13.04.1970
Neðri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í C-deild Alþingistíðinda. (2763)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er flutt af fjhn., án þess að hún hafi tekið nokkra endanlega afstöðu til málsins. Mér finnst því rétt að byrja mál mitt með því að gera grein fyrir því, hvers vegna við fulltrúar Framsfl. í fjhn. töldum rétt að verða við þeirri beiðni fjmrh., að n. flytti þetta frv.

Það mun vera nokkurn veginn hefðtekin venja, að þegar ráðh. á í erfiðleikum við að flytja eitthvert mál sem stjfrv. og hann biður n. að flytja málið, að þá verður n. við þeirri beiðni. Það mun liggja fyrir í þessu máli, að hæstv. fjmrh. veit enn ekki um það, hvort samstarfsflokkar hans og samstarfsmenn í ríkisstj. munu fylgja þessu máli eða ekki, eða hvort það verður einn af ráðh. flokksins eða tveir eða þrír, sem kunna að greiða atkv. á móti því að lokum. Það er skiljanlegt, að hæstv. ráðh. vill ekki flytja málið sem stjfrv., þegar þannig er ástatt. Við töldum það rétt, fulltrúar Framsfl. í fjhn. að taka nokkurt tillit til þessarar erfiðu aðstöðu fjmrh. En hitt réð ekki minna um afstöðu okkar,að það hefur lengi verið yfirlýst afstaða Framsfl., að tími væri til þess kominn, að fram færi athugun á skattlagningu fyrirtækja, vegna þess að hún væri óeðlileg og óheppileg að mörgu leyti, eins og nú háttaði, og þar sem þetta frv. fjallar fyrst og fremst um skattlagningu fyrirtækja eða endurskoðun á reglum um þau mál, þá fannst okkur rétt að eiga aðild að því, að frv. kæmi hér fram á Alþ., án þess að við værum búnir að taka nokkra endanlega afstöðu til þeirra einstakra atriða, sem í frv. eru.

Í umr. í sambandi við EFTA-málið svonefnda og fleiri mál hér á Alþ., þá hefur yfirleitt komið fram sú afstaða Framsfl. um það, að hann teldi rétt að gera ýmsar breytingar og leiðréttingar á skattlagningu fyrirtækja og þó sérstaklega um það, hvernig fyrningarreglum er nú háttað. Um þetta atriði hefur flokkurinn lagt fram sérstakt frv. á þessu þingi hér í hv. deild, sem er að finna á þskj. 75, en þar er gert ráð fyrir því, að sú regla verði tekin upp í sambandi við fyrningarreglur, að fyrning verði miðuð við endurkaupsverð. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja efni þess frv. nánar hér, en nefni þetta aðeins til þess að sýna það, að Framsfl. hefur talið það aðkallandi mál, að gerðar yrðu leiðréttingar á skattlagningu fyrirtækja og þá sérstaklega í sambandi við þetta atriði.

En það kom hins vegar alveg greinilega fram í ræðu hæstv. ráðh., og það vil ég undirstrika, að það er engan veginn nægilegt í þessu sambandi að endurskoða tekjuskatts- og eignarskattslögin ein. Það þarf að fara fram miklu víðtækari endurskoðun. Ég hygg, að því verði ekki haldið fram, að tekjuskatturinn sé í dag sérstaklega tilfinnanlegur fyrir fyrirtækin í landinu, eins og sézt á því, að það er reiknað með því, að hann verði allur á þessu ári ekki nema 85 millj. króna, en það eru margir aðrir skattar, sem leggjast raunverulega miklu þyngra og óréttmætar á atvinnufyrirtækin en tekjuskatturinn, og þess vegna er nauðsynlegt, að fram fari miklu víðtækari endurskoðun á skattamálum fyrirtækjanna.

Ég held, að það hafi verið hv. 3. þm. Norðurl. v., sem upplýsti það fyrir nokkru hér á Alþ., að útgerðin þyrfti að greiða eina 24 skatta. Þetta sýnir það, út í hvaða óefni við erum komnir í þessum efnum og hversu nauðsynlegt það er, að hér fari heildarendurskoðun fram með það fyrir augum, að skattar verði sameinaðir og samræmdir. Þeir verði miklu færri en nú og meira tillit tekið til þess, hvernig þeir verka í heild á fyrirtækið. En vegna þess hve skattarnir eru orðnir margir núna, þá er ekkert samræmi í því, hvernig þeir leggjast á fyrirtækin í einstökum tilfellum. Þess vegna þarf að fara fram miklu víðtækari endurskoðun en sú, sem hér hefur átt sér stað, og það kom líka fram í ræðu hæstv. fjmrh., að svo væri. Ég hygg, að allir hljóti að vera sammála um það og ekki þá sízt við, sem gerum þær kröfur til fyrirtækjanna, að þau greiði starfsfólki sínu sæmilegt kaup, að það verði að koma til móts við fyrirtækin á annan hátt, með því m. a. að skapa þeim aðstöðu til þess að eignast eigið fé, bæði til þess að setja í fjárfestingu og til þess að hafa í rekstrinum, og það verður áreiðanlega ekki gert, svo að vel sé, nema veruleg breyting verði á skattlagningu þeirra frá því, sem nú er.

