10.11.1969
Neðri deild: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í C-deild Alþingistíðinda. (2405)

54. mál, læknalög

Kristján Ingólfsson:

Herra forseti. Það mun hafa verið á fyrsta þinginu, sem Alþ. hafði fjárveitingarvald, 1875, að gerð var bylting á einu sviði a. m. k. Það var í læknaskipunarmálum þjóðarinnar. Læknishéruðunum var fjölgað úr 8 og upp í 20, og auðvelt er að sjá, hversu mikil þjónustuaukning það hefur verið fyrir fólkið í landinu. Það þarf ekki að hugsa lengi um það, að þarna hefur verið á ferð sameinaður vilji, sem hefur byggzt á þörf fólksins, enda munu ekki hafa spunnizt miklar umr. um málið, þrátt fyrir sparnaðaranda þingsins, um að þetta skyldi gert. Það var stílað upp á eins læknis héruð á þessum árum, en síðan þetta gerðist eru liðin tæp hundrað ár og mörg vötn hafa til sjávar runnið og margt hefur breytzt, og kannske ekki hvað sízt, að hugarfarsbreyting hefur átt sér stað, bæði hjá þjóðinni sjálfri og eins hjá læknastéttinni sem broti af henni. Eins-læknis-héruðin, sem þá voru talin góð ;og gild, virðast nú hafa runnið sitt skeið, og bera m. a. breytingar, sem gerðar voru á læknaskipunarl. á Alþ. í fyrra vott um það, að löggjafarvaldið hefur tekið undir þá rödd læknastéttarinnar, að í framtíðinni verði áformað, að samstarfi tveggja lækna eða fleiri verði komið á sem víðast um land.

Læknamiðstöðvarnar eru í sjálfu sér ákaflega merkilegt fyrirbæri, og vonandi eiga þær eftir að komast á sem víðast um land, en þó ber að athuga það, að ekki er alls staðar hægt að koma við þeirri þjónustu, sem læknamiðstöðvarnar eru í rauninni hugsaðar fyrir. Í einangruðum byggðarlögum, þar sem e. t. v. er fátt fólk, er varla möguleiki fyrir hendi til þess að vera með tvo lækna. Það gerir fólksfæðin, en þörfin fyrir lækni er eftir sem áður brýn. Við vitum það einnig, að það er gert ráð fyrir talsverðum tilkostnaði í sambandi við læknamiðstöðvar, og við gerum ekki ráð fyrir því, að þær greiðslur fari fram á örfáum árum eða stuttu tímabili.

Þegar skoðuð er sú mynd, sem komið hefur fram í ræðum tveggja hv. síðustu ræðumanna, verður séð, að víða úti um land blasir við alger óáran í þessum efnum og ófremdarástand og öryggisleysi ríkir. Og þegar við skoðum jafnframt það dæmi, að læknamiðstöðvunum verður ekki komið á í öllu landinu á örskömmum tíma, þá hlýtur að vakna sú spurning hjá okkur, hvað hægt sé að gera í þeim byggðarlögum og læknishéruðum, sem í dag hafa engan lækni eða stopula læknisþjónustu, og sem ekki koma til með að njóta þjónustu frá læknamiðstöðvum á næstu árum. Þó svo, að ég álíti þetta frumvarp að vissu leyti neyðarúrræði og ólíkt skemmtilegra og ólíkt heillavænlegra hefði verið, að frumkvæði til breytinga hefði komið frá læknastéttinni sjálfri, Þá tel ég samt, að frumvarpið geti orðið til þess að bæta nokkuð aðstöðu hinnar dreifðu byggðar í landinu og bæta úr hinni stopulu læknisþjónustu, ef það verður samþ. Þar af leiðandi hlýt ég að mæla með því, að svo verði gert. Ég geri ráð fyrir því, að allir hv. þm. geri sér grein fyrir því, hversu mikið ófremdarástand er um að ræða í þessum málum. Að rekja það aftur á bak að einhverjum ákveðnum punkti ætla ég mér ekki, enda er oft betra að vera ekki að sakast um orðinn hlut, heldur setjast niður og reyna að finna bætur á því ástandi, sem allir viðurkenna, að sé til ófremdar. Og það er einmitt vegna þess, sem ég hef reynt að sýna fram á, að læknamiðstöðvarnar munu ekki í framtíðinni þjóna allri landsbyggðinni, ekki í náinni framtíð. Ég hef líka reynt að sýna fram á það, að þar af leiði, að ýmsir hlutar landsins verði út undan með læknisþjónustu. Því hygg ég, að okkur sé nauðugur einn kostur — að taka 1. gr. læknaskipunarl. og reyndar fleiri greinar þessa lagabálks til gaumgæfilegrar endurskoðunar og það verði bezt gert í mþn., eins og við höfum reyndar borið hér fram í þáltill. — milliþn., sem skipuð sé mönnum frá flestum þeim ábyrgðarhornum, sem viðkoma læknisþjónustunni.

