30.10.1969
Efri deild: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í C-deild Alþingistíðinda. (2807)

53. mál, byggingarsamvinnufélög

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. flytjanda þessa frv., að það þurfi að efla byggingarsamvinnufélögin. Ekki endilega vegna þess, að það liggi fyrir óyggjandi staðreyndir um, að þau byggi íbúðir ódýrar en aðrir aðilar, þessi samvinnufélög byggja á misjöfnu verði eins og aðrir, heldur fyrst og fremst vegna þess, að hjá byggingarsamvinnufélögunum er það öruggt, að íbúðirnar séu seldar kaupendum eða félagsmönnum á raunverulegu kostnaðarverði. Auðvitað getur byggingarmeistari byggt íbúðir ódýrt, en ef markaðurinn er góður, þá selur hann þær langt yfir kostnaðarverði. Þó hefur nú að vísu nokkuð verið bætt úr því með þeirri breyt., sem gerð var á l. um Húsnæðismálastofnunina, þar sem heimilað var að veita byggingarmeisturum og fleirum bráðabirgðalán, meðan á byggingunni stendur. Meistararnir lögðu svo mikla áherzlu á þessa fjárhagslegu fyrirgreiðslu að þeir undirgengust það að selja íbúðirnar fullgerðar á verði, sem húsnæðismálastjórn samþykkti, og vissulega er mikil bót að því. Auk þess tel ég rétt, að byggingarvandamálin séu leyst á margbreytilegum grundvelli, ef svo má að orði komast. Þar eigi einkaframtakið fullan rétt á sér og líka félagslegt framtak á samvinnugrundvelli og opinber afskipti. Mér finnst eðlilegt, að unnið sé að lausn íbúðarbyggingamála á margan hátt.

Ég er líka sammála því, sem hv. flm. sagði hér í sinni ræðu, að það sé ekki unnt að afgreiða þetta mál hér í hv. þd. á svipaðan hátt og gert var hér síðast, þegar þessu máli var vísað til ríkisstj. í trausti þess, að yfirstandandi heildarendurskoðun á húsnæðismálalöggjöfinni yrði hraðað og þar þá m.a. fjallað um byggingarsamvinnufélögin í þeirri endurskoðun. Af einhverjum ástæðum virðist þessi endurskoðun vera komin í strand og ekkert af henni spurzt, þannig að ég tel, að það sé ekki hægt að afgreiða þetta mál hér á sama hátt og áður.

Hv. 1. flm. gerði hér nokkurn verðsamanburð á íbúðum, sem byggðar höfðu verið af einstökum byggingarsamvinnufélögum, sem beztum árangri hafa náð, við íbúðarverðið eftir Breiðholtsáætluninni. Nú vil ég taka það fram, þar eð ég átti nú einu sinni aðild að þessari Breiðholtsáætlun og var þar formaður um tíma, að ég lít nú á þennan samanburð sem hrós fyrir framkvæmdanefndina, þar sem hv. ræðumaður var einmitt að benda á það byggingarsamvinnufélögunum til ágætis, að þeim hefði í beztu tilfellum tekizt að ná jafn góðum árangri og framkvæmdanefndin með verð á byggingum. Og þetta er í raun og veru annað en margir hafa haldið fram. Ég skal nú ekki fara að orðlengja hér um verðlagið á þessum Breiðholtsíbúðum. Um það hefur ákaflega mikið verið skrifað og rætt, og á kannske eftir að gera það hér frekar í þinginu. Grundvöllurinn er sá, að menn hafa misskilið, að hverju framkvæmdanefndin stefndi. Hún stefndi auðvitað að því að geta skilað sem beztum árangri, þegar búið væri að byggja 1250 íbúðir, en ekki endilega, að það lægi fyrir strax á fyrsta stigi, eftir tilraunaáfangann. Ég vil þó vekja athygli á því, að í blaðaskrifum að undanförnu hefur því verið haldið fram, að kostnaðarverð meðalstórrar þriggja herbergja íbúðar fullgerðrar hafi undanfarin tvö ár verið 1150 þús. kr., en í Breiðholtsíbúðunum kostuðu þessar íbúðir aðeins 940 þús. kr. Ég ætla ekki að fara út í þrætur um þetta, en ég vil vara við því, að menn séu að gera samanburð á annars vegar fullgerðum íbúðum og hins vegar íbúðum, sem eru ófullgerðar, og áætla kostnaðinn. Sannleikurinn er sá, að til þess að geta gert þennan samanburð af einhverju viti þarf mjög ítarlegar og nákvæmar upplýsingar, og þetta, sem blöðin eru að skrifa um þessi mál og hafa gert á undanförnum árum, er vægast sagt ákaflega ónákvæmt og margt villandi. Það er ekki hægt að gera sér glögga grein fyrir þessu nema þekkja allar staðreyndir hjá báðum byggingaraðilum, sem verið er að bera saman, mjög vel. Ég þekki ekki það dæmi, sem hv. ræðumaður tók um, hvað íbúðir muni kosta hjá tilteknum byggingarsamvinnufélögum. Það getur vel verið, að það reyndist allt saman rétt, þegar það yrði brotið til mergjar. Ég skal ekkert um það fullyrða. Ég þekki þau tilfelli ekki og hef ekki kynnt mér þau.

En það var annað atriði, sem hv. ræðumaður kom inn á. Það var samanburður við kostnaðarverð samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðarins. Nú hef ég þegar flutt í Sþ. þáltill. um að breyta grundvelli byggingarvísitölunnar, sem er orðinn mjög úreltur, og þess vegna skal ég ekki fara mörgum orðum um það hér, en ég vil aðeins minna á það, að Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar í Breiðholti gaf út ítarlega fréttatilkynningu, sem birt var í öllum dagblöðunum hér í maímánuði 1968, þar sem greint var frá verðlaginu á þeim íbúðum, hvað í því fælist, og gerður var allítarlegur samanburður við byggingarvísitöluna og kostnaðarverð samkv. byggingarvísitölu hér í Reykjavík og komizt að þeirri niðurstöðu, að verðlag íbúðanna væri 8% undir byggingarvísitöluverði. Ég vildi aðeins minna á það, þannig að það hefur alltaf legið ljóst fyrir, hvernig framkvæmdanefnd hefur litið á byggingarvísitöluna, hvernig þeim samanburði væri háttað og hvernig ætti að gera hann. Það hefur alltaf legið opinberlega fyrir, og þarf enginn að fara í grafgötur með það. Hitt er svo annað mál, að eins og kemur fram í þessum samanburði, þá er margt að athuga við þessa byggingarvísitölu, og menn komast ekki að öllum sannleikanum með því að bera saman við hana. Ekki fyrr en hún hefur verið endurskoðuð rækilega og henni mikið breytt.