11.11.1969
Neðri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (2560)

58. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 63 höfum við hv. þm., Ingvar Gíslason og Helgi Bergs, leyft okkur að flytja frv. til l. til breyt. á skattal. Efni þessa frv. er það, að fram fari ýtarleg rannsókn á 10% af skattframtölum, og skulu þau framtöl, sem þannig eru valin, valin með útdráttarreglum, þ. e. að skattstjórar dragi út 10% af heildarframtölunum og rannsaki þau alveg sérstaklega. Við fluttum frv. um þetta efni á síðasta Alþ., en það náði þá ekki fram að ganga.

Það orkar ekki tvímælis, að skattframtöl eru ekki svo örugg sem skyldi, og mikla nauðsyn ber til að ráða bót á þessu, þar sem það er vitanlegt, að þetta veldur því, að þeir, sem rétt telja fram, verða að nokkru leyti að greiða skatta fyrir hina. Það er skoðun okkar flm., að með þeirri vinnuaðferð, sem hér er lögð til, verði hægt að vinna bót á þessu. Skattframtöl munu þá verða fljótlega miklu öruggari, þegar framteljendur geta átt von á því, að framtöl þeirra séu rannsökuð gaumgæfilega, eins og lagt er til með þessu frv. Það er einnig skoðun okkar, að með þessum hætti mætti draga úr kostnaði við skattstofurnar og hagræða vinnubrögðum betur en nú er gert. Það er enn þá ljóst, að þótt skattstofurnar séu orðnar verulega dýrar, þá er langt frá því, að hægt sé að koma við þeim vinnubrögðum á þeim, sem henta og þurfa að vera í sambandi við skattframtölin. Nú á síðari árum hafa skattstofurnar horfið að því ráði að fara mjög fljótlega yfir skattframtöl í fyrstu atrennu og skila þeim þá til framtalsnefndar, en taka þau síðar til endurskoðunar, og hafa þá oft verið gerðar veigamiklar og margar breytingar. Þetta hefur leitt til þess, að yfirleitt munu framtalsnefndir vera farnar að leggja á tvisvar á ári hverju, sem ekki var þekkt áður, og einnig verða verulegar breytingar á upphaflegum tekjuskattsstofnum við þessa endurskoðun. Það er skoðun okkar, að með því að taka 10%, jafnvel þó að það væri minna hlutfall, og gera það öruggt, þá væri hægt að vinna hitt með miklum hraða, þar sem þessir aðilar ættu alltaf von á því að lenda í sérstakri athugun.

Ég sé ekki ástæðu til að kynna þetta frv., sem er lítið fyrirferðar, en stórt mál í sjálfu sér, frekar hér í hv. d., enda var það gert á s. l. ári, en legg til, herra forseti, að því verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og hv. fjhn.