10.03.1970
Efri deild: 53. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (2510)

177. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta á sér alllangan aðdraganda, eins og hv. þdm. er eflaust kunnugt, en frv. er samið af n., sem skipuð var samkv. þál., sem samþ. var á Alþ. 31. marz 1965, en þál. var svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa 7 manna n. til að endurskoða lög nr. 77 frá 28. apríl 1962, um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, og gera till. til breytinga eftir því, sem henni þykir ástæða til. Formaður skal skipaður án tilnefningar, en aðrir nm. samkv. tilnefningu Fiskifélags Íslands, Alþýðusambands Íslands, Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Landssambands ísl. útvegsmanna og Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, einn frá hverjum aðila. N. skal sérstaklega gera sér far um að kynna sér skoðanir útvegsmanna og sjómanna í einstökum landshlutum varðandi málið og reynslu þeirra af starfsemi Hlutatryggingasjóðs og Aflatryggingasjóðs.“

N. tók til starfa sumarið 1965, og er starfi hennar vel lýst í aths. um frv. og óþarfi að rekja það nánar. N. skilaði áliti í desember s. l. Frv. er shlj. frv., er n. afhenti með áliti sínu, með þeirri breytingu þó, að lagt er til, að framlag ríkissjóðs verði fjórðungur á móti útflutningsgjaldi í stað jafnra tekna af útflutningsgjaldi, eins og n. sjálf lagði til. Samkv. gildandi l. er framlagið helmingur á móti útflutningsgjaldi. Frv. hefur ekki að geyma neinar stórvægilegar breytingar á skipulagi þessara mála. Mörg ákvæði frv. eru einnig aðeins staðfesting á framkvæmd undanfarinna ára, en tiltölulega lítillar óánægju hefur orðið vart með gildandi lög frá þeim aðilum, sem mestra hagmuna hafa að gæta. Reynslan hefur sýnt, að nauðsynlegt er að hafa ákvæði l. rúm, þ. e. að þau skilgreini ekki í smáatriðum hin einstöku framkvæmdaatriði. Ekki má gleyma því, að reglugerðir um hinar ýmsu deildir sjóðsins kveða nánar á um framkvæmd l. í einstökum atriðum. Ekki er heldur ástæða til að fara ítarlega út í einstök ákvæði frv., en nefna má þó, að lagt er til, að báðar deildir bátaflotans verði sameinaðir í eina deild. Sjóðsstjórninni er gefin heimild til að meta úthald og skerða bætur eða bæta við, ef um frávik er að ræða frá eðlilegu, almennu úthaldi eða meðalúthaldi. Enn fremur skal höfð hliðsjón af útgerðarkostnaði, a. m. k. að hluta, við ákvörðun svonefnds meðalveiðimagns, sem bætur reiknast út frá. Þá er sjóðsstjórn heimilað að hækka bætur frá haustúthaldi við sérstakar aðstæður, sem hún verður að meta, til að stuðla að því, að útgerð leggist ekki niður á haustin. Lagt er til, að hámarksupphæð bóta verið takmörkuð nokkuð. Er hér um að ræða staðfestingu á þeirri hámarksupphæð bóta, sem sjóðsstjórnin hefur í starfi sínu að undanförnu markað og telur eðlilegar. Ákvæði eru um bætur vegna skerðingar á veiðiréttindum, þegar tiltekin takmörkuð veiðisvæði eru friðuð vegna hrygningar nytjafiska. Er hér um að ræða nýmæli, sem á tvímælalaust rétt á sér eftir setningu landhelgisl. frá í fyrravor. Með l. voru botnvörpuheimildir auknar til muna, m. a. verið opnuð svæði, sem nauðsynlegt getur reynzt síðar meir að friða vegna hrygningar nytjafiska. Það getur borið við, að skyndilega þurfi að friða tiltekin svæði um afmarkaðan tíma af þessum sökum. Geta svona ráðstafanir í einstökum tilfellum valdið takmörkuðum hópi báta fjárhagstjóni, þar sem svo hagar til, og með tilliti til þess, að slíkar ráðstafanir eru yfirleitt gerðar í þágu heildarhagsmuna, þá hygg ég rétt, að hér sé opnuð leið til að bæta að vissu marki það fjárhagstjón, sem af slíku hlýzt. Er hér lagt til að veita sjóðsstjórninni heimild til að greiða bætur, en ekki leggja henni beinlínis þær skyldur á herðar.

