02.04.1970
Neðri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í C-deild Alþingistíðinda. (2702)

171. mál, sauðfjárbaðanir

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að d. sé orðið það ljóst, að þetta er rétt mál, sem við flytjum hér, ég og hv. 3. þm. Austf., því að nú eru þeir orðnir sammála, hæstv. landbrh. og 5. þm. Norðurl. e. Þeir hafa yfirleitt ekki verið það, og það er ekki líklegt, að þeir verði það um mál, sem eru skynsamleg, svo að ég hygg, að það sé nokkuð tryggt, að við höfum rétt fyrir okkur, ég og hv. 3. þm. Austf.

Viðvíkjandi því, að ær láti lömbum, eins og mér heyrðist á hæstv. landbrh., frekar, ef baðað er seint, þá hef ég nú reynslu fyrir þessu, því að ég hef eiginlega aldrei baðað nema á þessum tíma. Hæstv. ráðh. lét liggja að því, að ég hefði skrökvað því, að ég hefði talað við dýralækni um þetta. Það lá í orðunum, að það væri vafasamt, að ég segði satt. En það er ekki, ég talaði um þetta við dýralækni. Ég fullyrði ekki meira en ég geri í grg., það er bezt, ef maður talar í orða stað annarra, að leggja ekki allt of mikla áherzlu á hlutina. Það var hann, sem færði það í tal, að það væri réttara að hafa heimildina þannig, að það mætti baða þriðja hvert ár, og hann hafði ekkert við það að athuga, þótt tíminn yrði lengdur, og hvatti mig til að flytja frv.

Viðvíkjandi þessu lambaláti, sem sé svo ákaflega hættulegt, þá hef ég ekki trú á, að dýralæknir hafi mikla trú á því. Ég veit ekki betur en undir sumarmál í 17 gráðu frosti og hríðarveðri, þá skipaði hann mér að baða rollurnar, og ráðh. skrifaði með eigin hendi undir það valdboð hjá mér. Raunar komu þeir aldrei, því að ég sagði, að þeir skyldu verða látnir í kerið eins og ærnar og þeir fengju engan mann til þess. En það var ekki þeirra dyggð að þakka. Ég vildi ekki baða í 17 gráðu frosti og hríð. En hræðslan var nú ekki meiri hjá honum en þetta, og þetta gerði nú þessi ágæti yfirdýralæknir okkar. Og var ekki þeirra dyggð að þakka, að ég drap ekki féð, þannig að hann var a. m. k. ekki hræddur um lambalát þá. Ég hef vanalega baðað í apríl. Ég er ekki að anza þessum vitlausu l. Þeir geta ekkert gert annað en sekta mann um 5000 kr., og það á að renna til sveitarsjóðsins, og auðvitað dytti engum manni í hug að innheimta þá sekt hjá mér, þannig að ég hef reynslu fyrir þessu. Við höfum verið fjármargir, við Jónas og höfum reynslu fyrir þessu. Hv. 5. þm. Norðurl. e. hefur haft eitthvert fjárbú og víst baðað um miðjan vetur, en þeir hafa ekki stór fjárbú þarna fyrir norðan og gefa rollunum inni meira en hálft árið og eru ekki lengi að dýfa þessum fáu skjátum sínum í, fara vel með þær og gefa inni, en við beitum meira fyrir vestan. Ef um smitandi lambalát er að ræða, væri sennilega ekkert betra ráð en að baða til að drepa bakteríuna, bæði í húsunum og á kindunum. Annað hvort er að baða eða láta liggja við opið.

Viðvíkjandi því, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Vesturl., að bændur hefðu sagt þessum hv. þm., að þeir fengju meiri og betri ullarafurðir, ef þeir baða seint, þá er það nákvæmlega það sama, sem ég var að halda fram. Þetta er reynsla bænda, að kindin týnir þá síður. Ég hef talað um þessa flóka, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. var að tala um. Ég hef talað um þá við þá í Álafossi, og þeir töldu, að það væri á engan hátt skaðlegt, þó að það væri baðað seinna. Það gerði ullinni ekkert til. Það er ýmislegt annað, sem kemur til greina, að það séu flókar, og þeir töldu einna verst, að ær væru í tveimur reyfum. Og húsavistin slæm, ullin sífellt blaut og féð að nudda sig. Hitt veit ég ósköp vel, að ef kindin er alin, þá týnir hún ekki ull, nema það sé hennar kynferði. Sumar kindur týna alltaf ull, nema helzt ef þær eru baðaðar seint. En aðrar týna aldrei ull, þannig að þetta eru heldur veigalitlar mótbárur, sem hafa komið fram. Það þýðir ekki að vera að segja okkur, sem höfum búið alla okkar ævi og haft tiltölulega margt fé, einhverja hluti, ef við höfum reynslu fyrir allt öðru. Það er reynslan, sem sker úr þessu. Við lærum nú af reynslunni, enginn er fæddur alvitur. Að stór hluti af ám léti lömbum, þegar verið var að baða hér kláðaböðin einhvern tíma áður, þetta er bara eins og hver önnur vitleysa. Það getur skeð, að einhverjir glópar hafi farið svo illa með kindur, þegar þeir notuðu trékör, að einhverjar rollur hafi látið. Ég hef baðað tvisvar seint í apríl, og engin ær lét hjá mér fyrra árið, svo að ég vissi, en það lét ein rolla í fyrra, en það gat verið af allt öðrum ástæðum. Að það sé slóðaskapur að vera ekki búinn að baða um miðjan vetur, það má vel vera, en menn þurfa aðstöðu og vinnuafl til þess. Ég veit, að hv. 5. þm. Norðurl. e. er hirðu- og dugnaðarmaður og allt í lagi hjá honum, en það er munur, hvort það þarf að baða fáar kindur eða margar. Það má kannske segja, að allt sé slóðaskapur, ef allt er ekki gert á einhverjum ákveðnum tíma.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. var einnig að tala um 15. okt. Ég skil nú ekki í, að nokkrum manni detti í hug að byrja böðun þá, því að það er verið að slátra fénu og á eftir að slátra mörgu víðast hvar. Ég veit ekki, hvenær þeir eru búnir í Eyjafirðinum, þeir eru kannske fljótir að slátra. Ég veit, að það er eftir að slátra hjá okkur í Húnavatnssýslunni, svo að það skiptir þúsundum fjár 15. okt., þannig að það þýðir ekkert að tala um þannig hluti. Það er ekki hægt að baða fyrr en komið er fram í nóv. í fyrsta lagi, og þá næst ekki féð, nema það sé því verri tíð.

Annars vona ég, að þetta verði sent til umsagnar, og ég veit, að það fær jákvæðar undirtektir, bæði hjá Búnaðarfélaginu og eins hjá yfirdýralækni. Svo getið þið haldið því fram, að þeir hafi ekkert vit á þessum hlutum, en ég hygg, að það sé nú ekki. Og á búnaðarþingi var einmitt lagt til að lengja tímabilið til þess að baða, og það þýðir ekkert fyrir þm., sem ekki hafa rekið búskap, að koma svo og segja, að þessir menn hafi ekkert vit á þessu, þetta sé bara vitleysa. Það er engin vitleysa.