18.12.1969
Sameinað þing: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (2957)

117. mál, aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Frsm. 1. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vakti athygli á því fyrr í dag, að það hefði ekki veitt af að fá hér grg. eins og grg. Guðmundar Magnússonar prófessors um fyrirætlanir um erlend iðnfyrirtæki á Íslandi á næstunni. Ég vakti athygli á því, að hæstv. iðnmrh. hefði látið vinna mjög dyggilega að þeim málum og lagt í það miklu meiri fjármuni en í könnunina á stöðu íslenzks iðnaðar, og ég mæltist til þess við hæstv. ráðh., að hann gerði hér grein fyrir verkum sínum á þessu sviði. En það verður heldur lítið um svör. Nú vildi svo til, að hæstv. ráðh. hafði fjarskalega lítinn áhuga á því að guma af þessum málum, eins og hann hefur stundum gert áður. Honum virðist auðsjáanlega ekki heppilegt að tengja þær staðreyndir við þetta mál, þó að þar sé um mjög náin tengsl að ræða. Ég spurði hæstv. ráðh. m.a. að því, hver árangur hefði orðið af för til Norðurlanda til þess að kanna, hvort norrænir iðnrekendur væru reiðubúnir til að stofna hér dótturfyrirtæki. Fregn um þessa för hæstv. ráðh. kom í íslenzka sjónvarpinu ásamt mynd, og þar var tekið fram, að þetta væri erindi hæstv. ráðh. Nú segir hæstv. ráðh., að þetta hafi raunar ekki verið erindið, heldur hafi aðeins verið um að ræða venjulegt heimboð frá „kollega“ hans dönskum, og ég hef raunar engin gögn til þess að vefengja það.

Hins vegar er greint frá því í skýrslu Guðmundar Magnússonar prófessors, að Norðurlandafirmu — í fleirtölu — hafi verulegan áhuga á því að hefja hér framleiðslu í vefjariðnaði til útflutnings. Varla mundi prófessorinn staðhæfa þetta, nema fyrir lægju einhverjar staðreyndir einmitt um þennan undirbúning norrænna fyrirtækja að stofna hér dótturfyrirtæki, eins og um var rætt. Hæstv. ráðh. kvaðst ekki sjá neinn mun á því, hvort við keyptum t.d. hreinsaða olíu af olíuhreinsunarstöð við Svartahaf eða af erlendri olíuhreinsunarstöð á Íslandi. Þetta er hugarfar, sem ég held, að fáir Íslendingar muni sætta sig við. Það hefur verið okkar keppikefli að flytja þau verkefni, sem við gætum unnið, inn í landið og koma þeim í eigu innlendra manna. Þetta var alger meginregla lengi vel á Íslandi og hefur dugað Íslendingum mjög vel, og ég er viss um, að þessi stefna er Íslendingum óhjákvæmileg, ef þeir ætla að halda efnahagslegu fullveldi.

Í rauninni var ekki margt í ræðu hæstv. ráðh., sem ég þarf að gera athugasemdir við; það var öllu fleira í ræðu hæstv. viðskmrh. Sú ræða var býsna löng, og ef ég ætti að gera athugasemdir við það, sem ég hnaut um í henni, yrði ég að tala langt mál, svo að ég verð aðeins að velja úr.

Eins og fram kom í þessari ræðu og við þm. vitum mjög vel, þá er hæstv. viðskmrh. kreddumaður. Hann trúir á formúlur. Hann er að vísu ekki kreddufastur, því að hann trúir ekki alltaf á sömu formúluna. Þær eru mjög breytilegar hjá honum. En hann trúir á þá formúlu, sem er næst honum hverju sinni. T.d. gat hann ekki skilið þau orð, sem ég mælti hér um gagnsemi frjálsra viðskipta í heiminum í upphafi ræðu minnar, öðruvísi en út frá formúlu. Í augum hans eru frjáls viðskipti aðeins afnám verndartolla og frjáls innflutningur. Það má vel vera, að slík formúla finnist í einhverri kennslubók eða uppsláttarbók, sem þessi hæstv. ráðh. á, en við þetta átti ég öldungis ekki. Ég átti hreinlega við aukin viðskipti þjóða á milli í heiminum. Og slík viðskipti er hægt að auka, þó að menn haldi verndartollum á vissum sviðum eða vissum innflutningshömlum eins og allir vita. Þessi auknu alþjóðlegu viðskipti eru án efa mjög stórt mál ekki sízt fyrir þróunarlöndin og fátæku þjóðirnar. En ég lagði áherzlu á það, að þessar efnahagssamsteypur í Evrópu hafa ekki þann tilgang að auka frjálsa verzlun af þessu tagi, heldur hið gagnstæða. Þetta eru klúbbar ríkra þjóða til þess ætlaðir að halda óbreyttum yfirburðum þeirra yfir fátækari þjóðum, og þetta hefur verið mikið gagnrýnt meðal þróunarríkja, vegna þess að eitt verkefni þessara bandalaga er að halda uppi þeirri mismunun, sem er nú einna alvarlegust í heiminum, — mismununinni á hráefnaverði og verði á fullunnum iðnaðarvarningi. Það er þessi munur, sem leiðir til þess, að viðskiptakjör fátækra þjóða og ríkra halda áfram að versna, og þetta grefur hreinlega undan þeirri efnahagsaðstoð, sem reynt er að veita fátækum þjóðum. Þetta eru staðreyndir, sem menn eiga að gera sér ljósar í þessu sambandi, þ.e. að við erum ekki að stuðla að almennri kenningu um aukið verzlunarfrelsi í heiminum með því að ganga inn í samtök eins og EFTA, heldur erum við að ganga inn í stofnun, sem hefur öfugan tilgang, ef litið er á hnöttinn sem heild.

