25.04.1970
Efri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í D-deild Alþingistíðinda. (3119)

99. mál, vandamál atvinnurekstrar úti á landsbyggðinni vegna kostnaðar við vöruflutninga

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Till. þessi til þál., sem hér er til umr., er flutt af hv. 4. þm: Norðurl. e. og fjallar um rannsókn á vandamálum landsbyggðarinnar vegna kostnaðar við vöruflutninga. Meginefni þessarar till. má skipta í tvo þætti: Annars vegar, að upplýst verði að fullu, hver áhrif flutningavandamálið hefur til hækkunar á almennan framfærslukostnað miðað við neyzluvöruverð á höfuðborgarsvæðinu, og að hinu leytinu, að upplýst verði, hvern kostnaðarauka einstakar átvinnugreinar kunna að bera vegna kostnaðar við vöruflutninga til byggðarlaga utan höfuðborgarsvæðisins og hvern aðstöðumun hann skapar. Í þriðja lagi fjallar till. um ábendingar um úrræði og athuganir á úrræðum, sem kæmu til greina í sambandi við hina tvo meginþætti, sem ég greindi frá.

Þessi till. var send allshn. til athugunar, og fékk allshn. um hana umsögn hagstofustjóra. Þessi umsögn er fremur stutt, og ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana upp, en hún hljóðar þannig:

„Óskað hefur verið eftir því, að ég léti í té umsögn um þáltill. um rannsókn á vandamálum landsbyggðarinnar vegna kostnaðar við völuflutninga. Í þál. þessari er í fyrsta lagi lagt til, að upplýst verði að fullu, hver áhrif flutningavandamálið hefur til hækkunar á almennan framfærslukostnað miðað við neyzluvöruverð á höfuðborgarsvæðinu.

Ef slík rannsókn ætti að hafa nokkurn tilgang, yrði hún að taka til allra neyzluútgjalda íbúa í þeim byggðarlögum, sem fjarlæg eru höfuðborgarsvæðinu. Það yrði m.ö.o. tilgangslaust og óraunhæft að rannsaka hækkunaráhrif flutningskostnaðar á þessum svæðum, án þess að jafnframt færi fram könnun á öllum útgjöldum fólks til neyzluvöru og þjónustu, þ. á m. þýðingu þess, að sum framfærsluútgjöld eru lægri úti á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Vitað er, að útsöluverð á sekkjavöru og annarri þungri matvöru er víða úti á landi verulega hærra en á höfuðborgarsvæðinu, og á ýmsum öðrum vörum, svo sem fatnaði og heimilisbúnaði, er það eitthvað hærra en á höfuðborgarsvæðinu. Á hinn bóginn má telja víst, að húsnæðiskostnaður sé almennt lægri utan höfuðborgarsvæðis og það þótt verð og aðflutt byggingarefni sé þar hærra. Enn fremur má nefna fargjaldaútgjöld á staðnum, sem eru tiltölulega hár útgjaldaliður á höfuðborgarsvæðinu, en lítill eða enginn annars staðar á landinu.

Ljóst er, að útgjöld vegna þjónustu, sem menn verða, þegar svo ber undir, að sækja til höfuðborgarsvæðis, svo sem læknis- og sjúkrahúsþjónustu, felur í sér aðstöðumun milli íbúa á höfuðborgarsvæðinu og utan þess, en erfitt mun vera að komast að raun um, hverju hann nemur í fjárútlátum.

