17.11.1969
Neðri deild: 15. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (2594)

77. mál, Útgerðarstofnun ríkisins til atvinnujöfnunar

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það er nú kannske ekki ástæða til þess að lengja þessar umr. mikið, en hv. frsm. lét liggja að því, að það væri ekki nægilegt fyrir mig að taka neikvæða afstöðu til þessa máls, en benda ekki á neinar aðrar leiðir. Erindi mitt hingað í ræðustól áðan var að biðja um vissar upplýsingar, sem ég satt að segja hélt nú, að flm. frv. hefðu aflað sér, áður en þeir settu það inn í Alþ. í þeirri mynd, sem það kemur fram, þ. e. að lögfesta, að stofna skuli til Útgerðarstofnunar ríkisins, sem skuli gera þessa ákveðnu hluti, að kaupa 5 togara af þessari stærð og 5 báta af tiltekinni stærð. Ég tel það nokkuð mikla tilætlunarsemi, að alþm. taki við þessu og geti ekki fengið frá flm. eðlilegar upplýsingar í sambandi við málið. Þar sem hann var að biðja um jákvæða afstöðu í sambandi við útgerðina eða útgerðarmálin og öflun hráefnis til hinna ýmsu vinnslustaða úti á landi, þá vil ég benda á það, að ég hef hér árum saman barizt fyrir því, að veruleg tilslökun yrði gerð á þeim l., sem giltu um bann gegn botnvörpuveiðum, til handa skipum af tiltekinni stærð til hráefnisöflunar fyrir hinar ýmsu vinnslustöðvar, sem dreifðar eru allt í kringum land. Alþ. bar þá gæfu til þess að stíga þetta skref á síðasta vetri, og ég tel, að það hafi kannske orðið frekar en margt annað til þess að skapa verulega aukna atvinnu og tryggja nokkuð atvinnu yfir þann tíma, sem víða um land var ákaflega erfitt fyrir fiskvinnslustöðvarnar að halda rekstri sínum gangandi á eðlilegan hátt. Ég tel, að þarna hafi verið stigið mjög jákvætt spor með einfaldri lagabreytingu, sem hafi haft mun meiri og betri áhrif á atvinnu- eða rekstrarafkomu og rekstrarmöguleika vinnslustöðvanna úti um landið en það, sem hér liggur fyrir og flutt er af hv. 6. þm. Reykv. og hv. 2. landsk. þm.

Þegar rætt er um togaraútgerð og endurnýjun togaraflotans, þá er það eitt atriði, sem nokkuð stendur í mér í sambandi við það mál. Ég skal viðurkenna það. Og það er alveg sama, hvort er um ríki að ræða eða einstaklinga. Ég hef ekki orðið þess var, að menn geri sér grein fyrir því, að möguleikar til togaraútgerðar hér á landi nú eru allt aðrir en þegar togaraútgerð var í blóma sínum og byggði vissulega upp bæði Reykjavík og fleiri staði. Það gerir bara gæfumuninn, að það er ekki sá sami afli á miðunum, þó að togarar fengju að fara inn að þremur mílum allt í kringum landið, eins og var á þeim tíma. Það er bara ekki aflamagn fyrir hendi til þess að reka þá með þeim árangri, sem með þarf, ef þessi útgerð á að geta staðið á eigin fótum án styrkja úr ríkissjóði. Ég hef yfirleitt ekki heyrt, þegar menn tala um togaraútgerð, að menn gerðu sér grein fyrir þessu. En þetta er bara staðreynd, sem við verðum að horfast í augu við. Áður fyrr gátu togararnir ausið upp afla, bæði hér við Suðvesturland og fyrir Vestur- og Norðurlandi, og haft miklu meiri möguleika til þess að rekstur þeirra gæti verið hagkvæmur en þeir hafa nú, jafnvel þó að þeim væri hleypt inn að þrem mílum allt í kringum landið, sem ég hygg, að eigi nú kannske eitthvað í land, að gert verði, því að það út af fyrir sig get ég ekki séð, að það tryggi afkomu þeirra eða veiti þá tryggingu, sem með þyrfti, til þess að afkoma þeirra gæti orðið hagkvæm.

En þetta mál fer nú vonandi til n., og það er alveg rétt, að ég geri ráð fyrir að sú n., sem við því tekur, reyni að afla sér þeirra upplýsinga, sem ég tel þó, að hefði verið mjög eðlilegt, að flm. hefðu getað látið okkur hér í té við 1. umr.