Annað dæmi um það, hvað hæstv. ráðh. er mikill kreddumaður, er það, sem hann sagði um Noreg. Hann sagði réttilega, að gengi iðnaðar í Noregi hefði aukizt verulega á undanförnum árum, og hann sagði, að þetta væri að þakka aðildinni að EFTA. Þetta er ákaflega einföld skýring, en þó í rauninni engin skýring. Það, sem veldur því, hvað norskur iðnaður hefur þróazt, er hin sérstaka staða Noregs og Svíþjóðar sameiginlega. Noregur og Svíþjóð eru í rauninni, eins og menn vita, eitt sameiginlegt landsvæði þjóða, sem standa á mjög svipuðu þróunarstigi, og EFTA-aðildin varð til þess, að óeðlileg höft, sem voru á milli þessara tveggja ríkja, duttu niður. Hagur norsks iðnaðar er svo til einvörðungu bundinn við aukin viðskipti við Svíþjóð, og góður árangur hefði náðst alveg á sama hátt, þótt þessi tvö ríki hefðu gert sérstakan samning af þessu tagi sín á milli. Þannig er í þessu auðvitað ekki fólgin nein fyrirmynd fyrir Ísland eða hugsanlega þróun hér. Hér eru aðstæður allt aðrar. Þetta helgast af þessari sérstöku staðsetningu Noregs við hliðina á Svíþjóð og því, að þau ríki eru á svo svipuðu stigi.

Hæstv. ráðh. reyndi að skjóta sér á bak við það, að íslenzkir iðnrekendur hefðu samþykkt fylgi við EFTA-aðild með miklum meiri hluta eins og hæstv. ráðh. sagði, og hann spurði, hvort menn héldu, að þessir ágætu iðnrekendur vildu fara að fremja sjálfsmorð, hvort þeir hefðu ekki vit á því, hvað hentaði þeirra iðngreinum. Nú veit hæstv. ráðh. vel, að hann var að segja ósatt. Þarna er ekki um að ræða neinn meiri hluta iðnrekenda. Ég hef engar heimildir fyrir því. Það er um að ræða meiri hl. atkv. í atkvgr., sem var þannig, að iðnrekandi hafði atkvæðamagn í hlutfalli við það verkafólk, sem hjá honum vann, og það er allt annað. Í þessu er það fólgið, að nokkrir stórir iðnrekendur höfðu miklu meiri völd en þeir smáu, og þeir aðilar, sem ekki stunda verndaðan iðnrekstur, voru sterkari en hinir. Mér þætti fróðlegt að vita, hvort hæstv. ráðh. hefði einhverja vitneskju um það, hver er afstaða atvinnurekenda í vernduðum iðngreinum. Hefur það verið kannað sérstaklega? Og raunar hefði, fyrst iðnrekendur fóru að greiða atkv. fyrir hönd starfsfólks síns eins og þeir hafa gert, verið sæmandi að spyrja starfsfólkið sjálft. Það hefði ekki verið mikið verk. Og kannske hefði verið vert að spyrja sérstaklega þær konur, sem Guðmundur Magnússon spáir, að missi atvinnu sína — og hann hefur ekki miklar áhyggjur af — vegna þess að það eru konur, sem ekki eru sérmenntaðar, eins og stendur í skýrslu hans. Ég held, að það hefði verið gagnlegt fyrir ráðh., sem kennir sig við Alþfl., að afla sér þessarar vitneskju og reyna svo að nota hana til stuðnings því máli, sem hann er að berjast fyrir.

