04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í D-deild Alþingistíðinda. (3060)

64. mál, læknisþjónusta í strjálbýli

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er ekki nýtt, að hér séu til umr. till., sem fjalla um læknavandamál strjálbýlisins. Og hér hafa að undanförnu farið fram allmiklar umr. um þessi mál. En allir vitum við, að þrátt fyrir þær miklu umr., sem um þessi mál hafa orðið á þingi, hefur heldur lítið skipazt til betri vegar með útvegun á læknum í læknishéruð víða úti um land. Nú er þessi litla till. hér til afgreiðslu, og geri ég varla ráð fyrir því, að menn búist við því, að mikið geti lagazt um útvegun á læknum í læknislaus læknishéruð víða um land, þó að þessi till. verði samþ. En þó er hér auðvitað um tilraun að ræða, að reyna að fara þá leið, sem hér er lögð til, en ég held, að ekki sé hægt að afgreiða þessa till. þessa daga á Alþ, án þess að minnast nokkuð á þá atburði, sem hafa verið að koma fram að undanförnu varðandi menntun lækna í landinu og störf læknadeildar Háskólans. Alþ. ræðir sem sagt um það fund eftir fund, hvernig eigi að leysa þetta vandamál að útvega lækna í læknislaus héruð. Ýmsar till. eru samþykktar. En á sama tíma og Alþ. er að ræða þessi mál og ástandið er eins og allir vita, þá heyrum við fréttir frá læknadeild Háskólans af því tagi, sem ég efast ekki um, að allir þeir þm., sem hér eru inni, hafa veitt athygli og komið hafa fram að undanförnu. Ég hefði óskað eftir því, að sá ráðh., sem fer með þessi mál, heilbrigðismálin, hefði verið viðstaddur þessar umr. (Gripið fram í: Hann er kominn.) Þá er kannske rétt að ræða málið, rifja málið aðeins upp fyrir ráðh.

Hér er til umr. till. til þál. um bætta læknisþjónustu í strjálbýli. Ég efast ekki um, að hæstv. ráðh. hefur kynnt sér þessa till. og þá leið, sem þar er lagt til að farin verði til þess að bæta úr því erfiðleikaástandi, sem þeir búa við, sem ekki hafa lækni í sínu læknishéraði. Ég hafði sagt hér áður í mínu máli, að ég byggist við því, að þó að þessi till. yrði samþ., yrði ekki um miklar úrbætur í þessum efnum að ræða. Ég hafði einnig vitnað til þess, að Alþ. hefur fjallað um þessi mál æðioft að undanförnu, og mér hefur virzt alþm. vera þar allir á einu máli, að það yrði að gera allar hugsanlegar ráðstafanir til þess að útvega lækna í læknislaus héruð.

En nú, þegar þessi till. liggur fyrir til afgreiðslu á Alþ., þá er varla hægt að afgreiða svo till., að ekki sé nokkuð rætt um þá atburði, sem hafa verið að gerast að undanförnu í læknadeild Háskólans. Nú þarf ég ekki að rifja það upp fyrir hv. þm., hvað hefur verið að gerast í læknadeildinni. En það er í aðalatriðum það, að fyrir liggur, að allmargir ungir menn, sem vilja leggja fyrir sig læknisfræði og hafa hingað til flestir verið taldir allgóðir námsmenn, komast ekki áfram og eru felldir skipti eftir skipti, þannig að í kringum 80% af þeim, sem ganga undir próf, sumir hverjir í annað eða þriðja og jafnvel upp í fjórða skipti, fá ekki tækifæri til þess að halda áfram læknanámi og verða að sveigja af fyrirhugaðri námsbraut og taka sér fyrir eitthvert annað námsefni. Og þetta gerist á sama tíma og það skortir stórkostlega lækna til þess að sinna þeim læknisstörfum, sem óhjákvæmilega þarf að annast í landinu. Ég tel fyrir mitt leyti, að Alþ. geti ekki staðið að þessum málum eins og það hefur gert, þegar svona atburðir eru að gerast eins og hér hafa gerzt í læknadeild Háskólans. Það er blátt áfram hlægilegt að standa hér á Alþ. dag eftir dag og tala um læknaskortinn í dreifbýlinu og samþykkja ýmist þessa till. eða aðra, á meðan þannig er haldið á málum í læknadeildinni sem gert er.