Augljóst er, að ef upplýsa ætti þessi mál að fullu, mundi þurfa til þess nokkra sérfræðinga með tilheyrandi aðstoðarliði, og mundi kostnaður við það áreiðanlega nema millj. kr. Af þessu leiðir, að ekki er ráðlegt að stofna til slíkrar rannsóknar, nema hér sé um að ræða vanda, sem skiptir miklu máli. Það er skoðun mín, að jafnvel þótt tekinn sé með í reikninginn aðstöðumunur vegna læknisþjónustu og þess háttar, sé það engan veginn víst, að framfærslukostnaður úti á landsbyggðinni sé hærri en á höfuðborgarsvæðinu, og þótt hann kunni e.t.v. að öllu meðtöldu að vera hærri, sé munurinn það óverulegur, að ekki geti verið ástæða til að stofna til fjárfrekrar rannsóknar á þessum málum. Rétt er að taka fram, að að dómi Hagstofunnar er eðlilegt að telja menntunarkostnað barna á skyldunámsaldri til framfærslukostnaðar fjölskyldu. Hann mun yfirleitt vera hærri úti á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, en ég tel það ekki skipta miklu máli við þann samanburð framfærslukostnaðar, sem hér er um að ræða. Að því er varðar menntunarkostnað barna ofan skyldunámsaldurs, vill Hagstofan ekki telja hann til framfærslukostnaðar fjölskyldna í þessu sambandi, enda þótt hann sé að sjálfsögðu í reynd mikill umframbaggi á mörgum fjölskyldum utan höfuðborgarsvæðis. En nú mun hins vegar hafa verið ákveðið að draga úr þessum aðstöðumun með sérstökum aðgerðum ríkisvaldsins.

Í þáltill. þessari er einnig lagt til, að upplýst verði, hvern kostnaðarauka einstakar atvinnugreinar bera vegna kostnaðar við vöruflutninga til byggðarlaga utan höfuðborgarsvæðisins og hvern aðstöðumun hann skapar. Ég tel þetta vera vandamál, sem ávinningur gæti orðið af að kanna, enda ætti að vera unnt að gera það án mikilla fjárútláta. Ef af þessu yrði, teldi ég eðlilegt, að verkefnið yrði falið aðila, sem fæst við landshlutaáætlanagerð.“

Þetta var umsögn hagstofustjóra um þáltill., sem ég las hér.

Í sambandi við þessa þáltill., sem liggur fyrir Ed., er rétt að víkja að því, að fyrir Sþ. liggur einnig þáltill., sem snertir þetta mál, en það er till. frá hv. 6. þm. Sunnl. o.fl. þm. um sérstakan útreikning framfærsluvísitölu fyrir hvern kaupstað landsins um sig. Og að því er varðar framfærslukostnað, almennan framfærslukostnað íbúa úti á landsbyggðinni borið saman við framfærslukostnað þeirra, sem búa á höfuðborgarsvæðinu, þá má segja, ef eigi að fara út í rannsóknir og samanburð og athugun á þessu, þá sé eðlilegast, að það sé sem viðtækast, þannig að það sé ekki einvörðungu gerður upp sá mismunur, sem kemur fram í því, að það er sérstakt flutningavandamál úti á landsbyggðinni og eingöngu rekja þann kostnaðarauka vegna framfærslukostnaðar, sem stafar af þessu eina vandamáli, heldur sé þá rétt að taka allt inn í dæmið, eins og kemur reyndar fram í umsögn hagstofustjóra, þannig að það séu teknir allir liðir, bæði þeir, sem eru hagfelldari fyrir fólkið úti á landi, og eins hinir, sem óhagfelldari eru, þannig að samanburður geti orðið sem fullkomnastur og víðtækastur. Það yrði væntanlega gert bezt með því að reikna þá út sérstaka vísitölu fyrir landsbyggðina eða fyrir einstaka staði þar. Vísitölurnar, sem farið hefur verið eftir hér, bæði framfærsluvísitala og neyzluvöruvísitala, sem eru auðvitað nátengdar, hafa yfirleitt verið miðaðar við framfærslukostnað í Reykjavík. Að vísu tel ég, að það væri í anzi mikið ráðizt að fara að reikna út og birta framfærsluvísitölu fyrir hvern kaupstað landsins, en ég teldi, að það væri samt athugandi að stiga spor í þessa átt og t.d. láta reikna út framfærsluvísitölu fyrir einn kaupstað í hverjum landsfjórðungi. En það er sjálfsagt rétt, sem hagstofustjóri segir, að til þess að leysa þetta verk vel og skilmerkilega af hendi, þannig að fullt gagn sé að, tekur það alllangan tíma og kann að verða mjög kostnaðarsamt, og það getur auðvitað enginn fullyrt um það fyrir fram, hver útkoman yrði, þó að hagstofustjóri spái því reyndar, að þarna muni ekki vera um neinn verulegan mismun að ræða.