Hæstv. ráðh. flutti þá einkennilegu kenningu, að ekki væri hægt að gera áætlun um þróun iðnaðar á Íslandi án þess að eiga aðild að markaði. Hann komst, held ég, svo að orði, að áætlun, sem væri við það miðuð að standa utan EFTA, væri gerónýt, ef við gengjum svo í EFTA og öfugt. Auðvitað er þessi kenning hæstv, ráðh. alger fjarstæða. Áætlun, sem við gerum um þróun iðnaðar, hlýtur að miðast við aðstæður hér á Íslandi — fyrst og fremst við hráefni okkar, innlent hráefni og hugsanleg erlend hráefni, sem við getum notað — fjármagn okkar og vinnuafl. En síðan þegar við höfum gert okkur grein fyrir því, hvaða iðnað við getum stofnað og starfrækt, þá hljótum við að velja okkur markaði í samræmi við það, en ekki öfugt. Kenning hæstv. ráðh. minnir á ævintýrið gamla um það, þegar verið var að leita að eiganda skóa og reynt var að leysa þann vanda, sem í var komið, með því að höggva af tá og hæl. Við þurfum að velja okkur það, sem okkur hentar, ekki með því að höggva af okkur sjálfum, heldur með því að hafa markaðinn í samræmi við þarfir okkar.

Hæstv. ráðh. sagði einnig nokkur orð um áætlunargerð almennt og hélt því fram, að það væri úrelt sjónarmið að halda, að áætlanir gætu verið bindandi. Áætlanir væru einvörðungu almennur rammi. Nú veit ég það fullvel, að það er erfitt að gera áætlanir um heildarframleiðslu stórra þjóðfélaga. Reynslan hefur leitt það í ljós, að það er mjög erfitt að hafa sterka miðstjórn á slíkum áætlunum í þjóðfélögum, sem eru orðin sæmilega iðnvædd. En við skulum minnast þess, í hvaða þjóðfélagi við búum. Við erum ekki nema 200 þús. talsins. Öll framleiðsla okkar er ekki meiri en hjá meðalstóru fyrirtæki hjá stórþjóðum, og meðalstór fyrirtæki hjá stórþjóðum gera bindandi áætlanir, þau gera áætlanir eins langt fram í tímann og þau geta og reyna að hafa þær eins bindandi og unnt er. Ef við ætlum í þessu smáa þjóðfélagi að gera áætlanir, sem eitthvert gagn er í, þá verðum við að hafa sama hátt á. Og það er í sjálfu sér ekkert vandamál að gera slíka áætlun fyrir afmarkaða þætti í atvinnulífi okkar, þannig að hægt sé að styðjast við þá og hafa þá bindandi alllangt fram í tímann. Við eigum ekki að bera okkur saman við tugmillióna þjóðir. Við eigum að gera okkur grein fyrir því, hvernig aðstæður eru hér á okkar landi, og þó að við tökum allan okkar iðnað í heild, þá er hann ekki nema smáræði, eins og minni háttar fyrirtæki hjá öðrum þjóðum. En við náum aldrei valdi á þessu verkefni. nema við skipuleggjum hann og leggjum á ráðin um hann sem sérstaka heild.

Ég vitnaði í ummæli, sem hæstv. ráðh. hefur haft uppi nokkrum sinnum um það, að iðnþróun verði því aðeins, að við göngum í EFTA; þeir, sem séu á móti EFTA, séu á móti iðnþróun. Ég get vitnað í fyrirvaralaus ummæli úr mörgum ræðum hæstv. ráðh., en nú kom hann allt í einu með fyrirvara. Hæstv. ráðh. sagðist alls ekki hafa átt við fiskiðnaðinn, sem auðvitað væri efst á blaði í sambandi við iðnvæðingu. Hann sagðist ekki heldur hafa átt við annan iðnað úr innlendum hráefnum. Hann sagðist einvörðungu hafa átt við þann iðnað, þar sem við verðum að flytja hráefnin inn. Um slíkan iðnað væri svo ástatt, að það væri ekki hægt að stunda hann, ef menn þyrftu að fara yfir tollmúra. Nú skal ég fúslega viðurkenna það, að um slíkan iðnað gegnir öðru máli en iðnað úr hráefnum, sem framleidd eru innanlands. Hins vegar er þessi kenning hæstv. ráðh. engan veginn rétt. Það hafa mörg ríki orðið að gera það, þ.e. að koma upp iðnaði úr innfluttum hráefnum og selja þau yfir tollmúra. Þetta hafa mörg eða flest lönd gert. Ég skal minna á eitt nálægt ríki, Danmörku. Það ræður ekki yfir neinum hráefnum, svo að heitið geti, og ekki orku heldur; það verður að flytja hvort tveggja inn. Samt tókst Dönum að byggja upp öflugan iðnað, áður en gengið var í EFTA, og Danir selja iðnaðarvörur úr innfluttum hráefnum til Bandaríkjanna og til Efnahagsbandalags Evrópu í vaxandi mæli. Þessi kennisetning hæstv. ráðh. er ekki rétt, enda hættir þessum hæstv. ráðh. mjög við því að sjá veröldina í ákaflega einföldum kennisetningum. Hún er bara ekki þannig.