Mér er t.d. vel kunnugt um það, að á Austurlandi er ástandið í læknamálunum orðið mjög alvarlegt, og það dynja á okkur þm. þaðan að austan beiðnir um að reyna að leita úrbóta í þessum efnum. En á sama tíma og þessar beiðnir koma til okkar, tala einnig til okkar úr okkar héruðum ungir námsmenn. Ég þekki t.d. tvo frá Austurlandi af þeim, sem þreyttu próf í læknadeildinni að þessu sinni. Eftir því sem ég hef vitað bezt, var þarna um ágæta námsmenn að ræða, hina samvizkusömustu menn, sem vildu mjög leggja fyrir sig læknisstörf. En þeir komast ekki áfram.

Ég hlýddi á fyrirspurnatíma einn morguninn fyrir ekki löngu síðan, þar sem einn af prófessorum við læknadeild Háskólans var yfirheyrður og spurður um ýmsa þætti varðandi læknadeildina. Ég veitti því athygli, að sá prófessor, sem þar varð fyrir svörum, sagði alveg eins greinilega og á verður kosið, að það væri ekkert um þetta að ræða. Læknadeildin gæti ekki tekið fleiri en 25–30 nemendur á ári, eins og í haginn væri búið, og það skipti engu máli um námsgetu eða námsárangur þeirra, sem þreyttu próf. Öll kennsla deildarinnar væri byggð upp á þessum forsendum, og því væri það að hans dómi í rauninni alveg tómt mál að tala um að setja einhverja lágmarkseinkunn. Það fór því ekkert á milli mála, að það, sem þessi prófessor var að segja, var, að séð yrði um það eftir ýmsum leiðum að fella það, sem þyrfti, að fella það marga, að ekki slyppu inn fleiri en 25–30 nemendur í hvern árgang.

Það er skoðun mín, að taka þurfi störf læknadeildarinnar til sérstakrar athugunar, ef leysa á læknisvandamálin í landinu. Ef þannig á að standa að málum, að ekki geta komizt til læknanáms í landinu nema algerir úrvalsnámsmenn, aðeins örfáir úr hverjum árgangi í rauninni, og síðan er þeim ætlað að stunda hér nám í 7–8 ár í læknadeild, fara síðan nálega allir út til framhaldsnáms til þess að ná þar æðri námsgráðum, fá sinn sérfræðistimpil á sig, og þurfa til þess 3–4 ár, og hér er í rauninni aðeins um þá menn að ræða, sem eru alveg sérstakir afreksmenn í námi, — þá hef ég ákaflega litla trú á því, þegar þessir menn koma heim eftir 10–12 ára nám í læknisfræði, slíkir garpar í námi, að þeir fáist yfirleitt til þess að taka að sér héraðslæknisstörf eins og þau gerast og ganga hér á Íslandi, enda er líka raunin þessi. En þá er líka spurning, hvort við ætlumst til þess af læknadeild Háskóla Íslands, að hún ali upp hæfa lækna til þess að þjóna þeim læknishéruðum, sem eiga að vera til á Íslandi samkv. lögum. Eða erum við að gera tilraun til þess að ala upp nokkra afreksmenn í greininni, sem vel gætu verið hæfir til þess að starfa við vísindastofnanir erlendis á þessu sviði?

Ég gæti helzt látið mér til hugar koma, að þannig væri staðið að málum, — ég þekki þetta auðvitað ekki gjörla sjálfur í læknadeildinni, að þar væri málum þannig háttað, að helzt væri stefnt að þessu, en þá er heldur ekki verið að ala upp þá lækna, sem við þurfum á að halda á Íslandi.

