19.12.1969
Sameinað þing: 27. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (2971)

134. mál, frestun á fundum Alþingis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Vel kann svo að fara, þegar Alþ. er ekki statt til fundar, að nauðsyn skapist á setningu brbl., jafnt nú sem endranær. Þess vegna er að mínu viti nauðsynlegt að hafa þessa heimild. Hins vegar er mér ekki kunnugt um ráðgerða setningu brbl. nú, nema varðandi eitt mál, sem getur komið til álita að setja þurfi brbl. um. En það er staðfesting á samkomulagi í sambandi við lífeyrisgreiðslur til gamalla manna, sem ákveðið var í samningum milli atvinnurekenda og verkalýðs með samþykki ríkisstj. á s.l. vori. Aðilar sjálfir hafa haft þetta mál til meðferðar. Nú alveg nýlega hefur það komið til ríkisstj. Það var svo seint, að ekki þótti fært að ætlast til þess, að þingið tæki afstöðu til málsins fyrir jólafrí. Ef það er mat þessara aðila, Alþýðusambandsins annars vegar og atvinnurekenda hins vegar, að engu að síður sé nauðsynlegt að fá þessa löggjöf setta um áramótin, þá er eina úrræðið að gera það með brbl. En á ríkisstjórnarfundi í gær var talað um að gera það ekki nema eftir ósk aðilanna, þannig að ef þeir telja hægt að bíða með málið þangað til þing kemur saman aftur, þá verður málið látið bíða. Þetta er sú eina löggjöf, sem mér er kunnugt um nú.