsréttur verður veittur opinberum starfsmönnum. Ef maður tæki nokkur dæmi, við skulum segja, ef starfsmenn Pósts og síma færu í verkfall, skapaði það auðvitað mjög mikil óþægindi. Ef t. d. starfsmenn stjórnarráðsins færu í verkfall og fleiri slíkir, þá gæti maður spurt, hvort það hefði ekki þær afleiðingar í för með sér, að landið yrði stjórnlaust. Maður heyrir það iðulega af fregnum erlendis frá, að þar eru vissir hópar opinberra starfsmanna í verkföllum og þar skapast mikið öngþveiti, jafnvel þannig að viðkomandi ríkisstj. verður að láta herinn grípa í taumana. Hér höfum við sem betur fer engan her, og ég held, að engum detti það í hug að fara að stofna til hersveita til þess að geta bætt úr slíku neyðarástandi. En spurningin um það, hvað miklir hagsmunir séu í húfi, er auðvitað nátengd því í fyrsta lagi, hvort verkfallsréttur verður veittur og í öðru lagi og ekki síður, hversu víðtækur þessi verkfallsréttur á að verða. Nú skilst mér, að flm. þessa frv. séu þeirrar skoðunar, að vissir hópar opinberra starfsmanna eigi ekki að hafa verkfallsrétt eða njóta ekki þess réttar að fullu, t d. starfslið alls konar öryggisgæzlu. Ég veit ekki, hvernig þeir hugsa sér þetta, og hvort þeir hafa markað endanlega stefnu um það enn þá. Það er auðvitað hægt að taka mörg fleiri dæmi, við skulum segja starfslið sjúkrahúsa, lækna, starfslið raforkuvera o. s. frv. o. s. frv. Hin opinbera þjónusta er svo brýn, og hún er svo þýðingarmikil, að jafnvel verkfall örfárra manna úr hópi starfsmanna hennar mundi geta skapað alvarlegt öngþveiti. En þetta teljum við, sem skipum meiri hl., að þurfi allt að athuga vel og þá um leið, hvernig þessi verkfallsréttur ætti að takmarkast, ef hann ætti að veita.

Þá er annað atriði, sem við teljum að líka þurfi að skoða vel, og ég tel mjög mikilvægt. Það er, hvort launabarátta opinberra starfsmanna hafi eftir gildistöku laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna 1962 borið minni árangur en launabarátta verkalýðsfélaga, er njóta verkfallsréttar. Ég geri ráð fyrir því, að ýmsir, sem nokkuð þekkja til þessara mála, hafi nokkuð ákveðnar skoðanir á því, hvernig þessu sé háttað. Eftir því, sem ég þekki til þessara mála, þá held ég, að kjarabarátta opinberra starfsmanna á þessu árabili hafi alls ekki borið minni árangur heldur en annarra launþega í landinu, en hins vegar verður vissulega að taka tillit til, að 1962 var almennt viðurkennt, að opinberir starfsmenn væru á eftir, svo að maður getur sagt, að það væri út af fyrir sig eðlilegt, að þeir ættu að hafa náð eitthvað meiri árangri en aðrar launastéttir. En engu að síður er þetta mál, sem þarf að kanna vel og ég mundi segja, að væri eitt af undirstöðuatriðunum, því að ef það sýndi sig, að launabarátta opinberra starfsmanna undir núverandi kerfi með samningsrétti, en án verkfallsréttar, sem svo endar í kjaradómi, eins og kunnugt er — ef hún bæri jafngóðan árangur og launabarátta annarra stétta í þjóðfélaginu, þá getur maður sagt, að það væri minni ástæða til þess að veita þeim verkfallsrétt en ella. Ef aftur hið gagnstæða kemur í ljós, að þeir dragast alltaf aftur úr, þá er auðvitað mjög mikil ástæða til þess að athuga, hvort ekki þurfi að styrkja réttarstöðu þeirra með verkfallsrétti.

Þá er eitt atriði enn, sem þarf að athuga í sambandi við þetta, og það er, hvort veita skuli ríkinu og sveitarfélögunum verkbannsrétt, ef opinberum starfsmönnum verður heimilað að gera verkföll, en eins og kunnugt er, er réttur vinnustöðvana samkv. vinnulöggjöfinni á hinum almenna vinnumarkaði gagnkvæmur, þannig að verkalýðsfélög geta gert verkföll og samtök atvinnurekenda geta sett á verkbönn. Því þarf að skoðast, hvort rétturinn ætti þá einnig á þessum vettvangi að vera gagnkvæmur, ef til kæmi.

