22.01.1970
Neðri deild: 41. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

149. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég verð að biðja afsökunar á því, að þetta frv. kemur með nokkurri skyndingu, þó að vísu eigi að vera nægur tími til þess að athuga það, þá hefði verið æskilegt, að það hefði komið fram fyrr. En það er nú svo, í sambandi við þessi margþekktu EFTA–mál, að það eru ýmis atriði, sem eru að koma upp og grípa inn í okkar löggjöf á ýmsum sviðum og hér er um atriði að ræða, sem ekki hafði verið athugað, að þyrfti að gera breytingu í sambandi við. En þar sem hér er eingöngu um formsatriði að ræða, en ekki neitt efnisatriði, þá vænti ég þess, að þetta frv. geti auðveldlega gengið í gegnum Alþ., áður en því verður frestað fyrir Norðurlandaráðsfundinn.

Efni málsins er það, að það þarf að gera breytingar á l. um tollheimtu og tolleftirlit vegna skýrslugerðar í sambandi við upprunameðferð vara og staðfestingu á því, hvernig háttað er um EFTA–uppruna varanna. Eins og grg. frv. ber með sér, er 1. gr. þess tekin orðrétt upp úr l. um tollheimtu og tolleftirlit. Þar eru tvær gr. l. sameinaðar í eina gr. til þess að raska ekki greinatölu við þær breytingar, sem nauðsynlega þarf að gera á l. um tollheimtu og tolleftirlit að öðru leyti. En þá þykir æskilegt, að það þurfi ekki að prenta frv. upp í heild og raska greinatölu þess.

Efni málsins sjálfs, sem hér er um að ræða og kemur fram í 2. gr. þess og 3. gr., leiðir beint af þeirri samþykkt, sem gerð hefur verið um staðfestingu á aðild Íslands að EFTA, en greinarnar fjalla um það, að til sönnunar því, að vara megi hljóta svokallaða svæðismeðferð sem EFTA–vara, þurfi nauðsynlega að fylgja viss gögn, sem útbúin eru í útflutningslandinu og lögð fram við tollafgreiðslu í innflutningslandinu. Þessi gögn eru svonefnd EFTA–skírteini og EFTA–yfirlýsingar, sem skulu vera í ákveðnu formi. Formin eru eins fyrir allar þjóðir í bandalaginu, en lesmálið getur þó verið á mismunandi tungumálum, en algengast er þó, að það sé á ensku. Venja er að veita ýmsum samtökum leyfi til að gefa út slík skjöl auk opinberra aðila, en hver þessi samtök og aðilar eru, þarf að tilkynna bandalagsþjóðunum, áður en þeir taka til starfa. Þess má einnig geta, að skírteini þessi og yfirlýsingar skulu vera með eiginhandarundirskrift vottorðsgefenda og nægir t.d. ekki stimpill, sem gerður er eftir rithönd vottorðsgefenda. Þó má nota vissa tegund endurritunarundirskriftar, eins og þegar ritað er með eigin hendi á prentspjald, sem einnig hefur að geyma lýsingu á vörunni og hvort tveggja er yfirfært á skjal í einu lagi. Reglurnar um formin og undirskriftirnar eru það margbrotnar, að setja verður ákvæði um það í auglýsingu eða reglugerð, eins og gert er ráð fyrir í 2. mgr. 2. gr. þessa frv. Í 4. mgr. 2. gr. eru ákvæði, sem lúta að því, að hægt sé að sannreyna gildi skjala eða vottorða um uppruna o.fl. Getur aðildarríki óskað þess, að fram fari rannsókn á sannleiksgildi slíkra skjala. Er því nauðsynlegt að lögfesta ákvæði um, að slík rannsókn sé heimil hér á landi. Aðildarríki bandalagsins skuldbinda sig til þess að setja í lög ákvæði um hegningu við því að láta í té eða nota skjöl eða vottorð, sem eru röng í mikilvægum atriðum, um uppruna vöru eða annað, sem á að tryggja, að varan fái svæðismeðferð í viðkomandi landi. Skulu hegningarákvæði þessi verða samsvarandi þeim, sem við því liggja, að gefa rangar upplýsingar í sambandi við tollafgreiðslu innflutts varnings. Í 63. gr. l. um tollheimtu og tolleftirlit eru lögð viðurlög við því að gefa rangar upplýsingar eða leggja fram röng gögn í sambandi við tollafgreiðslu innfluttra vara. Þykir eðlilegast, að ákvæði um hegningu fyrir sams konar brot við útflutning séu einnig í þeirri gr., og hefur þeim því verið skotið aftan við hana til þess að rugla ekki greinatölu laganna.

Svo sem ég í upphafi máls míns sagði og hef reynt að útskýra með þessum orðum, er hér um algerlega tæknileg atriði að ræða, en um leið óhjákvæmileg, sem lögfesta þarf í okkar löggjöf um tollheimtu og tolleftirlit í sambandi við EFTA–aðildina, en gefa að öðru leyti ekki neitt tilefni til þess að leiða til umr. um EFTA sem slíkt. Það mál er annars eðlis og hefur þegar verið afgert. Ég vildi því leyfa mér að vænta þess, að hv. d. sæi sér fært að afgreiða þetta mjög skjótlega frá sér og þá fyrst og fremst hv. n., sem þetta mál fer til, þar sem það er mjög nauðsynlegt, að þetta ákvæði hafi tekið gildi, áður en til EFTA–aðildar kemur og reyndar geti verið búið að gefa út þær auglýsingar og reglur, sem gert er ráð fyrir í frv.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.