Hæstv. ráðh. gerði aths. við það, sem ég hafði sagt hér um 16. gr. EFTA-samninganna, þá grein, sem kveður á um hin gagnkvæmu réttindi, og hann sagði, að ríkisstj. Íslands liti svo á, að fiskiðnaður heyrði ekki undir ákvæði gr. og þess vegna væri óþarfi að gera fyrirvara. Engu að síður er það staðreynd, að hæstv. ríkisstj. hafði í hyggju að gera fyrirvara um þetta atriði, og ástæðan til þess, að hún hætti við það, var sú, að hún taldi sig hafa vitneskju um, að þá mundu aðrir aðilar gera fyrirvara gagnvart okkur. Hvað felst í þessu? Í þessu felst auðsjáanlega það, að ef við hefðum gert fyrirvara, þá hefðu aðrir litið á það þannig, að verið væri að skerða hagsmuni þeirra; því aðeins beita þeir gagnaðgerðum. Þeir líta svo á, að ef við hefðum gert fyrirvara við 16. gr., hefðum við verið að skerða hagsmuni þeirra. Þetta er alveg augljóst mál. Samt er ég ekki þeirrar skoðunar, að hættan við 16. gr. sé endilega sú, að önnur ríki reyni að sanna upp á okkur einhverjar skyldur. Hættan er, eins og ég rakti í ræðu minni í dag, bundin við stefnu þessarar hæstv. ríkisstj. Hæstv. ríkisstj. vill nota 16. gr. til þess að laða hingað sem mest af erlendum aðilum. Og þótt hæstv. ráðh. kæmist hér svo að orði fyrir nokkrum dögum, að það mætti aldrei gerast að erlendir aðilar kæmust í fiskiðnað okkar, þá held ég, að þessi hæstv. ráðh. ætti að minnast þess af langri reynslu, að forðast ber að nota orðið aldrei.

Það hefur einnig verið sagt, að frv. þau, sem hér hafa verið flutt, séu nægir fyrirvarar. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri nægur fyrirvari, að ráðh, hefðu vald til þess að ákveða, hverjir mættu stofna hér fyrirtæki og hverjir ekki. Alþ. þyrfti ekki að hafa slík völd, því að Alþ. gæti fellt ríkisstj., sem eitthvað gerði af sér. Ef þessi stefna ætti að ríkja á öllum sviðum, hvert væri þá verksvið Alþ.? Á flestum sviðum er það þannig, að hæstv. ríkisstj. verður að leggja mál sín fyrir Alþ., jafnvel smáatriði eins og sölu á eyðibýli, og láta Alþ. fjalla um það og láta Alþ. samþykkja það. Ef fylgt væri þessari nýju kenningu hæstv. ráðh., þá væri hægt að taka öll verkefni af Alþ. og láta Alþ. sitja og biða eftir því, að ríkisstj. ynni eitthvert það verk, sem Alþ. vili ekki sætta sig við, og felldi hana svo. Það á ekkert skylt við lýðræði eða þingræði að taka ákvörðunarvaldið af Alþ. og fela það ráðh., heldur er þar um að ræða gagnstæða stefnu. Ef setja á einhvern fyrirvara í samhandi við 16. gr., verður sá fyrirvari að vera á þá leið, að Alþ. taki slíka ákvörðun. Og ef hæstv. ríkisstj. vill ekki á slíkt fallast, hljóta viðhorf hennar að vera annarleg í sambandi við þetta mál einnig.

