19.12.1969
Sameinað þing: 27. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (2970)

134. mál, frestun á fundum Alþingis

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef ekkert við það að athuga, að fundum Alþ. sé frestað til 12. jan., eins og gert er ráð fyrir í þessari till., en mér skilst, að þar sem hér er um að ræða ekki lengri frestun á fundum þingsins en rétt innan við einn mánuð, hefði verið hægt að gera það samkv. þingsköpum að fresta fundum þingsins samkv. þeirri venju, sem hér hefur skapazt, og það hefði því ekki þurft að gera sérstaka þingssamþykkt.

Ef aðeins er um að ræða frestun á fundum þingsins, hefur ríkisstj. að vísu ekki heimild til þess að setja brbl. Nú vildi ég spyrjast fyrir um það, hvort hæstv. forsrh. telur, að nauðsynlegt sé, að ríkisstj. hafi brbl.-heimild í þessu þinghléi fram til 12. jan., og einnig vil ég spyrjast fyrir um það, hvort það sé kannske þegar ráðgert að setja brbl., jafnvel á milli jóla og nýárs, eins og komið hefur hér fyrir áður og mér hefur gjarnan skilizt, að jafnvel stæði til nú. Slík vinnubrögð tel ég aldeilis fráleit, en ég vænti þess, að hæstv. ráðh. gefi svör við þessum spurningum mínum.