Ég vil svo að öðru leyti segja það um þetta mál, að ég tel það mjög miður farið, hve seint það er fram borið. Það eru í mesta lagi nú þrjár vikur þangað til að reiknað er með því, að þingi ljúki. Í þessu frv. eru fólgin mörg nýmæli, sem þarfnast að sjálfsögðu vandlegrar íhugunar af þingsins hálfu, og þess vegna er um annað tveggja að ræða, að þetta mál fari í gegnum þingið, án þess að það fái fullnægjandi athugun, eða þá að það verði að bíða næsta þings að mjög verulegu leyti. Ég er ekki fjarri því, að það kunni að vera rétt vinnuaðferð, eins og nú er komið tíma þingsins, að meginefni þessa frv. verði kynnt hér, eins og þegar er orðið, en þm. fái svo betri tíma til þess að athuga þetta mál fram á næsta þing. Jafnframt verði unnið að því að íhuga á þeim tíma og endurskoða önnur skattalög og aðrar skattareglur.

Ég vil segja það í þessu sambandi, að ég tel það ekki fullnægjandi í sambandi við slíka endurskoðun, að það séu eingöngu embættismenn, sem vinni að þeirra endurskoðun og athugun samkv. fyrirmælum fjmrh., heldur sé það eðlilegt, að fulltrúar hins pólitíska valds og stjórnmálaflokkanna fái strax aðild í athugun þessara mála, og þannig ráði þessir aðilar yfir meiri vitneskju, þegar að því kemur, að Alþ. þarf að fara að fjalla um þau að nýju. Ég legg þess vegna áherzlu á það,að framhaldsathugun þessa máls fari fram á þeim grundvelli, að það væru ekki eingöngu sérfræðingar, sem um þau fjölluðu, heldur einnig fulltrúar hinna pólitísku flokka og þá sérstaklega þingflokkanna. Ef svo fer, að Alþ. kemst að þeirri niðurstöðu, að það geti ekki afgreitt þetta mál allt, eins og það liggur nú fyrir, þá tel ég eigi að síður nauðsynlegt, að viss atriði í skattamálunum verði tekin út úr og afgreidd á þessu þingi, vegna þess að þeim er þannig háttað, að afgreiðslu þeirra má ekki fresta, og ég tek þar undir með hæstv. fjmrh., að nauðsynlegt er, að nú á þessu þingi verði settar nýjar reglur um fyrningu, til þess að hægt væri að framfylgja þeim með álagningu skatta á þessu ári. En ég tel það jafn nauðsynlegt, að einnig verði gerð breyting á skattvísitölunni eða álagningu skatta á þessu ári, því að það er víst, að eins og henni er nú háttað, þá kemur hún mjög ranglátlega niður á launþegum, og þarf að gera breytingu þar á. Nú mun vísitalan vera ákveðin 140 stig, en ætti að vera 173 stig, ef skattareglur ættu að vera í samræmi við það, sem gert var ráð fyrir við setningu skattalaganna 1964. Ef ekki verður gerð breyting á í þessum efnum, þá þýðir það það, að það er raunverulega verið að skattleggja þann hluta launanna, sem menn hafa fengið í dýrtíðarbætur, og Alþ. hefur alls ekki ætlazt til, að skattlagt væri á þennan hátt, og þess vegna sett ákvæði um vísitöluna, sem áttu að koma í veg fyrir slíka skattlagningu. Því mun e. t. v. vera haldið fram, að það sé orðið nokkuð seint að breyta skattvísitölunni nú, vegna þess að skattanefndir séu búnar að miða við töluna 140 í útreikningum sínum, en ég tel, að hér sé um svo mikilsvert atriði að ræða, að ekki megi í það horfa, þó að þetta kosti að einhverju leyti meiri útreikninga hjá skattanefndum. Það má líka segja í sambandi við það, ef við breytum fyrningarreglunum á þessu þingi, að þá þurfa skattanefndir kannske að einhverju leyti að endurskoða fyrri útreikninga sína um það efni, og gildi þá hið sama um þetta tvennt.

Það, sem ég teldi svo í þriðja lagi nauðsynlegt, er, að settar yrðu reglur um, ef afgr. yrðu l. til bráðabirgða á þessu þingi, að hert yrði eftirlit með framtölum, en um það efni liggur einnig fyrir frv. frá okkur framsóknarmönnum hér í þd., og sé ég ekki ástæðu til þess að rekja efni þess nánar, vegna þess að það hefur verið gert hér áður.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni. Ég ræði ekki einstök efnisatriði frv., vegna þess að það hefur ekki gefizt tími til þess að íhuga þau nægilega, og það mun líka verða gert í þeirri n., sem mun fá málið til athugunar, en ég legg áherzlu á það, ef það er mögulegt, að það verði reynt að greiða fyrir þessu frv. í þessu formi eða með einhverjum breytingum, en ef það þykir ekki ráðlegt, að þá verði afgreidd sérstök l. með þeim þremur bráðabirgðaatriðum, sem ég hef hér minnzt á.