16.12.1969
Neðri deild: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

126. mál, söluskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs hér áðan og var ætlun mín að ræða í nokkrar mínútur um söluskattinn og gera grein fyrir afstöðu minni til hans. Ég hef áður fyrr tekið afstöðu til söluskattsins sem tekjustofns og þá verið andvígur þeirri tekjuöflun af ýmsum ástæðum og hefði kosið oft og tíðum, þegar sú leið hefur verið valin, aðrar leiðir fremur.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. valið þann kostinn að bera fram frv. um söluskatt til þess að bæta ríkissjóði upp þann tekjumissi, sem hann verður fyrir vegna niðurfellingar á tollum. Þetta er auðvitað alveg laust við efni og inntak EFTA–málsins. Ríkisstj. hafði frjálst leiðaval um það, hvernig afla skyldi tekna í stað lækkunarinnar á tollunum og hún hefur valið þessa leið.

Það er almennt viðurkennt, að söluskatturinn skilar sér illa. Það er tekið meira fé, vafalaust mun meira, af gjaldþegnunum heldur en ríkissjóður fær. Verkalýðshreyfingin hefur áður borið fram till. um að reyna að setja undir þennan leka með því t.d., að söluskatturinn væri innheimtur strax í tolli og fengi ríkissjóður þá allar þær tekjur, sem á eru lagðar, í þessu formi. Þessi leið hefur ekki fengizt reynd og áfram er haldið að innheimta skattinn með þeim hætti, sem nú hefur verið reynt í mörg ár, með þeim árangri, að flestir eru sammála um, að hann skili sér mjög illa og heyrði ég ekki annað á hæstv. fjmrh., en hann væri einnig þeirrar skoðunar.

Það er ætlun ríkisstj. að hækka söluskattinn um 3 1/2%, þannig að hann verði 11% og leggist á allar vörur, að öðru leyti en því, að niðurgreiðslur skulu koma á kjöt og smjör, skilst mér, svo að þeir vöruflokkar verði í raun og veru ekki fyrir barðinu á söluskattsinnheimtunni. Þetta finnst mér allt of takmarkað svið, en miklu fremur hefði verið hægt að sætta sig við söluskattsformið, eða svo er a.m.k. um mig, ef fleiri lífsnauðsynjar almennings hefðu verið undanþegnar, – annaðhvort alveg lausar við söluskattinn eða þá komið í þennan málaflokk, þar sem honum er létt af með endurgreiðslu. Hygg ég þó, að miklu hreinlegra hefði verið að undanþiggja allmargar brýnustu lífsnauðsynjavörur almennings hreinlega söluskattinum í löggjöfinni.

Annar megin agnúinn á söluskattinum er sá, að það dylst engum, að hann leggst þyngst á stærstu fjölskyldurnar í landinu og þar með kemur hann niður þar sem sízt skyldi. Byrðar þeirra fjölskyldna eru ærnar, svo sem launamálum er háttað í landinu í dag og er ekki á bætandi.

Þá kemur það þriðja til og að því hafa verið færð allgild rök, að með söluskattinum og þessari hækkun hans, sem nú á að lögfesta, muni verða innheimt mun meira fé, heldur en nemur þeirri lækkun tolla, sem um er að ræða og finnst mér ekki hafa komið fram nægilega sterk rök af hendi hæstv. fjmrh. um að hnekkja þessu áliti þm., sem komið hefur hér fram í umr. Ef svo er, ef það er rétt, sem mér finnst miklar líkur benda til, að þessi söluskattsinnheimta sé að upphæð, stórum meir,i en nemur tollalækkuninni og það sé þannig rangt, að söluskatturinn og lækkun tollanna standist á, þá er málið í raun og veru enn þá verra. Þá er þarna um nýja og dulbúna skattlagningu á almenning að ræða og þá einkum á þá, sem ekki er forsvaranlegt að þyngja skattabyrðina á.

