24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (2459)

230. mál, olíuhreinsunarstöð á Íslandi

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðh., þá er það ekki ætlun ríkisstjórnarinnar, að þetta frv. gangi fram á þessu þingi, heldur er það lagt fram til athugunar. Af þeim ástæðum sé ég ekki ástæðu til þess að ræða sérstaklega um efni þessa frv. að sinni, en vil aðeins segja nokkur orð um málið almennt.

Eins og fram kemur í grg. frv., hefur ríkisstjórnin látið vinna að athugun á því á undanförnum árum, hvort það mundi vera hagkvæmt að reka olíuhreinsunarstöð hér á landi, en eftir því, sem segir hér á 3. bls., þá hafa þær athuganir enn ekki leitt ótvírætt í ljós, hvort olíuhreinsunarstöð er ein út af fyrir sig hagkvæmt fyrirtæki eða ekki. Þess vegna er það till. ríkisstjórnarinnar, að unnið verði áfram að ath. málsins, og að það verði gert með þeim hætti, sem lagt er til í frv. Ég vil í tilefni af þessu láta það koma fram, að Framsfl. hefur jafnan verið því fylgjandi, að unnið yrði að athugun á því, hvort hagkvæmt væri að reisa slíkt fyrirtæki hér á landi, og ef niðurstaðan yrði sú, að það yrði talið hagkvæmt, þá yrði hafizt handa í samræmi við það. Flokkurinn er því að sjálfsögðu fylgjandi, að þeim athugunum á olíuhreinsunarmálinu, sem hefur verið haldið uppi á undanförnum árum, verði haldið áfram og það kannað til fulls, hvort hér sé um hagkvæmt fyrirtæki að ræða eða ekki.

Í sambandi við þá athugun, sem er framundan í þessum efnum, eða verður vonandi haldið áfram í þessum efnum, er sérstök ástæða til að leggja áherzlu á tvennt. Annað er það, að þeir valkostir, sem hér getur orðið um að ræða, verði athugaðir sem bezt og gerður á þeim samanburður. Mér skilst, að það hafi verið nokkur meiningamunur milli sérfræðinga, sem um þessi mál hafa fjallað, hvort það væri hagkvæmara að reisa hér litla olíuhreinsunarstöð, sem fyrst og fremst er miðuð við ísl. þarfir, eða hvort það væri rétt að reisa hér stærri olíuhreinsunarstöð, sem ekki væri eingöngu miðuð við þarfir Íslendinga, heldur væri reiknað með einhverju verulegu magni til útflutnings. Mér sýnist, að í þeirri grg., sem hér fylgir, sé að vissu leyti búið að taka ákvörðun um það, að það skuli frekar horfið að því ráði að reisa hér litla olíuhreinsunarstöð, en ég vil eigi að síður leggja áherzlu á það, þrátt fyrir þær upplýsingar, sem hér er að finna, að þetta mál verði rannsakað til hlítar, þ. e. a. s. að þessir tveir valkostir verði rannsakaðir, svo það liggi alveg ljóst fyrir við lok athugunarinnar, hvor kosturinn sé betri.

Annað atriði, sem ég tel rétt að leggja áherzlu á, er það, að við framtíðarathugun þessa máls verði ekki eingöngu leitað ráða hjá þeim aðilum, sem kunna að hafa áhuga á að koma hér upp slíku fyrirtæki eða eigi aðild að því að koma upp slíku fyrirtæki, heldur verði einnig leitað um þetta álits óháðs aðila, og slíkur aðili fenginn til umsagnar um, hvað hann álítur rétt að leggja til í þessum efnum. Slík fyrirtæki erlend, sem framkvæma slíkar athuganir, eru ýmis til, án þess að ætla sér að eiga nokkra hlutdeild í viðkomandi fyrirtæki síðar meir. Mér skilst, að ríkisstjórnin hafi átt kost á slíkri athugun hjá erlendu fyrirtæki, en horfið frá því ráði að fá slíka umsögn. Það gæti að sjálfsögðu orðið mikið gagn fyrir málið og fengizt betri yfirsýn um það, ef slík óháð umsögn lægi fyrir. Það er á þessi tvö atriði, sem ég legg áherzlu í sambandi við framtíðarathugun á þessu máli, og tek það fram, eins og ég hef áður sagt, að Framsfl. er því hlynntur, að þetta mál verði rannsakað til fulls.