29.10.1969
Sameinað þing: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í D-deild Alþingistíðinda. (3224)

17. mál, Vesturlandsáætlun

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Þegar þessi till. var rædd á miðvikudaginn var, lýsti ég ánægju minni yfir því, að hér kæmu upp í ræðustól menn úr öllum stjórnmálaflokkum og lýstu stuðningi sínum við áætlunarvinnubrögð. Og ég vakti sérstaka athygli á því, að þar í hópi væri hv. þm. Guðlaugur Gíslason, 3. þm. Sunnl., því að hans flokkur og forustumenn hans hafa haft allt annað uppi í almennum áróðri. Þeir hafa sagt, að það væri ekki verkefni opinberra aðila og ekki félagslegt verkefni að leggja á ráðin um þróun atvinnuveganna, heldur ættu einstaklingar að gera það með hinu fræga frumkvæði sínu.

Hv. þm. Guðlaugur Gíslason sagði áðan, að í þessum aths. mínum væri misskilningur fólginn. Ég gerði ekki greinarmun á áætlunargerð og áætlunarbúskap. Hann kvaðst vera fylgjandi áætlunargerð, en algerlega andvígur áætlunarbúskap. Þessi greinarmunur, sem hv. þm. gerir, er auðvitað barnaskapurinn einber. Því aðeins hefur áætlunargerð nokkurt gildi, að henni sé fylgt eftir með athöfnum, og athafnir, sem fylgja í kjölfar áætlunargerðar, eru áætlunarbúskapur. Það stoðar lítið að safna skýrslum um atriði, láta þær hrúgast upp, ef menn nota ekki skýrslurnar, ef menn nota ekki þá vitneskju, sem í þeim er, til þess að framkvæma skynsamlegt verk. Og þróunin alls staðar í nágrannalöndum okkar hefur verið á þá leið, að áætlunarbúskapur í ýmiss konar myndum hefur verið í stöðugum vexti. Það þýðir ekkert að koma hingað og mála upp einhverja grýlu á vegg og segja, að áætlunarbúskapur sé ekkert annað en stjórnarfarið í Sovétríkjunum og öðrum austantjaldsríkjum. Auðvitað dettur engum heilvita manni í hug, að Íslendingar eigi að apa eftir stjórnarfar þessara ríkja eða nokkurra annarra. Við verðum að meta aðstæðurnar í okkar eigin landi og leggja á ráðin í samræmi við þær aðstæður.

Áætlunargerð og áætlunarbúskapur hefur verið vaxandi í löndunum allt umhverfis okkur. Þessi hagstjórnaraðferð er mjög mikið notuð í ýmsum ríkjum Vestur-Evrópu, t.d. er áætlunarbúskapur veigamikill þáttur í atvinnulífi Frakka. Og nú að undanförnu hefur verið unnið einmitt á grundvelli áætlunargerðar og áætlunarbúskapar alveg sérstaklega á landsvæði, þar sem aðstæður eru býsna líkar og þær eru hér á Íslandi, þ.e. í Norður-Noregi. Þar hefur verið unnið mjög merkilegt starf á þessu sviði, starf, sem við getum tvímælalaust lært mjög mikið af. Og ég held, að þm. verði að horfast í augu við þetta af fullu raunsæi. Það þýðir ekkert fyrir þá að gera greinarmun á milli atriða, sem ekki er hægt að skilja á milli. Ef menn vilja áætlunargerð, hlýtur ástæðan að vera sú, að þeir vilja, að athafnir fylgi, og þar með eru þeir komnir út í áætlunarbúskap, hvort sem þeir telja sig tilheyra einum flokki eða öðrum.

Hæstv. fjmrh. virtist vera örlítið uggandi áðan yfir þessum almenna áhuga á áætlunargerð og áætlunarvinnubrögðum um allt land og hann reyndi í ræðu sinni að slá dálítið á þennan áhuga. Hann sagði, að hér væru ekki aðstæður til þess að halda allt of langt á þessari braut. Okkur vantaði til þess bæði menn og fjármuni, og hann virtist vera þeirrar skoðunar, að það ætti frekar að hörfa til baka á þessu sviði og taka aðeins fyrir einstök takmörkuð landsvæði, þar sem upp væri komið raunverulegt hallærisástand og hætta væri á fólksflótta, að áætlunarvinnubrögð ættu einvörðungu að vera til þess að bjarga, þegar upp væri komið algert neyðarástand. Þetta held ég, að sé algerlega fráleit kenning. Ég held, að eins og nú er komið, verðum við einmitt að halda áfram á þeirri braut, sem menn hafa verið að marka í kjördæmunum, og stefna að áætlunarvinnubrögðum að því er varðar alla þróun atvinnuveganna á Íslandi.

Ég minntist á það á miðvikudaginn var, að það er til lítils að gera skynsamlegar áætlanir um vegagerð, um samgöngumál að öðru leyti, um skólamálin og um aðrar nytsamlegar þarfir, ef atvinnuvegirnir blómgast ekki og eru sú undirstaða, sem verður að vera í öllum slíkum þjónustustörfum. Við fáum enga skynsamlega byggðaþróun, nema atvinnuvegirnir séu svo öflugir, að þeir standi undir slíkri þróun. Og ég minnti á það seinast, að hv. Alþfl., helmingur ríkisstj., hefði vanrækt að berjast fyrir því að koma fram stefnu sinni á þessu sviði. Sú vanræksla er þeim mun háskalegri, sem fyrir liggur, að Framsfl. telur sig í fyrsta sinn á tilveruskeiði sínu vera fylgjandi áætlunarbúskap. Hann hefur ekki verið það fyrr en nú, þegar hann er búinn að vera í stjórnarandstöðu í 10 ár. Þá er hann farinn að taka upp fjölmargar og æ fleiri hugmyndir íslenzkra sósíalista og gera þær að sínum. Þetta er ákaflega ánægjuleg þróun. En mér finnst, að Alþfl. ætti að hagnýta sér þessa aðstöðu.