Það er öllum kunnugt og hefur verið bent á það hér í umr., að matvörur ýmsar eru lágtollavörur og sumar þeirra ótollaðar. Það er því bert öllum, að þegar 11 % söluskattur kemur á þær vörur, sem ekki voru tollaðar, hljóta þær að verða fyrir verulegri verðhækkun. En hins vegar hátollaðar vörur, þó að á þeim sé nú lækkaður tollurinn um 30% og á þær leggist síðan 11 % söluskattur, — þ.e.a.s. þær hafa verið í söluskatti áður og það bætist bara við 3 1/2 söluskattur í hækkun, — þá er greinilegt, að þær lækka í verði. Þetta held ég, að séu allslæm kaup fyrir þá, sem ekki hafa tekjur fyrir öðru, en brýnustu lífsnauðsynjum. Glys og glingur, sem almenningur hefur ekki efni á að kaupa, getur þannig lækkað í verði, en lífsnauðsynjar hljóta að hækka. Þess vegna hef ég aldrei getað skilið, að það sé rétt niðurstaða, að þessi breyting á skattlagningu þegnanna hafi engin áhrif á vísitöluna. Þá er eitthvað rangt við vísitöluna. En svona tilfærsla á byrðum á gjaldþegnana hlýtur að færast af þeim, sem verulegum hluta tekna sinna geta varið til kaupa á miður þörfum vörum og yfir á herðar þeirra, sem verða að verja mestum hluta tekna sinna til brýnustu lífsnauðsynja.

Þetta getur ekki verið í ógáti gert. Þetta hlýtur að vera stefnuatriði hjá hæstv. ríkisstj., að færa byrðar skattanna þannig til og harma ég það, að svo skuli gert. Mér finnst ólíklegt, að nokkur alþýðuflokkur, a.m.k. norðan Alpafjalla, gæti hugsað sér að fara slíka skattlagningarleið, með tillit; til þeirra byrða, sem á hina fátækari í þjóðfélaginu eru lagðar með slíkri skattheimtu. (Gripið fram í.) Mér er ekki kunnugt um það, en ég hygg, að Hannibal yrði að fara suður fyrir Alpafjöll a.m.k. til þess að finna slíkan jafnaðarmannaflokk. En ég ætla ekki að leggja slíka ferð á mig, þó að það sé nú auðveldara að komast þangað heldur en áður fyrr. Þessu til sönnunar vil ég nú nefna afstöðu forystumanna Alþfl. á Íslandi fyrr til söluskatts og hef ég þar fram að færa vitnisburð allra núlifandi formanna Alþfl. (Gripið fram í.) Þar á meðal Hannibal, já. Ég ætla að byrja á vitnisburði, sem liggur fyrir í þingtíðindum, eftir Harald Guðmundsson, fyrrv. formann Alþfl. Hann sagði, samkv. þingtíðindum, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég álít og Alþfl. er sömu skoðunar, að af mér liggur við að segja af öllum tollum, sem á eru lagðir hér hjá okkur, sé söluskatturinn ranglátastur og óskynsamlegastur. Hann er ranglátastur af því, að hann lendir langþyngst á þeim, sem minnsta getu hafa til að greiða til opinberra þarfa. Hann fellur langþyngst á barnmargar fjölskyldur og stór heimili og þarf ekki að eyða orðum að því, hversu ranglátt slíkt fyrirkomulag er til innheimtu opinberra gjalda. Í öðru lagi liggur í augum uppi, að söluskattur hlýtur að hækka verðlag í landinu og þar með dýrtíðina, a.m.k. sem skattinum nemur og þeirri álagningu, sem óhjákvæmilega hlýtur að koma á hann í öllum viðskiptum. Sú aukna dýrtíð, sem af þessu stafar, kemur svo fram í hækkuðum framleiðslukostnaði. Af því leiðir aftur, að útflutningsvörur okkar, sem framleiddar eru með þessum háa framleiðslukostnaði, verða torseldari og standa þess vegna lakar að vígi í samkeppni við hliðstæðar vörur á heimsmarkaðinum.“ Enn fremur segir Haraldur Guðmundsson: „Tollur þessi og skattur er því hvort tveggja í senn, ranglátur gagnvart þeim, sem greiða hann og mjög óskynsamlegur frá sjónarmiði þjóðfélagsheildarinnar.“

Já, það er rétt, sem einhver hv. þm. skaut núna inn í undir þessum lestri. Þetta er skörulega mælt af fyrrv. formanni Alþfl., Haraldi Guðmundssyni.

Þá er til vitnisburður í sömu heimild, þingtíðindunum, hafður eftir núverandi utanrrh. og þannig einum af aðstandendum þessa söluskattsfrv., Emil Jónssyni. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Hann (þ.e.a.s. Alþfl.) vill allra sízt, að versti skatturinn úr dýrtíðarlögunum sé framlengdur, en ég fullyrði, að sá af sköttum dýrtíðarlaganna, sem almenningi er tilfinnanlegastur, er söluskatturinn og hann kemur allra verst við. En það er einmitt hann, sem ríkisstj. gerir ráð fyrir að framlengja.“

