22.04.1970
Sameinað þing: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í D-deild Alþingistíðinda. (3068)

64. mál, læknisþjónusta í strjálbýli

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Þessi till. gefur út af fyrir sig ekki tilefni til mikilla umr., og það er sjálfsagt öllum ljóst, að hún er ekki hugsuð nema sem úrbót á bráðasta vanda eða gæti komið til greina sem úrbót á bráðasta vanda. En eftir að þessi till. var afgr. úr allshn., — það er nokkuð liðið síðan umr. voru hafnar um þessa till., — þá gerði hv. 4. þm. Austf. hana nokkuð að umtalsefni, og má sannarlega segja, að hún gaf tilefni til nýrrar umhugsunar um þetta vandasama mál. Þar er ég með í huga prófin frá læknadeild, þegar 19 af 24 nemendum, sem þar gengu undir próf, voru felldir. Mig langar til að minna á, að 3. marz s.l. birtist grein í Morgunblaðinu eftir lækninn á Eyrarbakka, sem hann kallaði „Mannskaðagil íslenzkrar háskólamenningar“. Ég tel þessa grein svo athyglisverða, að ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana hér. Hún er stutt, en þess verð, að hún verði geymd í Alþingistíðindum. Hún er svona:

„Þau furðulegu tíðindi hafa borizt frá Háskóla Íslands, að 80% stúdenta, sem gengu undir upphafspróf í læknadeild (vefjafræði og efnafræði) í jan. s.l., 8. og 30. janúar 1970, hafi verið felldir, — 19 af 24 dæmdir óhæfir til læknisfræðináms. (Til eru mörg mannskaðagil á Íslandi, sem sagt er, að einmitt 19 manns hafi hrapað í!)

Þetta unga fólk hafði hingað til ekki setið í tossabekk, það hafði yfirleitt glæsilegan námsferil að baki, allt frá unglingaprófi, landsprófi upp í stúdentspróf, sem sé úrval og námshæfni þess margviðurkennd, það er yfirleitt útskrifað með ágætum stúdentsprófum, jafnvel dúx er í þessum hópi.

Stúdentar hafa skýrt nokkuð frá tilhögun prófanna og mótmælt þeim vinnubrögðum, sem þar voru viðhöfð, jafnt þeir, sem náðarinnar nutu og komust í gegn, og hinir, sem felldir voru. Alls skrifa 22 undir mótmælin. Sýnir það manndóm og drengskap þeirra, sem náðu prófinu, að standa með skólasystkinum sínum í þessari eldraun, en stundum hættir manni til að draga sig í hlé, þegar eigin skinni er borgið. Ekki efa ég, að mótmæli stúdentanna séu á rökum reist.

Það er alvarlegur hlutur að vera hrakinn frá námi til þess ævistarfs, sem maður hefur valið sér í fullri alvöru, eflaust að vel athuguðu máli. Flestir velja það aðeins einu sinni sjálfviljugir, enda aðeins ein ævi til ráðstöfunar. Það er andleg misþyrming að vera neyddur til að hætta við sín helgu áform, mörg dæmi eru til, að fólk biði þess aldrei bætur. Hver ber ábyrgðina á því?

Einnig má ímynda sér undrun og vonbrigði foreldra, vina og annarra vandamanna, sem séð hafa þetta æskufólk koma til mikils þroska, styrkt það eftir mætti og treyst því, að það nyti áfram góðrar handleiðslu hjá lærimeisturunum, sem er trúað fyrir því.

Og hefur nokkur reiknað út, hvað hinn glataði námstími er búinn að kosta þetta fólk? Þessi fallprósenta, — 80%, er svo óeðlileg og óvenjuleg, að ekki er hægt að viðurkenna hana rétta. Það er því krafa vandamanna þessara stúdenta og allra réttsýnna manna, að yfirvöld menntamála skipi nefnd óvilhallra, sérfróðra manna, sem rannsaki og dæmi um, hvort prófverkefnin hafi verið hæfilega þung miðað við þá kunnáttu, sem eðlileg er eftir þann námstíma, sem er að baki, svo og „pensúm“, og í öðru lagi, hvort einkunnir hafi verið gefnar af fullri sanngirni.