Ég sá ástæðu til þess í dag að víta hæstv. viðskmrh. fyrir mjög ósæmilega framkomu í sjónvarpsumr. um daginn, þegar hæstv. ráðh. fór með vísvitandi ósannindi eins og ég sagði, og ég hef enga ástæðu til þess að breyta þeim ummælum. Þau orð, sem hæstv. ráðh. fór með hér í dag, staðfestu það, sem ég sagði. Ég hafði í fyrri ræðu minni í umr. nefnt tölur um það, hvað tollarnir lækkuðu annars vegar og hvað söluskatturinn hækkaði hins vegar, og ég vakti athygli á því, að málsvarsmenn EFTA hefðu ekkert um þetta sagt. Hæstv. ráðh. var að svara mér, og hann sagði, að það væri alrangt, sem ég hefði sagt. Hann sagði, að tollalækkun og söluskattshækkun vegi hvort annað upp í sambandi við aðild að EFTA. Það má vel vera, að með orðhengilshætti sé hægt að lesa það út úr setningum þeim, sem hæstv. ráðh. fór með, að hann hafi ekki farið með formleg ósannindi. Engu að síður fékk hver maður, sem á þetta hlustaði, inn í sig þá skoðun hæstv. ráðh., þá kenningu hæstv. ráðh., að þarna væri um jafnræði að ræða. Enda var það tilgangur hæstv. ráðh. að koma þessari skoðun inn hjá fólki. Ég veit fullvel um þetta, og ég geri ráð fyrir, að fleiri menn hafi orðið varir við það. Ég hitti fólk daginn eftir víða, sem fór að tala um þetta, vekja athygli á því. Sumir höfðu trúað hæstv. ráðh., en aðrir voru hneykslaðir. En það er algerlega augljóst, að hæstv. ráðh. var þarna að koma á framfæri algerum blekkingum. Ég endurtek, að þetta er ósæmileg framkoma hjá íslenzkum ráðh.

Hæstv. ráðh. hafði nokkur almenn orð um þá stefnu að hækka söluskattinn. Hann sagði, að með því væri verið að feta sömu slóð og farin hefði verið hér í nágrannalöndum að undanförnu og sósíaldemókrataflokkar hefðu í raun og veru aðhyllzt margir. Þetta er í sjálfu sér alveg rétt hjá hæstv. ráðh. Hins vegar hafa sósíaldemókrataflokkar t.d. á Norðurlöndum lagt á það mjög ríka áherzlu að reyna að jafna þær þungu byrðar, sem af söluskatti stafa, upp með stórauknum tryggingagreiðslum og fjölskyldubótum til láglaunafólks. Á þessu sviði erum við Íslendingar langt á eftir. Almennar greiðslur almannatrygginga á Íslandi eru núna um það bil helmingur þess, sem er á Norðurlöndum og fjölskyldubæturnar mun minni hluti. T.d. í Noregi eru fjölskyldubætur það miklar, að stór barnafjölskylda fær í fjölskyldubætur upp undir fullt mánaðarkaup. Þegar hæstv. ríkisstj. hækkar nú söluskattinn um nærfellt 1 milljarð, þá eru engar ráðstafanir til þess gerðar að milda þetta gagnvart láglaunafólki og stórum fjölskyldum. Engar ráðstafanir. Því að sú óverulega hækkun, sem nú á að gera á lífeyrisgreiðslum og bótum almannatrygginga, á aðeins að vega upp þróun, sem komin er á undan, vegna þess að þessar greiðslur hafa rýrnað síðan 1960. Því var lýst yfir, að þetta ætti að vega eldra misræmi upp, en væri ekki í neinu samhengi við þá stórhækkun á söluskatti, sem nú kemur til framkvæmda. Þannig að Alþfl. og hæstv. form. hans hafa algerlega vanrækt að hafa þó þennan fyrirvara, sem sósíaldemókratar á Norðurlöndum hafa lagt áherzlu á af sinni hálfu.