Nú vildi ég í tilefni af þessari litlu till., sem hér liggur fyrir og ég get út af fyrir sig greitt mitt atkv., spyrja hæstv. ráðh., sem hefur með heilbrigðismálin að gera, spyrja hann alveg sérstaklega með tilliti til þess alvarlega ástands, sem við búum við í þessum læknaskipunarmálum og með tilliti til þeirra fregna, sem nýlega hafa komið frá læknadeild Háskólans og þeirrar niðurstöðu, sem við stöndum þar frammi fyrir varðandi námsmöguleika margra ungra manna, sem hafa ætlað að leggja fyrir sig læknisfræði, — spyrja hann um þetta: Hugsar hann sér ekki að láta taka þetta mál til sérstakrar athugunar, hvernig í rauninni er háttað kennslu í læknisfræðum hér í okkar landi, eða er það virkilega meining hans að láta sem ekkert gerist í þessum málum í læknadeildinni, en standa hins vegar aðeins að því að halda áfram að samþykkja till. af þeirri gerð, sem hér liggur fyrir, till. í svipuðum anda og við þm. höfum verið að samþykkja varðandi þessi mál að undanförnu og árangur hefur nálega enginn orðið af? Ég hefði viljað vænta þess, að hæstv. ráðh. hefði talið sér skylt, eins og þessi mál liggja fyrir, að lýsa yfir því á Alþ., að hann teldi óhjákvæmilegt að láta fara fram rannsókn á því, hvernig þessum málum er í rauninni háttað í læknadeild Háskólans og hvort ekki sé ástæða til þess að veita þarna verulega stærri hluta af þeim námsmönnum, sem hafa þreytt próf til inngöngu í deildina, aðstöðu til þess að stunda læknanám hér á landi, m.a. með það í huga, að þá yrðu á eftir eitthvað meiri möguleikar til þess að fá lækna í læknislaus læknishéruð og til læknisþjónustu hér í landinu.

Ég hef heyrt, að þó nokkrir af þeim ungu mönnum, sem nú hafa verið felldir við inntökupróf í læknadeildina, hafi gert ráðstafanir til þess að fara af landi brott og reyna að komast í læknisfræðinám erlendis og hafi þegar fengið fyrirheit frá ráðh. menntamála um aðstoð í þessum efnum. En ég vil ekki trúa því, að ekki sé til aðstaða, ef vilji er fyrir hendi, til þess að taka við sæmilega góðum námsmönnum í ríkara mæli en nú er gert í læknadeildinni. Það hlýtur að vera hægt að útvega bæði húsnæði og aðstöðu til þess að kenna þessum mönnum, og það hlýtur einnig að vera möguleiki á því að útvega nægilega kennslukrafta. Ég held, að fullyrðingar í þá átt, að ekki sé rétt að hleypa áfram fleiri mönnum til náms í læknisfræði en gert hefur verið, vegna þess að það séu að verða of margir læknar í landinu, eigi engan rétt á sér og séu út í hött. En það er rétt, að námið þarf tvímælalaust að miða við það, að út úr því komi menn, sem vilja annast þá læknisþjónustu, sem þarf að annast í okkar landi.

Ég vil vænta þess, að hæstv. ráðh. segi sitt álit á þessum málum, hvað hann telur fært að gera í þessum efnum, því að mér lízt þannig á, að verði niðurstaðan sú, sem helzt lítur út fyrir, samkvæmt ákvörðun þeirra, sem ráða málum í læknadeildinni, að nú verði bægt frá námi um 80% af þeim, sem sóttu um að fá að stunda læknanám, þá muni öll aðstaða til þess að útvega lækna til þjónustu í landinu fara stórum versnandi á næstu árum, þrátt fyrir allar samþykktar till. af þessari gerð, sem hér liggur fyrir.