Einnig ætti að afnema tímatakmarkanir við nám og í öðru lagi það ákvæði, að endurtaka þurfi próf, sem stúdentar hafa við nám áður staðizt.

Það er nú varla lengur hulið, hvað veldur læknaskorti á Íslandi. Meðan alþm. brjóta heilann um, hvernig leysa megi og bæta úr læknisleysinu víða um land, keppast prófessorar við að fella stúdenta í læknadeild.

Í aths. Steingríms Baldurssonar efnafræðiprófessors við grein læknastúdentanna 22, birtri í blöðunum 28. febr. s.l., finnst ekkert rökstutt svar, sem hnekkt geti nokkru atriði í grein stúdentanna eða varpað geti ljósi á hina furðulegu útkomu prófanna. En það skal sá góði maður vita, að væri hann kennari við einhvern annan skóla og 80% af nemendum hans féllu þar á prófi í sérfagi hans, þá væri slíkur starfsárangur ekki talinn með felldu og mundi vissulega verða tekinn til rækilegrar athugunar af yfirvöldum skólans.

Eyrarbakka, 1. marz 1970,

Einar Th. Guðmundsson,

héraðslæknir.“

Ég tel þessa grein svo merkilega og snerta þetta mál þannig, að ég vildi, að hún væri bókuð með í Alþingistíðindum.

Ég vil aðeins bæta því við, að ég hef átt tal við ungan lækni eða raunar læknastúdent, sem ekki hafði að fullu lokið námi, en gegndi um skeið héraðslæknisstörfum í héraði á landinu, og hann sagði, þegar ég ræddi læknaskortinn við hann: Framleiðið þið nóga lækna, og þá verður læknaskorturinn úr sögunni. Og það var alveg sérstaklega vegna þess, að ég lagði mikið upp úr þeim dómi, sem hann felldi um þessi mál, og einmitt vegna þess, að mér var svo minnisstæð þessi yfirlýsing hans, að ég hnaut um þetta, sem skeði í læknadeild Háskólans fyrir skömmu.

Ég vil enn fremur upplýsa, að ég hef átt tal við annan læknanema, sem var við framhaldsnám erlendis. Hann er upp runninn úr sveit, þess vegna mjög vel kunnugur. Hann þekkti af eigin reynslu þau vandamál, sem þessu fylgja, aðstöðu o.s.frv. Ég spurði hann þessarar spurningar: Hvenær varst þú á námstíma þínum þannig staddur í námi, að þú værir vel hæfur til þess, sem ég vildi nefna hjálp í viðlögum? Nú er það kannske orðinn ákaflega úreltur hugsunarháttur, að það mætti a.m.k. hafa allmikla hjálp af því, þó að læknir væri ekki fullmenntaður, ef svo mætti segja, en það, sem ég átti við með þessari spurningu, er það, að auðvitað krefst héraðslæknisstarfið í raun og veru þess, að héraðslæknarnir séu sem mest a.m.k. það, sem kallað er stundum á dönsku „altmuligmand“. En hann svaraði þessari spurningu þannig: Ég var í raun og veru aldrei þannig staddur á námsbrautinni. Og þetta staðfestir það, sem sífellt hefur verið að skýrast betur, m.a. fyrir okkur alþm., að námstilhögunin í læknisfræðináminu í Háskólanum er alls ekki miðuð við það að mennta héraðslækna. Og ég segi fyrir mig, að mér finnst alls ekki við það unandi miðað við það, að þetta er eitt af þeim erfiðustu málum, sem við þurfum að fást við, það eru gerðar hvað mestar kröfur til okkar þm. með eðlilegum hætti víðs vegar um landið, að við getum ráðið bót á læknaskortinum.

Þetta vildi ég aðeins láta koma fram. Ég er einn af þeim, sem legg með því í allshn., að þessi till.samþ., og ég þurfti ekki af þeim ástæðum að taka hér til máls, en hitt er ljóst, að það er tæpast að vænta nema þá helzt einhverra skyndiúrbóta með samþykkt þessarar till. Hitt er aðalmálið, að við áttum okkur á því, hvað er að í læknisfræðináminu hér, sem þarf að laga, til þess að til frambúðar verði bætt úr læknaskortinum í landinu.