Ég vakti einnig athygli á því í dag, að ég teldi það vera niðurlægjandi, að íslenzkur ráðh. gengi á fund annarra norrænna þjóða til að biðja um peninga eins og gert hefur verið. Ég hefði talið eðlilegt að fara fram á eðlilegt lán með eðlilegum vöxtum, en það nægði ekki hæstv. ríkisstj. Hún varð að fara fram á vaxtalaust lán, sem jafngildir stórfelldri peningagjöf. Hæstv. ráðh. reyndi að réttlæta þetta með því, að það væri ekki jafnræði í viðskiptum á milli Íslendinga og annarra norrænna þjóða. Þeirra útflutningur til okkar væri margfalt meiri, sala þeirra til okkar væri margfalt meiri en sala okkar til þeirra. Það er sannarlega ekki í samræmi við EFTA-sáttmálann, að slíkt jafnræði eigi að vera þvert á móti. Og tilraunir hæstv. ráðh. til þess að tengja þetta við EFTA-samkomulagið eru fjarri öllum sanni. Ef hæstv. ríkisstj. hefði talið, að þetta væri í einhverju samhengi við EFTA-sáttmálann, þá hefði hún auðvitað snúið sér til EFTA. Hún gerði það ekki, vegna þess að það hefði auðvitað verið hlegið að slíkri málaleitan. Hún notfærði sér það aðeins, að hún veit, að Íslendingar njóta sérstakrar velvildar á Norðurlöndum, og hún reynir að breyta þeirri velvild í fjármuni. Hæstv. ríkisstj, hefur oft gert þetta. Það minntist hér einhver í dag á Marshall-aðstoð, frsm, meiri hl. utanrmn. Ég man eftir því, að þegar við gerðumst aðilar að Marshall-samningunum, þá lýsti hæstv. núv. forsrh. yfir því, að við, sem vorum býsna vel efnum búnir eftir styrjöldina, færum inn sem veitendur, en ekki sem þiggjendur. En þeim áfanga lauk nú samt svo, að við höfðum tekið á móti meiri aðstoð en nokkurt annað land. Þetta hefur verið einkenni á þeim hæstv. ráðh., sem nú fara með völd alla tíð — einnig á þeim árum, þegar Íslendingar státuðu af því að vera með einhverjar hæstu þjóðartekjur á mann.

Ég vakti einnig athygli á því í dag, að hæstv. ríkisstj. hefði algerlega vanrækt að taka þátt í undirbúningsviðræðum og athugun í sambandi við umræður Norðurlandaþjóða um efnahagsbandalag, NORDEK. Um það atriði sagði hæstv. iðnmrh. ýmis furðuleg orð. Annars vegar sagði hann, að hugmyndirnar um NORDEK væru ekki aðgengilegar fyrir Ísland, en í hinu orðinu sagði hann, að hann vissi, að það væri tiltölulega mjög auðvelt að fá undanþágu fyrir Ísland á öllum þeim atriðum, sem okkur hentuðu ekki. En við þurfum ekkert að hlusta á svona staðhæfingar hjá hæstv. ráðh. Það, sem átt hefði að gera, ef unnið hefði verið að þessu máli á skynsamlegan hátt, hefði verið, að fyrir okkur hefðu legið staðreyndir um þessa hluti, þ.e. að framkvæmd hefði verið könnun á þessu. Ef við hefðum vitað þetta, þyrftum við ekki að hlusta á mótsagnafullt mat hjá þessum hæstv. ráðh. En hann gaf engin svör við þeirri spurningu, sem ég bar hér fram í dag, hvort hæstv. ríkisstj. gæti hugsað sér, að hlutskipti okkar ætti að vera það að vera í þeim hluta EFTA, sem væri utan Norðurlanda, eftir að búið væri að stofna norrænt efnahagsbandalag og EFTA væri í rauninni klofið – að við ættum þá sem sé ekki að vera í samvinnu við Norðurlönd, heldur við hin EFTA-ríkin. Ég get ekki skilið stefnu ríkisstj, öðruvisi en hún geti hugsað sér þessa þróun. En mér finnst hún algerlega fáránleg.

Ég vakti athygli á því hér í dag, að einn megintilgangur með EFTA-aðildinni væri, að við tækjum á okkur skuldbindingar um þær hagstjórnaraðferðir, sem við annars vegar mættum beita og hins vegar ekki. Hæstv. ráðh. vefengdi raunar ekki, að þetta væri rétt, en hann sagði, að þetta kæmi ekki að sök, því að við getum gengið úr EFTA eftir eitt ár; hann lagði á þetta mikla áherzlu. Nú veit ég þó ósköp vel, að við getum gengið úr EFTA eftir eitt ár samkvæmt ákvæðum samninganna, en við skulum einnig gera okkur það ljóst, að þetta kann að verða miður auðveldara en það lítur út fyrir að vera. Ef tekin er stórfelld ákvörðun í efnahagsmálum, þá dregur hún dilk á eftir sér. Hún breytir öllu efnahagskerfi þjóðfélagsins, og það getur verið ákaflega erfitt að snúa við, eftir að búið er að gera slíka breytingu. Við getum tekið til samanburðar ráðstöfun eins og gengislækkun. Um gengislækkanir er oft verulegur ágreiningur. En eftir að búið er að framkvæma gengislækkun og eftir að hún hefur verkað um kerfið allt, þá dettur engum manni í hug að afturkalla hana. Ég skal engan veginn gera lítið úr því, að við eigum þess kost að segja okkur úr EFTA, en við skulum gera okkur það ljóst, að það verður engan veginn jafnauðvelt og þessi hæstv. ráðh. vildi vera láta í ræðu sinni hér í dag.