Þá var önnur ríkisstj. heldur en núna. Nú á að hækka hann, já, versta skattinn og almenningi tilfinnanlegastan ætlar ríkisstj. nú að hækka verulega. Þetta var líka skörulega mælt af fyrrv. formanni Alþfl., núv. ráðh. í þessari ríkisstj., Emil Jónssyni. Ég veit það, að þriðji formaður Alþfl., Stefán Jóhann Stefánsson, sem var formaður hans um langt skeið, var samþykkur þessum rökstuðningi Haralds Guðmundssonar og Emils Jónssonar og veit ég því, að svipaður vitnisburður frá hans hendi mun einnig vera til í þingtíðindum, þó að ég hafi ekki flett upp á því sérstaklega. Og er þar kominn þriðji formaður Alþfl. Og hér er sá fjórði að tala og tekur undir þessar skoðanir fyrrv. formanna Alþfl. (LJós: Gylfi talaði um málið líka.) Rétt er það hjá hv. 4. þm. Austf. og kemur nú að því, hvað hann hefur sagt um þetta. Samkv. Alþingistíðindum sagði Gylfi Þ. Gíslason, núv. ráðh. og formaður Alþfl.:

„Við þetta allt saman bætist svo, að söluskatturinn er í eðli sínu ranglátur. Þetta er einhver ranglátasti skattur, sem lagður hefur verið á af íslenzka löggjafanum og það er ekki nóg með, að hann sé ranglátur í eðli sínu, framkvæmdin í söluskattsinnheimtunni hefur og verið þannig, að á því er enginn vafi, að enginn skattur hefur verið svikinn jafnstórkostlega og söluskatturinn. Það er ekki aðeins ríkissjóður, sem tekur inn mikið fé í skjóli þessara lagaákvæða, heldur taka ýmiss konar atvinnurekendur einnig inn stórfé í skjóli þessara ákvæða. Það er auðvelt að svíkja tekjuskatt fyrir þá, sem hafa stórfelldan atvinnurekstur með höndum. Það er þó margfalt auðveldara og er jafnframt opinbert leyndarmál, að skattsvikin eru enn gífurlegri í söluskattinum.“

Þarna er ekki hálfvelgjan í afstöðunni gegn söluskatti og ranglæti og ranglætið er gífurlegra, en skattsvik í tekjuskatti. Höfundur þessarar tilvitnunar er núv. hæstv. menntmrh., sem stendur að flutningi þessa söluskattsfrv. og er það þá vitnisburður fjórða Alþfl.–formannsins, sem hefur markað ákveðna stefnu gegn söluskatti.

Nú er spurningin: Hefur söluskattur, síðan þessi orð voru töluð af öllum þessum formönnum Alþfl., breytzt eða hefur afstaða allra þessara manna gjörbreytzt og þá hvers vegna? Ég held, að það hljóti að vera í samræmi við skoðanir þeirra Alþfl.–formanna, sem ég hef hér vitnað til og eru nú í hæstv. ríkisstj., full ástæða fyrir þá að endurskoða þessa afstöðu, rifja upp sína fyrri afstöðu eða gera grein fyrir breyttum eðlisrökum, sem valdi slíkri kúvendingu í afstöðu til þessarar tekjuöflunarleiðar. En svo mikið er víst, að af öllum þessum mönnum er því slegið föstu, að þetta sé einhver ranglátasta tekjuöflun og ósanngjarnasta, sem hugsanleg sé gagnvart láglaunafólki í landinu. Og ég held, að þessir menn hafi rétt fyrir sér.

Ég skora því bæði á þá Alþfl.–foringja, sem nú eiga sæti í ríkisstj. og aðra Alþfl.–menn, sem sæti eiga á Alþ., að freista þess, að horfið sé frá þessari skattheimtu í þessu formi og finna aðrar leiðir til að afla fjárins, sem ríkissjóður missir af vegna tollalækkananna. En ef menn umfram allt vilja afla þessa fjár með söluskatti, þá verði a.m.k. farin sú leið, að undanþiggja söluskattsinnheimtunni brýnustu lífsnauðsynjar almennings og hækka þá heldur söluskattinn á hinum miður nauðsynlegu vörum, sem þeir efnuðu nálega einir geta leyft sér stórfelld kaup á.

Það væri líka hugsanlegt og teldi ég hreinlegast að hverfa algerlega frá söluskattsinnheimtunni og treysti því, að ráðh. Alþfl. í núv. ríkisstj., sem svo skörulega hafa mælt og svo sterklega rökstutt ágalla söluskattsinnheimtu, þeir beiti sér fyrir breytingu á þessari innheimtu nú. Það væri í samræmi við þeirra sterka rökstuðning áður og áreiðanlega í samræmi við þeirra lífsskoðun.