Ég minnti á það seinast, að ef Alþfl. stendur með stefnu sinni á þessu sviði, er stórfelldur þingmeirihluti fyrir því að tekin verði upp allsherjar áætlunargerð fyrir þjóðarbúskap Íslendinga. Og sérstaklega held ég, að Alþfl. mætti hugsa þetta mál, vegna þess að honum hefur verið falið að fara með mjög veigamikinn þátt í þjóðarbúskap Íslendinga, sjávarútvegsmálin. Á Alþfl. hvílir ábyrgðin á þróun sjávarútvegsins undanfarin 10 ár. Og sú þróun hefur ekki verið ánægjuleg, eins og hv. þm. vita.

Mig langar til að minna hér á þingi á nokkrar staðreyndir, sem komu fram í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir nokkrum dögum. Guðmundur Vigfússon, borgarfulltrúi Alþb., rakti þar mjög mikilvægar staðreyndir um þróun sjávarútvegs á Íslandi undanfarinn áratug. Hann minnti þar m.a. á, að árið 1960 voru skráðir 60 botnvörpungar í landinu, samtals 36 458 brúttólestir. Af þessari tölu botnvörpunga voru 48 stærri togarar, en 12 voru þessir svo kölluðu austur-þýzku tappatogarar. En árið 1968, eftir að Alþfl. hafði farið með stjórn þessara mála í 8 ár, voru skráðir botnvörpungar aðeins 28, samtals 21104 brúttólestir. Á þessu sama tímabili hafði togurum í Reykjavík fækkað úr 25 í 16, en raunar eru það aðeins 13 eiginlegir togarar. Og ef maður tekur önnur fiskiskip en botnvörpunga, voru þau alls árið 1960 í öllu landinu 708, og 1964 voru þau orðin 801, en 1968 hafði þeim fækkað á nýjan leik í 731, hafði fækkað um 70 skip á 4 árum. Og hlutur Reykjavíkur var þar langsamlega verstur. Árið 1960 voru bátar undir 100 lestum, sem eru mjög mikilvægir vegna frystiiðnaðarins, 634 á öllu landinu, en aðeins 520 árið 1968. Þeim hafði fækkað um 114. Og þessi fækkun hafði einnig bitnað að mestu leyti á Reykjavík.

Það er hægt að telja margar fleiri staðreyndir um þessa þróun sjávarútvegsmála. Og allir hljóta að vera sammála um það, að þessi þróun hefur veikt ákaflega mikið hina efnahagslegu undirstöðu þjóðarbúskaparins á Íslandi. En ef menn eru sammála um slíkt mat, þá leiðir af því, að það verður að gera ráðstafanir til þess að bæta úr því. Og ef einstaklingar hafa annaðhvort ekki getu eða bolmagn til þess að gera það, þá verður að koma til opinbert frumkvæði. Þá verður ríkisvaldið að hafa forustu um að tryggja þá þróun í slíkum undirstöðuatvinnugreinum, að það sé í samræmi við óskir okkar um þróun þjóðarbúskaparins. Þess vegna held ég, að það verkefni, sem nú blasir við, sé ekki fyrst og fremst að flytja till. um fleiri byggðaáætlanir eða fara þá leið, sem hæstv. ráðh. minntist á áðan, að smækka þessar áætlanir niður í þá staði eina, þar sem neyðarástand er. Ég held, að við verðum að fara hina leiðina og byggja upp áætlunarkerfi, sem nái til allrar atvinnuþróunarinnar á Íslandi, safna þar nauðsynlegum gögnum og reyna að gera langtímaáætlanir um þróunina á því sviði, þar sem saman er fellt opinbert frumkvæði og einkafrumkvæði og frumkvæði samvinnuhreyfingarinnar. Við verðum að athuga það, að þróunin í undirstöðugreinunum er forsenda fyrir þjónustugreinum og öðrum slíkum verkefnum. Og ef við látum ekki undirstöðugreinarnar þróast, þá er það tómt mál að vera að gera áætlanir um önnur atriði.

Ég hef að undanförnu verið að undirbúa það að leggja fyrir hv. Alþ. frv. um áætlunarráð ríkisins. Slík frv. hafa oftsinnis áður verið flutt á þingi í ýmsum myndum, en þetta frv. verður dálítið breytt frá því, sem verið hefur, í samræmi við þá reynslu, sem fengizt hefur einmitt á síðustu árum víða um lönd, og ég hef reynt að hafa það einnig í samræmi við hinar sérstöku aðstæður á Íslandi. Ég hygg, að hugmyndirnar í þessu frv. séu ekki mjög frábrugðnar ýmsum þeim hugmyndum, sem fram hafa komið í yfirlýsingum, stefnuskrám og ræðum hv. forustumanna Alþfl. Ég vil því vænta þess, að þegar þetta frv. kemur fram, átti Alþfl. sig á því, að honum ber samkv. yfirlýsingum sínum að láta þetta mál vera býsna ofarlega á verkefnaskrá sinni.