Þá er í þessu sambandi einnig að líta á, hvernig skipan þessara mála sé hjá okkar nágrannaþjóðum og hvernig hún hafi gefizt. Þar er sums staðar verkfallsréttur, en annars staðar ekki.

Enn eitt atriði, sem ég vil láta athuga eða bíða eftir niðurstöðu um, er, hvernig fer um endurskoðun þá, sem nú stendur yfir á l. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38 frá 1954. Það, hvernig breytingar verða á þeirri löggjöf eða réttarstöðu opinberra starfsmanna verður breytt, kann að hafa áhrif á það, hvort veita beri þeim verkfallsrétt eða ekki eða með hverjum hætti. Eins og nú er og lengi hefur verið, hafa opinberir starfsmenn eiginlega haft æviráðningu, ef þeir fá starf hjá ríkinu eða sveitarfélögum, a. m. k. meðan þörf er á því starfi og það ekki lagt niður. Ein af þeim spurningum, sem hlýtur að vakna í sambandi við þessa endurskoðun er, hvort þessu eigi eitthvað að breyta, þannig að réttarstaða þeirra verði t. d. eitthvað svipaðri réttarstöðu almennra launþega, sem vinna hjá atvinnufyrirtækjum á hinum frjálsa vinnumarkaði.

Þá ber líka að skoða það, eða reyndar að komast að niðurstöðu um það eitthvað fram í tímann, hvort samningsréttur ríkisstarfsmanna verði áfram á hendi heildarsamtaka þeirra, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, eins og hefur verið frá 1962, eða hvort samningsréttinum verði dreift á fleiri aðila. Eins og öllum er kunnugt, hafa háskólamenntaðir menn, sem eru opinberir starfsmenn, gert mjög ákveðnar kröfur um það, að Bandalag háskólamanna fái samningsrétt við ríkið fyrir háskólamenntaða menn, sem starfa hjá ríkinu, og að samningsréttur Bandalags starfsmanna ríkis og bæja verði skertur að sama skapi. Undir þessar kröfur hefur að vísu ekki mikið verið tekið enn þá á opinberum vettvangi, hvað sem verða kann, en á þetta er lögð mikil áherzla af háskólaborgurum. Það er mikilvægt atriði í sambandi við hugsanlegan verkfallsrétt opinberra starfsmanna að mínum dómi, hvort samningsréttur verður á hendi eins aðila, sem fer með alla samninga og hefur alla opinbera starfsmenn innan sinna vébanda, eða hvort honum verður dreift á fleiri samtök. Ég segi, að þeim mun varhugaverðara væri að veita verkfallsréttinn, því fleiri aðilar, sem hefðu samningsréttinn á hendi. Ég er ekki talsmaður þess, að þessi samningsréttur verði klofinn. Ég vil hafa hann á hendi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og ég óttast það, að ef út af þeirri reglu verði brugðið, þannig að háskólamenn fái samningsrétt, þá muni fleiri hópar fara í kjölfarið og heimta samningsrétt fyrir sig. Og reyndar finnst mér, að ef það ætti að fara að kljúfa þetta niður í fleiri aðila, sem semdu við ríkið, þá sé það ekki eðlilegt að taka háskólaborgara sérstaklega, því að ég skil ekki, hvernig þeir eiga sérstaka samstöðu í kjaramálum, þó að þeir hafi lært í sama skóla eða sambærilegum menntastofnunum, heldur ætti að fara eftir allt öðrum reglum. Reyndar er þetta töluvert vandasamt mál og mikið alvörumál, því að ef ég man rétt, sagði hæstv. 11. þm. Reykv., sem er nú forseti Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, hér í ræðu í vetur, að sín persónulega skoðun væri sú, að sérhvert félag innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja ætti að fá sjálfstæðan samningsrétt gagnvart ríkinu. En við, sem skipum meiri hl. allshn. lítum svo á, að það sé mikilvægt að vita, áður en ákvörðun um verkfallsrétt verður tekin, hvernig samningsrétti verður háttað til frambúðar, hvort sú skipun, sem nú er, telst til frambúðar, eða hvort taka eigi upp einhverja aðra.

Við, sem skipum meiri hl. n., viljum svo í trausti þess, að framangreind athugun, sem ég hef hér rakið, í hverju ætti að felast, fari fram, að henni verði kappsamlega unnið og ríkisstj. hafi þar forgöngu um — í trausti þess, að svo verði gert, leggjum við til, að þessu frv. verði vísað til ríkisstj.