Í II. kafla frv. þessa eru felld inn ákvæði l. nr. 77 frá 28. maí 1969, um greiðslu fæðiskostnaðar bátasjómanna, en þau voru sett í framhaldi af kjarasamningum útvegsmanna og bátasjómanna í fyrravetur. Er gerð till. um þá breytingu í 18. gr., að greiðslur úr deildinni verði bundnar við tryggingartímann. Þetta er gert til hagræðis fyrir útvegsmenn, vegna þess að í lok tryggingartímabila gera þeir upp fæðiskostnað samkvæmt fæðisdagafjölda og eiga þá auðveldara með að gefa skýrslur um hann til Aflatryggingasjóðs. Þessi breyting leiðir ekki til neinna tafa á greiðslu fæðispeninga hjá sjóðnum. Við umrædda kjarasamninga kom fram skrifleg ósk samningsaðila um að láta fæðispeningagjald þetta fylgja vísitölu, en vegna þess, hve veikur fjárhagsgrundvöllur er undir þeirri tekjuöflun, sem í sjóðinn fer, hefur hingað til ekki þótt fært að verða við þessum óskum, en væntanlega tekur sú n., sem málið fær til meðferðar, þetta atriði til athugunar.

Skal þá aðeins vikið að þeirri breytingu, sem gerð var á frv. nefndarinnar. Það er lækkun ríkissjóðsframlagsins. Með l. nr. 5 frá 1968 um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda, var ákveðið, að framlag ríkissjóðs skyldi vera þriðjungur á móti útflutningsgjaldi þess árs í stað helmings. Með l. nr. 74 frá 1969 var mótframlag ríkissjóðs lækkað í fjórðung útflutningsgjalds, og tók það ákvæði til ársins 1969. Ríkissjóðsframlagið hefur þannig verið lækkað hlutfallslega tvö undanfarin ár. Í fjárl. ársins 1970 er miðað við, að mótframlag ríkissjóðs verði áfram 1/4 hluti útflutningsgjaldsins, eins og frv.þetta gerir ráð fyrir. Það er því með afgreiðslu fjárl. fyrir jól, sem í raun var tekin ákvörðun um þessa lækkun á framlagi ríkissjóðs. Er frv. því í samræmi við þá stefnu, sem undanfarin ár og í fjárlagafrv. s. l. haust virðist ákveðið hafa verið tekin í þessum efnum.

Gengisbreytingin í nóvember 1968 olli verulegri hækkun á útflutningsgjaldi, sem er mikilvægur tekjustofn sjóðsins. Tekjur Aflatryggingasjóðs af útflutningsgjaldi jukust um 36 millj. kr. á s. l. ári miðað við árið á undan. Er útlit fyrir, að eignaaukning sjóðsins árið 1969 verði um eða yfir 40 millj. kr. Af þessum sökum hefur verið talið rétt að lækka beina fjárveitingu úr ríkissjóði til Aflatryggingasjóðs. Er sú ráðstöfun gerð í því trausti, að Aflatryggingasjóður muni að öllu leyti þrátt fyrir það geta staðið við fjárhagsskuldbindingar sínar í framtíðinni, þrátt fyrir þessa lækkun ríkissjóðsframlagsins. Sé miðað við tekjur sjóðsins s. l. ár, er lækkun sú á ríkissjóðsframlagi, sem frv. gerir ráð fyrir, í raun töluvert innan við fimmtungur heildartekna sjóðsins. Þótt rétt sé í góðæri að safna í sjóði til mögru áranna, hefur ekki verið talið rétt, að sú söfnun væri framkvæmd með framlögum úr ríkissjóði, heldur með tekjum af hinu aukna framleiðsluverðmæti góðu áranna.

Ég sé svo ekki, herra forseti, ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. á þessu stigi málsins, en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.