Niðurstaðan varð sú í allshn. að fella þau atriði niður úr till., sem snertu rannsókn á neyzluvöruverði utan höfuðborgarsvæðisins og þann þátt, sem flutningavandamálið á í því, vegna þess að þar færi betur á, ef þetta yrði allt saman rannsakað, — það yrði þá gert á vísitölugrundvelli, þar sem allt dæmið væri leyst í einu, — en töldum hins vegar rétt að halda við þau atriði í þessari þál., sem sérstaklega snúa að atvinnurekstrinum í landinu, og það væri fróðlegt að láta þá rannsókn fara fram á þeim aðstöðumismun atvinnurekstrarins, sem flutningavandamálið kann að skapa, eins og þessi till. stefnir að. Og reyndar má segja, að ef sú rannsókn á þessum kostnaðarmun atvinnurekstrarins vegna mismunandi flutningsaðstöðu færi fram, þá væri hún miklu kostnaðarminni og umfangsminni en hinn þátturinn, og sú rannsókn gæti líka gefið vísbendingu um mismunandi framfærslukostnað á þessum landssvæðum og annars vegar Reykjavík, — aðallega lítur maður á þetta sem Reykjavíkursvæðið og landsbyggðina, — en auðvitað er öllum ljóst, að þó að maður taki landsbyggðina eina út af fyrir sig, þá eru aðstæður þar innbyrðis ærið misjafnar.

Allshn. var því sammála um að stytta þessa till. og breyta henni og leggja til, eins og kemur fram í nál. á þskj. 650, að tillgr. hljóði þannig:

„Efri deild Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta hið fyrsta fara fram sérfræðilega rannsókn á þeim vanda, sem kostnaður vegna vöruflutninga skapar atvinnurekstri utan höfuðborgarsvæðisins, og hvernig helzt megi draga úr þeim vanda eða leysa hann.“ Og í samræmi við þetta gerum við till. um að breyta fyrirsögn þáltill.

En nú er rétt að undirstrika, að þó að þessi rannsókn á þessu vöruflutningavandamáli sé hin þarfasta, og eins, að það sé athugað, hvernig draga megi úr þeim vanda eða leysa hann sem bezt, þá er það auðvitað ljóst, að ýmiss konar aðstöðumunur hjá atvinnurekstri annars vegar á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar og hins vegar innbyrðis hjá landsbyggðinni á rót sína að rekja til annarra orsaka en flutningaaðstöðunnar eða flutningavandamálsins, og þar má t.d. nefna hluti eins og mismunandi raforkuverð, það má eins nefna mismunandi lóðarleigu, og jafnvel skattalega séð er mismunur, þar sem aðstöðugjöld í hinum ýmsu kaupstöðum og sveitarfélögum landsins geta verið ærið misjöfn á atvinnurekstrinum o.s.frv., en hér er sem sagt þessi eini þáttur tekinn fyrir, sem er auðvitað ærið veigamikill og væri fróðlegt að fá að þekkja betur, hvern aðstöðumun hann skapar og hvernig hann mætti helzt leysa.

Það var því að öllu þessu athuguðu niðurstaða n. að leggja til, að þessi þáltill. yrði samþ. með þessari breyt., þ.e. hún er ærið mikið stytt, og sá þáttur hennar, sem snertir framfærslukostnað einstaklinga, er felldur niður, þar sem talið er, að hann yrði betur leystur, ef út í hann á að fara, á grundvelli þeirrar till., sem fram hefur komið í Sþ. og ég vísaði til.