Hæstv. ráðh. sagði nokkrar setningar um þá till. okkar Alþb.-manna, að aðild að EFTA verði borin undir þjóðaratkvæði, og hann sagðist vera andvígur þeirri till. Hann kom með kennisetningu eins og venjulega og sagði: Stjórnarskráin gerir ekki ráð fyrir slíku, Alþ. á að útkljá slík mál, eins og hann væri að fara með algilda kennisetningu. Nú hefur það áður verið lagt til hér á þingi, að mál væru borin undir þjóðaratkvæði. Það gerðist t.d. 1949, þegar fyrir Alþ. till. um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Þá var borin fram till. um þjóðaratkvæði, og ég gáði að því áðan, hvernig atkv. hefðu fallið um hana. Á listanum yfir þá, sem samþykktu þjóðaratkvæði, var eitt nafn skráð fyrst, Gylfi Þ. Gíslason. Hann var þá ekki að hugsa um stjórnarskrána. Hann var ekki að hugsa um þau sannindi, sem hann var að segja hér áðan, og það er ekki lengra síðan en í vor, að fyrir Alþ. lá önnur till. um að hafa þjóðaratkvæði um eitthvert hégómlegasta smámál, sem lagt hefur verið fyrir Alþ. um það, hver alkóhólprósenta í bjór ætti að vera. Um þessa till. var haft nafnakall. Ég gáði einnig að því, hvernig atkv. hefðu fallið þar, og það hittist svo einkennilega á, að fyrsti maður, sem samþykkti till., var einnig sá sami og 1949, Gylfi Þ. Gíslason. Hæstv. viðskmrh. er þannig þeirrar skoðunar, að það megi leggja undir þjóðaratkvæði bæði stór mál og smá, bæði utanríkismál og innanríkismál. Nú veit ég, að ég er ekki að skýra út neina nýja hlið á þessum hæstv. ráðh. með því að vekja athygli á þessu. Allir hv. alþm. vita, að á hinum langa ferli sínum hefur hæstv. ráðh. tekizt ekki aðeins að hafa gagnstæðar skoðanir á flestum málum, heldur á mörgum málum allar hugsanlegar skoðanir, sem hægt er að hafa, og hann kann þá list að flytja þessar skoðanir af miklum sannfæringarkrafti hverju sinni og tala um þær sem algild sannindi. Ég var ekki sammála hæstv. viðskmrh, um það, að það ætti að fara fram þjóðaratkvgr. um það hégómamál, hvort áfengismagn í bjór ætti að vera meira eða minna. Hins vegar tel ég, að það beri að hafa þjóðaratkvgr., þegar um er að ræða stórmál, sem raska högum þjóðarinnar — mál, sem eru af þessu tagi og ekki hafa verið borin upp í kosningum næst á undan. Í seinustu kosningum, 1967, var ekkert um þetta mál rætt. Alþm. fengu ekkert umboð til þess að útkljá mál af þessu tagi, og þá ætti það að vera siðferðileg skylda alþm. að bera slíkt mál undir þjóðaratkvæði. Annað tel ég vera ósæmilegt með öllu.

Að lokum vil ég minnast örlítið á hina frægu Þjóðminjasafnsræðu hæstv. ráðh. Hann kvartaði undan því í dag, að ég hefði nokkrum sinnum á undanförnum árum vitnað til þessarar ræðu, og það er vissulega rétt; það hef ég gert. Ég hef gert það vegna þess, að þetta er einhver minnisstæðasta ræða, sem ég hef heyrt, og ég veit, að þannig var um fleiri, sem voru viðstaddir þennan atburð. Þetta var á aldarafmæli Þjóðminjasafnsins, og menn bjuggust við, að hæstv. menntmrh. mundi halda eina af þessum áferðarfallegu tækifærisræðum, sem hann er sérfræðingur í að halda við slík tækifæri. En hann gerði það ekki. Hann lagði út af þeim ummælum Winstons Churchills, að helzta ráðið til að efla sjálfstæði þjóðar væri að fórna sjálfstæði hennar. Og hann sagði þetta ekki til þess að gagnrýna þessi ummæli, heldur til þess að taka undir þau, til þess að styðja þau. Hann færði að þeim margvísleg rök í löngu máli. Hæstv. ráðh. sagði m.a. í þessari ræðu:

„Tuttugasta öld er tími fjöldaframleiðslu, stórs markaðs, kjarnorku og geimferða. Tvö mestu stórveldi Vesturlanda og þá um leið veraldar eru til orðin við samruna þjóða og þjóðarbrota, jafnvel ríkja. Í Austurlöndum eru að rísa upp risaveldi, sem eru ólíkari hið innra en Evrópa, og greinist hún þó í sundurleitar þjóðir og mörg þjóðríki. Hvarvetna gætir viðleitni til þess að efla samvinnu, tengjast böndum, mynda bandalög. Hvers vegna? Vegna þess, að fjöldaframleiðsla og stór markaður, kjarnorka og geimferðir krefjast stórra átaka, sterkra afla, mikils valds ... Og kemur ekki hlutdeild í auknu sjálfstæði og vaxandi öryggi voldugs bandalags í stað minnkandi sjálfsforræðis hvers einstaks? ... Það, sem er að gerast í kringum okkur, er, að stórveldi eflast, bandalög myndast, olnbogarúm hinna smáu minnkar, skilyrði þeirra til þess að tileinka sér hlutdeild í framförum skerðast, kæna smáríkis dregst aftur úr hafskipi stórveldis eða bandalags.“

Það var mikið flug á hæstv. ráðh., þegar hann flutti þessa ræðu, en sú kenning, sem í ræðunni felst... (Gripið fram í.) Ég hef ekki lengri tilvitnun úr þessari ræðu hér hjá mér, en þessi tilvitnun gefur fulla hugmynd um, hvað hæstv. ráðh. var að fara. En sú kenning, sem hæstv. ráðh. er hér með, er ekki allur sannleikurinn fremur en aðrar einfaldar staðhæfingar, sem frá honum koma. Við lifum ekki aðeins á tímum bandalaga og aukins samruna, heldur hefur einnig allt önnur þróun verið að eiga sér stað í heiminum undanfarna áratugi. Það, sem hefur verið einna sérstæðast í heiminum eftir stríð, er það, að risavaxin bandalög, sem til voru og spönnuðu um hnöttinn allan, þannig að sólin settist aldrei innan þeirra, hafa klofnað í sundur. Öll nýlenduveldin hafa gefizt upp við að halda saman hinum svokölluðu bandalögum sínum. Og upp hafa risið ný ríki, sem leggja mikla áherzlu á vaxandi sjálfstæði sitt. Einnig þetta hefur einkennt þetta tímabil.

Það er einnig mikill misskilningur hjá hæstv. ráðh., að góð lífskjör og öflug menning sé fyrst og fremst í stórveldum, sú er sannarlega ekki raunin. Þau ríki, sem einna fremst standa bæði að almennum lífskjörum og menningu, eru smáríki. Í stórum ríkjum er miklu meiri misskipting bæði á milli landshluta og milli einstakra stétta. Og það er mikill misskilningur að ímynda sér, að þegar smár aðili rennur í stóra heild, þá öðlist hann sjálfkrafa hlutdeild í hinum sameiginlega styrk. Sú er ekki heldur raunin. Bæði innan stórra ríkja og stórra bandalaga er hvarvetna að finna svæði og héröð, sem ekki aðeins fylgjast ekki með, heldur dragast hreinlega aftur úr í þróuninni. Og ríki, sem áður voru næsta öflug og héldu til jafns við aðra, hafa að engu orðið, ef þau hafa runnið í stærri heild. Slík þjóðfélög eru mörg umhverfis okkur, t.d. eyjarnar norður af Skotlandi, þar sem lifað var mannlífi ósköp svipuðu því, sem við þekkjum hér á Íslandi. Þegar þessar litlu kænur tengdust við hafskipið, þá fengu ekki þessi þjóðfélög neinn sjálfkrafa ávinning frá hinni öflugu heild, heldur þvert á móti hélt þeim áfram að hraka. Heildin dró til sín bæði mannafla og framleiðslu frá þessum hlutum heildarinnar. Og það er mikil hætta á því, að einmitt þetta gerist hér á Íslandi, ef framkvæma á þá stefnu, sem auðsæilega vakir fyrir hæstv. ríkisstj., þ.e. að láta þá iðnþróun, sem hún talar um, fyrst og fremst vera í höndum útlendinga. Því að það getur engum manni dulizt, að þó að talað sé fagurlega um þróun íslenzks iðnaðar, þá er þar ekki um neinar staðreyndir að ræða enn sem komið er. Staðreyndirnar eru allar í tengslum við erlend fyrirtæki.