02.12.1969
Sameinað þing: 17. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í D-deild Alþingistíðinda. (3076)

69. mál, endurskoðun heilbrigðislöggjafar

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í framhaldi af ummælum hæstv. ráðh.

Hann greindi frá því, hve mörg læknishéruð væru óskipuð hér á landi. Ég vefengi ekki hans tölur, þó að ég raunar hefði haldið, að þau væru nokkru fleiri. En ég vil láta það koma fram hér, að tala þeirra gefur ekki rétta mynd af ástandinu. Það, sem við, sem búum við öryggisleysi í þessum málum, erum ekki síður hrædd við, er það, hve ótryggt ástandið er í mörgum þeim læknishéruðum, sem nú er þó læknir í. Mér er alveg sérstaklega í huga ástandið á Austfjörðunum eins og það er nú. Læknislaust er á Djúpavogi, héraðslæknir er ekki heldur í Neskaupstað, en að öðru leyti hygg ég, að læknishéruðin séu setin eins og er. En ef skyggnzt er aðeins dýpra í málið, kemur margt í ljós. Héraðslækninum á Höfn í Hornafirði er nú gert að þjóna, auk allrar Austur-Skaftafellssýslu, svæðinu austur að Berufirði. Þetta er slíkt álag á einn mann, að engu tali tekur. Ég er ekki persónulega kunnugur þarna syðra, en ég hef heyrt ýmsa segja, að það sé aðeins tímaspursmál, hvað sá ágæti læknir endist lengi til þess að þjóna undir þessum gífurlega erfiðu kringumstæðum, því að víðáttan þarna minnir á ástandið, sem var á dögum Sveins Pálssonar.

Á Djúpavogi er enginn læknir, það er sem sagt enginn læknir á svæðinu frá Hornafirði til Fáskrúðsfjarðar. Ef við lítum svo á ástandið á Fáskrúðsfirði, þá er það þannig, að þar situr nú aldraður maður, sem áður en langt um líður hættir vegna aldurs. Það blasir í fyrsta lagi við þar, að ef ekki tekst að koma upp nýjum læknisbústað í tæka tíð, þá verður héraðið læknislaust. Það fer ekki nýr læknir í þann bústað, sem þar er. En þar fyrir utan, eins og þróunin hefur verið í þessum málum, þá virðist fullkomin óvissa um, hvað þar taki við.

Eskifjarðarhérað er setið núna, en ég held, að það sé ekki gengið út frá því, að sá læknir verði þar til frambúðar. Og í sjálfum Neskaupstað; sem er stærsti þéttbýliskjarninn á Austurlandi, hefur ekki fengizt héraðslæknir lengi. Að vísu hefur tekizt svo vel til, að ráðizt hefur fastur læknir að sjúkrahúsinu, en þar hafði áður verið óskaplegt óvissuástand.

Á Egilsstöðum sitja tveir læknar núna, og ég skal ekki ræða um það.

Á Seyðisfirði er settur héraðslæknir, læknir, sem fyrst og fremst stundar tannlækningar og var búinn að koma sér upp lækningaaðstöðu á Egilsstöðum og ætlaði að flytja þangað sína bækistöð sem tannlæknir. En þegar Seyðisfjarðarhérað varð laust fyrir nokkrum misserum síðan, gerði hann það fyrir þrábeiðni íbúa læknishéraðsins, og sjálfsagt hefur verið lagt að honum líka frá hærri stöðum, að taka þetta hérað að sér. Hvenær þessi maður svo hverfur að sínu aðalstarfi, er óvíst með öllu. En svona er það til komið, að þetta hérað er setið núna.

Og þá er ég kominn að nyrzta læknissetri á Austurlandi, Vopnafirði. Þar er þetta þannig, líkt og á Hornafirði, að sá læknir hefur þjónað mjög stóru og mjög erfiðu svæði. Og maður heyrir það æ ofan í æ, að það sé undir hælinn lagt, hversu lengi sá maður endist til að þjóna við þessi geipilega erfiðu skilyrði.

Ég vildi leggja áherzlu á það, að það er ekki sízt þessi gífurlega óvissa um fjölmörg þau læknishéruð, sem núna eru skipuð, sem skýtur þeim skelk í bringu, sem eiga búsetu á þessum slóðum.

Ég ætla ekki að fara að tala fyrir hönd flm. þessarar till., þó að 1. flm. sæti á þingi í forföllum mínum á dögunum. Og ég hygg, að flm., alveg eins og ég, séu fúsir að viðurkenna, að á hærri stöðum er mjög verið að íhuga þessi mál og að hver og einn, sem um þessi mál fjallar, geri það, sem í hans valdi stendur. En ástandið er svona uggvænlegt eins og ég var að segla. Og þess vegna er það nú, að menn fara af stað með mál eins og þetta á hv. Alþ. til þess að undirstrika og árétta, hve gífurleg þörf er á skjótum aðgerðum.