Ég mundi segja, að á Austurlandi væri ástandið komið í lágmark, hvað læknaþjónustu snertir. Ef við lítum á A.-Skaftafellssýsluna, þá þjónar þessari sýslu og suðurhluta S.-Múlasýslu einn einasti læknir. Þetta er að vísu karlmenni, en hann hlýtur að vera farinn að þreytast, og það orkar ekki tvímælis, að verði hann einn um að þjóna allri þessari sýslu og stórum hluta annarrar sýslu einhver ár í viðbót, þá hljóta þau mannlegu örlög að henda hann, að hann gefist upp, og ég er því miður ekki kominn til með að sjá ungu læknana í dag hoppa inn í hlutverkið hans Kjartans Árnasonar á Hornafirði. Hann er búinn að rækja það af dæmafárri samvizkusemi undanfarin ár, en hann er búinn að gera miklu meira en hægt er að ætlast til af einum manni. Djúpavogslæknishérað er til á pappírnum, en því þjónar enginn læknir. Þar er einungis myndarlegur læknisbústaður, en læknishéraðinu er skipt, hvað þjónustu snertir, á milli tveggja annarra lækna. Á Fáskrúðsfirði situr eldri læknir, þar vantar læknisbústað. Innan tíðar mun sá læknir hætta fyrir aldurs sakir, og við vitum ekkert, hver tekur þá við. Á Eskifirði, þ. e. í Eskifjarðar- og Reyðarfjarðarhéraði, höfðum við lengi vel mjög stöðuga læknisþjónustu og góða, en nú síðustu ár höfum við einungis haft kandídata. Þeir hafa reynzt misjafnlega vel eins og gengur með unga og lítt reynda menn, og mér þykir það dálítið einkennilegt, ef það er eins og sá, sem nú er læknir, hefur látið eftir sér hafa, að hann, kandídatinn, sé ráðinn til að þjóna þessu héraði sem héraðslæknir næstu tvö ár. Mér þykir það satt að segja mjög sérkennilegt, ef hægt er að ráða mann, sem ekki hefur full réttindi til starfa svo langan tíma, og ef heilbrmrh. hefði verið hér í salnum, þá hefði ég gjarnan óskað upplýsinga um þetta frá honum, hvort þetta væri rétt.

Í Neskaupstað er enginn héraðslæknir, enda víkur nú svolítið öðru vísi við þar. Þar þyrfti vissulega að vera héraðslæknir, en þar eru hins vegar tveir læknar á myndarlegu sjúkrahúsi. Seyðfirðingar þurftu að grípa tannlækninn sinn og hafa notazt við hann með ágætum árangri undanfarin misseri. Hann lærði á sínum tíma líka læknisfræði, og þó að hann hefði ekki mikið stundað almenna læknisfræði undanfarin ár, þá hefur þessi ágæti maður dugað mæta vel. Fljótsdalshéraðið er allvel mannað, en þeir hafa líka Borgarfjörð, og þar er yfir erfiðan fjallveg að fara, sem þyrfti að halda eins vel opnum og hægt er á vetrum til þess að þetta litla og þróttmikla byggðarlag gæti fengið sem bezta þjónustu. Vopnafjarðarhérað er eitt af þessum héruðum, sem býr við sorgarsögu. Þar var gripið til þess ráðs með þennan lækni, sem nú er, að láta hann einnig þjóna Þórshafnarhéraði, og við vitum ekki betur, Austfirðingar, en hann sé einmitt að fara burt, vegna þess að hann treystir sér ekki til þess að þjóna þessum tveimur héruðum.

Ég ætla ekki að hafa þessa skýrslu um ástandið á Austurlandi lengri. Það sjá sjálfsagt allir, að ástandið er þar ekki betra en hv. flm. fyrir þessu frv. sýndi fram á úr sínu kjördæmi. Alls staðar þarf þetta úrbóta við, og ég trúi ekki öðru en Alþ. í dag sé jafn stórhuga á sína vísu og Alþ. var 1875. Í okkar kjördæmi, á Austurlandi, tengjum við miklar vonir við læknamiðstöðina, sem nú er að rísa upp á Egilsstöðum, og við munum þakka öllum þeim alþm. vel fyrir, sem hana styðja, því þar er virkilegt þjóðþrifamál á ferðinni. Mér vitanlega mun það verða fyrsta læknamiðstöð, sem reynt verður að hrinda í framkvæmd. Ég álít, að hér sé hreyft mjög þörfu máli. Það hefði verið æskilegt, að ekki hefði þurft að koma með það, en ástandið er þannig, að það verður ekki komizt fram hjá því. Þar af leiðandi mæli ég með því, að þetta verði samþ.