07.04.1970
Neðri deild: 69. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (2496)

8. mál, Seyðisfjarðarkaupstaður

Frsm. meiri hl. (Friðjón Þórðarson) :

Herra forseti. Ég vil aðeins nota tækifærið til þess að þakka öllum hv. dm., sem hér hafa talað, fyrir þá miklu umhyggju og virðingu, sem þeir bera fyrir sýslunefndum, og skal ég að sjálfsögðu fyrstur manna taka undir það, því að maður fær oftar að heyra ýmsa gagnrýni á sýslunefndir en hitt, að þeim séu þökkuð góð verk, svo sem vera ber. Hins vegar taldi ég vel fyrir þessu atriði séð, þar sem þetta frv. er beinlínis til orðið samkvæmt ósk Norður-Múlasýslu, og mér var kunnugt um, að oddviti óskaði eftir því, að það næði fram að ganga sem fyrst. Það staðfesti hann í símtali við mig í gærmorgun. Á hinn bóginn minntist hann ekkert á þennan fund, sem hér hefur verið upplýst, að haldinn verði í sýslunefnd. Rengi ég það ekki, að hann hafi verið boðaður, eftir að við áttum tal saman, þannig að ég fagna því og skal með ánægju hlusta á það, sem sýslunefndin hefur fram að færa, en ég vænti þess, að það geti fengið sinn eðlilega gang áfram hér á þessu þingi.