13.11.1969
Neðri deild: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (2570)

63. mál, söluskattur

Flm. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Á þskj. 68 höfum við hv. þm., Ingvar Gíslason og Helgi Bergs, leyft okkur að flytja frv. til l. um breyt. á l. um söluskatt. Efni þessa frv. er það, að hætt verði að innheimta söluskatt af smjöri, osti, skyri, kjöti, kjötvörum og fiski, enn fremur kaffi, sykri, kornvörum og olíu.

Ástæðan til þess, að við flytjum þetta frv., er sú, að hér er um að ræða brýnustu matvörur og neyzluvörur fólksins í landinu, og það er skoðun okkar, að tekjur almennt nú séu ekki hærri en svo, að fullkomin ástæða sé til þess að draga úr kostnaði við framfærslu heimilanna. Þess vegna höfum við valið svo mjög einangraða vöruflokka, til þess að hætt yrði að leggja á þá söluskatt, enda var söluskattur ekki lagður á þessar brýnustu nauðsynjavörur fyrr en eftir 1960.

Í sambandi við þetta vil ég geta þess, að á yfirstandandi ári hefur það komið mjög í ljós, að úr sölu á dilkakjöti innanlands hefur dregið verulega, og er það álit þeirra, sem þau mál þekkja bezt, að verðlagið hafi haft þar veruleg áhrif, og vegna þess, hve hátt það var, hafi dregið úr sölu á þessari nauðsynlegu matvöru. Þess vegna teljum við það spor í rétta átt, að lækka verðið með því að fella niður söluskattinn. Enn fremur vil ég geta þess í sambandi við þetta frv., að ef það yrði niðurstaða hér á hv. Alþ., að breyting yrði gerð á tollum með inngöngu í EFTA, — það kom fram m. a. í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh., — að þá yrði horfið að því ráði að hækka söluskattinn, og með tilliti til þess væri það nauðsynlegt, að þessar mestu nauðsynjavörur væru þar undanskildar. Nú veit ég, að því verður haldið fram, að ríkissjóður geti ekki misst þær tekjur, sem hér er um að ræða, og eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið þar um, þá mundi þetta geta numið um 265 millj. kr. Hins vegar er því til að svara, að þetta mundi lækka vísitöluna um 1.75 stig, og mundi þar veruleg fjárhæð, sem þar kæmi aftur í móti. Ég vil líka segja það, að ef ríkissjóður yrði að bæta sér upp þennan tekjumissi, þá tel ég, að það sé hagkvæmara að gera það á þann hátt að leggja þá hærri söluskatt á aðrar vörur en þessar, þar sem hér er um brýnustu neyzluvörurnar að ræða. Og ég tel það skynsamlegra að farið að ná þessum tekjumissi þar en að leggja það á þessar neyzluvörur, sem enginn kemst af án. Þess vegna tel ég, að það sé réttmætt, að þetta frv. nái fram að ganga, og ég treysti því, að hér á hv. Alþ. verði sá skilningur á þessu máli, að það nái fram að ganga, og ég tel það mjög nauðsynlegt einmitt að gera þessa breytingu, áður en ef til þess kæmi, að það yrði farið í það að leggja á hærri söluskatt, því að allir sjá, hvað fráleitt það væri, ef ætti að fara að hækka söluskatt á þessum brýnustu nauðsynjavörum.

Ég sé ekki ástæðu til að kynna þetta frv. frekar, enda skýrir það sig sjálft, en legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.