15.12.1969
Efri deild: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (2476)

8. mál, Seyðisfjarðarkaupstaður

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég hygg, að það sé engin ástæða til þess að vefengja þá umsögn sýslumanns, að enginn hreppur í Norður-Múlasýslu — og reyndar koma þar nú ekki nema tveir til álita — hafi áhuga á því að taka við Loðmundarfirði, því að ef þeir hefðu skipt um skoðun frá því í sumar, þá hlytu þeir að hafa látið eitthvað frá sér heyra í sambandi við þetta mál. Gerum ráð fyrir, að þetta frv. væri sent til umsagnar sýslunefndar Norður-Múlasýslu. Ef maður í fyrsta lagi hugsaði sér, að hún væri frv. samþykk, þá mundi það ekki skapa neina breytingu. En ef sýslumaður væri þessu mótfallinn og menn vildu taka tillit til þeirra hugsanlegu mótmæla, þá sé ég ekki annað en málið væri komið í hreina sjálfheldu. Ekki getur sýslunefnd Norður-Múlasýslu skyldað neinn hrepp til þess að taka við Loðmundarfirði gegn vilja sínum, og ég veit ekki, hvernig þá ætti að fara, ef sýslunefndin væri þessu mótfallin, en enginn hreppur í Norður-Múlasýslu vildi taka við Loðmundarfirði. Við, sem meiri hl. skipum, teljum, að þetta frv. sé alveg innan marka þeirrar ályktunar, sem sýslunefnd Norður-Múlasýslu gerði, og sem var upphafið að þessari ráðstöfun, með því að heimila að sameina hreppinn öðru sveitarfélagi. Sjálfsagt hefur sýslunm. verið fullkomlega ljóst, hvernig þau mál stæðu heima fyrir.